Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 ágúst 2004

Helga ÁrnadóttirHelgu sem formann Heimdallar!
Helga Árnadóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á næsta aðalfundi félagsins. Nái Helga kjöri verður hún önnur konan til að gegna embættinu frá stofnun félagsins fyrir 77 árum, árið 1927. Eina konan sem hefur verið kosin formaður Heimdallar í 77 ára sögu félagsins er Elsa B. Valsdóttir læknir. Að framboði hennar stendur fjölbreyttur hópur sem endurspeglar þann víðtæka stuðning sem grundvallaratriðin í stefnu félagsins njóta. Helga hefur nú opnað heimasíðu um framboð sitt, þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um hana, stuðningsmenn hennar, áherslur og ýmislegt fleira. Á vef hennar segir svo um framboðið: "Eitt helsta markmið framboðsins er að tryggja að stjórn og forysta félagsins sé skipuð af fjölbreyttum hópi. Þess vegna leggja Helga og stuðningsmenn hennar ekki upp með fullskipaðan stjórnarlista um leið og framboðinu er lýst yfir. Þvert á móti er framboðið opið öllum Heimdellingum og er markmiðið að laða að kraftmikla og ólíka einstaklinga til að styrkja starf félagsins. Allir sem áhugasamir eru um að koma að starfi Heimdallar á næsta ári undir hennar forystu eru hvattir til að hafa samband við Helgu". Það yrði Heimdalli mjög mikill akkur í því að Helga yrði formaður félagsins, enda sýnir ferill hennar að þar fer gríðarlega traustur talsmaður sjálfstæðisstefnunnar. Helga sat í stjórn Heimdallar 2001-2003 og var varaformaður félagsins 2002-2003. Ég hef kynnst Helgu Árnadóttur vel í ungliðastarfinu seinustu ár og kynnst þar kraftmikilli og traustri konu sem er fjölhæf og traustsins verð. Ég styð framboð hennar heilshugar og hvet Heimdellinga að fylkja sér um hana og stefnumál hennar.

Dagurinn í dag
1914 Fyrri heimsstyrjöldin hefst formlega - Þýskaland lýsir yfir stríði á hendur Frakklandi
1974 Meirihluti öldungadeildarþingmanna samþykkir að ákæra Nixon forseta fyrir embættisafglöp vegna Watergate-málsins - hann sagði af sér forsetaembættinu nokkrum dögum síðar
1980 Hátíð haldin á Hrafnseyri við Arnarfjörð, minnst var þess að öld var þá liðin frá láti Jóns Sigurðssonar - Vigdís Finnbogadóttir vígði safn til minningar um Jón, var fyrsta embættisverk hennar
1984 Ringo Starr trommuleikari Bítlanna, kom til Íslands - hann var heiðursgestur á útihátíð í Atlavík í Hallormsstaðaskógi og tók við það tækifæri nokkur lög með Stuðmönnum og Gunnari Þórðarsyni
2000 George W. Bush þiggur útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans í ræðu á þingi flokksins í Philadelphiu - Bush vann forsetakosningarnar og tók við embætti 20. janúar 2001

Snjallyrði dagsins
Frelsið hefur reynst íslensku þjóðinni sá styrkur og aflgjafi, sem hún getur síst án verið. Vitneskja um þessa staðreynd á ekki að vera okkur fjarlægur fróðleikur, heldur verður hún að vera leiðavísir, sem við megum aldrei gleyma á allri okkar lífssögu.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokkisns (1908-1970)