Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 september 2004

11. september11. september
Í dag, 11. september, er þess minnst að þrjú ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Á þessum þrem árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Ætlun hryðjuverkamannanna var að sundra þjóðarsál Bandaríkjanna og vega að henni. Árásirnar þjöppuðu hinsvegar landsmönnum saman og efldi þjóðerniskennd þeirra. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú í landinu, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag. Árásirnar reyndu mikið á ríkisstjórn George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og hann persónulega. Þær settu gríðarmikið mark á kjörtímabil hans og stefnu ríkisstjórnarinnar og öll áhersluatriði. Árásin á New York og Washington, 11. september 2001, var ekki bara aðför að Bandaríkjunum heldur vestrænu samfélagi almennt. Með þeim hætti var þeim voðaverkum svarað og stuðningur mikill um allan heim við þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfar þessa sorgardags þegar hryðjuverkasamtök réðust á ógeðfelldan hátt að vestrænum háttum. Enginn vafi er á því að þessi atburður hefur breytt algjörlega gangi heimsmála og leitt til atburða sem kannski sér ekki fyrir endann á. Atburðir 11. september 2001 og eftirmáli, urðu áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku.

Anna Lindh (1957-2003)Ár er í dag liðið frá því að Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, lést á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Hún lést af völdum innvortis blæðinga í kjölfar þess að ráðist var á hana með hnífi í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms, daginn áður. Almenningur í Svíþjóð var felmtri sleginn vegna morðsins á Önnu. Morðið á henni var sár endurminning þess þegar Olof Palme þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, var skotinn til bana 28. febrúar 1986, á götuhorni í Stokkhólmi er hann var að koma úr kvikmyndahúsi. Í kjölfar morðsins á Önnu kom upp umræða um öryggi stjórnmálamanna á Norðurlöndum, hvort þeir nytu nægrar verndar. Öll öryggisgæsla sænskra stjórnmálamanna var tekin til endurskoðunar og t.d. var öryggisgæsla ráðamanna hérlendis hert. Anna Maria Lindh var fædd 19. júní 1957. Hún hóf ung störf að stjórnmálum, 12 ára gömul gekk hún í Jafnaðarmannaflokkinn og varð þegar virk í starfi hans. Hún var kjörin á sænska þingið árið 1982 og sinnti allt frá því trúnaðarstörfum fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Hún var umhverfisráðherra Svíþjóðar 1994-1998 og varð utanríkisráðherra eftir þingkosningarnar það ár og sinnti því starfi til dauðadags. Hún átti ennfremur sæti í borgarstjórn Stokkhólmsborgar og var varaborgarstjóri árin 1991-1994. Hafði mikið verið um það rætt seinustu æviár Önnu að hún væri hugsanlegur eftirmaður Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, þegar hann hætti afskiptum af stjórnmálum. Hún var almennt talin krónprinsessa jafnaðarmanna og einn sterkasti talsmaður stjórnvalda og flokksins, sameiningartákn vinsælda innan flokksins og meðal þjóðarinnar. Anna Lindh var harmdauði, það var sorglegt að ráðist væri með slíkum grimmdarhætti að stjórnmálamanni á Norðurlöndum. Morðið á henni var aðför að lýðræðinu.

Dagurinn í dag
1945 Fyrstu hermenn Bandamanna komast inn í Þýskaland. Veldi nasista hrundi loks í apríl 1945
1964 Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú, lést, 71 árs. Hún var forsetafrú í 12 ár, frá 1952 til dánardags
1973 Salvador Allende forseta Chile, steypt af stóli í blóðugri uppreisn hersins. Allende lést í átökum í forsetahöllinni. Augusto Pinochet hershöfðingi, varð leiðtogi Chile og ríkti allt til 1990
2001 Hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum - hryðjuverkamenn ráðast á New York og Washington með því að ræna farþegaflugvélum og fljúga þeim á valin skotmörk. Tvær vélar fljúga á World Trade Center og ein á Pentagon. Tvíburaturnarnir hrynja til jarðar og Pentagon verður fyrir skemmdum
2003 Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, deyr á sjúkrahúsi af völdum sára sem hún hlaut er vitfirringur réðist að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í miðborg Stokkhólms, daginn áður.

Snjallyrði dagsins
This is a day when all Americans from every walk of life unite in our resolve for justice and peace. America has stood down enemies before, and we will do so this time. None of us will ever forget this day. Yet, we go forward to defend freedom and all that is good and just in our world.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (ræða - 11. september 2001)