Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 júní 2005

Punktar dagsins
Jack Straw les yfirlýsinguna í breska þinginu

Eins og allir vita sem fylgjast með stjórnmálum ríkir kreppa innan Evrópusambandsins í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum í síðustu viku. Allt frá því þessi niðurstaða varð ljós hefur verið beðið viðbragða frá Bretum. Hvort þeir myndu fresta þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð hafði verið í síðasta lagi vorið 2006 eða haldið yrði fast við fyrri ákvarðanir. Í dag tilkynnti Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, að breska stjórnin hefði ákveðið að slá á frest að setja lög um atkvæðagreiðsluna. Það er því ljóst að kosningunni hefur verið frestað og alls óvíst að staðfestingaferlið haldi áfram í Bretlandi með þeim hætti sem ákveðið hafði verið fyrir rúmlega ári. Fram kom í ítarlegri ræðu Straw í breska þinginu að óvissan sem nú ríkti væri of mikil til að Bretar myndu halda áfram ferli sínu í málinu óbreyttu. Höfnun Frakka og Hollendinga væru umhugsunarverð skilaboð sem þyrfti bæði tíma og umhugsun til að vinna úr. Sagði hann að bíða þyrfti þess að leiðtogar allra landanna kæmu saman og færu yfir stöðuna. Það er algjörlega ljóst að þessi yfirlýsing ráðherrans dragi mjög úr líkum þess að stjórnarskráin nái í land.

Fyrirfram var ljóst að til þess að stjórnarskráin myndi ná fram að ganga þyrftu öll aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja hana, annaðhvort með samþykki þjóðþings eða í gegnum þjóðaratkvæði. Ljóst var því að ef eitt ríki hafnaði stjórnarskránni, t.d. eitt af hinum stóru, leiddi það til pólitísks uppnáms innan sambandsins og átaka. Það hefur svo sannarlega gerst með synjun Frakka og Hollendinga, enda um að ræða tvö af sex stofnríkjum EBE, forvera EB og ESB. Hart var deilt um það í Bretlandi seinustu ár hvort þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram um stjórnarskrána þar. Lengi vel var stjórnin andsnúin slíku formi og sögðu kosningu óþarfa. Notaði hún lengi vel sem rök fyrir afstöðu sinni að tilkoma hennar myndi ekki hafa í för með sér neinar umtalsverðar breytingar á eðli Evrópusambandsins. Svo fór vorið 2004 að Tony Blair forsætisráðherra neyddist til að skipta um skoðun og ljá máls á þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þrýstings innan Verkamannaflokksins. Blasir við að Frakkar hafi hjálpað Blair og stjórn hans, enda hefði tap í slíkri kosningu á næsta ári getað orðið pólitískur banabiti hans.

Var enginn vafi á því að forsætisráðherrann lagði mikið undir með því að bakka í apríl 2004 og ljá máls á því að breska þjóðin ákveddi örlög stjórnarskrárinnar hvað sig varðaði og fram færi kosning. Hann var til jafnvel í að leggja sig og feril sinn að veði. Það að hann ákvað að bíða með kosninguna fram yfir þingkosningarnar á þessu ári staðfesti það. Lengi vel hefur Blair sagt að Bretland myndi veikjast verulega innan ESB ef þjóðin hafnaði tillögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þó ljóst að hann þarf ekkert að hugsa meira um þetta mál. Kosningunni hefur verið frestað. Frakkar og Hollendingar hafa bjargað honum úr erfiðri og vandræðalegri stöðu, enda hefði staða hans veikst til muna ef hann hefði tapað kosningu, enda veiktist þingmeirihluti hans mjög í þingkosningunum fyrir rúmum mánuði. Það er því hætt við að breska stjórnin og forystumenn hennar horfi bjartsýn fram á veginn án þess að þurfa að hafa pólitískar áhyggjur af þessu máli eins og staðan er orðin.

