Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 ágúst 2004

500. bloggfærslan
Þetta er 500. dagsfærslan sem rituð er á þennan bloggvef minn. Ég hef skrifað hér allt frá októbermánuði 2002 og styttist því í tveggja ára afmæli vefsins. Frá haustinu 2003 hafa skrif hér verið efnismeiri og ítarlegri en árið áður. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og greinar sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Þakka ég góðar viðtökur sem bloggið hefur hlotið og góðar kveðjur frá þeim sem lesa reglulega efnið. Áfram verður haldið af fullum krafti.

bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson


Valgerður SverrisdóttirHeitast í umræðunni
Eins og öllum er vel kunnugt er mikil ólga innan Framsóknarflokksins vegna ákvörðunar þingflokksins um ráðherraskipan hans í ríkisstjórn eftir ráðherrahrókeringarnar 15. september nk. og ekki fara þær minnkandi. Í ítarlegum pistli á vef sínum fjallar Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, um málið og fer yfir stjórnmálaferil sinn og fleiri þætti tengda ráðherravalinu. Orðrétt segir hún: "Vissulega er það bakslag í jafnréttisbaráttu flokksins að eftir að hafa verið með 3 konur í ríkisstjórn, þá verði eftir 15. september aðeins ein. Það gefur hins vegar ekki tilefni til þeirrar umfjöllunar, sem sumar konur í flokknum hafa staðið fyrir síðustu daga. Það er sjálfsagt að halda til haga samþykktum flokksins í jafnréttismálum, láta til sín heyra og skamma þingflokkinn og formanninn dálítið hressilega einu sinni en ekki í heila viku eða meira." Þetta eru merkileg orð, bakslag segir hún en það sé tímasóun að ræða það frekar og alls ekki meira en í viku. Merkileg orð og greinilegt að Valgerður og forystukonur framsóknarkvenna eiga ekki samleið í þessu máli. Þessu máli er greinilega ekki lokið, ef marka má fréttir en framsóknarkonur verða með fjölmennan fund í dag. Annað í þessum pistli Valgerðar vakti athygli mína. Hún segir: "Framsóknarflokkurinn hefur verið í fylkingarbrjósti þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi á síðustu áratugum og þá einkum og sérílagi á síðustu 9 árum eftir að samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hófst." Ekki get ég tekið undir þessi orð og spyr hvar Valgerður hafi dvalið, ja einkum seinustu mánuði, en mér vitanlega hefur flokkur hennar tafið hvað eftir annað að undanförnu efndir á kosningaloforðum um skattalækkanir. Hvar eru efndirnar á þeim loforðum, Valgerður mín? Eru framsóknarmenn kannski að vakna til lífsins í þeim málum? Spyr sá sem ekki veit, en vill fá svar við því hvort framsókn vilji efna loforðin um skattalækkanir. Eftir hverju á að bíða eiginlega?

Þórey Edda ElísdóttirÞórey Edda Elísdóttir varð í fimmta sæti í úrslitakeppni stangarstökksins á Ólympíuleikunum í Aþenu í Grikklandi í gærkvöldi. Þórey stökk 4,55 metra og skilaði glæsilegum árangri. Er þetta næstbesti árangur frjálsíþróttakonu á Ólympíuleikum, en eins og allir muna vann Vala Flosadóttir það mikla afrek að vinna til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu fyrir fjórum árum. Þjóðarhjartað hér heima á Íslandi sló örar þegar Þórey keppti og magnað að horfa á útsendinguna frá keppninni og lokabaráttu Feofanovu og Isinbajevu um gullið og sjá þegar sú síðarnefnda sló eigið heimsmet í lokin með sigrinum. Fyrirfram voru Íslendingar vonlitlir að eiga möguleika á medalíum en litlu munaði að bæði Þórey og Rúnar Alexandersson næðu á pall, bæði náðu stórglæsilegum árangri. Rúnar varð í sjöunda sæti í æfingum á bogahesti og ef ósanngjörn einkunn úkraínska dómarans hefði ekki eyðilagt fyrir honum, hefði hann náð að minnsta kosti þriðja sætinu. Árangur íslenska landsliðsins í handbolta varð gríðarleg vonbrigði, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Liðið hafnaði í níunda sæti í gær með sigri á Brasilíumönnum. Ljóst er að taka verður landsliðið í gegn og stokka upp. Eini maðurinn sem stóð undir nafni í liðinu allt mótið var Ólafur Stefánsson, og allt tal um að kappinn hætti kemur ekki til greina. Við landsmenn, leyfum þessum magnaða íþróttamanni það hreinlega ekki. En glæsilegir Ólympíuleikar halda áfram af fullum krafti, þeim lýkur á sunnudag.

