Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 janúar 2005

Sigurður Kári KristjánssonHeitast í umræðunni
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, lagði í síðustu viku fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um eignarhlut ríkisins í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Óhætt er að fullyrða að svarið komi á óvart og sé í senn bæði sláandi og ótrúlegt. Ríkið á eignarhlut í rétt um 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ríkissjóður átti í alls 24 fyrirtækjum 1. desember 2004. Ríkisstofnanir í A-hluta eiga frá 0,9 prósent til 100% í 29 fyrirtæjum. Fyrirtæki Byggðastofnunar eru alls 78 talsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á alls 64. 11 fyrirtæki voru í eigu annarra ríkisfyrirtækja. Þessar upplýsingar eru með ólíkindum. Tek ég heilshugar undir mat Sigga Kára sem fram hefur komið í fjölmiðlum seinustu daga um að ríkið sé alltof fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi. Það er enginn vafi á því að mikilvægt sé að sameina Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Byggðastofnun. Það er óneitanlega skondið að ÁTVR á 20 prósenta eignarhlut í Endurvinnslunni! Þetta gengur ekki og þarf að stokka allt dæmið upp, með mjög afgerandi hætti. Ef marka má svar fjármálaráðherra á ríkið hlut í félögum sem reka upplýsinga- og tæknifyrirtæki, hótel, baðhús, fiskiðju, fiskeldi, flugskóla, endurvinnslu, saumastofur, sjávarútvegsvinnslu, og svona mætti lengi telja.

Þetta er ólíðandi og er með ólíkindum að fjármálaráðherra hafi ekki stokkað þetta meira upp en raun ber vitni. Það þarf að fara betur yfir þetta dæmi og leita eftir því hvers vegna ríkið sé bæði sé stórtækt og ótrúlega áberandi í beinum fyrirtækjafjárfestingum. Til dæmis er merkilegt að ríkissjóður á 54% í baðfélagi Mývatnssveitar, 22,4% í Barra hf. 17,8% í Endurvinnslunni (sem ÁTVR á 20% í nota bene), 42,2% í Flugskóla Íslands og 100% í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Er þetta bara stutt dæmi. Hvet ég alla til að kynna sér ítarlega niðurstöður svarsins við fyrirspurninni frá Sigga Kára. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft fjármálaráðuneytið nú í tæp 14 ár samfellt. Er þessi niðurstaða ekki ásættanleg fyrir okkur sjálfstæðismenn og vinna þarf að því að stokka stöðu þessara mála upp með markvissum hætti. Fara þarf betur yfir stöðu mála og leitast við að leita leiða til að haga málum með öðrum hætti. Er mikilvægt að fjármálaráðherra fari vel yfir þessi mál og leitist við að vinna málin með öðrum brag. Er hér komið verðugt verkefni fyrir fjármálaráðherra til að vinna úr og nokkuð umhugsunarefni í leiðinni fyrir hann. Það verður flestum (vonandi öllum) ljóst þegar litið er yfir þessar niðurstöður að þetta gengur ekki upp. Það er ótækt að ríkið eigi hlut í hótelum, saumastofum, fiskeldi og fleiru því sem of langt væri upp að telja. Er það mikil lexía eflaust fyrir alla að renna yfir listann og fara yfir þetta. Vel má vera að Framsóknarflokkurinn og tengslin við hann hafi magnað upp þessa lista eða leitt til þess að á þeirra vegum sé staðið í hinu og þessu sem ríkið á ekki að koma nærri. Ekki skal ég fullyrða að svo sé, en sá grunur læðist óneitanlega að manni. Ekki þarf að fræða fólk um hvernig Framsókn hefur unnið til fjölda ára í styrkjaleppasjóðum og tengdum málum. En það er ótækt að Sjálfstæðisflokkurinn viðhaldi svona kerfi og þetta verður að taka allt í gegn.

George W. Bush forseti, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu 30. janúar 2005Þingkosningar voru haldnar í Írak í gær. Voru þær sögulegar umfram allt að því leyti að þær voru fyrstu fjölflokkaþingkosningar í landinu í 51 ár, eða frá árinu 1954. Ánægjulegasta niðurstaðan við kosningarnar og ferli þeirra var óneitanlega að uppreisnarmönnum í Írak mistókst að koma í veg fyrir þær og þá lýðræðisþróun sem hún markaði. Kjörsókn fór yfir 60%, og varð því mun meiri en búist hafði verið við hjá bjartsýnustu mönnum. Ástæða er til að gleðjast með þá niðurstöðu umfram allt, að hægt var að halda kosningarnar eins og til hafði staðið, þrátt fyrir hótanir hryðjuverkaafla um að reyna að eyðileggja þær og lýðræðisstarfið í kringum þær með öllum tiltækum ráðum. Það er gleðiefni að þeim mistókst að skaða kosningarnar og lýðræðisferlið í landinu. Var mjög gott fyrir allt framhald málsins hversu vel tókst til. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flutti ávarp í Hvíta húsinu í gærkvöldi og tjáði þar ánægju bandarískra stjórnvalda með hversu vel hefði til tekist í kosningunum. Sagði hann að niðurstöðurnar sýndu með kraftmiklum hætti að Írakar hefðu hafnað andlýðræðislegri hugmyndafræði hryðjuverkamanna.

Sagði Bush í ræðu sinni að frelsisröddin væri greinileg í þessari niðurstöðu, ekki væri neinn vafi á að heimurinn heyrði frelsisröddina frá Miðausturlöndum. Ráðamenn í Evrópu hafa ennfremur tjáð ánægju sína með niðurstöður kosninganna, að þær skyldu fara fram og hafa gengið svo vel sem við blasir. Öll heimsbyggðin hlýtur að fagna þessum sögulegu þáttaskilum í Írak. Franska dagblaðið Le Figaro tjáir ánægju sína í leiðara í dag. Segir blaðið að Bush forseti, sé helsti sigurvegarinn í kosningunum. Þær hafi skapað aukna möguleika á því að Bandaríkin haldi með herlið sitt á brott frá landinu. Óneitanlega er það svo að Bush hefur náð miklum árangri seinustu vikur. Endurkjör hans styrkti hann auðvitað mjög í sessi en niðurstöður gærdagsins í Írak hefur styrkt stöðu hans í Íraksmálinu og bandamanna hans umtalsvert. Á því leikur enginn vafi. Það er mikill sigur fyrir forsetann að kosningarnar skyldu fara fram í fyrsta lagi, eftir hryðjuverkaárásir og grimmdarleg átök seinustu vikna í Írak. Enginn vafi er á því í mínum huga að niðurstaða mála eftir þessar kosningar er sú að nú sé komið að því að Bandaríkin og bandalagsþjóðirnar hugi að brottflutningi hersins frá landinu og fólk þar taki við forystu mála. Hafa forsendur skapast mjög í þá átt að hægt verði að stíga það stóra skref. Einræðisherrann er á bakvið lás og slá og lýðræðislegar kosningar hafa farið fram. Takmarkinu er að mestu náð.

Ánægjulegar niðurstöðurFlestir vilja flytja til Akureyrar
Í nýrri skýrslu sem IMG Gallup vann kemur fram að fólk í atvinnuleit á höfuðborgarsvæðinu gæti helst hugsað sér að flytja til Akureyrar byðist því þar starf við hæfi. Er mjög fróðlegt að líta yfir niðurstöðurnar í skýrslunni. Þátttakendur voru um 1000 manns og í skýrslunni eru niðurstöður greindar eftir ýmsum bakgrunnsbreytum, t.d. kyni, aldri, hjúskaparstöðu, menntun, búsetu, fjölda barna og núverandi stöðu á atvinnumarkaði. Rúmur fjórðungur þátttakenda segir það koma vel til greina að flytja til annars byggðarkjarna ef því myndi bjóðast þar starf við hæfi. Athyglisverðast er óneitanlega að þessi niðurstaða er óháð því hversu lengi fólk hefur verið að leita að vinnu. Þegar spurt var hvert þessir þátttakendur mundu vilja flytja kváðust þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu helst líta til Akureyrar. Rúmlega fjórðungur þeirra sem leita að starfi nú segist vera að leita að betra starfi en þeir eru í núna. Jafn stórt hlutfall þátttakenda leitar að starfi vegna atvinnuleysis eða ótryggrar atvinnu.

Talsverðar breytingar hafa átt sér stað frá síðustu mælingu (2001) þegar tæplega helmingur var að leita að betra starfi. Þegar þátttakendur voru beðnir að nefna 1-3 fyrirtæki sem þeir gætu helst hugsað sér að vinna hjá voru fjölmörg fyrirtæki nefnd. KB banki, Íslandsbanki, Icelandair, Actavis, IMG og Landsbankinn voru þau fyrirtæki sem oftast voru nefnd. Spurt var um áhuga þátttakenda á að starfa í ellefu atvinnugreinum. Af þeim greinum sem spurt var um höfðu þátttakendur mestan áhuga á að starfa hjá bönkum, sparisjóðum eða verðbréfafyrirtækjum og hátæknifyrirtækjum. Þar á eftir komu tölvu- eða hugbúnaðarfyrirtæki en minnstan áhuga sýndu þátttakendur á störfum í fiskiðnaðarfyrirtækjum. Þeir sem höfðu áhuga á tiltekinni atvinnugrein svöruðu einnig spurningu um viðhorf sitt til einstakra fyrirtækja innan hennar. Niðurstöðurnar gefa fyrirtækjunum sem spurt var um tækifæri á að bera ímynd sína í augum fólks í atvinnuleit saman við ímynd helstu samkeppnisaðila. Eru þetta ánægjulegar niðurstöður. Er mjög gaman að renna yfir niðurstöðurnar sem fram koma, en ég kynnti mér vel könnunina á vef Gallups. Þetta sýnir okkur vel að Eyjafjarðarsvæðið er í huga fólks mjög ákjósanlegur til búsetu, sem ætti að vera mikið ánægjuefni fyrir okkur öll sem hér búum.

ISG

Segja mætti mér að Ingibjörg Sólrún væri enn að jafna sig á því að hafa þurft að sitja heima hjá sér í vesturbænum meðan Össur Skarphéðinsson náði að fljúga norður á laugardag á Krókinn og taka þar bílaleigubíl með Kristjáni Möller og Hermanni Tómassyni varabæjarfulltrúa, til Akureyrar. Össur kom að því er marka má heimildir í bænum þangað sigri hrósandi meðan Ingibjörg varð að gera sér að góðu að missa af fundinum (þar sem fyrsti debatt þeirra átti að vera) og þorrablóti Samfylktra vinstri manna úr gömlum flokkum sem var á KEA um kvöldið. En jæja, Ingibjörg er komin aftur fram á sjónarsvið umræðunnar að einhverju leyti og fær að leysa af Bryndísi Hlöðvers á þingi næstu tvær vikur að minnsta kosti, ef marka má fréttir í dag. Einhvernveginn verða menn að koma sér í fjölmiðlana, sagði einn gárunginn við þessar fréttir. Eflaust eru það orð að sönnu fyrir borgarfulltrúann, varaþingmanninn og formannsframbjóðandann, sem sjaldan hefur virkað pólitískt þreytulegri en þessa dagana.

