Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 nóvember 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Tilkynnt var um skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar á föstudag, eins og fram kom í skrifum mínum hér þann dag. Í frumvarpi sem var kynnt þann dag er lagður grunnur að því hvernig koma eigi til móts við loforð stjórnarflokkanna í kosningabaráttunni 2003 og tímaplan kynnt. Loforðin verða því efnd kerfisbundið, er gott að plan málsins sé komið fram. Fróðlegt er að heyra formann Samfylkingarinnar segja að skattalækkanir séu ranglátar og að tímasetning þeirra sé slæm. Er það óneitanlega skondið miðað við þá staðreynd að hann og flokkur hans lofaði 16 milljarða skattalækkunum fyrir síðustu þingkosningar. Var mjög skondið að sjá Jóhann Hlíðar Harðarson fréttamann á Stöð 2 minna formanninn á loforð flokks síns og spyrja hvort hann hefði þá ekki staðið við þau loforð. Auðséð var að Össuri var brugðið að loforð flokksins væru enn í minni einhverra og sagðist myndu hafa staðið við loforðin en farið aðrar leiðir. Hann var greinilega vandræðalegur í viðtalinu, lái honum svosem hver sem vill.

Ekki var við því að búast að vinstri grænir myndu lýsa yfir stuðningi við þessar tillögur enda hafði flokkurinn fyrir seinustu kosningar beinlínis talað gegn skattalækkunum. VG hefur alla tíð talið það eins og boðskap skrattans að tala um skattalækkanir og afstaða þeirra er því í fullu samræmi við allt sem þar hefur komið fram í stefnu seinustu ára. En afstaða Samfylkingarinnar er í engum takti við það sem kom fram af þeirra hálfu fyrir kosningar. Það er eins og við vitum með Samfylkinguna að þar talar fólk í svo marga hringi og í svo mörgum frösum að erfitt er að fylgjast með því hvað sagt er í dag og svo á morgun. En fréttamaður Stöðvar 2 á hrós skilið fyrir að minna á málflutning flokksins fyrir seinustu kosningar og svo það sem blasir við núna. Ekkert samræmi er þar á milli eins og allir sjá auðvitað sem fylgjast með, það er himin og haf á milli orða núna og loforða 2003. Fróðlegt er líka að heyra frasa á borð við það að þessi skattalækkun skili sér bara til vel stæðra. Hefur forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans vísað tali stjórnarandstöðunnar á bug og komið með gott sjónarhorn á þetta mál. Allsstaðar þar sem ég hef komið og rætt við fólk fagnar það þessari ákvörðun, enda kemur hún sér vel fyrir meðal Íslendinginn sem mun fljótt finna fyrir því þegar þessar skattalækkanir koma til framkvæmda, þær koma sér vel fyrir landsmenn, sérstaklega hinn vinnandi mann. Enginn vafi leikur á því.

Dan RatherDan Rather fréttastjóri bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS, tilkynnti formlega í yfirlýsingu í dag að hann myndi láta af embætti sem fréttastjórnandi og aðalfréttaþulur sjónvarpsstöðvarinnar frá og með 1. mars nk. Þann dag eru 24 ár liðin frá því að Rather tók við embættinu af hinum goðsagnakennda fréttahauk Walter Cronkite sem var andlit frétta CBS í marga áratugi. Staða Rathers veiktist mjög í kjölfar þess að hann birti umdeilda fréttaskýringu í fréttaþætti stöðvarinnar, 60 minutes, þar sem George W. Bush forseti Bandaríkjanna, var gagnrýndur og birt voru skjöl sem áttu að sanna að hann hefði verið rekinn með skömm úr þjóðvarðliði Texas. Kom síðar í ljós að umfjöllun Rathers var byggð á fölsuðum gögnum og skjölum. Telja má líklegt að þessi fréttaskýring hans hafi átt þátt í því að hann víkur fyrr en ella úr fréttaþularstól stöðvarinnar. Miklar deilur hafa staðið um störf hans allt frá því. Var almennt talið að Rather hefði beðið allt of lengi með að biðjast afsökunar á mistökum sínum vegna fréttaskýringarinnar. Hann hefði mun fyrr átt að hafa séð að umfjöllunin væri röng og byggð á fölsuðum skjölum.

