
Sl. fimmtudag hélt frjálshyggjudeild Heimdallar vel heppnaðan hádegisverðarfund í Iðnó, sem fjallaði um áfengislöggjöfina, einkasölu ríkisins á áfengi og áfengisauglýsingar. Til fjölda ára hefur það verið yfirlýst stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna að berjast gegn banni á áfengisauglýsingum og tilveru ÁTVR. Frummælendur á fundinum voru Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, Friðrik Eysteinsson fyrrum formaður Samtaka auglýsenda, og Birgir Ármannsson alþingismaður. Mætti fjöldi fjölmiðlamanna á fundinn og nokkuð var um hann fjallað. Þótti mér ánægjulegt að þetta félag gæti starfað og tjáð sig með þessum hætti og haldið uppi virku starfi sem samtvinnaði ólíkar skoðanir. Það vakti vonbrigði mín og eflaust margra fleiri að síðar á fimmtudeginum tók ný stjórn Heimdallar þá ákvörðun að leggja niður fyrrnefnda deild í félaginu og ennfremur jafnréttisdeildina. Ákvörðunin var tekin án þess að nokkuð samráð væri fyrirfram haft við formenn deildanna og fréttu fulltrúar þeirra af áætlun stjórnarinnar þegar tillagan var borin upp á stjórnarfundi að kvöldi fimmtudags. Til þess að geta leyst upp deild innan Heimdallar þarf deildin að brjóta lög Heimdallar eða vinna almennt gegn stefnu félagsins. Ekki verður séð hvernig þessar deildir gera það. Nýrri stjórn Heimdallar má vera frjálst að móta starfið í félaginu að vild, en það er að mínu mati mjög ólýðræðislegt að leggja niður deildir innan félagsins án samráðs eða ræða málin við þá sem starfað hafa í félaginu og unnið þar að mínu mati óeigingjarnt starf til fjölda ára. Mitt hjarta slær og mun ávallt slá þannig að öllum sé frjálst að eiga sinn vettvang innan félaga og starfa þar með þeim hætti sem þeir kjósa sér. Allir sem vilja starfa eiga að hafa tilgang og vettvang til að vinna á og tjá skoðanir sínar. Það er ómögulegt að steypa alla í eitt mót: skoðanalega og hugsjónalega séð og því nauðsynlegt að fólk geti tjáð skoðanir sínar og hugsjónir í félaginu þar sem viðkomandi kjósa sér. Ákvörðun fimmtudagsins þótti mér slæm byrjun á starfi nýrrar stjórnar og ég vona að hún taki upp heilsteyptari vinnubrögð gagnvart þeim sem hafa starfað innan félagsins og hafa sýnt fullan hug til að starfa þar áfram og taka þátt. Það er að mínu mati afar illt afspurnar að dugmikið fólk sem hefur unnið ötullega og með miklum krafti að framgangi sjálfstæðisstefnunnar sé rekið fyrirvaralaust á dyr.

Dagurinn í dag
1818 Landsbókasafn Íslands stofnað - Jón Árnason varð fyrsti landsbókavörðurinn. Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Þjóðarbókhlöðu Íslands við opnun hennar 1. desember 1994
1910 Vígslubiskupar vígðir fyrsta sinni: Valdimar Briem í Skálholti og Geir Sæmundsson að Hólum
1963 Dr. Martin Luther King flutti eftirminnilega ræðu á mótmælafundi í Washington - lesa ræðuna
1974 Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar tók við völdum á Bessastöðum - hún sat í rúm fjögur ár
1986 Bylgjan hóf útsendingar - varð fyrsta einkarekna útvarpsstöðin eftir að einokun ríkisins lauk
Snjallyrði dagsins
My fellow citizens of the world: ask not what America will do for you, but what together we can do for the freedom of man.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)
Laugardagsfærslur á blogginu hafa verið í dvala í allt sumar, þær hefjast nú að nýju og munu birtast í vetur eftir því sem þarf og ég tel rétt að tjá mig um efni um helgar utan fastra skrifa.
<< Heim