Svo berst það manni eins og hver önnur héraðseymd milli bæja í netfréttunum, að Guðni Ágústsson sé orðinn starfandi forsætisráðherra í stað Halldórs. Nei, ekki er búið að loka hann inni að ráði spunalækna Framsóknar, hann er víst á faraldsfæti eitthvað. Eftir situr Guðni með hnossið fágæta í höndunum. Geir hefur verið lasinn seinustu vikuna og sama má segja um fleiri ráðherra og þingmenn. Engu að síður gegnir hann störfum sínum að heiman. Davíð fer brátt að koma heim, sem betur fer. En já vonandi að Guðni verði rólegur meðan hann situr í embættinu, svo má reyndar við bæta að forsetinn ferðaglaði er að fara úr landi og stefnir þá í að Guðni verði einn handhafa forsetavalds. Það er ekkert annað.

Saga dagsins
1881 Kirkjan á Núpi í Dýrafirði fauk út á sjó í ofsaveðri - kirkjan var glæný og voru skemmdir miklar
1951 Flugvélin Glitfaxi fórst út af Vatnsleysuströnd og með henni 20 manns - vélin var á leið frá Eyjum til Reykjavíkur er hún fórst. Um er að ræða eitt af mannskæðustu flugslysum íslenskrar flugsögu
1977 Mjólkursamsalan í Reykjavík hætti rekstri mjólkurbúða sinna, allra nema einnar. Ástæðan var sú að matvöruverslunum var leyft að selja mjólkurafurðir. Er mest var, voru mjólkurbúðirnar um 90 alls
1980 Ferðamönnum var heimilað í fyrsta sinni að kaupa tollfrjálsan bjór við komu til landsins - þá var skammturinn tólf flöskur alls. Sala á áfengum bjór var loks leyfð hér á Íslandi frá og með 1. mars 1989
1995 Einar Már Guðmundsson skáld, hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína, Engla alheimsins - sagan var kvikmynduð árið 2000 af Friðrik Þór Friðrikssyni og hlaut hún 6 Edduverðlaun

Snjallyrðið
Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur.
Haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Geislar hennar, út um allt,
eitt og sama skrifa
á hagann grænan, hjarnið kalt:
Himneskt er að lifa!
Páll Ólafsson skáld (1827-1905) (Blessuð sólin)

30 janúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ótrúleg mistök í fréttamennsku hjá fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en þau leiddu til þess að fréttamaður varð að segja af sér og trúverðugleiki stöðvarinnar laskaðist verulega. Róbert Marshall fór fram með ótrúlegum hætti í þessu máli sem mörgum öðrum áður. Hann gerði sér það sem grunn að forsætisráðherra hefði logið að þjóðinni, hafði ekki fyrir því að kynna sér almennan grunn málsins fyrirfram og sannreyna stöðu mála. Farið var fram með miklum þjósti og afleiðingarnar voru eftir því þegar kom í ljós að hann hafði algjörlega misst sig í málinu og farið fram með óverjandi rangfærslur og ómerkileg vinnubrögð í fréttamennsku. Róberti var því auðvitað ekki sætt lengur í fréttamannsstörfum og leikur reyndar mikill vafi á hvort hann sé trúverðugur sem formaður Blaðamannafélagsins eftir þessi mistök hans. Framganga Róberts hefur oft leitt til deilna, eftir að hann varð fréttamaður í kjölfar þess að vera í forystusveit ungliðahreyfingar jafnaðarmanna fyrir nokkrum árum. Ekki gleymist svo glatt hvernig hann kom fram í hita fjölmiðlamálsins í maí 2004. Í tölvupósti sem hann sendi út þá, við upphaf undirskriftasöfnunar gegn lögum um eignarhald fjölmiðla, hvatti hann alla til að reyna að fá sem flesta til að skrifa undir og jafnvel reyna að fá þá sem væru hlynntir lagasetningu um eignarhald fjölmiðla til að gera það líka, semsagt beita öllum brögðum í baráttunni.

Enginn vafi lék á að Róbert missti stóran hluta trúverðugleika síns við þessi vinnubrögð sín, einkum á grundvelli þess að hann var forystumaður. Ekki verður betur séð en að ferli Róberts í fréttaumfjöllun sé lokið, a.m.k. með trúverðugum hætti, hvað svo sem síðar verður, eftir að hann nær að standa í lappirnar eftir þetta klúður sitt. Eftir stendur hvort ekki sé rétt að yfirmaður Stöðvar 2 segi af sér einnig, eftir slík gríðarleg og ófyrirgefanleg mistök, svo Páll endi ekki með laskað bros í fréttaþularstól eins og Dan Rather, sem var neyddur til að víkja úr forystu fréttamála hjá CBS eftir villandi fréttamennsku í fyrra. Í vikunni fór ég á fundaferð flokksins um Austurland og ræddi við flokksfélaga og kjósendur þar. Var mjög ánægjulegt að kynna sér uppganginn í Fjarðabyggð t.d. Fjalla ég um ferðina í pistlinum. Harkaleg valdabarátta er innan Samfylkingarinnar samhliða formannskjöri, fjalla ég um lætin þar og stöðu mála samhliða þessu uppgjöri valdatvíeykisins margfræga þar. Í gær áttu Össur og Ingibjörg að mætast á flokksfundi á Akureyri. Össur komst fljúgandi til Sauðárkróks og tók bílaleigubíl þaðan en Ingibjörg komst ekki norður, enda flugi aflýst vegna veðurs. Ekki var því neitt af baráttu milli þeirra hér um helgina eins og stefndi allt í að yrði. Össuri var vel tekið á Akureyri, enda blasir við að staða hans sé sterk hér á meðal flokksmanna. Sést það vel á því að Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson eru dyggir stuðningsmenn hans. Að auki hefur Lára Stefánsdóttir varaþingmaður flokksins í kjördæminu, hannað vef fyrir Össur, þar sem eru bæði skrifaðar og talaðar bloggfærslur. Að lokum vík ég að þingkosningunum í Írak sem haldnar voru í dag.

Kári StefánssonGóð grein Kára Stefánssonar
Kári Stefánsson forstjóri, skrifaði merka grein í Fréttablaðið í gær. Þar svarar hann makalausri grein Hallgríms Helgasonar í blaðið á gamlársdag. Orðrétt segir þar: "Ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi frumvarp til laga sem fjallaði aðallega um það hversu mikið menn mættu eiga í fjölmiðlum. Málið var flutt af töluverðri hörku og það urðu miklar deilur um það í samfélaginu og DV og Fréttablaðið birtu margar greinar um það á degi hverjum, nær allar sneisafullar af hvassri gagnrýni á frumvarpið. Og ekki var sparað skítkastið í garð Davíðs og ríkisstjórnarinnar og má segja að í umfjöllun sinni um þetta mál hafi þessi tvö dagblöð brotið blað í sögu íslenskrar blaðamennsku með hlutdrægni og persónulegum árásum. Að vísu hefur mér fundist DV almennt vera sóðapappír upp á síðkastið og brjóta margt fleira en blöð í sögum. Frumvarpið var samþykkt og lögin voru send forsetanum til staðfestingar. Hann tók þá ákvörðun að staðfesta þau ekki þótt slík ákvörðun hefði aldrei áður verið tekin í sögu lýðveldisins.

Þótt ég hefði á sínum tíma lítt mótaða skoðun á þessari ákvörðun var mér strax ljóst að hún hlaut að vekja spurningar um túlkun hans á stjórnarskránni, ákvörðun hans að beita ákvæðinu eins og hann skilur það og síðast en ekki síst spurningar um það hvort stjórnarskráin í núverandi mynd þjóni landsmönnum vel. Það eru til dæmis þeir sem halda því fram að ákvæði stjórnarskrárinnar sem veitir forseta vald til þess að staðfesta ekki lög hafi að öllum líkindum verið sett til þess að hann gæti komið í veg fyrir stórslys einsog að gráðugir þingmenn seldu Vestmannaeyjar en varla til þess að koma í veg fyrir lög sem fjalla um málefni á borð við eignarhald fjölmiðla. Andstæðingar fjölmiðlafrumvarpsins héldu því margir fram að eignarhald á fjölmiðlum skipti ekki máli vegna þess að það hefði engin áhrif á ritstjórn þeirra. Samkvæmt skoðunum þeirra var forsetinn að kippa þingræðinu úr sambandi vegna heldur lítilvægs málefnis. Er nema vona að þessi ákvörðum vekti spurningar. Hér var forsetinn að grípa inn í starf Alþingis á pólitískan hátt og það ber að hafa í huga að hér var ekki um að ræða fyrsta skiptið sem Ólafur Ragnar Grímsson skipti sér af pólitík. Hann var atvinnupólitíkus um áratugaskeið og var meirihluta þess tíma ötull talsmaður stjórnmálaflokks sem var hatramur andstæðingur núverandi stjórnarflokka, stjórnmálaflokks sem var oftast lítll og óvinsæll. Sú staðreynd fór ekki framhjá mér vegna þess að faðir minn var þingmaður fyrir þennan smáa og óvinsæla stjórnmálaflokk."

Stjáni og Sigga í Krossanesborgum

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, undirritaði á fimmtudag auglýsingu um friðlýsingu Krossanesborga sem fólkvangs. Undirritunin fór fram á staðnum og fluttu þar stutt ávörp m.a. ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og forstöðumaður náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Markmiðið með friðlýsingu Krossanesborga er að vernda svæðið til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu. Auk þess er verndaður mikilvægur varpstaður fjölda fuglategunda, búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og sérstæðar jarðmyndanir og þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni. Var leitt að geta ekki verið viðstaddur afhöfnina, en við Sigga náðum að ræða þessi mál um kvöldið í Mývatnssveit, þar sem hún var á fundi flokksmanna ásamt Halldóri Blöndal forseta Alþingis.

