Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 maí 2005

AkureyriHeitast í umræðunni
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kynnti þann 10. maí sl. hugmyndir sínar um að efla löggæsluna almennt hér í bænum. Gerðu tillögur hans ráð fyrir því að lögreglumönnum á Akureyri yrði fjölgað um fjóra. Jafnframt var gert ráð fyrir því að samhliða þessu myndu fjórir sérsveitarmenn í lögregluliðinu verða leystir undan föstum vöktum. Með þessu var löggæsla hér á Akureyri og Norðausturlandi öllu efld til muna. Samhliða þessari ákvörðun var tilkynnt að athafnasvæði sérsveitarmannanna myndi ekki verða bundið við umdæmi sýslumannsins á Akureyri. Þetta er mjög jákvætt og gott skref óneitanlega sem stigið var með þessu. Skrautlegt hefur þó verið að fylgjast með því í skrifum Samfylkingarmanna hér á Akureyri að þar sé reynt að þakka Láru Stefánsdóttur varaþingmanni, þessa ákvörðun ráðherra.

Það er nú bara svo að dómsmálaráðherra er með þessu að framkvæma áætlun frá því um áramót 2003/2004 um stækkun sérsveitarinnar með því að fjölga lögreglumönnum hér á Akureyri um 4 og losa þannig um sérsveitarmennina. Það tengist auðvitað ekki fyrirspurn Láru á þingi á þessu ári. Ekki koma þessi vinnubrögð Samfylkingarinnar svosem á óvart, en eru óneitanlega allsérstök svo ekki sé nú meira sagt. Muna lesendur annars ekki hvernig Samfylkingin kom fram við dómsmálaráðherra í þinginu á sínum tíma þegar rætt var um málefni sérsveitarinnar? Þessi málatilbúnaður Samfylkingarinnar er einfaldlega til marks um, að flokkurinn er alltaf að reyna að eigna sér verk annarra - verk, sem varaþingmaðurinn og flokkurinn var á móti á sínum tíma. Ekki er það svosem neitt nýtt eða tíðindi í sjálfu sér, en það er orðið óþolandi að fylgjast með þessari tækifærismennsku Samfylkingarinnar.

Fyrir þá sem ekki muna eftir umræðunum á þingi í mars 2004 er rétt að rifja málið eilítið upp. Í sunnudagspistli mínum þann 7. mars 2004 fór ég yfir það sem gerst hafði í málefnum sérsveitarinnar og umræðunni um málið. Björn hafði kynnt hugmyndir um eflingu hennar og lögreglunnar almennt í marsbyrjun, í vikunni áður en pistillinn var ritaður. Þá var grunnur þessa máls kynntur og þær hugmyndir til eflingar sérsveitinni sem hefur svo verið unnið eftir alla tíð síðan. Sjálfur hafði Björn farið yfir málefni sérsveitarinnar í ítarlegum pistli á vef sínum þann 6. mars 2004. Þessi umræða var mjög beinskeytt og barst inn í sali þingsins. Þar var fremstur í flokki gagnrýnenda tillagna Björns um styrkingu sérsveitarinnar og löggæslunnar, þingmaðurinn Helgi Hjörvar. Réðst Helgi að ráðherranum með skætingi og útúrsnúningum. Sakaði hann Björn um að með tillögum sínum væri hann að vinna að gömlu gæluverkefni og bernskudraumi um her í landinu. Þeir sem vilja kynnast málinu betur geta lesið pistla okkar Björns frá þessum tíma. Samfylkingarmenn hér í bænum geta þá vonandi kynnt sér vinnubrögð Helga betur og skrifað um þau, en því sem hann var að berjast gegn á þingi í mars 2004 var unnið eftir þegar menn voru að styrkja lögregluna hér í bænum.

UmferðEins og fram kom í bloggfærslu minni þann 13. apríl sl. tel ég að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikur í framsetningu í auglýsingum. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt var vissulega að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Það kemur varla að óvörum að Samkeppnisráð hefur nú ákveðið að banna þessar umdeildu auglýsingar.

