Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 janúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um fundaröð ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins, undir yfirskriftinni: Með hækkandi sól, sem hófst með fundum í gær t.d. í Reykjavík og á Akureyri. Haldnir verða alls 45 fundir um allt land og munu þar verða kynnt verk okkar fulltrúa í landsmálum á kjörtímabilinu sem senn er hálfnað, ber þar án vafa hæst skattalækkanirnar sem eru til hagsbótar fyrir almenning. Framsögumenn á fundinum hér voru þeir Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Fundarstjóri var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður og varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Var fundurinn fjölsóttur og sátu um 100 manns fundinn. Þrátt fyrir leiðindaveður hér í bænum komu margir á fundinn og hlustuðu á framsöguerindi Geirs og Halldórs og ræddu stjórnmálaástandið að því loknu og það sem fólk vildi almennt ræða við ráðherrann og þingmenn okkar hér í kjördæminu. Á fundinum fór Geir ítarlega yfir skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar og frumvarp hans sem Alþingi samþykkti í desembermánuði. Með samþykkt þessa máls í lok seinasta árs varð loks að veruleika eitt mikilvægasta baráttumál okkar sjálfstæðismanna. Bæði við ungliðar í flokknum og almennir flokksmenn höfðu barist fyrir þessum tímamótaskattalækkunartillögum í langan tíma og það var mikið gleðiefni fyrir okkur öll þegar þetta náðist loks í gegn. Geir fór yfir tillögurnar á skilmerkilegan hátt og var farið skemmtilega yfir tölur og þýðingu skattalækkana fyrir almenning allan.

Forsætisráðherra skipaði formlega í vikunni stjórnarskrárnefnd sem vinna á að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins. Er þar einkum litið til þess að huga að endurskoðun fyrsta, annars og fimmta hluta hennar. Í skipunarbréfi nefndarinnar kom fram að endurskoðunin skyldi einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Ekki var langur tími liðinn frá því skipunarbréf þetta var kynnt þar til farið var að deila um starf nefndarinnar og vinnuna innan hennar. Kostulegt var að fylgjast með ummælum fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni, fjalla ég um þetta mál í pistlinum. Í lok hans fjalla ég um málefni Reykjavíkur. Eins og flestir vita er meginástæðan fyrir skattahækkunum R-listans einfaldlega léleg fjármálastjórn og stóraukin skuldasöfnun. Fróðlegast er þó að fylgjast með málefnum Orkuveitunnar. Kostulegt var að fylgjast með Alfreð Þorsteinssyni í Kastljósinu á miðvikudag, en þar var hann að ræða málefni OR ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafi F. Magnússyni. Þar talaði hann út í eitt um gagnrýni á störf sín. Er það kostulegasta við málflutning hans að hann tekur gagnrýni á störf sín og umdeild verk þar sem gagnrýni á fyrirtækið sem slíkt og undirstöður þess. Hann sér ekki lengur orðið mun á sér og fyrirtækinu. Eins og sést af vettvangi borgarstjórnar halda aðrir fulltrúar R-listans verndarhendi yfir verkum Alfreðs og óráðsíu þar í hans nafni.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriPistill Kristjáns Þórs
Í áramótahugleiðingu á vef mínum fer Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, yfir hið viðburðaríka ár 2004 í bæjarmálunum og tjáir sig um stöðu bæjarins við upphaf nýs árs. Í pistlinum segir Kristján Þór: "Það er einkar ánægjulegt að á þessum tímamótum er hægt að fullyrða að Akureyri hefur ótvíræðu forystuhlutverki að gegna á landsbyggðinni og er orðinn valkostur til búsetu við höfuðborgarsvæðið. Í mínum huga er ljóst að Akureyri hefur alla burði til þess að vera sterkur þjónustukjarni vegna stærðar sinnar og miðstöðvarhlutverks á sviði mennta-, menningar-, íþrótta- og heilbrigðismála. Sérstaklega ber að geta ánægjulegrar stöðu á sviði verslunar, þjónustu sem kom berlega í ljós á síðustu vikum ársins þegar fólk víðsvegar af Norður- og Austurlandi sótti hingað verslun og þjónustu.

Miklar fjárfestingar í grunngerð samfélagsins á undanförnum árum hafa styrkt samkeppnishæfni Akureyrar og er það án efa forsenda þess árangurs sem við höfum náð. Til að tryggja sem best vöxt og viðgang bæjarfélagsins, verður miklum fjármunum varið til uppbyggingar árið 2005, líkt og á árinu sem er að líða. En við getum alltaf bætt okkur og tækifærin liggja víða. Bæta þarf aðstöðu fyrirtækja með lækkun flutningskostnaðar og bættum samgöngum. Við eigum að kanna lagningu hálendisvegar af fullri alvöru, tryggja stöðu Akureyrarflugvallar og stuðla að reglubundnu millilandaflugi. Mikilvægt er að bora sem fyrst göng í gegnum Vaðlaheiði og gera með því leiðina til austurs greiðari. Jafnhliða því að aðstæður til fyrirtækjarekstrar hér verða bættar og samkeppnishæfni aukin, á að róa að því öllum árum að byggja upp orkufrekan iðnað á svæðinu, til dæmis með stóriðju á Dysnesi."

Saga dagsins
1799 Básendaflóðið: mesta sjávarflóð sem sögur fara af hér við Ísland. Þá tók verslunarkaupstaðinn Básenda á Suðurnesjum af með öllu. Mikið ofsaveður - kirkjur fuku og Grótta breyttist úr nesi í eyju
1957 Sir Anthony Eden forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti vegna heilsubrests síns og ágreinings um forystu hans í Suez-deilunni 1956. Eftirmaður Edens í embætti var Harold Macmillan
1986 Michael Heseltine varnarmálaráðherra Bretlands, biðst lausnar vegna ágreinings við Margaret Thatcher forsætisráðherra, um Westland-málið. Heseltine skoraði hana á hólm í leiðtogakjöri 1990, leiddi það til falls hennar af valdastóli en Heseltine tókst þó ekki að komast til valda innan flokksins
1990 Gríðarlegt sjávarflóð á Suðurlandi, hið mesta á 20. öld. Sjóvarnargarðar skemmast á Stokkseyri. Sjór lak unnvörpum inn í hús í sjávarbæjum á Suðurlandi og fiskur kastast á land í Vestmannaeyjum
1991 Hagvarnarráð hélt fund vegna Persaflóadeilunnar. Ráðið hafði þá ekki áður komið saman og hefur ekki hist síðan. Tilgangur þess var að skipuleggja viðbrögð til varnar landinu á hættustundum

Snjallyrðið
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ferðalok)