Saga dagsins
1948 Mahatma Gandhi myrtur í Nýju Delhi á Indlandi. Gandhi var 78 ára að aldri er hann lést. Gandhi var sjálfstæðishetja Indverja og leiddi baráttu þeirra til fulls sjálfstæðis í tæp 40 ár. Hugsjónabarátta hans efldi Indverja til dáða og hann var þjóðarhetja landsins en var umdeildur meðal trúarhreyfinga. Hann var myrtur af öfgafullum hindúa. Indland varð formlega sjálfstætt ríki síðar sama ár og hann lést
1965 Sir Winston Churchill fyrrum forsætisráðherra Bretlands, jarðsunginn. Hann var borinn til hinstu hvílu í Oxfordskíri, við Blenheim-kastala - þúsundir manna fylgdu Churchill seinasta spölinn
1988 Listasafn Íslands var vígt í nýjum húsakynnum við Fríkirkjuveg í Reykjavík - var stofnað 1884
2002 Bandaríski fréttamaðurinn Daniel Pearl myrtur í Pakistan - honum var rænt og var síðar myrtur
2005 Fyrstu fjölflokka þingkosningarnar í Írak, frá árinu 1954, haldnar í skugga hryðjuverka og átaka

Snjallyrðið
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ég bið að heilsa)

28 janúar 2005

Dr. Condoleezza Rice ávarpar starfsmenn utanríkisráðuneytisinsHeitast í umræðunni
Dr. Condoleezza Rice tók að kvöldi miðvikudags formlega við embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna af Colin Powell. Er hún 66. utanríkisráðherrann í sögu landsins. Skipan hennar í embættið var samþykkt af öldungadeild Bandaríkjaþings eftir stormasamar umræður um ágæti hennar og utanríkisstefnu hennar og forsetans í þinginu. Sór hún að því loknu formlega embættiseið sinn í þinginu og var með því formlega orðin önnur konan til að taka við embættinu og fyrsta þeldökka konan að auki. Eflaust mun forsetatíðar George W. Bush lengi verða minnst síðar meir fyrir það að hann skipaði í embætti utanríkisráðherra landsins, fyrsta þeldökka manninn og fyrstu þeldökku konuna, Powell og Rice. Öldungadeildin staðfesti skipan Rice með 85 atkvæðum gegn 13 (allt demókratar). Það hefur aldrei gerst fyrr í sögu landsins að utanríkisráðherraefni forseta Bandaríkjanna fái andstöðu af þessu tagi. 7 þingmenn greiddu atkvæði gegn Henry Kissinger árið 1973 og 6 þingmenn gegn Alexander Haig árið 1981. Condi Rice fór í ráðuneytið í gærmorgun, heilsaði upp á starfsmenn og ávarpaði þá og tók formlega við lyklavöldum þar. Powell kvaddi starfsmenn ráðuneytisins þann 19. janúar en það tafðist að samþykkja Rice í embættið vegna andstöðu nokkurra demókrata.

Mörg flókin verkefni bíða utanríkisráðherrans fyrstu vikurnar í embætti. Ber þar hæst málefni Íraks og Mið-Austurlanda. Sést það glögglega af því að fyrsta ferð hennar í embætti verður um Mið-Austurlönd og Evrópu í byrjun næstu viku. Mun Condi fara til Bretlands, Þýskalands, Ítalíu, Frakklands, Belgíu, Lúxemborg, Póllands og Tyrklands, auk þess sem hún mun halda á Vesturbakkann, þar sem stefnt er að því að bæta með því tengsl Palestínu og Ísraels en búast má við að friðarviðræður hefjist brátt milli þeirra, nú eftir embættistöku Mahmoud Abbas forseta Palestínu. Mun hún leiðtoga beggja aðila í ferð sinni og reyna að ýta friðarferlinu formlega úr vör, sem er í samræmi við stefnu Bush forseta, sem hefur lýst því yfir að tryggja þurfi frið milli aðilanna. Er einnig ljóst að Bandaríkjastjórn og ráðherrann nýi stefna að því að bæta til muna samskipti Bandaríkjanna við mörg Evrópulönd, en þau hafa verið stirð seinustu ár að mörgum ástæðum eins og kunnugt er. Mun Rice eiga löng samtöl við utanríkisráðherra Frakklands og Þýskalands. Til áherslu við þetta er að Rice mun flytja sína fyrstu stórræðu sem utanríkisráðherra í Frakklandi. Bush forseti stefnir að því að fara í ferð til Evrópu í seinnihluta febrúarmánaðar og er Evrópuhluti ferðar Rice ætluð umfram allt til að undirbúa hana. Segja má um Condi að hún sé fagmanneskja á sínu sviði. Fróðlegt er að kvenréttindasinnar og svokallaðir jafnréttissinnar hafa þagað þunnu hljóði yfir þessum þáttaskilum í stjórnmálasögunni, sem verða óhjákvæmilega með þessum ráðherraskiptum. Embætti utanríkisráðherra er gríðarlega valda- og áhrifamikið og stendur sem þriðja í valdaröðinni á eftir varaforseta og forseta fulltrúadeildarinnar. Það er því alveg ljóst að enginn getur neitað að um sögulegan atburð í stjórnmálasögu Bandaríkjanna er að ræða, þegar blökkukona tekur við embættinu, hvort sem vinstrimenn þola að heyra á það minnst eður ei. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar í embætti næstu árin.

Páll MagnússonÞað var mikill æsifréttabragur á kvöldfréttum Stöðvar 2 að kvöldi miðvikudags. Fyrsta frétt var þess efnis að netfrétt á fréttavef CNN sannaði að Ísland hefði komist á lista yfir þær þjóðir sem studdu innrásina í Írak fyrir ríkisstjórnarfund sem haldinn var í Stjórnarráðinu að morgni 18. mars 2003. Páll Magnússon sjónvarpsstjóri og fréttastjóri Stöðvar 2, las sjálfur innganginn að fréttinni með ábúðarmiklum svip og horfði af krafti framan í myndavélina með glampa í augum. Hér var að þeirra mati um stórfrétt að ræða og fréttin höfð í forgrunni þetta kvöld. Yfirmaður stöðvarinnar áréttaði það með tjáningu sinni og hefur án vafa samþykkt fréttina sem fyrstu frétt. Það blasir við.

Ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands, var með fréttina og leitaðist við að spinna upp einhverja stórmerkilega atburðarás, rakti ferli málsins og kom svo að aðalatriðinu að sínu mati. Sýndi hann þar umrædda netfrétt sem að hans mati átti að sanna að Ísland hefði komist á margumræddan lista fyrir ríkisstjórnarfund. Eftir að hafa sýnt glefsur úr gömlum fréttaviðtölum við forsætisráðherra og eldra myndefni, birtist svo formaður Blaðamannafélagsins í mynd (fyrir utan Stjórnarráðið, hvorki meira né minna) og kemur með lokaorð fréttarinnar. Segir hann þar orðrétt að fram að þessari stundu hafi málflutningur forsætisráðherra verið í besta falli villandi en nú sé hann beinlínis rangur. Fréttamaðurinn vænir í lokin forsætisráðherra um að hafa logið að þjóðinni.

Ég sá þessa frétt að kvöldi miðvikudags á Neskaupstað, þar sem ég var staddur á fundaferð flokksins um Norðausturkjördæmi, en ég hef seinustu daga verið í Fjarðabyggð. Þessi frétt vakti mig til umhugsunar um þessi mál, enda fannst mér tímasetningar fréttamannsins og það sem sýnt var í fréttinni merkilegt og þótti mér að tímasetningar stæðust ekki. Ljóst varð á morgni fimmtudags að formaður Blaðamannafélagsins hafði mislesið tímasetningarnar, misskilið tímamismun milli Íslands og Bandaríkjanna, sem er ótrúlegur dómgreindarbrestur hjá fréttamanni (og að auki formanni félags fréttamanna!) sem vill láta taka sig alvarlega. Forsætisráðuneytið svaraði fréttinni með fréttatilkynningu í gærmorgun. Leiddi sú fréttatilkynning til þess að Páll Magnússon las afsökunarbeiðni af sinni hálfu og fréttastofunnar í hádegisfréttum Bylgjunnar. Ég var staddur á Egilsstöðum er ég heyrði þann merka lestur og varð hugsi um hvað myndi nú gerast, hver yrðu örlög yfirmanna og fréttamannsins.

Ekki má gleyma því að Róbert ber ekki einn ábyrgð á fréttinni, vaktstjóri og fréttastjóri hljóta að hafa samþykkt slíka umfjöllun, slíka frétt. Mistökin eru ekkert síður þeirra. Ég var staddur á Mývatnsheiði, á leið heim seinasta spölinn, eftir fund í Mývatnssveit, er ég fékk símhringingu með þeim fréttum sem tilkynnt höfðu verið í tíufréttum Sjónvarpsins, að Róbert hefði sagt upp störfum. Ekki kom sú fregn á óvart, fyrr um kvöldið hafði ég séð byrjun fréttatíma stöðvarinnar á Hótel Seli í Mývatnssveit. Þar birtist sami Páll Magnússon og bað nú forsætisráðherra afsökunar á mistökum fréttastofunnar. Fréttastofan hafði misst trúverðugleika sinn, misst það sem mestu skiptir í fréttamennsku. Að auki hafði formaður Blaðamannafélags Íslands gert sig endanlega að fífli og er endanlega rúinn öllu trausti sem slíkur, eftir margar eldri bommertur og mistök. Ekki verður betur séð en að hans fréttamannsferli sé lokið. Eftir stendur hvort ekki sé rétt að yfirmaður Stöðvar 2 segi af sér einnig, eftir slík gríðarleg og ófyrirgefanleg mistök, svo Páll endi ekki með laskað bros í fréttaþularstól eins og Dan Rather.

ISG og markmiðið eina (mynd af málefnum.com)

Ég las drottningarviðtal Fréttablaðsins (365 - prentmiðla?) við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Mývatnssveit seinnipartinn í gær. Þar kemur fram eins og sést að ofan hvert eigi að vera eina markmið Samfylkingarinnar, ekkert skiptir meira máli en völdin greinilega. Valdagræðgi borgarfulltrúans og forsætisráðherraefnisins fyrrverandi er ekkert hernaðarleyndarmál svosem. Greinilegt er að allt er að fara í panikk innan flokksins með stöðu mála. Margir vilja flýta landsfundinum og segja að fjögurra mánaða kosningabarátta skaði flokkinn og hans innra starf. Mjög greinilegt er að þessi átök rista orðið mjög djúpt, enda virðist mikil harka í slagnum og allt látið flakka í hita leiksins og margir vilja flýta kattaslagnum og hafa hann snarpari.

Eins og fyrr segir hef ég seinustu daga verið á ferðalagi um Austurland og var í gær í Mývatnssveit. Er óhætt að fullyrða að mikil veðurblíða hafi verið miðað við að um janúarlok sé að ræða. Var ferðin austur sérstaklega ánægjuleg og víða farið. Mun ég fjalla vel um hana á sunnudag og segja frá því og fundum flokksins í kjördæminu, í sunnudagspistli um helgina. Sérstaklega ánægjulegt var að fara til Reyðarfjarðar og sjá þá miklu og ævintýralegu uppbyggingu sem á sér þar stað á öllum sviðum. Vil ég þakka vinum mínum á Reyðarfirði, þeim Gunnari Ragnari Jónssyni og Þórði Vilberg Guðmundssyni, kærlega fyrir að keyra mér um staðinn og sýna mér með skemmtilegum hætti það sem þar er að gerast og þá uppbyggingu sem þar er.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964)Davíð Stefánsson (1895-1964)
21. janúar sl. voru 110 ár liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi. Í tilefni afmælis hans skrifaði ég ítarlega umfjöllun um ævi hans og skáldferil og birtist hún á bókmenntavefnum Skýjaborgum í vikunni. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Davíð Stefánsson var Akureyringur, þrátt fyrir að vera fæddur í sveit og að hafa ekki búið í bænum alla tíð. Hann varð Akureyringur án allra málalenginga og var að flestra mati stolt bæjarins og allra í firðinum á skáldferlinum. Vinsældir hans voru mjög miklar á heimavelli. Hann varð heiðursborgari Akureyrar á sextugsafmæli sínu, 21. janúar 1955.

Davíð fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Í umfjöllun minni fer ég yfir merk ljóð Davíðs og flétta saman í frásögn um ævi hans og feril sem skálds.