HeimdallurFundur um áfengislöggjöfina
Frjálshyggjudeild Heimdallar stendur á morgun fyrir opnum hádegisverðarfundi um áfengislöggjöfina, einkasölu ríkisins á áfengi og áfengisauglýsingar, í Iðnó undir yfirskriftinni: Er áfengi söluvara? Í tilkynningu um fundinn segir svo: "Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir breytingum á áfengislöggjöfinni, einkum fyrir því að sala áfengis verði færð úr höndum ríkisvaldsins til einkaaðila og fyrir því að bann við áfengisauglýsingum verði afnumið, auk þess sem eðlilegt hefur þótt að lækka áfengiskaupaaldur til samræmis við sjálfræðisaldur. Frumvörp sem gengu að hluta til í þessa átt voru lögð fram á síðasta þingi en náðu ekki fram að ganga. Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna, sem Halldór Ásgrímsson sat fyrir hönd Íslendinga, nú fyrr í mánuðinum kom hins vegar fram að ráðherrarnir væru sammála um að alls ekki mætti líta á áfengi sem hverja aðra söluvöru. Af þessu tilefni hefur Frjálshyggjudeild Heimdallar boðað til umræðufundar um málefnið undir yfirskriftinni "Er áfengi söluvara?" Frummælendur á fundinum verða Hafsteinn Þór Hauksson formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna sem flytur inngangserindi, Friðrik Eysteinsson fyrrum formaður Samtaka auglýsenda, og mun hann fjalla um bann við áfengisauglýsingum, og Birgir Ármannsson alþingismaður, sem fjallar um afnám einkasölu ríkisins á áfengi og frumvarp sem hann ásamt fleirum lagði fram á þingi á seinasta vetri. Fundarstjóri verður Ragnar Jónasson formaður Frjálshyggjudeildar Heimdallar og stjórnarmaður í SUS.

Árni Ragnar Árnason alþingismaður (1941-2004)

Áhugavert á Netinu
Ríkisstyrkt átak virkar nokkuð úrelt system - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Af jafnrétti og framsóknarfólki - pistill Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur
Tvær rússneskar flugvélar farast - óttast að um hryðjuverk sé að ræða
60 ár liðin frá því bandamenn frelsuðu París úr höndum þýskra hersveita
Pistill Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, til framsóknarkvenna
Umfjöllun um Íslandsheimsókn Bill Clinton fyrrv. forseta Bandaríkjanna
Bill Clinton segir að Íslandssagan hafi verið mikilvæg í þróun þingræðis
Clinton-hjónin heimsóttu Davíð og Ástríði á heimili þeirra við Fáfnisnes
Bill Clinton fyrrum forseti, fór víða á viðburðaríkum degi á Íslandi í gær
Fjölmiðlar fylgdu Clinton hvert skref - viðtal við Ingólf Bjarna Sigfússon
Bill Clinton hittir einhverfan strák á Bessastöðum, sannkallaðan aðdáanda
Stjórnarflokkarnir deila um skattalækkanir sem efna skal sem fyrst
Styttist í að bormenn klári að bora á milli í nýjum Austfjarðargöngum
Hillary Clinton segir að frumkvæði okkar í vetnismálum sé aðdáunarvert
John McCain vill að Bandaríkin haldi uppi vörnum áfram hér á Íslandi
Rætt við Jafet Ólafsson um þáttaskilin sem tengjast íbúðalánunum
Dick Cheney varaforseti, andsnúinn banni á giftingar samkynhneigða
Mark Thatcher handtekinn vegna orðróms um valdarán í litlu Afríkuríki
Norðurljós hefur stafrænar útsendingar - stórbætir útsendingarskilyrðin
Þórey Edda alsæl með fimmta sætið - Isinbajeva sigrar og setur heimsmet
Queen verður fyrsta rokkhljómsveitin sem fær plötu sína útgefna í Íran

Dagurinn í dag
1902 Sighvatur Árnason lét af þingmennsku, 78 ára gamall - varð elstur þeirra sem sat á þingi
1946 Gunnar Huseby varð Evrópumeistari í kúluvarpi - hann varð fyrsti Evrópumeistari Íslendinga
1944 París er frelsuð er bandamenn ná fullum yfirráðum í borginni, eftir 4 ára hernám Þjóðverja
1970 Stífla í Miðkvísl í Laxá var sprengd af bændum til að mótmæla stækkun Laxárvirkjunar
1997 Egon Krenz síðasti leiðtogi kommúnista í Þýskalandi, sakfelldur fyrir glæpi stjórnar sinnar

Snjallyrði dagsins
Management is nothing more than motivating other people.
Lee Iacocca kaupsýslumaður