Þetta verður Umferðarstofu vonandi væn lexía. Reyndar tel ég þá hafa unnið mikinn skaða með nýjustu auglýsingaherferðum sínum og hafa slegið rangar nótur í annars mikilvæga baráttu. Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. En menn verða að halda sig á vissum grunni, það er alveg einfalt. Sérstaklega fannst mér þeim takast að feta réttu brautina í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og á meðan voru sýndar myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila.

Nú seinustu vikur hefur birst okkur nýjasta herferð Umferðarstofu þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál! Bestar af auglýsingum Umferðarstofu að undanförnu eru sérstaklega tvær einfaldar auglýsingar en mjög einbeittar í tjáningu án ofsa eða hvassleika. Um er að ræða auglýsingar sem bera heitið Dáinn og Hægðu á þér.

Punktar dagsins
Carrie Underwood - poppstjarna Bandaríkjanna 2005

Carrie Underwood fór með sigur af hólmi í bandarísku stjörnuleitinni og var því kjörin poppstjarna Bandaríkjanna árið 2005. Carrie er 22 ára gömul og kemur frá smábænum Checotah í Oklahoma. Hún bar sigurorð af keppinaut sínum í úrslitaþættinum, Bo Bice, en hann er 29 ára gamall frá bænum Huntsville í Alabama. Carrie er sveitasöngkona en Bo er eldheitur rokkari. Sigur Carrie var ágætlega afgerandi, hún hlaut um 6% fleiri atkvæði en Bo. Tæp 70 milljón manns greiddi atkvæði í símakosningunni, fleiri en nokkru sinni fyrr. Fyrirfram þóttu bæði standa mjög sterkt að vígi og eiga góðar sigurlíkur. Bæði höfðu þau vaxið mjög sem söngvarar í gegnum ferli keppninnar seinasta hálfa árið og hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeim á seinustu mánuðum. Það er enginn vafi á því að þátttaka í svona keppni jafnast á við margra ára söngnám og þjálfun í sviðsframkomu. Fyrir sigur í keppninni fær Carrie plötusamning, líkt og fyrri sigurvegarar keppninnar, þau Kelly Clarkson, Ruben Studdard og Fantasia Barrino. Fyrsta smáskífa hennar verður með laginu Inside Your Heaven, sem samið var sérstaklega fyrir sigurvegara keppninnar, en báðir keppendur sungu í úrslitaþættinum. Carrie hefur sagst ætla að helga sig country-tónlistinni, þar séu rætur hennar og uppruni sem söngkonu og hún verði trú því. Verður fróðlegt að fylgjast með hvernig henni og Bo gangi á tónlistarbrautinni eftir keppnina.

Liverpool fagnar titlinum í Istanbul

Liverpool varð í gærkvöldi Evrópumeistari í knattspyrnu með sigri á AC Milan í lstanbul - í leik sem lengi verður í minnum hafður. Óhætt er að segja að sigur Liverpool í Meistaradeild Evrópu fari á spjöld sögunnar, enda einstakt að lið nái að vinna sig upp úr stöðunni 3-0 í hálfleik og vinna. Þetta er í ellefta skipti sem breskt lið vinnur titilinn, hið fimmta sem Liverpool vinnur hann. Leikurinn var vægast sagt mögnuð skemmtun og algjört augnakonfekt. AC Milan komst í 3-0 strax í fyrri hálfleik og benti þá flest til þess að þeir myndu hljóta titilinn. Liverpool var enda arfaslakt í fyrri hálfleik. Þeir komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og náðu tökum á leiknum. Á rúmlega sex mínútum og frábærum kafla í leiknum náðu þeir að jafna leikinn. Því var auðvitað gripið til framlengingar. Ekkert mark var skorað en Dudek markmaður Liverpool varði tvö skot AC Milan-manna og var bjargvættur Liverpool. Vítaspyrnukeppni tók svo við eftir framlenginguna. Enn og aftur kom þar Dudek til bjargar og varði tvö víti. Enginn vafi að Dudek sé sá sem hafi tryggt liðinu þennan titil. Sú undarlega staða er uppi að Liverpool getur ekki varið titilinn að ári. Þeir urðu fimmtu í deildinni heima og fá því ekki sæti. Óneitanlega súr niðurstaða og skyggir á glæsilegan árangur liðsins í gærkvöldi. Allavega er hægt að segja að Liverpool hafi sannað kraft sinn, svo um munar.