ÓskarinnÓskarsverðlaunin 2005
Tilkynnt var um tilnefningar til Óskarsverðlaunanna 2005 á þriðjudaginn. Það voru óskarsverðlaunaleikarinn Adrien Brody og Frank Pierson forseti bandarísku kvikmyndaakademíunnar, sem tilkynntu um tilnefningarnar á blaðamannafundi. Verðlaunin munu verða afhent 27. febrúar nk. og verður leikarinn Chris Rock kynnir að þessu sinni. The Aviator, kvikmynd Martin Scorsese, og fjallar um ævi hins sérvitra milljónamærings Howard Hughes, hlaut 11 tilnefningar til verðlaunanna. Var hún tilnefnd sem besta kvikmynd ársins, auk Million Dollar Baby, Sideways, Ray og Finding Neverland. Scorsese var tilnefndur til leikstjóraverðlaunanna fyrir The Aviator, auk hans hlutu tilnefningu í þeim flokki þeir Clint Eastwood fyrir Million Dollar Baby, Mike Leigh fyrir Vera Drake, Taylor Hackford fyrir Ray og Alexander Payne fyrir Sideways.

Tilefndir fyrir besta leik karla í aðalhlutverki voru Clint Eastwood sem fer með hlutverk í kvikmynd sinni, Million Dollar Baby, Don Cheadle fyrir leik sinn í Hotel Rwanda, Johnny Depp fyrir Finding Neverland, Leonardo DiCaprio fyrir The Aviator og Jamie Foxx fyrir Ray. Tilnefndar fyrir besta leik kvenna í aðalhlutverki voru Annette Bening fyrir leik sinn í Being Julia, Catalina Sandino Moreno fyrir Maria Full of Grace, Imelda Staunton fyrir Vera Drake, Hilary Swank fyrir leik sinn í Million Dollar Baby og Kate Winslet fyrir Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Tilnefndir fyrir besta leik karla í aukahlutverki eru Alan Alda fyrir leik sinn í The Aviator, Thomas Haden Church fyrir Sideways, Jamie Foxx fyrir Collateral, Morgan Freeman fyrir Million Dollar Baby og Clive Owen fyrir leik sinn í Closer. Tilnefndar fyrir besta leik kvenna í aukahlutverki voru Cate Blanchett fyrir leik sinn í The Aviator, Laura Linney fyrir Kinsey, Virginia Madsen fyrir Sideways, Sophie Okonedo fyrir Hotel Rwanda, og að lokum Natalie Portman fyrir leik sinn í Closer.

Saga dagsins
1907 Sláturfélag Suðurlands, SS, stofnað, sem samvinnufélag bænda - hét fyrst Sláturfélag Árnesinga og Rangæinga. Hefur lengi verið eitt öflugasta sölufyrirtæki á landbúnaðarafurðum í landinu
1935 Ísland verður fyrsta landið í heiminum til að leyfa fóstureyðingar með lagasetningu á þjóðþingi
1953 19 ára gamall breskur maður, Derek Bentley, hengdur fyrir að hafa myrt Sidney Miles - Bentley hélt fram sakleysi sínu í málinu allt til hinstu stundar. Alla tíð hefur leikið mjög mikill vafi á sekt hans
2002 Sænski barnabókarhöfundurinn Astrid Lindgren lést, 94 ára að aldri. Lindgren var ein af virtustu rithöfundum á sviði barnabókmennta og hlaut mikinn fjölda alþjóðlegra bókmenntaverðlauna
2004 Hutton lávarður kynnir skýrslu sína um dauða vopnasérfræðingsins David Kelly og tildrög þess - niðurstöður hennar voru áfellisdómur yfir fréttamennsku BBC og leiddi til sviptinga í forystu þess

Snjallyrðið
Höggið var þungbært og enn ég sakna þín,
þú kvaddir og eftir var tómið svarta,
sólin skein það sumar en myrkrið tók við án þín,
ekkert varð hér eftir nema minningin þín bjarta.
Stefán Friðrik Stefánsson (Söknuður)

25 janúar 2005

Sameinuðu þjóðirnarHeitast í umræðunni
Í gær tjáði ég á þessum vettvangi skoðanir mínar varðandi umsókn og kosningabaráttu Íslands sem framundan er til að sækjast eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, eftir fjögur ár, árið 2009. Þótti mér rétt að fara yfir skoðanir mínar á málinu og afstöðu til þess eftir að Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, tjáði sig um málið. Andstaða mín og okkar í Sambandi ungra sjálfstæðismanna hefur verið áberandi og ekki farið leynt innan flokksins. Er rétt að fólk tjái skoðanir sínar á málinu nú og leitist við að hafa áhrif á framgang þess áður en lengra er haldið. Ljóst er að kosningabarátta um sætið mun verða okkur dýr. Deila menn um kostnaðartölur þar um, en flestir hafa verið sammála um að sá kostnaður muni fara vel yfir 500 milljónir króna og hefur Einar nefnt töluna um og yfir milljarð þegar allt er talið saman, ef staðið verður við allt ferlið og eytt þeim pening og tíma sem þarf í málið, án þess að nokkuð sé vitað um mögulegar lyktir þess að lokum. Vantar algjörlega að spilin séu lögð á borðið og tíundaðar séu beint ástæður þess að Ísland fer út í kostnaðarsama baráttu af þessu tagi. Eins og ég hef oft bent á í skrifum um þessi mál er meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráðinu málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Þetta mál allt er því mjög óskiljanlegt og læðist að manni sá grunur að eini tilgangurinn á bakvið þetta allt séu nettir greifataktar og menn ætli bara að geta sest að borðinu í New York með þeim stóru til að plotta eilítið í nokkur ár en eyða í það stórpening.

Eins og fram kom í athyglisverðum þingumræðum um málið í gær eru sífellt minni líkur á því að við munum hreppa sæti í Öryggisráðinu. Erum við að berjast við þjóðir sem virðast hafa meiri möguleika og standa óneitanlega mun sterkar að vígi þegar allt er talið upp. Það var óneitanlega stórfurðulegt að sjá Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, tjá sig um málið í þingumræðum í gær. Sagði hann þar að hann gæti ekki betur séð en að rík samstaða væri um framboð Íslendinga til setu í Öryggisráðinu. Er ekki hægt að segja annað en þau orð forsætisráðherrans séu nokkrir draumórar. Stjórnarmeirihlutinn styður ekki heill þetta mál og ef mæla á stuðninginn eftir þingmeirihlutanum tel ég að hann sé ekki lengur til staðar. Innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins eru fleiri en Einar þessarar skoðunar og í flokknum eru skiptar skoðanir eins og ég hef áður rakið. Sagði Halldór ennfremur í gær að Einar Oddur geri of mikið úr kostnaðinum. Hann tjáði sig þó ekkert um málið, sem gefur til kynna að hann vilji ekki meta kostnaðinn heldur. Eins og fram hefur komið í varfærnislegum yfirlýsingum Illuga Gunnarssonar aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, hefur ekkert breyst að ráði. Hinsvegar fór ekkert á milli mála að hann talaði í véfréttastíl um málið og gaf því óneitanlega undir fótinn að það væri umdeilanlegt hvort halda skyldi ferli þess áfram. Davíð er í leyfi eins og er og mun því líklega ekkert ráðast beint um málið fyrr en við heimkomu hans í næsta mánuði. Athygli vakti óneitanlega að enginn sjálfstæðismaður tjáði sig um málið á þingi í gær. Ég tel mikilvægt að utanríkisráðherra tjái sig af krafti um málið á næstu vikum og það verði einfaldlega slegið út af borðinu og hugað að öðrum og brýnni málum. Nóg annað er mikilvægt til umfjöllunar og þeim peningum sem blasir við að eyða verði í þetta bruðl, sem umsóknin og kosningabarátta tengd henni er, er betur varið í annað. Sjálfstæðisflokkurinn og formaður flokksins eiga að hafa forystu um það að hætta við þetta framboð.

Guðmundur Árni og Ingibjörg SólrúnFramkvæmdastjórn Samfylkingarinnar ákvað endanlega í gær að flýta landsfundi flokksins til vorsins í stað þess að hann verði í nóvember eins og áður hafði verið ráðgert. Verður landsfundurinn haldinn í Reykjavík helgina 20. - 22. maí nk. Er honum flýtt til að uppgjöri milli Össurar og Ingibjargar Sólrúnar verði lokið sem fyrst. Fyrirsjáanlegt að átök milli þeirra verði harkaleg og óvægin. Hefur forsmekkurinn að því blasað við seinustu daga. Hafa margir hugsað sem svo óneitanlega að fyrst fjórir mánuðir séu til kjördags verði nóg í fréttum næstu vikurnar og barist fyrir opnum tjöldum um atkvæði flokksmanna og beitt áhrifum sínum til styrktar frambjóðendum. Greinilegt er að mjög umdeilt varð innan flokksins innkoma verkalýðshreyfingarinnar að því og lykilmanna þar. Einnig vakti athygli að Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, sagði í fjölmiðlum réttast að ekki yrði af formannskjöri og að Ingibjörg Sólrún bakkaði út til eflingar flokknum og einingunni innan hans.

Túlkast þessi orð óneitanlega sem stuðningsyfirlýsing Guðmundar Árna við Össur. Enginn vafi leikur á að andað hafi köldu milli Guðmundar og Ingibjargar og hann vilji styðja Össur og með því reyna að gera út af við pólitískan feril Ingibjargar sem vart verður lengi í forystu stjórnmálanna ef hún tapi kosningunni. Margir nefna þó þann möguleika að hann fari sjálfur fram til formennsku og splundri því upp fylginu. Blasir við að Össur og Ingibjörg hafi ekki áhuga á varaformennsku flokksins, tapi þau kosningunni um formannsembættið. Það er því endanlega ljóst að slagur þeirra um völd og áhrif innan flokksins snýst um allt eða ekkert, pólitískt líf eða dauða þeirra. Það þeirra sem tapar muni láta sviðið hinu að mestu eftir eða jafnvel víkja af vettvangi stjórnmála og verða lítt sýnilegur í forystu flokksins. Það er því ljóst að flokkurinn muni fá nýjan varaformann í kjölfar þessa og breytingar verði á forystunni því að einhverju leyti. Samfylkingin á Akureyri vill landsbyggðarvaraformann, leiða margir að því líkum að þau vilji Kristján Möller í það embætti, en vafi leikur þó á um styrk hans. Tapaði hann kosningu um ritara flokksins á seinasta landsfundi. Það verða þeir 14.000 manns sem eru skráð í flokkinn sem munu greiða atkvæði í formannskjörinu í póstkosningu. Úrslit munu verða tilkynnt í upphafi flokksþingsins. Varaformaður verður svo kjörinn á seinasta degi þingsins. Lögum flokksins var breytt á síðasta landsfundi í nóvember 2003 og því er það ekki lengur svo að formaður og varaformaður séu kjörin fyrir upphaf þingsins í póstkosningu. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með pólitíska andrúmsloftinu innan stjórnarandstöðunnar næstu vikurnar, bæði innan þings og utan, enda líklegt að harðvítug barátta um formannsembætti stærsta stjórnarandstöðuflokksins setji stóran svip á alla stjórnmálaumræðu þess tíma og yfirskyggja flest annað á meðan.