Jacques Chirac og Gerhard Schröder

Um helgina hittust þeir Jacques Chirac forseti Frakklands, og Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, á sellufundi í Berlín. Ekki er hægt að segja að fundur þeirra hafi markast af gleði og léttu spjalli um daginn og veginn. Öðru nær. Um var að ræða neyðarfund til að ræða málefni Evrópusambandsins í ljósi þeirrar miklu krísu sem þar er komin upp vegna þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskrá ESB. Fagnaðarfundir voru með leiðtogunum. Er Schröder og eiginkona hans, Doris, hittu Chirac við dyr kanslarabústaðarins í Berlín föðmust þau mjög innilega að frönskum hætti og leiðtogarnir áttu mjög öflugt faðmlag. Ræddu þau málin yfir kvöldverði og sátu leiðtogarnir síðan tveir að spjalli í kanslarabústaðnum og fóru yfir stöðuna. Það er alveg ljóst að erfiðar ákvarðanir blasa við lykilleiðtogum ESB-ríkjanna. Stjórnarskráin þeirra veglega og langdregna er farin út af sporinu og virðist algjörlega í andaslitrunum og við bætist að staðfestingarferli hinna landanna sé andvana fætt, enda hafa tvær þjóðir hafnað þegar í raun þýddi synjun einnar endalok málsins eða annað vinnuferli.

Á fundinum náðu þeir fullri samstöðu um að samræma aðgerðir sínar í stjórnarskrármálinu fyrir leiðtogafundinn í Brussel þann 16. júní nk. Voru þeir sammála því að reyna að lagfæra þann skaða sem orðinn er vegna þess að Hollendingar og Frakkar synjuðu stjórnarskránni staðfestingar. Hvöttu þeir í yfirlýsingu til þess að aðildarlöndin héldu staðfestingarferlinu áfram og léti nei-in tvö í síðustu viku ekki hafa áhrif á sig. Þeir vilja því að ekkert breytist og löndin líti framhjá synjun tveggja stofnríkja EBE á stjórnarskrá ESB. Það hefur eins og tíðindi dagsins bera með sér strax farið út af sporinu, enda hafa Bretar þegar frestað ákvörðun um kjördag fyrir kosninguna þar í landi. Það verður því seint sagt að samstaða sé innan ESB-landanna um næstu skref. Það er því alveg ljóst að mikil stjórnmálaleg kreppa skekur ESB. Jafnframt er mikil afneitun í gangi vegna vandans. Það sjá allir sem líta á stöðuna að stjórnarskráin er verulega sködduð. Væntanlega verða ákvarðanir um nánasta framhald málsins teknar á leiðtogafundinum í næstu viku. Það verður mjög fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði.

Eskifjörður

Um hádegið á laugardag hélt ég héðan frá Akureyri austur í Fjarðabyggð. Var ég viðstaddur fund á Reyðarfirði seinnipart laugardags. Að honum loknum voru ýmis málefni rædd og farið yfir stjórnmálastöðuna í góðu spjalli. Eftir fundinn fékk ég mér að borða með nokkrum vinum og áttum við virkilega góða stund saman. Kvöldinu lauk svo með því að fara á sjómannadagsballið á Eskifirði. Þar spilaði Sálin fyrir dansi. Þar var eins og nærri má geta mikið fjör og góð stemmning. Hitti ég þar marga ættingja mína og var þetta virkilega gott kvöld. Eins og fólk væntanlega veit er ég að hluta ættaður að austan og því alltaf gaman að fara og eiga þar góða stund með góðu fólki. Að morgni sunnudagsins fór ég í nokkrar heimsóknir til ættingja. Klukkan 13:00 fór ég svo í messu í Eskifjarðarkirkju. Þar þjónaði fyrir altari frændi minn, sr. Davíð Baldursson prófastur, og þar flutti hann kraftmikla predikun. Eftir messuna var stutt athöfn við minnismerki sjómanna á staðnum. Að því loknu hélt ég yfir á Reyðarfjörð og hitti þar frændfólk mitt á staðnum. Seinnipartinn mælti ég mér mót við vin minn og áttum við gott spjall áður en ég hélt heimleiðis um áttaleytið. Þetta var stutt en mjög skemmtileg austurferð í hópi góðra ættingja og vina.

