Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 ágúst 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um velheppnaðan hádegisverðarfund frjálshyggjudeildar Heimdallar sem haldinn var í Iðnó á fimmtudag þar sem minnt var hressilega á skoðanir ungra sjálfstæðismanna hvað varðar áfengismálin og t.d. bann við áfengisauglýsingum. Þriðjudaginn 10. ágúst sl. skrifaði ég pistil þar sem ég fjallaði um fund forsætisráðherra Norðurlandanna hér í Eyjafirði helgina áður og vakti máls á undarlegri ályktun sem þeir samþykktu á fundi sínum. Þótti mér nauðsynlegt að vekja máls á undarlegum sjónarmiðum ráðherranna á þessum fundi um áfengismál og sérstaklega að andmæla sameiginlegu áliti þeirra sem fram kom á blaðamannafundi eftir fundinn, þar sem fram kom að þeir væru sammála um að ekki skyldi líta á áfengi sem söluvöru. Urðu pistlaskrif mín í mánuðinum og undarleg afstaða t.d. íslenska ráðherrans á ráðherrafundinum til að vekja áhuga á að fjalla um málið og ákvað frjálshyggjudeildin að sækja nafngiftina frá fyrrnefndum pistli mínum. Undrast ég jafnframt ákvörðun stjórnar Heimdallar að leggja niður frjálshyggju- og jafnréttisdeildir Heimdallar sama dag án samráðs við formenn þeirra. Tel ég það gott mál að ný stjórn hafi kraftmiklar hugmyndir uppi um framtíðarstarf félagsins og hafi áhuga á að vinna af krafti. Það er hinsvegar að mínu mati spor í ranga átt að leggja niður þær deildir sem fyrir eru, sérstaklega þegar um er að ræða ákvörðun sem ekki er einu sinni kynnt fyrirfram og reynt að leita eftir samkomulagi um næstu skref og leysa málin með farsælum hætti. Ár er liðið síðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti yfir formannsframboði í Samfylkingunni árið 2005, framundan eru átök væntanlega um forystu flokksins milli hennar og núverandi formanns og átökin krauma undir. Að lokum fjalla ég um Akureyrarvöku, menningarhátíð Akureyrarbæjar, sem haldin var um helgina um allan bæ með glæsilegum hætti.

Listasafnið á AkureyriSkemmtileg sýning
Cherie Booth Blair forsætisráðherrafrú Bretlands, kom í gær hingað til Akureyrar og opnaði formlega sýningu Boyle fjölskyldunnar í Listasafninu, ásamt Alp Mehmet sendiherra Bretlands á Íslandi. Boyle fjölskyldan skipar mikilvægan sess í listasögu Bretlands og raunar í sögu alþjóðlegrar myndlistar. Um þau og sýninguna segir á vef safnsins: "Mark og Joan eiga sér langan feril að baki og hafa t.d. unnið með listamönnum á borð við Jimi Hendrix og Dieter Roth. Með Hendrix bjuggu þau til eitt vinsælasta "skynvíkkunarljósashow" skemmtistaðanna, sem bregður fyrir í bíómyndum hippatöffarans Austin Power. Síðan á endurreisnartímanum hefur engin fjölskylda starfað að listinni sem ein heild. Það brýtur í bága við allar viðteknar venjur að framúrstefnulistamenn starfi sem eitthvert vísitöludæmi. Verk Boyle-fjölskyldunnar voru valin á sýninguna Úr næðingi í frost: Bresk list á 20. öld. Áhugi þeirra á tilviljun, viðleitni þeirra til að forðast stíl og setja verk sín fram á algjörlega hlutlægan hátt er einkennandi fyrir list á seinni hluta tuttugustu aldar. Mikilvægi verka þeirra er ekki öllum ljóst, aðallega vegna þess að Boyle-fjölskyldan hefur alltaf verið trú neðanjarðarmenningunni, sem einkennir viðhorf þeirra. Þau hafa aldrei haft umboðsmann og halda sig við jaðra listaheimsins, enda gerir hópvinnan það að verkum að list þeirra hefur engan persónulegan stíl eða sjálf, sem öll nútímahyggja - hvort heldur er um að ræða andlegt kukl eða harða markaðssetningu auðhringanna - grundvallast á." Meðal gesta við opnun sýningarinnar auk frú Blair og sendiherrans voru t.d. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og Tómas Ingi Olrich sendiherra og fyrrum menntamálaráðherra. Hvet ég alla sem eiga leið um bæinn eða eru hér staddir að líta á sýninguna.

Dagurinn í dag
1862 Akureyri fékk kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 286, en nú búa í bænum alls um 16.000 manns
1948 Baldur Möller 34 ára lögfræðingur, varð skákmeistari Norðurlandanna, fyrstur Íslendinga
1966 Hljómsveitin The Beatles, hélt seinustu tónleika sína, í San Francisco. Hljómsveitin hætti 1970
1982 Óskarsverðlaunaleikkonan Ingrid Bergman lést úr krabbameini í London, 67 ára að aldri. Bergman var ein frægasta leikkona 20. aldarinnar og hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum
2000 Fyrsta sólarhringsverslun 10-11 opnuð, flestar verslanir 10-11 eru nú opnar allan sólarhringinn

Snjallyrði dagsins
One person with a belief is equal to a force of 99 who have only interests.
John Stuart Mill hagfræðingur (1806-1873)