Húmorinn
CBS says that after Dan Rather steps down as CBS News anchor, they may replace him with three anchors -- one to read the news and two to check the facts.

Did you see the Clintons sitting smiling at the inauguration? Bill was sitting there wishing it was 1996 and Hillary was sitting there wishing it was 2008.

There were a total of ten balls last night and President Bush went to all ten. He even went to the Texas Air National Guard ball but no one recalls seeing him there.

If you watched it is was a very emotional moment. Laura Bush she had tears in her eyes. Barbara Bush -- his mother -- had tears in her eyes. John Kerry had tears in his eyes.

Did you see Rehnquist when he arrived? He was hunched over, wearing a black beret and a big oversized robe. In fact, Bill Clinton saw him from the back and said, 'Monica?'
Jay Leno

You know what? The inauguration was a huge success. President Bush raised 40 million dollars.

Security was tight in Washington, D.C at the inauguration. The Bush twins were stopped by margarita sniffing dogs.

You folks see the inauguration ceremony last night? George W. Bush sworn in as president? I'll tell you it is starting to look really bad for John Kerry. But it was nice to see a president put a hand on the Bible instead of an intern.

Today was President Bush's inauguration. What a great symbol for our republic, the inauguration. Everyone had a good time. Senator Ted Kennedy was in a good mood, he had a few too many cocktails and was writing his name in the snow.

All kinds of dignitaries from around the world were at the event or called President Bush. Prince Harry of England could not make it. He's busy at his mountain top bunker in Bavaria.
David Letterman

Listi yfir tilnefningar til Óskarsverðlaunanna 2005

Áhugavert efni
Spennandi kapphlaup um Óskarinn
Um valdhafana - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Glæpir í Guantanamo - pistill Sindra Guðjónssonar
Besservisserar í Brussel - pistill Þorsteins Magnússonar
Þegar Trölli stal jólunum - pistill Jóns Hákons Halldórssonar

Saga dagsins
1943 Kvikmyndin Á hverfanda hveli (Gone with the Wind) frumsýnd í Gamla bíói - sýnd tvisvar á dag í nær heilan mánuð, sem þá þótti mikið. Ein vinsælasta kvikmynd sögunnar og hlaut 8 óskarsverðlaun
1947 Mafíuleiðtoginn Al Capone lést, 48 ára að aldri - var einn frægasti glæpahöfðingi Bandaríkjanna á bannárunum og drottnaði yfir sprúttsölunni í New York. Capone var handtekinn vegna skattsvika 1931 og sat í hinu alræmda Alcatraz-fangelsi. Sleppt úr fangelsi 1939 og var lítt áberandi eftir það
1952 Sveinn Björnsson forseti Íslands, lést á Landsspítalanum, sjötugur að aldri. Þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum, 17. júní 1944, var Sveinn kjörinn fyrsti forseti Íslands á Alþingi og var tvívegis sjálfkjörinn, 1945 og 1949. Sveinn var eini ríkisstjóri Íslands 1941-1944 og sendiherra 1926-1941
1980 Kvikmyndin Land og synir var frumsýnd bæði í Reykjavík og á Dalvík. Ágúst Guðmundsson gerði hana eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar - markaði upphaf íslenska kvikmyndavorsins
1990 Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent í fyrsta skipti - Stefán Hörður Grímsson skáld, hlaut þau fyrstur fyrir ljóðabók sína, Yfir heiðan morgun. Fyrsta ljóðabók Stefáns Harðar, Glugginn snýr í norður, kom út 1946. 5 árum síðar sendi hann frá sér ljóðabókina Svartálfadans. 19 ár liðu fram að næstu ljóðabók hans, Hliðin á sléttunni, árið 1970. 11 árum síðar, 1981, kom bókin Farvegir út. Árið 1987 sendi Stefán síðan frá sér ljóðabókina Tengsl og var hún t.d. tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1989. Yfir heiðan morgun varð seinasta ljóðabók hans. Stefán Hörður lést árið 2002

Snjallyrðið
Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.

Brosir laut og leiti,
ljómar fjall og hjalli.
Lækur vætu veitir,
vökvast bakka halli.
Geislar sumarsólar
silungsána gylla
þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra (1861-1922) (Hraun í Öxnadal)


Næstu daga verð ég á Austurlandi. Mun ég nota tækifærið þar og fara á fund í fundaröð flokksins á Neskaupstað á morgun og sinna ýmsu öðru, t.d. heimsækja ættingja og vini fyrir austan. Vefurinn verður næst uppfærður er ég kem heim seinna í vikunni. Þeir sem þurfa að ná sambandi við mig á meðan ég verð fyrir austan geta hringt í símanúmer mitt, 847-8492.

með kveðju, SFS

24 janúar 2005

Sameinuðu þjóðirnarHeitast í umræðunni
Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta vakið miklar deilur og er alveg ljóst að ekki er samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Í fréttum um helgina tjáði Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar þingsins, eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Segir hann kostnað við hana getað farið yfir einn milljarð króna þegar allt er talið með. Vill hann að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, dragi umsóknina til baka. Sagði Einar Oddur við sama tækifæri að sér þættu litlar líkur á að Íslendingar myndu ná kosningu. Sagði Einar að utanríkisþjónustan væri nú þegar orðin of dýr og rétt væri að íhuga betur málið áður en lengra væri haldið. Er ég alveg innilega sammála Einari Oddi. Hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur í því.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Eins og fram hefur komið að hálfu okkar í stjórn og utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna, og ítrekað í stjórnmálaályktunum sambandsþings í Borgarnesi 2003 og málefnaþings á Selfossi 2004, þykir ungum sjálfstæðismönnum skorta á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Sannast hefur svo ekki verður um villst að utanríkismálin verða sífellt viðameiri málaflokkur og útþensla málaflokksins hafi verið þónokkur. Það er ekki laust við að sú spurning vakni hvort þörf sé fyrir alla þessa miklu yfirbyggingu í utanríkisráðuneytinu í formi sendiráðanna og svo ekki síst þessi kosningabarátta um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Nú er að störfum starfshóp sem skila á tillögum um hagræðingu í utanríkisþjónustunni. Er ætlunin með því að ná fram sem mestri hagræðingu með tilfærslu starfsmanna og fjármuna innan ráðuneytis og sendiskrifstofa. Hefði það átt að hafa gerst fyrir margt löngu. En eftir stendur að taka þarf mál öryggisráðsumsóknarinnar til endurskoðunar og fara betur yfir það og helst hætta við hana að óbreyttu. Fór ég yfir stöðu utanríkismálanna í ítarlegum pistli við ráðherraskiptin í utanríkisráðuneytinu, haustið 2004, og bendi á hann.

AlþingiAlþingi kom saman að nýju í dag eftir rúmlega mánaðarleyfi. Við upphaf þinghalds í dag var fyrirspurnartími ráðherra og var um margt rætt. Eins og venjulega var mikið rætt um Íraksmálið. Virðist svo vera að það sé eina málið sem stjórnarandstaðan getur náð samstöðu um að tala um og náð samhljómi í. Krafðist formaður Samfylkingarinnar í upphafi að trúnaði yrði aflétt af fundabókum utanríkismálanefndar í aðdraganda innrásarinnar í Írak fyrir tveim árum. Er þessi beiðni allundarleg í ljósi þess að trúnaði hefur þegar verið aflétt með leka í fjölmiðla. Eins og sást af forsíðufrétt Fréttablaðsins á föstudag komst blaðið yfir fundagerðarbækur þar. Annaðhvort hefur nefndarmaður eða starfsmaður þingsins lekið þessu eða þá að þeim hefur einfaldlega verið stolið. Mjög mikilvægt er að fá úr þessu skorið og leiða í ljós hvaðan lekinn kemur. Hefur svona nokkuð gerst áður, nægir að nefna að stefnuræðu forsætisráðherra var lekið, bæði 2003 og 2004 og birtist efni hennar í fjölmiðlum áður en hún var flutt opinberlega.

Verður reyndar merkilegt að fylgjast með Samfylkingunni þessa fyrstu þingdaga. Allt virðist þar krauma undir niðri af óánægju og biturð vegna formannsslagsins í flokknum, þar sem formaður og varaformaður flokksins munu berjast um formannsstólinn. Hefur það sést vel seinustu daga að öllu á að beita í slagnum, öll brögð virðast vera gild í því. Hef ég áður fjallað um það hvernig verkalýðsarmi flokksins á að beita í nafni Ingibjargar Sólrúnar og vinna í haginn fyrir hana gegn Össuri. Sérstaka athygli vöktu hvöss ummæli framkvæmdastjóra ASÍ í hádegisfréttum RÚV í gær í garð formanns flokksins, var ekki betur hægt að heyra en að hann væri að tala í nafni verkalýðshreyfingarinnar beint. Sagði hann t.d. að verkalýðshreyfingin myndi fylkja sér að baki nýjum formanni Samfylkingarinnar, hver sem hann yrði, en að stuðningur hennar við Ingibjörgu Sólrúnu væri ótvíræður. Eru þetta undarleg ummæli af embættismanni í hreyfingunni, sem ekki hefur verið kjörinn fulltrúi verkalýðsfélaga beint. Nú hafa sex aðilar í forystu verkalýðshreyfinga og allir fulltrúar í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að skoðanir framkvæmdastjórans séu ekki skoðanir verkalýðsmálaráðsins. Össur kom fram í fréttum í gær og sagði þar að stuðningsmenn Ingibjargar hefðu seinustu daga ráðist að sér með grófari og persónulegri hætti en andstæðingar hans í pólitík hefðu nokkru sinni gert. Er ljóst að mikil harka er hlaupin í þetta formannskjör og stefnir í harkalega baráttu um völd og áhrif milli valdatvíeykisins svokallaða hjá Samfylkingunni. Er barist um allt eða ekkert hjá báðum aðilum.

Sir Alfred Hitchcock (1899-1980)Hitch átti mest skilið að fá óskar
Skv. niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var meðal kvikmyndagerðarmanna, er breski kvikmyndaleikstjórinn Sir Alfred Hitchcock sá kvikmyndagerðarmaður sem helst átti skilið að hljóta Óskarsverðlaunin á ferli sínum. Hitchcock var 6 sinnum á sínum glæsilega leikstjóraferli tilnefndur til leikstjóraverðlaunanna hjá bandarísku kvikmyndaakademíunni á tímabilinu 1941-1961, en vann aldrei. Hann var tilnefndur fyrir Rebeccu, Suspicion, Lifeboat, Spellbound, Rear Window og Psycho. Næstir í kjörinu komu Martin Scorsese og Stanley Kubrick. Scorsese hefur fimm sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna en gæti mögulega unnið þau á þessu ári ef hann fær tilnefningu fyrir The Aviator, eins og flest bendir til. Á lista yfir karlleikara sem helst á skilið verðlaunin er efstur Samuel L. Jackson og í hópi leikkvenna varð Demi Moore efst. Kemur valið á Moore nokkuð óvænt, enda hefur hún aldrei hlotið tilnefningu til verðlaunanna, ólíkt Hitchcock og Jackson, og hún notið lítillar hylli hjá gagnrýnendum. Valið á Hitchcock kemur ekki á óvart. Hann hefur reyndar alla tíð verið minn uppáhaldsleikstjóri. Á ég flestar af kvikmyndum hans og hef notið þeirra mjög í gegnum árin.

