Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 júlí 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraÍ gærkvöldi gaf forsætisráðuneytið út yfirlýsingu um að Davíð Oddsson forsætisráðherra, hefði gengist undir aðgerð síðdegis í gær, en hann veiktist aðfararnótt miðvikudags af gallblöðrubólgu og var fluttur á Landspítalann við Hringbraut. Við rannsókn kom í ljós staðbundið æxli við hægra nýra og gekkst forsætisráðherra undir aðgerð þar sem gallblaðran og hægra nýra ásamt æxlinu voru fjarlægð. Er Davíð nú kominn á legudeild, er líðan hans góð og framfarir eðlilegar, almennt eftir aðgerð af þessu tagi að sögn lækna. Fréttir af veikindum Davíðs komu öllum að óvörum, enda hafði hann haft fullt starfsþrek og haft í mörgu að snúast samhliða umræðu um fjölmiðlamálið og var t.d. í viðtölum við fréttamenn á þriðjudag vegna þess, er tilkynnt var um lausn málsins. Honum voru á þingi í gær færðar góðar kveðjur frá bæði forseta þingsins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Er ánægjulegt að þrátt fyrir átök undangenginna vikna og mánaða sameinast allir sem einn í að senda forsætisráðherra góðar kveðjur, að sjálfsögðu leggja menn deilur til hliðar og standa saman er veikindi steðja að. Það er von allra að Davíð nái sem fyrst fullri starfsorku og heilsu. Vil ég senda Davíð, eiginkonu hans, Ástríði, og syni þeirra, Þorsteini, mínar bestu kveðjur, með góðum óskum um að Davíð nái sem fyrst fullum bata.

AlþingiHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og starfandi forsætisráðherra, las skömmu eftir hádegið forsetabréf um frestun þingfunda til þingsetningar, föstudaginn 1. október nk. Áður hafði breytt frumvarp stjórnarflokkanna um niðurfellingu fjölmiðlalaganna verið samþykkt sem lög af þinginu, eftir þriðju umræðu um málið. Verða lögin nú send forseta Íslands til staðfestingar. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna, en þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá. Með þessu er endanlega ljóst að engin lög um eignarhald á fjölmiðlum verða sett á sumarþinginu og lögin sem samþykkt voru 24. maí sl. og forseti synjaði staðfestingar 2. júní sl. falla úr gildi, við undirritun forseta á nýjum lögum. Mikið var deilt um það í annarri umræðu í gær og þeirri þriðju í dag hvort þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um fjölmiðlalögin sem forseti synjaði. Það er auðvitað fjarstæða enda eru þau nú fallin úr gildi og erfitt að kjósa um lög sem ekki eru lengur til staðar. Þingið hefur fullan rétt á að setja lög og jafnframt að fella þau úr gildi. Málið er nú komið á þann reit að nauðsynlegt er að taka loks hina efnislegu umræðu um málið, það er langt í frá á byrjunarreit eftir umræðu seinustu mánuða, en það vantar efnislega afstöðu stjórnarandstöðunnar. Málið verður því rætt af krafti, bæði í fjölmiðlanefnd og á þingi á næsta starfsvetri löggjafarsamkundunnar.

Séð og heyrtÍ gærkvöldi var rætt í Kastljósinu um nýlegan dóm í máli Karólínu prinsessu af Mónakó, sem hún höfðaði gegn slúðurblöðum fyrir að taka myndir af henni og fjölskyldu sinni, og rofið með því friðhelgi einkalífsins. Karólína vann fullnaðarsigur í málinu. Þessi blöð hafa allajafna í vinnu hina svokölluðu paparazzi ljósmyndara sem taka myndir af fólki án þess að sýna einkalífi þess nokkurt grið eða bera virðingu fyrir fólkinu og þeirra prívatmálum. Þetta mál var rætt í því samhengi í þættinum að hérlendis er til eitt blað, sem óhikað birtir fréttir af einkalífi fólks, setur saman myndir af því með fréttum til að krydda gildi heitrar forsíðufréttar og til að selja blaðið. Allir sem hafa séð blaðið og lesið vita að fólki er þar ekkert grið gefið og ekkert hik er á að segja sögur af því t.d. hver sé að skilja, eignast börn og sé kominn í nýtt ástarsamband, svo fátt eitt sé nefnt. Það var greinilegt í þættinum að Kristján Þorvaldsson ritstjóri blaðsins, átti mjög í vök að verjast í rökræðum um málið gegn Sigrúnu Jóhannesdóttur forstjóra Persónuverndar, og Þorfinni Ómarssyni fréttamanni. Er það engin furða, enda eru vinnubrögð Séð og heyrt, og ógeðfelld fréttamennska þeirra sem heggur oft skörð í einkalíf fólks og friðhelgi þess, algjörlega óverjandi og siðlaus með öllu. Það er von mín að þessi slúðurfréttamennska sem sést í þessu blaði og eins á hverjum degi í soraritinu DV, falli um sjálft sig á endanum.

All the King's MenPólitískt bíó - All the King's Men
Í All the King's Men er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélag og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Einstaklega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki. Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark, sem að lokum verður andstæða alls þess í stjórnmálum sem hann stefndi að í upphafi. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, þó ekki væri nema einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálamenn.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1245 Kolbeinn ungi Arnórsson lést, 37 ára gamall - var höfðingi af ætt Ásbirninga
1929 Landakotskirkja í Reykjavík vígð - er kirkja kaþólska söfnuðarins á Íslandi
1965 Alec Douglas-Home biðst lausnar sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins - varð leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við afsögn Macmillan árið 1963 - tapaði kosningum 1964
1977 Deng Xiaoping nær fullum völdum eftir dauða Maó árið áður - varð einráður í Kína að mestu við það og ríkti sem yfirmaður einræðisstjórnarinnar allt til dauðadags 1997
2003 Uday og Qusay Hussein, synir Saddams Husseins, felldir í skotbardaga í N-Írak

Snjallyrði dagsins
Það er sárt að sakna, einhvers
Lífið heldur áfram, til hvers?
Ég vil ekki vakna, frá þér
Þvi ég veit að þú munt aldrei aftur
Þú munt aldrei, aldrei aftur
Aldrei aftur strjúka vanga minn
Eyjólfur Kristjánsson (Draumur um Nínu)