Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 júlí 2004

Ólafur Ragnar GrímssonHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti með yfirlýsingu seinnipartinn í dag að hann hefði ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem samþykkt var á Alþingi fyrir tæpri viku, sem felldi úr gildi fjölmiðlalögin sem hann synjaði staðfestingar 2. júní sl. Í yfirlýsingu forseta segir að mikilvægt sé að lagasetning um fjölmiðla muni styðjast við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt væri um vinnubrögð og niðurstöður. Að auki kemur fram af hálfu forseta, að þingið hafi fellt úr gildi lög sem ollið hefði hörðum og langvarandi deilum og myndað djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Hann segist því samþykkja lögin í anda þess að koma megi á sáttum í samfélaginu. Það er stórmerkilegt að forseti taki svo til orða, fyrst hann leggur til sættir í málinu. Deilur eru ekkert síður í samfélaginu um hann og hans framgöngu en afstöðu stjórnvalda um lagasetninguna í upphafi. Forsetaembættið er stórskaddað og laskað eftir atburði sumarsins. Ég fagna því hinsvegar að Ólafur hafi staðfest þetta frumvarp. Með því ætti að vera hægt að horfa fram á veginn. Umræða um málið heldur áfram væntanlega í fjölmiðlanefndinni í vetur og farið þar nánar yfir það. Ég tel að flestir séu þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að setja þurfi lög um eignarhald á fjölmiðlum og vonandi getur nú hafist hin efnislega umræða um málið sem hefur vantað, og vonandi er að allir flokkar komi þar fram með stefnu sína og vinni eftir henni þannig að þverpólitísk samstaða náist um slíka lagasetningu.

Bill Clinton og Hillary Rodham ClintonBill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans, Hillary Rodham Clinton öldungadeildaþingmaður í New York, stálu algjörlega senunni við upphaf flokksþings Demókrataflokksins í Boston í Massachusetts, í gærkvöldi. Allt ætlaði um koll að keyra er þau komu til að ávarpa fulltrúa á flokksþinginu og voru bæði hyllt. Enginn vafi leikur á því að staða þeirra innan flokksins er sterk og viðbrögð við ræðu Hillary þykja staðfesta að hún muni njóta mikils fylgis í forsetakosningunum 2008, ef Kerry tapar þessum kosningum, blasir við að hún fari þá fram. Hún varði meginhluta ræðu sinnar í að biðla til landsmanna um að kjósa John Kerry og John Edwards. Aðalhlutverk hennar var þó í raun að kynna eiginmann sinn, en segja má samt að hún hafi notað tækifæri mjög til að kynna málefni New York og eigið ágæti í þeim efnum. Clinton var ákaft hylltur er hann fór í ræðustól. Í 20 mínútna langri ræðu fjallaði hann að mestu um utanríkis- og efnahagsmál. Honum varð tíðrætt um skattastefnu Bush stjórnarinnar og veika stöðu Bandaríkjanna á erlendum vettvangi. Fyrr um kvöldið fluttu Al Gore fyrrum varaforseti, og Jimmy Carter ræður. Gore fjallaði um úrslit forsetakosninganna 2000 og bitur örlög sín og þótti mörgum hann vera of kaldlyndur í málflutningi. Carter náði vel til mannfjöldans með mannúðlegri ræðu. Enginn vafi var á að Clinton-hjónin áttu sviðið fyrsta kvöldið, svo mjög að talað er um að þeirra málflutningur muni skyggja á frambjóðandann og hans málflutning að lokum. Sannaðist það reyndar við upphaf flokksþingsins að hinn litlausi Kerry stendur langt að baki hinum litríka Clinton.

Teresa Heinz Kerry og John KerryEf eitthvað eitt setti mikinn skugga á fyrsta dag flokksþingsins og glæsileika vel undirbúinnar fjölmiðlasamkundu flokksins í Boston, má segja að það hafi verið framkoma Teresu Heinz Kerry eiginkonu frambjóðandans. Á sunnudagskvöld lenti hún í orðasennu við Colin McNickle fréttamann Pittsburgh Tribune-Review, og sakaði hann um að hafa haft rangt eftir sér eftir ræðu hennar á málþingi fyrr um kvöldið í Boston. Sagði hún fréttamanninum að fara til fjandans. Atvikið náðist á filmu og var sýnt mörgum sinnum í gær á helstu fréttastöðvum landsins. Atvikið þykir hafa skaddað bæði Kerry persónulega og ekki síður trúverðugleika konu hans. Í kvöld mun hún ávarpa flokksþingið ásamt samstarfsmanni eiginmanns hennar til fjölda ára í öldungadeildinni, Edward M. Kennedy. Fyrr í dag var birt brot úr 30 ára gömlu viðtali við Teresu þar sem hún kallar Edward vitleysing og segist ekki treysta honum. Á þeim tíma var Teresa virk í Repúblikanaflokknum, en fyrri maður hennar, John Heinz var öldungadeildarþingmaður, hann lést árið 1991. Teresa og John Kerry giftust árið 1995. Það er ljóst að gömul ummæli Teresu setja svip á hátíðleika kvöldsins og mun gera sameiginlega framkomu hennar og Kennedys á flokksþinginu vandræðalega.

Áhugavert á Netinu
Varhugaverð þróun hjá ríkisvaldinu - pistill Snorra Stefánssonar
Ólafur Ragnar Grímsson staðfestir lög sem afturkalla fjölmiðlalögin
Halldór Ásgrímsson átti aldrei von á öðru en Ólafur myndi skrifa undir
Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton hyllt á flokksþinginu í Boston
Ræður á flokksþinginu í gær: Bill Clinton - Jimmy Carter - Al Gore
Teresa Heinz Kerry ávarpar flokksþingið - vonast til að heilla kjósendur
Repúblikanar segja að Kerry fari í gegnum 'extreme makeover' í Boston
John Edwards hvílir sig heima og vinnur að því að klára þingræðuna sína
Umfjöllun Dan Rather um flokksþing Demókrataflokksins í Boston
Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður, fjallar um flokksþing demókrata
Bruce Willis leikur lögguna John McClane í fjórða skiptið í Die Hard 4
Michael Moore býður George W. Bush forseta, í bíó í Crawford í Texas

Dagurinn í dag
1903 Fyrsta kvikmyndasýningin í Reykjavík - breskar fréttamyndir voru sýndar í Iðnó
1965 Edward Heath kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins - hann varð forsætisráðherra Bretlands árið 1970, tapaði í tveim þingkosningum árið 1974 og missti leiðtogastólinn til Margaret Thatcher árið 1975. Heath sat á breska þinginu til 2001, er nú í lávarðadeildinni
1996 Sprengjutilræði á Ólympíuleikunum í Atlanta í Georgíu - 2 látast og margir slasast
1999 Milljónasti bíllinn fór um Hvalfjarðargöng, rúmu ári eftir að þau voru opnuð
2003 Gamanleikarinn Bob Hope deyr í Toluca Lake í California, 100 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
Ask not what your country can do for you - ask what you can do for your country. My fellow citizens of the world: ask not what America will do for you, but what together we can do for the freedom of man.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)