Hitch, eins og hann var jafnan kallaður, var án nokkurs vafa meistari spennumyndanna. Árið 1922 fékk hann fyrsta leikstjórnarverkefni sitt upp í hendurnar, Number 13, en myndin var aldrei kláruð. Eftir það fékk hann vinnu hjá Gainsborough Pictures sem handritshöfundur og listrænn stjórnandi. Með því hófst magnaður leikstjóraferill hans sem stóð í 55 ár. Það var árið 1925 sem hann leikstýrði fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, The Pleasure Garden. Fyrstu stórmynd sinni leikstýrði hann árið 1927, The Lodger. Myndin þótti óvenjuleg og nýstárleg spennumynd og markaði viss þáttaskil í frásögn í spennumyndum. Alfred Hitchcock sló í gegn í kjölfarið. Á næstu árum gerði leikstjórinn hverja myndina á fætur annarri og markaði sér ógleymanlegan sess í kvikmyndasöguna. Hitchcock hlaut aldrei leikstjóraóskarinn á ferli sínum, sem hefur jafnan þótt einn mesti skandall kvikmyndaakademíunnar. Hann hlaut þó Irving G. Thalberg leikstjóraverðlaunin, fyrir ævistarf sitt til kvikmyndagerðar, á óskarsverðlaunahátíðinni 1967. Hann varð þekktur fyrir að birtast í kvikmyndum sínum í eigin persónu, oftast var það í upphafi þeirra "til að spilla ekki fyrir söguþræðinum" eins og hann sagði sjálfur. Ferill Hitchcocks er einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar. Meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Ég skrifaði ítarlegan pistil um feril hans í desember 2003, þar sem ég fór yfir ævi hans og leikstjóraferil, en hann leikstýrði rúmlega 70 kvikmyndum á sínum ferli.

Áhugavert efni
Hræringar í Framsókn - pistill Stefáns Fr. Stef.
Halldór Blöndal forseti Alþingis, á Morgunvaktinni
Um forsætisráðherrabókina - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Fara hagnaður og heiðarleiki saman? - pistill Sigþrúðar Ármann
Johnny Carson látinn - kveðjukynning Johnny Carson - 22. maí 1992
Rose Mary Woods, sem var einkaritari Richard Nixon í forsetatíð hans, látin

Saga dagsins
1855 Kirkjan að Hvanneyri á Siglufirði fauk af grunni sínum og lenti hún á hliðinni í kirkjugarðinum
1908 Konur voru kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur í fyrsta sinn - listi þeirra hlaut fjóra fulltrúa af 15
1965 Sir Winston Churchill fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést, níræður að aldri. Churchill var einn eftirminnilegasti stjórnmálamaður Breta á 20. öld og var forsætisráðherra 1940-1945 og 1951-1955
1985 Jón Páll Sigmarsson, sigrar, fyrstur Íslendinga í keppninni Sterkasti maður alheims. Jón Páll vann keppnina alls fjórum sinnum á sínum glæsilega ferli. Jón Páll varð bráðkvaddur í janúar 1993
1989 Fjöldamorðinginn Ted Bundy, sem myrti a.m.k. 30 konur svo vitað væri með vissu en er talinn hafa myrt yfir 100 manns alls, var tekinn af lífi í rafmagnsstólnum í alríkisfangelsinu í Flórída-fylki

Snjallyrðið
Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Dans gleðinnar)

23 janúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um valdaátökin í Samfylkingunni, en formannsslagur milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar er hafinn af fullum krafti þar og virðist sem svo að öllum brögðum muni nú beitt í þessum harðvítugu átökum um völd og áhrif á vinstrivæng stjórnmálanna. Bæði eru að berjast fyrir pólitísku lífi sínu á komandi árum. Fyrstu augljósu merki þess að allt, nákvæmlega allt verður sett í baráttuna birtust í fréttum fjölmiðla í gær er verkalýðshreyfingin kom sér í fréttirnar og minnti á hlutverk Össurar í eftirlaunamálinu og að hann væri óhæfur bæði sem leiðtogi flokksins og gæti ekki leitt flokkinn til stjórnarforystu. Jafnframt kom fram að forystumenn í verkalýðshreyfingunni hefðu í hyggju að halda fund til að ræða hvort þeir ættu að beita sér í þágu Ingibjargar Sólrúnar í væntanlegu formannskjöri. Nú á greinilega að nota allt gegn Össuri til að grafa undan stöðu hans og menn komnir í fortíðargírinn greinilega. Verkalýðsarmurinn er orðinn eins og pólitískur hluti innan flokksins og beitir sér af krafti í sínu nafni í leiðtogakjöri og valdabaráttu beint. Virðist ASÍ vera pólitísk hreyfing, enda sat forseti ASÍ fund norrænna jafnaðarmannaleiðtoga í Viðey í ágúst í fyrra, enda ASÍ með aðild að bandalagi norrænna krataflokka. Alveg kostulegt.

Seinustu vikuna hefur enn og aftur verið deilt um Íraksmálið, fjalla ég um stöðu mála í því í ljósi frétta um að margnefndur listi sé löngu dottinn uppfyrir og að auglýsingaherferð svokallaðrar Þjóðarhreyfingar virðist hafi verið skot í myrkrinu. Frétt um helgina þess efnis að listinn sé svo ekki lengur til af hálfu bandarískra stjórnvalda undirstrikar endanlega á hvaða villigötum svokölluð Þjóðarhreyfing og stjórnarandstaðan hefur verið í málinu. Hafa sömu spekingar og reyna að teygja þetta mál fram og aftur reynt að láta líta svo út fyrir að pólitískir forystumenn landsins hafi ekki mátt taka þá ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við innrásina. Eitthvað sljákkaði í þeim eftir að Eiríkur Tómasson forseti lagadeildar Háskólans, birtist í fréttum og lýsti því yfir að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu haft fulla lagalega heimild til þess að taka einir þá ákvörðun að styðja innrás Bandamanna í Írak. Hægt er því að fullyrða með sanni að fjarað hafi allhressilega undan málflutningi viðkomandi aðila í málinu sem hömuðust gegn stjórnvöldum. Niðurlæging þeirra sem stóðu að baki auglýsingunni í NY Times er því algjör og er ekki annað hægt að segja en að það sé neyðarlegt fyrir Ólaf Hannibalsson og félaga hans í hreyfingunni að reyna að snúa sér frá málinu án þess að missa algjörlega andlitið. Staðreyndin er sú að þeir og stjórnarandstaðan öll reyndar hafa algjörlega orðið að athlægi nú á seinustu dögum og vikum með málflutningi sínum. Að lokum fjalla ég um stöðu Bush forseta, en hann sór embættiseið öðru sinni í vikunni.

Johnny Carson (1925-2005)Johnny Carson látinn
Bandaríski spjallþáttastjórnandinn Johnny Carson er látinn, 79 ára að aldri. Hann fæddist í Iowa, 23. október 1925. Hann vann næstum alla ævi sína sem grínisti í sjónvarpi eða stjórnandi í spjallþáttum. Hann hóf feril sinn hjá sjónvarpsstöðum í Nebraska, þar sem hann bjó lengi, á fimmta áratugnum. Hann var skemmtikraftur á mörgum sjónvarpsstöðvum eftir það vítt um landið og var alla tíð þekktur fyrir leiftrandi húmor og skemmtilegt glott sem fékk alla til að brosa. Hann hóf feril sinn sem spjallþáttastjórnandi í þættinum 'The Tonight Show' hjá NBC, 2. október 1962. Hann var alla tíð mjög vinsæll og hélt sínum áhorfendafjölda og vinsældum allt til loka. Hann var einkar laginn við að hitta á góða punkta í gríni, og náðu þeir hæfileikar eflaust hámarki í Watergate-málinu í upphafi áttunda áratugarins. Brandarar hans um Nixon og þátt hans og nánustu samstarfsmanna í málinu vöktu mikla athygli og gleði fólks um allan heim. Árið 1980 lenti Carson í deilum við stjórnendur NBC er ákveðið var að stytta þáttinn úr 90 mínútum í klukkutíma, en þau leystust farsællega.

Hann fékk marga til að hlaupa oft í skarðið og meðal helstu gestastjórnenda þáttarins voru Joan Rivers, Jerry Lewis og Jay Leno, sem tók við þættinum við starfslok hans. Á níunda áratugnum náðu vinsældir Carson hámarki. Hann fékk metupphæð fyrir þáttinn og brandarar hans um Reagan forseta, þóttu í senn alveg kostulegir og hitta vel í mark. Sjálfur sagði Reagan eitt sinn að sinn óvægnasti andstæðingur á vettvangi stjórnmála væri Johnny Carson, sem þótti til marks um hversu demókratar væru lélegir í stjórnarandstöðunni. Er leið að lokum níunda áratugarins tilkynnti Carson að hann myndi ekki endurnýja samning sinn við stöðina og hann yfirgaf þáttinn eftir þriggja áratuga feril að kvöldi 22. maí 1992. Þá hafði hann stýrt 4.531 þáttum. Miklar deilur urðu um hver ætti að taka við forystu þáttarins sem ákveðið var að myndi halda áfram án hans. Jay Leno og David Letterman börðust hatrammlega um að taka við af Carson. Fór það svo að Leno vann það kapphlaup og hann tók við í maílok 1992 en Letterman fór á CBS. Eftir að Carson hætti á NBC dró hann sig algjörlega í hlé og var lítið sýnilegur í skemmtanabransanum en veitti stöku sinni viðtöl. Hans verður minnst fyrir líflega og hressilega brandara sem hittu í mark og kætti fólk um allan heim. Hann var einstakur grínisti.

Saga dagsins
1907 Togarinn Jón forseti, sem var fyrsti botnvörpungurinn sem Íslendingar smíðuðu, kom til landsins
1973 Eldgos hófst í Heimaey, um kl. 2 að nóttu - eldur og eimyrja vall upp úr tveggja kílómetra langri eldgjá sem myndast hafði. Langflestir af 5.500 íbúum Vestmannaeyja voru fluttir til lands á örfáum klukkutímum. Miklar skemmdir urðu fyrstu daga gossins er hluti bæjarins varð undir hrauninu. Um tíma leit út fyrir að höfnin myndi lokast af völdum gossins en svo fór ekki. Gosið stóð allt fram í júní
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, lýsir því yfir að náðst hafi friðarsamningur í Víetnam - hann var undirritaður í París síðar sama dag og tók gildi á miðnætti 27. janúar - stríðinu lauk 1975
1981 Tilkynnt var að Snorri Hjartarson hefði hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína, Hauströkkrið yfir mér. Snorri var eitt af bestu ljóðskáldum landsins á öldinni. Hann lést 1986
1997 Madeleine Albright varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrst kvenna - sat í embætti til 2001

Snjallyrðið
Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.

Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.

Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vornótt)

21 janúar 2005

George Walker Bush og Laura Welch BushHeitast í umræðunni
George Walker Bush forseti Bandaríkjanna, sór í gær embættiseið og hefur því hafið seinna kjörtímabil sitt í embætti. Embættistakan var að venju stórglæsileg og mjög til hennar vandað að öllu leyti. Eins og ég sagði frá í gær var undirbúningur fyrir hana að hefjast þegar ég var í Washington í októbermánuði og var mjög merkilegt að sjá að þá þegar væri vinna hafin við uppsetningu pallana fyrir utan þinghúsið og fleira sem tengdist þessu. Þessi stutta athöfn skiptir Bandaríkjamenn miklu, enda er embættistaka forseta mikilvæg fyrir landið í heild sinni og stjórnskipan þess. William Rehnquist forseti Hæstaréttar, stjórnaði embættistökunni og setti forsetann inn í embætti að nýju. Var þetta í fyrsta skipti í þrjá mánuði sem Rehnquist kom fram opinberlega, en hann hefur verið í veikindaleyfi síðan í október er hann greindist með krabbamein í skjaldkirti. Var Rehnquist mjög veiklulegur við athöfnina og augljóst að hann hefur látið mjög á sjá vegna veikinda sinna. Er almennt talið nær öruggt að hann láti af embætti síðar á þessu ári. Hafa aðeins tveir forsetar Hæstaréttar orðið eldri í embætti en hann, en hann varð áttræður í fyrra. Bendir flest til þess að annaðhvort muni Antonin Scalia eða Clarence Thomas taka við stjórn réttarins, en báðir eru tryggir repúblikanar. Skipan Thomas yrði söguleg, enda yrði hann fyrsti blökkumaðurinn á forsetastóli. Sú skipan yrði jafnframt umdeild, enda var mjög deilt um skipan hans í réttinn árið 1991 vegna máls Anitu Hill sem sakaði hann um kynferðislega áreitni, í vitnisburði í staðfestingarferli hans fyrir öldungadeildinni eins og sögulegt varð.

Í ræðu sinni að embættistökunni lokinni sagði Bush forseti að mikilvægt væri að halda áfram stríðinu gegn hryðjuverkaöflum í heiminum, og lýsti hann því yfir að til að tryggja frelsi í heimalandinu yrði sífellt mikilvægara að afla frelsinu fylgis í öðrum löndum. Forsetinn nefndi Írak ekki á nafn í ræðunni og notaði aldrei orðið hryðjuverk heldur. Orðrétt sagði hann að svo lengi sem heilu heimshlutarnir væru undirlagðir af óánægju og harðræði myndi steðja ógn að Bandaríkjunum. Rás atburða og heilbrigð skynsemi leiddi Bandaríkjamenn einungis að einni niðurstöðu, og hún væri með þeim hætti að þeirra eigin frelsi væri sífellt meira komið undir því að frelsi ríkti meðal annarra þjóða. Var frelsið og lýðræði megininntak ræðunnar og mikilvægi þess að standa vörð um það. Er það mjög gott inntak og ættu flestir ef ekki allir friðelskandi menn að geta tekið undir mikilvægi þess að frelsi og lýðræði sé allsstaðar við lýði. Var mjög merkilegt að heyra viðbrögð vinstrimanna við ræðu forsetans. Demókratar sögðu eftir embættistökuna að ljóst væri af þessu að forsetinn væri að leggja drög að innrás í tvö af öxulveldunum frægu, Íran og N-Kóreu. Hræðsluáróður demókrata er alkunnur og er vart undarlegur ef litið er á pólitíska stöðu þeirra. Flokkurinn er að mestu í pólitískri eyðimörk og hlaut herfilega útreið í seinustu þingkosningum, svo ekki sé nú talað um forsetakjörið. Þeir sem eru andsnúnir hinum réttkjörna forseta Bandaríkjanna og ríkisstjórn hans eiga ekki að láta hatur sitt á persónu forsetans blinda sér sýn í því sem framundan er. Öll eigum við að geta verið sammála um að frelsi einstaklings og lýðræðisþróun sé mikilvæg. Ef við getum ekki sameinast um þessi hugtök er illa komið fyrir fólki almennt. Einræði og ógnarstjórnir eiga aldrei að verða sjálfsagður hlutur. Að embættistökunni lokinni snæddi forsetinn með gestum við athöfnina í þinghúsinu og að því loknu héldu forsetahjónin í hin fjölmörgu boð sem skipulögð höfðu verið víðsvegar um borgina. Hæst þeirra bar hinn frægi Commander-in-Chief dansleikur. Þar tóku forsetahjónin sporið og dönsuðu inn í nóttina að loknum ánægjudegi í lífi þeirra.

Bobby FischerEins og frægt varð undir lok seinasta árs ákváðu íslensk stjórnvöld að veita Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hér á landi en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Japan frá því um miðjan júlímánuð. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, en þar á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að hafa brotið viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad árið 1992. Síðan hefur Fischer verið á flótta og ekki farið til Bandaríkjanna. Seinasta mánuðinn höfðu japönsk yfirvöld melt stöðuna og velt fyrir sér næstu skrefum, hvort framselja skyldi Fischer til Íslands. Á fimmtudag tilkynnti dómari í Japan að Fischer myndi ekki verða fluttur til Íslands að óbreyttu. Hann fengi aðeins að fara þangað ef skákmeistarinn hlyti íslenskan ríkisborgararétt. Í kjölfar þessa skrifaði Fischer bréf til Alþingis og bað formlega um íslenskan ríkisborgararétt. Fischer stenst ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer.

Lýsti ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styddu við bakið á Fischer og myndu aðstoða hann við það að koma fótunum undir sig og líf sitt aftur, með því að veita honum dvalarleyfi hér. Ég er hinsvegar algjörlega andsnúinn því að honum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með þeim hætti sem um er rætt. Ég er almennt séð ekki mjög hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Fyrir eru mjög góðar reglur um veitingu hans og þurfa að vera mjög gild rök fyrir því að veita undanþágu. Ég sé ekki þörfina á að veita honum ríkisborgararétt umfram reglurnar sem fyrir hendi eru, en hann stenst þau ekki eins og fyrr er sagt. Er ómögulegt að mínu mati að afgreiða þetta sem einangraðan hlut, og án þess að skapa þá fordæmi fyrir fleiri að sækja um slíkt og fá ríkisborgararétt með sama hætti. Ég er því mjög andsnúinn því að Íslendingar aðstoði Fischer umfram það sem gert var með því rausnarlega boði að veita honum landvistarleyfi. Það er rétt að aðstoða skákmeistarann með öllum mögulegum hætti og það sem stenst lög almennt, en aðstoð við hann verður að vera fær á efnislegum og málefnalegum forsendum, ekki með tilfinningarökum einvörðungu. Afstaða mín persónulega til málsins er því alveg skýr.

Húmorinn
President Bush is being criticized because his inaugural celebration cost $40 million. When asked about it, the president said, 'Sorry, but my daughters insisted on an open bar.'

Security is a big issue this year. So the Secret Service announced that people attending President Bush's inaugural ceremony will not be allowed to bring coolers or alcoholic beverages. In other words, the Bush twins will not be going.
Conan O'Brien

News from Washington -- Condoleezza Rice ... says there are no plans to invade North Korea, which can only mean one thing - they don't have any oil.

So everything is being done to assure a smooth passage. I'm starting to worry about President Bush again, when he was told that Condoleezza Rice had been confirmed today he said 'I didn't even know she was Catholic.

Washington DC is on high alert for this week's inaugural event for President Bush. Anti-aircraft missals have been deployed near the capitol. F-16's are patrolling around the clock and every bartender in town is on strict orders -- do not serve the Bush twins.
Craig Ferguson

It was so cold that for the inauguration they may need to use jumper cables to start both the president's limo and Dick Cheney.

President Bush gave a speech honoring the life of Martin Luther King today. And then he said, Mr. King hosts my favorite CNN show.

Bush says being re-elected, he doesn't have the same pressure as the first time. He said he wants to enjoy himself in the Oval Office this time. Not as much as Clinton enjoyed himself.

According to the New York Post both Al Gore and John Kerry are planning on running for president in 2008. Gore and Kerry - again experts say it is to early to say who would loose bigger.

President Bush told the reporter that he saw his re-election as the approval by the American people to continue the war in Iraq. Kind of like how Clinton thought his re-election meant the American people wanted him to continue cheating on Hillary.
Jay Leno

Áhugavert efni
Umfjöllun um dóm Hæstaréttar
Davíðs Stefánssonar skálds minnst á Vef-Þjóðviljanum
SUS hvetur Þorgerði Katrínu til að leggja fram frumvarp
Frelsisdeildin heldur áfram á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna
Stóryrðaskrif Jónasar Kristjánssonar tekin í gegn - pistill Vef-Þjóðviljans

Saga dagsins
1886 Bergur Thorberg landshöfðingi, lést, 57 ára að aldri - hann hafði verið landshöfðingi í fjögur ár en var áður amtmaður. Eftirmaður Bergs varð Magnús Stephensen - var hann seinasti landshöfðinginn
1918 Mesta frost í Reykjavík til þessa, -24°C, mældist þennan dag. Miklir kuldar voru snemma ársins um allt land og hefur síðan mjög almennt verið talað um frostaveturinn mikla til að lýsa kuldanum þá
1924 Vladimir Lenin leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, lést, 53 ára að aldri. Lenín hafði verið leiðtogi Sovétríkjanna frá 1917 og var pólitískur leiðtogi kommúnista í byltingunni. Eftirmaður hans i embætti varð Josef Stalin. Lík Leníns er smurt dag hvern og hefur verið varðveitt í grafhýsi í Kreml
1959 Kvikmyndaleikstjórinn Cecil B. DeMille lést, 77 ára að aldri, úr hjartasjúkdómi. Hann var einn áhrifamesti leikstjórinn á gullaldardögum Hollywood og var valdamikill í kvikmyndabransanum
1981 Gíslarnir 52 sem haldið var föngnum í sendiráði Bandaríkjanna í Teheran í Íran var sleppt. Þeim var haldið í tæpa 14 mánuði eða allt frá því að uppreisnin gegn Íranskeisara hófst. Eftir embættistöku Ronald Reagan, 20. janúar 1981, náðist samkomulag um lausn þeirra og þeim var loksins veitt frelsi

Snjallyrðið
Ég er friðlausi fuglinn,
sem fæddist með villtri þrá,
sem elskar heiðingjans himin
og hamrafjöllin blá.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem frelsinu mikla ann,
sem hatrið gerði að hetju
og heimskan söng í bann.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem forðast að leita í skjól,
þó kaldan blási um brjóstið,
og bregðist vor og sól.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem flýgur í norðurátt,
er syngjandi svanir líða
suður um heiðið blátt.