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens fagnar í dag 49 ára afmæli sínu og 25 ára tónlistarafmæli með afmælistónleikum, alls þrem talsins, í Þjóðleikhúsinu. Jafnframt gefur hann út tvær plötur á afmælisdeginum. Heita þær Ást og Í 6 skrefa fjarlægð frá paradís? Sú fyrri er poppuð en hin er með rólegri lögum. Þær voru unnar saman sem eitt verk af hálfu Bubba og Barða Jóhannssonar í Bang Gang. Hvor plata um sig inniheldur 11 ný lög. Bubbi hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Það fer ekki framhjá neinum að hann er einn af fremstu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina. Hefur hann seinustu árin samið hvern smellinn á eftir öðrum og náð að toppa sig sem tónlistarmann með hverri plötunni. Í fyrra samdi hann að mínu mati sitt besta lag til fjölda ára, sannkallaðan gullmola. Er ég að tala um lagið Fallegur dagur. Sannkölluð perla. Fyrir nokkrum vikum gaf hann út annað lag, Þú. Þau eru bæði á rólegu plötunni. Í gær var svo frumflutt annað nýtt lag á tónlist.is sem ber heitið Ástin getur aldrei orðið gömul frétt. Hlustaði ég á það í morgun, enn ein perlan. Ég tel að Bubbi sé eiginlega að toppa sig með samstarfinu við Barða. Flott lög á þessum nýju plötum.

Silvía nótt

Um helgina heyrði ég mikið talað um nýjasta þáttinn á Skjá einum, þáttinn með Silvíu nótt, og þegar ég kom heim í gærkvöldi ákvað ég að horfa á hann á vefsjónvarpi S1. Þetta er skemmtilega steiktur þáttur. Ég verð að viðurkenna að ég hló alveg eins og vitlaus maður yfir þessu, algjörlega absúrd þáttur. Fyndnast var þegar gellan tók þingmennina Ágúst Ólaf og Kolbrúnu í viðtal. Viðtalið við Ágúst Ólaf var alveg kostulegt. Hann fór þvílíkt í kerfi í viðtalinu hjá henni og var verulega vandræðalegur og kunni ekkert að tækla hana og hennar viðtalstækni. Alveg ótrúlega fyndið að sjá þetta. Greinilegt er að verið sé að stuða áhorfandann, við höfum séð svona týpur áður með Ali G og Johnny National. Silvía nótt er auðvitað bara tilbúinn karakter í túlkun persónu og eftir því er stungið á mörg kýli og hætt við að sumir annaðhvort fíli algjörlega þáttaformið eða einfaldlega hati það. En fyrst og fremst á maður að taka þessum þætti sem brandara. Hann er ekkert meira en það.

Saga dagsins
1584 Prentun Guðbrandsbiblíu lauk á Hólum í Hjaltadal - biblían var gefin út í tæpum 500 eintökum.
1800 Alþingi var afnumið með konunglegri tilskipun - þingið var endurreist að nýju þann 1. júlí 1845.
1938 Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti - alla tíð verið hátíðisdagur um allt land.
1944 D-dagurinn - stórsókn hers bandamanna gegn her Þýskalands hófst. Blóðugum bardaganum lauk með sigri bandamanna og var það upphafið að endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar tæpu ári síðar.
1968 Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður, deyr á sjúkrahúsi í Los Angeles, 42 ára að aldri. Daginn áður hafði hann verið skotinn af palestínskum manni eftir að hafa fagnað sigri í forkosningu í Kaliforníu. Hann þótti sigurstranglegastur í forsetakjörinu sem framundan var - dauði hans kom sem þruma framan í bandarísku þjóðina. Robert Kennedy lét eftir sig eiginkonuna, Ethel, og 11 börn, það yngsta fæddist skömmu eftir lát hans. Robert var jarðsettur í Arlington-kirkjugarðinum í Washington.

Snjallyrðið
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ferðalok)