Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 september 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um Evrópumálin og umræðu um sjávarútvegsstefnu ESB í kjölfar athyglisverðrar ræðu Halldórs Ásgrímssonar á sjávarútvegsráðstefnu hér á Akureyri í vikunni. Ummæli hans hafa leitt til athyglisverðrar túlkunar á því hvort afstaða hans til ESB-aðildar hafi breyst, að mínu mati er raunsæi í ræðu hans og harkaleg viðbrögð stjórnarandstæðinga lýsandi um stöðu mála og þess að ESB-aðild er nú sem fyrr óhagstæður kostur. Davíð Oddsson lætur af forsætisráðherraembætti eftir 13 ára samfellda setu á miðvikudag. Ánægjulegt er að lesa viðtal Egils Ólafssonar blaðamanns, við Davíð í Morgunblaðinu í dag. Þar tjáir hann sig einkum um glæsilegan forsætisráðherraferil sinn og þau verkefni sem blasa við honum, eftir veikindin sem hann varð fyrir í sumar og það hvað taki við honum persónulega. Lýsir hann því yfir að hann muni ótrauður halda áfram þáttöku í stjórnmálum og stefni að því að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans sem haldinn verður á næsta ári. Það er gleðiefni að Davíð treysti sér til áframhaldandi starfa fyrir flokkinn og þjóðina, í forystusveit íslenskra stjórnmála. Hann hefur flokkinn að baki sér og nýtur mikilla vinsælda meðal almennra flokksmanna sem hafa veitt honum ótvírætt umboð á landsfundum til að leiða flokkinn í þeim málum sem skipta okkur mestu máli. Andstæðingar Davíðs í stjórnmálum höfðu sagt ótrúlegt að hann yrði áfram ráðherra, í ríkisstjórn undir forsæti annars. Við blasir nú að hann starfar áfram af krafti. Það er mikilvægt að Davíð hafi nú tekið endanlega af skarið með pólitíska framtíð sína, innan ríkisstjórnar og flokksins. Eftirsjá er þó að honum úr forsætisráðuneytinu, en verkin bera þess vitni að vel hefur verið unnið undir hans forystu. Verður mjög athyglisvert að fylgjast með verkum hans í utanríkisráðuneytinu á næstunni, en þar er nóg af verkefnum framundan. Ítreka ég að lokum þá skoðun mína að Síminn verði seldur og undrast skyndileg skilyrði framsóknarmanna fyrir sölu fyrirtækisins.

Bush og KerryBush vs. Kerry
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, heldur enn 10% forskoti á John Kerry forsetaframbjóðanda demókrata, í skoðanakönnunum, nú þegar 50 dagar eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum. Bush náði forskotinu samhliða flokksþingi repúblikana í lok ágúst og gríðarlega góðu stökki sem hefur ekki enn hjaðnað. Það er þó merkileg staðreynd að nú þegar hin fræga tímaviðmiðun við Labor Day, 6. september, rennur upp (oft talið að sá sem leiði þá vinni slaginn) er allur vindur úr demókrötum og forsetaefni þeirra, og forsetinn stendur með pálmann í höndunum. Hefur ekki gerst frá 1988 að frambjóðandi með svo mikið forskot í könnunum missi það niður og tapi slagnum 50 dögum síðar, Michael Dukakis leiddi lengst af forsetaslaginn 1988 en tapaði kosningunum fyrir Bush eldri. Í gömlum demókratavígum eins og t.d. Minnesota er forskot Kerrys að hverfa, sem er demókrötum mikið áhyggjuefni. Án sigurs í jafnsterku vígi og því er tap augljóslega framundan, enda forsetinn gríðarlega sterkur í suðrinu. Mikið forskot Bush er því verulegt áhyggjuefni fyrir demókrata, sem eru farnir að örvænta, eins og sást best af starfsmannatilfærslum í herbúðum Kerrys. Svo virðist sem eitt helsta tromp Kerrys í upphafi, herþjónusta hans og afrek í Víetnam, sé orðið honum fjötur um fót og hann reyni sem mest nú að beina talinu í aðrar áttir, t.d. efnahags- og heilbrigðismálum. Flokksþingið í Boston snerist að mestu um öryggis- og varnarmálin, en þar sem kannanir sýna með afgerandi hætti að Bush hefur ótvírætt forskot í þeim málaflokki verði horft annað. Demókratar eru semsagt komnir á flótta með helstu stefnumál sín og áherslur í gervallri kosningabaráttu. Ber þetta þess vitni að demókratar skynji að Bush sé of sterkur til að ræða varnarmálin, hann hafi náð of miklu forskoti þar. Framundan eru kappræður frambjóðenda eftir tæpan mánuð og má búast við að þar verði tekist verulega á.

Dagurinn í dag
1974 Haile Selassie keisara Eþíópíu, steypt af stóli í valdaráni hersins. Keisaradæmið aflagt með því
1977 Steve Biko, sem leiddi baráttu blökkumanna gegn valdhöfum í S-Afríku, deyr í varðhaldi
1997 Skotar samþykkja með yfirgnæfandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að koma upp heimastjórn í Edinborg - Donald Dewar verður fyrsti forystumaður heimastjórnarinnar - lést snögglega árið 2000
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stríði gegn hryðjuverkum, eftir árásirnar á USA
2003 Sveitasöngvarinn Johnny Cash, ein helsta goðsögn sveitatónlistarinnar, deyr, 71 árs að aldri

Snjallyrði dagsins
The only real prison is fear, and the only real freedom is freedom from fear.
Aung San Suu Kyi