Ég er friðlausi fuglinn
sem finnur sinn villta þrótt.
Í hjartanu hálfu er dagur,
en hálfu kolsvört nótt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Friðlausi fuglinn)


Myndir frá embættistöku George Walker Bush
George W. Bush sver embættiseið öðru sinni

George W. Bush sver embættiseið öðru sinni

Bush forseti gleðst með fjölskyldu sinni

Bush forseti flytur ræðu sína

Bush forseti flytur ræðu sína

Forsetinn hallar sér aftur í sæti sínu

Forsetahjónin ganga niður Pennsylvania-breiðstræti

Laura Welch Bush og George Walker Bush

Laura Welch Bush og George Walker Bush dansa á Commander-in-chief dansleiknum í Washington

20 janúar 2005

Hvíta húsiðHeitast í umræðunni
George Walker Bush mun í dag sverja embættiseið sem forseti Bandaríkjanna, öðru sinni. Með því verður hann nítjándi forseti landsins sem sver embættiseiðinn öðru sinni og mun ef hann situr allt til loka kjörtímabilsins, 20. janúar 2009 verða sá 11. sem situr í embætti heil tvö tímabil, 8 ár samtals. Bush var kjörinn forseti í fyrra skiptið 7. nóvember 2000. Deilt var um sigur Bush í 36 daga, munaði litlu á honum og mótframbjóðandanum Al Gore í Flórída-fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur í upphafi en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra. Munaði nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni. Að lokum fór svo að hæstiréttur staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi því ósigur sinn eftir lagaflækjurnar, hlaut Bush 271 kjörmann en Gore 267. Annað var upp á teningnum í forsetakosningunum 2. nóvember 2004. Þá sigraði Bush með afgerandi hætti og hlaut 286 kjörmenn á móti 252 sem John Kerry hlaut. Sigraði Bush með þriggja prósentustiga mun þá, hlaut afgerandi umboð.

Mikið verður um dýrðir í Washington í dag við embættistökuna. Reiknað er með því að athöfnin muni í heildina kosta 40 milljónir dollara, eða 2,5 milljarða íslenskra króna. Athöfnin sem slík er í rauninni mjög einföld og tekur aðeins nokkrar mínútur, sem er skondið miðað við allan tilkostnaðinn. Í upphafi mun Dennis Hastert forseti fulltrúadeildarinnar, stjórna innsetningu varaforseta og mun Dick Cheney taka við embætti öðru sinni. Er þetta aðeins í fjórða skiptið sem þingforseti stjórnar þessu verki, en áður var það forseti Hæstaréttar sem setti bæði forseta og varaforseta inn í embætti. Að því loknu mun forsetinn stíga fram á svalir þinghússins, leggja aðra hendi sína á biblíu sem eiginkona hans, Laura Welch Bush, heldur á og heldur annarri hendi uppi meðan William Rehnquist forseti Hæstaréttar, les embættiseiðinn sem Bush endurtekur. Tekur þetta ferli aðeins um tæpa mínútu, en að því loknu flytur forsetinn ræðu. Allt frá stofnun Bandaríkjanna hefur embættiseiðurinn verið eins og athöfnin svipuð að uppbyggingu. Vafi lék lengi á því hvort Rehnquist myndi stjórna athöfninni, en hann gekkst undir aðgerð vegna krabbameins í skjaldkirtli í október. Hafa margar sögur borist af heilsufari hans og er almennt talið að hann muni víkja úr réttinum á þessu ári. Mun þá forsetinn væntanlega skipa sinn fyrsta dómara við réttinn. Innsetningarathöfn forseta Bandaríkjanna er tilkomumikil stund. Í ferð minni til Washington í haust fórum við í þinghúsið. Sérstaklega ánægjulegt var að standa á svölunum þar sem athöfnin fer fram. Þar er heillandi útsýni yfir til Washington Monument, Lincoln Memorial og yfir miðborg Washington. Var þá undirbúningur fyrir athöfnina þegar hafinn, þó kosningarnar væru ekki einu sinni yfirstaðnar.

Ítarleg umfjöllun um embættistöku George Walker Bush
Bush-fjölskyldan ein af valdamestu stjórnmálaættum sögunnar
Powell kveður utanríkisráðuneytið - dagskrá embættistöku Bush forseta

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraEins og vel hefur komið fram í fréttum er greinilegur titringur innan Framsóknarflokksins vegna Íraksmálsins. Umfram allt tengjast þessi átök á bakvið tjöldin nú ekki því máli beint í raun heldur valdaátökum um forystu flokksins sem eru ekki að byrja á þessum tímapunkti. Það er ekkert nýtt að átök séu milli Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, og Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra. Eins og öllum er kunnugt sem fylgst hafa með stjórnmálum varð Guðni á sínum tíma fúll með að fá ekki ráðherrastól strax árið 1995, eftir góðan árangur í sínum fyrstu kosningum sem leiðtogi flokksins í Suðurlandskjördæmi. Reyndar munaði þá litlu að Guðni myndi verða 1. þingmaður Suðurlandskjördæmis og næði þeim sess af Þorsteini Pálssyni þáverandi ráðherra. Síðan þá hefur Guðni verið rísandi stjarna innan flokksins, varð ráðherra eftir þingkosningar vorið 1999. Er einn nánasti samstarfsmaður Halldórs, varaformaðurinn Finnur Ingólfsson, hætti afskiptum af stjórnmálum í árslok 1999 greip Guðni tækifærið í tómarúminu sem hann skildi eftir sig og gaf kost á sér til varaformennsku á næsta flokksþingi.

Ekki má gleyma því að Halldór studdi Jónínu Bjartmarz í varaformannskjörinu á þeim tíma. Guðni vann Jónínu og Ólaf Örn Haraldsson, sem varð forystumaður flokksins í RVK við brotthvarf Finns, með afgerandi hætti. Innsti kjarni Halldórsmanna studdi hana en Guðni hafði yfirgnæfandi stuðning af landsbyggðinni. Reyndar varð síðar vík milli vina þegar Jónína fékk ekki ráðherrastól eftir kosningarnar 2003 og einn nánasti samstarfsmaður Halldórs, Árni Magnússon varð félagsmálaráðherra í stað Páls Péturssonar. Leiddi það til deilna enda taldi Jónína sig eiga rétt á stólnum, enda leiðtogi í Reykjavíkurkjördæmi suður og hafði setið á þingi í þrjú ár, en hún tók við þingmennsku af Finni, en Árni komst inn á lokatölum að morgni 11. maí 2003 og felldi reyndar hið margfræga forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar eins og frægt varð. Árni var þá nýr í landsmálum og aldrei setið á þingi áður. Síðan þá hefur Árni verið krónprins flokksins og leiða má líkum að því að merkileg ummæli Guðna nú hafi einmitt verið sett fram til að verja stöðu sína og hindra að Árni færi í framboð gegn sér. Kostulegt er allavega að fylgjast með stöðu mála og segja má að það sé sögulegt að formaður flokks og forsætisráðherra gefi út frá sér sérstaka fréttatilkynningu til að verjast ummælum sem koma frá varaformanni viðkomandi flokks og samstarfsmanni á þingi í tæp 20 ár. Þetta segir pólitískum áhugamönnum auðvitað bara eitt um stöðu mála.

Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964)Á ljóðsins vængjum - Davíð Stefánsson
Á morgun eru 110 ár liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hans verður minnst með ýmsum hætti af hálfu menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, Héraðsskjalasafnsins og Karlakórs Akureyrar-Geysis. Á morgun opnar kl. 17:00 sýning á verkum, bréfum og munum úr fórum Davíðs á Amtsbókasafninu, en Davíð var lengi bókavörður þar. Bygging safnsins sem vígð var á sjöunda áratugnum var helguð minningu Davíðs. Á sýningunni verða t.d. sýnd bréf sem fóru milli Davíðs og Önnu Z. Osterman, sendikennara frá Svíþjóð, sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings áður. Sá bréfapakki var lokaður og innsiglaður til ársins 2000. Þarna verða einnig sýndir óopnaðir bréfapakkar frá Davíð, m.a. pakkar sem að óbreyttu má ekki opna fyrr en eftir tvær aldir. Sýningin er á vegum Héraðsskjalasafnsins á Akureyri og Amtsbókasafnsins.

Hátíðartónleikar verða í Glerárkirkju annað kvöld kl. 20.30. Á þeim mun Karlakór Akureyrar - Geysir flytja allar helstu söngperlur Davíðs. Einsöngvarar á tónleikunum verða m.a. Óskar Pétursson, Alda Ingibergsdóttir og Hulda Garðarsdóttir. Auk þeirra munu kórfélagar syngja einsöng, einnig munu dúett og kvartett koma fram. Kórinn mun síðar á þessu ári gefa út geisladisk í tilefni af afmæli skáldsins. Á tónleikunum verður frumflutt lag við ljóð Davíðs, Fögur er hlíðin, en lagið er eftir kórfélagann Jónas Jóhannsson. Á laugardag verður haldið málþing um Davíð í Ketilhúsinu í Listagili. Fjallað verður um Davíð frá mörgum sjónarhornum, verk hans, einstök ljóð, tónlistina við ljóðin og síðast en ekki síst persónuna á bakvið nafnið, skáldið sjálft. Við hæfi er að við Akureyringar og landsmenn allir heiðrum minningu Davíðs á þessum degi og nú um helgina. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Að mínu mati hefur engu íslensku skáldi tekist betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð var einstakur.

Saga dagsins
1936 George V. Englandskonungur, lést, sjötugur að aldri - sonur hans, Edward VIII tók við embætti. Hann sagði af sér í desember 1936, vegna ástarsambands síns við bandaríska tvífráskilda konu, Wallis Warfield Simpson, en hann varð að velja á milli konungdæmisins og hennar. Edward varð hertogi af Windsor við valdaafsalið, en bróðir hans, George VI. tók þá við krúnunni. Wallis og Edward kvæntust sumarið 1937. Hertogahjónin töluðu ekki við meðlimi konungsfjölskyldunnar til fjölda ára og bjuggu í Frakklandi í útlegð til dánardags. Edward lést árið 1972 en Wallis árið 1986. Þau hvíla bæði í Windsor
1937 Franklin D. Roosevelt sver embættiseið sem forseti Bandaríkjanna, öðru sinni. Það var í fyrsta skipti sem embættistaka forseta landsins fór fram 20. janúar. Áður hafði hún alltaf farið fram 4. mars. Forsetakjör í Bandaríkjunum fer alltaf fram fyrsta þriðjudag í nóvembermánuði á fjögurra ára fresti
1957 Vilhjálmur Einarsson kjörinn íþróttamaður ársins 1956 - þetta var í fyrsta skipti sem samtök íþróttafréttamanna völdu íþróttamann ársins. Vilhjálmur vann titilinn sex fyrstu árin sem hann var veittur. Sonur hans, Einar Vilhjálmsson spjótkastari, vann sama titilinn þrisvar sinnum á sínum ferli
1993 Óskarsverðlaunaleikkonan Audrey Hepburn lést úr krabbameini, 63 ára að aldri - hún hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Roman Holiday árið 1954 og var ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar
1996 Yasser Arafat kjörinn fyrsti forseti heimastjórnar Palestínu - hann sat í embætti allt til dauðadags, en hann lést í París 11. nóv. 2004. Eftirmaður hans sem forseti varð Mahmoud Abbas

Snjallyrðið
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Stjörnurnar)