Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 júlí 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ágreining fræðimanna og stjórnmálamanna um 26. grein stjórnarskrárinnar sem sífellt verður harðvítugri og leiðir til meiri þráteflis um stöðu og hlutverk forsetaembættisins og þá þætti sem tengjast fjölmiðlafrumvarpinu og umræðu um pólitísk álitaefni tengt því. Jafnframt fer ég yfir kostulegan fréttaflutning vissra fjölmiðla um að ríkisstjórnin væri að springa vegna ágreinings, en í ljós kom svo að leiðtogar stjórnarflokkanna sögðu útilokað að samstarfið myndi springa vegna fjölmiðlamálsins, spurning vaknar um hverjir hafi verið trúnaðarmenn fréttanna. Að lokum fjalla ég um skoðanir á netinu og blómleg skoðanaskipti gegnum skrif á heimasíðum almennings, nú á tækniöld. Í dag er orðið hversdagslegt brauð að einstaklingar komi sér upp heimasíðu, tjái þar skoðanir sínar og geri öðrum kleift að fylgjast með sér og áhugamálum sínum með einkar áhugaverðum hætti. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Það er enginn vafi á því í mínum huga að sé Netið notað með markvissum og reglubundnum hætti, sé hægt að skapa fjölmiðil sem vegur ekki síður þungt en hinir hefðbundnu miðlar. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Netið er öflugasti vettvangur nútímafólks til að tjá sig og þann akur á að plægja vel á þeirri tækniöld sem nú stendur.

Dagurinn í dag
1918 Nelson Mandela fæðist í Qunu í S-Afríku - Mandela var forseti landsins 1994-1999
1918 Samningar um frumvarp til sambandslaga undirritaðir. Frumvarpið var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þremur mánuðum síðar - lögin tóku svo gildi 1. desember 1918
1947 Breytingar samþykktar á hinni formlegu valdaröð Bandaríkjanna, á eftir forseta og varaforseta koma forseti fulltrúadeildarinnar, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni og utanríkisráðherra, sem fram að því hafði verið þriðji í valdaröðinni. Misskilningur á valdaröðinni varð heimsfrægur er Reagan forseti var skotinn í mars 1981 og Alexander Haig sem var utanríkisráðherra, tók sér forsetavald meðan Reagan var á spítala og George Bush varaforseti, var á leiðinni frá Texas til Washington. Haig var af blaðamönnum bent á að Tip O'Neill forseti fulltrúadeildarinnar hefði forsetavaldið. Reagan setti Haig af árið eftir
1969 Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður, keyrir bíl sínum framaf brú og lendir í tjörn á Chappaquiddick eyju í Massachusetts. Kennedy slapp lifandi, en ung kona, Mary Jo Kopechne drukknaði. Kennedy tilkynnti ekki um slysið fyrr en 10 tímum síðar, líklegast þótti að Kennedy hefði verið drukkinn og ekki þorað að tilkynna slysið vegna skaðans sem það ylli ferli hans. Síðar kom í ljós að hann hafði verið próflaus í fimm mánuði fyrir slysið. Stjórnmálaferill Kennedys skaðaðist vegna þessa máls, hann hefur setið í öldungadeild þingsins frá 1962
2003 Dr. David Kelly vopnasérfræðingur breska varnarmálaráðuneytisins, finnst látinn í skóglendi skammt frá heimili sínu í Oxfordshire. Í kjölfar dauða hans kom í ljós að hann var einn af helstu heimildarmönnum BBC fyrir fréttum um að breska ríkisstjórnin hafi ýkt um of ógnina af íröskum stjórnvöldum og vopnaeign þeirra, en því hafði áður verið neitað. Litlu munaði að dauði dr. Kelly, eftirmáli þess og rannsókn á þáttum tengdum vinnubrögðum ríkisstjórnar Bretlands myndi fella Tony Blair forsætisráðherra landsins, af valdastóli

Snjallyrði dagsins
Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei það er minning þín.
Guðmundur Halldórsson (Rósin)