Dan Rather er frá Texas og er 73 ára að aldri, hann hefur verið lykilstarfsmaður í fréttamennsku CBS stöðvarinnar í rúm 40 ár. Hann hóf störf árið 1962 í fréttadeild CBS í Texas og varð fyrst landsfrægur þegar hann fjallaði um morðið á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas, 22. nóvember 1963. Hann var í fylgdarliði forsetans sem fréttamaður fyrir stöðina og stjórnaði umfjöllun stöðvarinnar frá Dallas þennan örlagaríka dag er forsetinn var ráðinn af dögum og því sem tók við er lík forsetans var flutt til Washington og Lyndon B. Johnson sór embættiseið í forsetaflugvélinni á Love flugvelli í Dallas. Eftir það var hann hækkaður í tign innan stöðvarinnar og fékk lykilfréttamannsstöðu þar. Hann var áberandi sem fréttamaður í málefnum Hvíta hússins sem senior reporter í forsetatíð Richard Nixon og Gerald Ford, 1969-1977. Eftir það varð hann einn aðalfréttamanna við kvöldfréttir stöðvarinnar og varð aðalfréttaþulur í stað Cronkite árið 1981. Allt frá þeim tíma hefur hann leitt fréttastarf stöðvarinnar og verið andlit kvöldfréttanna. Rather mun eftir að hann hættir sem aðalfréttaþulur vinna áfram við fréttaskýringar hjá CBS. Mun áfram verða með innslög í 60 minutes II. Ekki hefur verið tilkynnt hver muni taka við forystuhlutverkinu af Rather, en ljóst er að staðan er stór í bandarískri fréttamannastétt.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraPistill Björns
Það er jafnan mjög athyglisvert að lesa helgarpistla Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Í seinasta pistli sínum fjallar Björn um nýja bók Matthíasar Johannessen fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, sem ber nafnið Málsvörn og minningar. Hvet ég alla til að lesa frásögn Björns um bókina en þar kemur t.d. eftirfarandi fram: "Í bók Matthíasar er þannig að finna enn eina heimildina, sem nauðsynlegt er að hafa í huga, þegar leitast er við að vinda ofan af þeim útleggingum, sem notaðar voru síðastliðið sumar til að réttlæta þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að synja um staðfestingu á svonefndu fjölmiðlafrumvarpi. Mér finnst langsótt að kenna þær útleggingar við stjórnlagafræði og að því er varðar orð föður míns og skilning hans á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar var beinlínis um rangfærslur að ræða hjá Ragnari Aðalsteinssyni hrl., eins og Matthías áréttar í bók sinni. Ég hafði gaman að því að lesa bók Matthíasar, sem er mikil að vöxtum, og skrifuð á þann veg, að hann er að skýra bréfvini frá viðhorfi sínu til lífsins og tilverunnar með skáldskap og trú að leiðarljósi. Málsvarnarþátturinn snýr meðal annars að því að svara Sigurði A. Magnússyni, sem vék ómaklega að Matthíasi í æviminningarbókum sínum. Við, sem þekkjum Matthías, vitum, að hann er ekki einhamur og í raun spannar bókin svo vítt svið, að hana má skoða sem kennslubók í skáldskap, trúmálum, blaðamennsku og stjórnmálum auk þess sem þar er gert upp við menn og málefni á þann hátt, sem Matthíasi er einum lagið, og brugðið ljósi, sem mótast af mikilli reynslu höfundarins, á þjóðkunna og heimsfræga samferðarmenn."

Myndir frá eldsvoðanum í Klettagörðum í Reykjavík
Sungið fyrir mömmu - Kristján Jóhannsson syngur ásamt fleirum fyrir mömmu sína

Húmorinn
Here's the latest update on the Palestinian Authority. No one seems to know who's really in charge, they can't decide on a strategy, half the factions want to move to the center, the other half want to stay as extremists. I'm sorry, that's the Democratic Party.

Al Gore was sitting among the crowd on the opening of the Clinton library. I don't wanna say Al Gore is getting big, but he is sitting there, and when Clinton saw him from behind he said: Monica?
Jay Leno

The opening of the Clinton Presidential Library - did you hear about this? President Bush was actually there. It was a good day for him. He raised six and half million dollars on that occasion.
David Letterman

Dagurinn í dag
1963 Lyndon Baines Johnson tók formlega við embætti forseta Bandaríkjanna, á fyrsta vinnudegi eftir morðið á John F. Kennedy - fyrsta verk hans var að skipa rannsóknarnefnd vegna morðsins
1990 Íslenska alfræðiorðabókin kom út - umfangsmesta bókmenntarit í sögu íslenskra bókmennta
1995 Björk Guðmundsdóttir var valin söngkona ársins 1995 af áhorfendum tónlistarstöðvarinnar MTV
1997 Karl Sigurbjörnsson, 50 ára prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík, var vígður biskup íslensku þjóðkirkjunnar. Karl sem hlotið hafði 58% atkvæða í biskupskjöri, tók við embætti af Ólafi Skúlasyni
2003 Eduard Shevardnadze sagði af sér embætti forseta Georgíu eftir uppreisn andstöðunnar gegn stjórn landsins. Shevardnadze, sem hafði verið utanríkisráðherra Sovétríkjanna 1985-1990, hafði verið leiðtogi Georgíu í 11 ár, frá 1992. Eftirmaður hans á forsetastóli var Mikhail Saakashvili

Snjallyrði dagsins
Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Kveðja)