Ismail Merchant

Indverski kvikmyndagerðarmaðurinn Ismail Merchant lést í gær, 68 ára að aldri. Merchant var einn af öflugustu kvikmyndagerðarmönnum Breta á 20. öld og stóð að mörgum helstu lykilmyndum Breta seinustu áratugina. Hann vann að mörgum þeirra helstu með Bandaríkjamanninum James Ivory. Óhætt er að fullyrða að samstarf þeirra hafi fætt af sér marga af helstu gullmolum kvikmyndagerðar seinustu áratuga. Samstarf þeirra tvímenninga við handritshöfundinn Ruth Prawer Jhabvala var mjög farsælt og hlutu þau saman fjölda verðlauna fyrir glæsilegar kvikmyndir á áttunda og níunda áratugnum. Ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi verka Merchant. Hann hafði til að bera það sem þurfti til að skapa ógleymanleg meistaraverk að mínu mati: það var allt í senn næmt auga fyrir útliti kvikmyndar og listrænni tjáningu. Verk hans og Ivory urðu að algjöru augnakonfekti. Merchant/Ivory er án vafa eitt af betri tvíeykjum kvikmyndasögunnar og eftir standa stórbrotin meistaraverk á borð við The Remains of the Day, Howards End og A Room with a View. Þessar myndir voru aðeins toppurinn á glæsilegum samstarfsferli þeirra. Nú þegar Merchant hefur kvatt þennan heim verður okkar hugsað til verka þeirra félaga, sem höfðu áhrif á kvikmyndagerð og það hvernig við metum þessa miklu list.

Steingeitin

Fékk í gær að gjöf kort með upplýsingum um stjörnumerki mitt, steingeitina. Ég á afmæli 22. desember, en tímabil merkisins er 22. desember til 19. janúar. Á kortinu stendur eftirfarandi (hvort þetta sé lýsing á mér er spurning, en óneitanlega er margt þarna sem vinir mínir eflaust heimfæra á undirritaðan): "Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er mjög skipulögð og vanaföst. Steingeitin vill hafa lífið í föstum en þó markvissum skorðum. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni. Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Steingeiturnar eru jafnan mjög athugular, fróðastar allra, skynsamar og metnaðargjarnar og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Steingeitin er tilfinningavera en á erfitt með að vinna úr flækjum og innri áföllum. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar. Einn helsti kostur steingeitarinnar er litrík kaldhæðni." Jahérna hér, segi ég nú bara. :)

Saga dagsins
1056 Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, hlaut vígslu til embættis biskups að Skálholti
1845 Jónas Hallgrímsson ljóðskáld og náttúrufræðingur, deyr í Kaupmannahöfn, 37 ára að aldri - Jónas var ennfremur einn af brautryðjendum rómantísku stefnunnar á Íslandi með smásagnaritun í blaðinu Fjölni. Jarðneskar leifar Jónasar voru fluttar heim á árinu 1946 og jarðsettar að Þingvöllum
1968 Hægri umferð formlega tekin upp á Íslandi - vinstri umferð hafði áður verið í tæpa sex áratugi
1983 Fyrsta ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tekur við völdum - hún sat til 1987
2002 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist eftir þriðja kosningasigur R-lista ekki stefna á þingframboð í alþingiskosningunum 2003 - ákvað þó þingframboð síðar sama ár og varð að segja af sér í kjölfarið

Fræg yfirlýsing ISG um að hún ætli ekki í þingframboð 2003 - 26. maí 2002

Snjallyrðið
Remember, always give your best. Never get discouraged. Never be petty. Always remember, others may hate you. But those who hate you don't win unless you hate them. And then you destroy yourself.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)