Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 september 2005

Punktar dagsins
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups hlyti Sjálfstæðisflokkurinn 56,1% atkvæða og 9 borgarfulltrúa kjörna ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Stærsti kosningasigur Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum var fyrir fimmtán árum er Davíð Oddsson leiddi flokkinn sem borgarstjóri í sínum þriðju kosningum til afgerandi sigurs, er hann hlaut rúm 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa kjörna. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni. Samfylkingin fengi 27,8% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur 11,4% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn með fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson í forystu og mælist með tæp þrjú prósent. Frjálslyndir hafa tæp 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju kjörinn borgarfulltrúa.

Þessi könnun er nokkuð öflug - 1.270 borgarbúar í úrtakinu og svarhlutfall rúm 60% Aðeins tæp 10% neituðu að svara, 21,5% voru óákveðin. Var könnunin kynnt fyrst á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar voru mætt til að ræða könnunina, þau Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Vilhjálmur Þ. var skiljanlega mjög ánægður með tölurnar og sagðist þakklátur Reykvíkingum fyrir stuðninginn sem fram kæmi í könnuninni. Greinilegt var að borgarstjórinn var verulega fúl með tölurnar þarna í morgunsárið og átti mjög erfitt með að leyna gremju sinni. Það er svosem skiljanlegt að hún sé fúl með þá stöðu sem komin er upp, og mælist í hverri könnuninni á eftir annarri. Var hún með hinar og þessar fýlubombur á lofti vegna stöðunnar. Er ekki fjarri því að hún neiti að horfast í augu við þá einföldu staðreynd málsins að borgarbúar séu búnir að fá einfaldlega nóg af stjórn vinstriaflanna sem unnu saman í rúman áratug undir merkjum R-listans, sem nú hefur liðið undir lok. Fólk vill breytingar - uppstokkun á stöðu mála. Það er ekkert undrunarefni þegar litið er á "afrek" valdaferils R-listans. Það blandast allavega engum hugur sem sér þessa könnun að borgarbúar eru að kalla á breytingar við stjórn borgarinnar.

Merkilegast af öllu er að heyra komment þeirra sem leitt hafa flokkana sem myndað hafa R-listann. Þau hafa jafnan verið glaðhlakkaleg en eru vandræðaleg nú. Kostulegastur er Alfreð Þorsteinsson sem sagði varðandi könnunina að kosningabaráttan væri ekki hafin að fullu. Þetta er vandræðalegt komment - enda er baráttan um borgina þegar hafin og prófkjör framundan hjá VG og Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem segja að slagurinn sé ekki hafinn eru þeir sem þora ekki að hefja slaginn væntanlega. Verkin eftir R-listann eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag.

Forrest Gump

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er óskarsverðlaunamyndin Forrest Gump. Horfði ég á hana í gærkvöldi mér til gamans. Einstök og hugljúf mynd sem er ein af bestu kvikmyndum tíunda áratugarins að mínu mati - á sér ljúfar minningar í huga mér. Hún hlaut sex óskarsverðlaun árið 1994, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Tom Hanks hlaut sinn annan óskar fyrir túlkun sína á söguhetjunni. Frammistaða Hanks í hlutverki Forrests er einstök í þessari rómuðu kvikmynd leikstjórans Roberts Zemeckis, en hún hlaut metaðsókn og orkaði dýpra á áhorfendur en nokkur önnur kvikmynd á fyrri hluta áratugarins. Tónlist Alan Silvestri í myndinni er unaðslega falleg. Forrest Gump lifir á miklum umbrotatímum sem umbreyta lífi hans; úr bækluðum drengstaula í ruðningsstjörnu, úr hetju í Víetnam í rækjujöfur, frá heiðrunarathöfn forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í faðm Jennyar, stúlkunnar sem hann elskar. Forrest er holdgervingur tiltekins tímabils 20. aldarinnar; sakleysingi á reiki meðal þjóðar sem er að glata sakleysi sínu. Í hjarta sínu skynjar hann það sem er takmarkaðri greind hans um megn. Siðgæðisáttaviti hans bendir ætíð í rétta átt. Sigrar Forrests eru okkur öllum innblástur. Forrest Gump er tvímælalaust í hópi lykilmynda kvikmyndasögu seinustu áratuga. Sagan af Forrest Gump og ævi hans er einstök - hana verða allir að sjá.

Andy Griffith í hlutverk Ben Matlock

Eflaust muna allir vel eftir Ben Matlock, lögfræðingnum sérvitra í blágráu jakkafötunum í Atlanta í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum. Hann var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar einfaldlega heitið Matlock. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í áratug, árin 1986-1995. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Matlock fylgdu manni í mörg ár. Á ég fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Með hlutverk Matlocks fór leikarinn Andy Griffith. Gæddi hann karakterinn alveg mögnuðu lífi - fór á kostum í hlutverkinu. Á miðvikudagsmorgun fjallaði Akureyringurinn Helgi Már Barðason ritstjóri vefritsins akureyri.net, um þættina í þætti sínum Pipar og salt, og lék tónlist tengda Andy Griffith og þáttunum hans. Vakti það upp vissar minningar og ég dró gamla Matlock-þætti fram úr geymslunni og rifjaði upp þessa merkilegu þætti. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag er ár liðið síðan ég tók við formennsku í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það hefur gengið vel á þessu ári - og höfum við unnið vel saman í þeim stjórnum sem ég hef leitt þetta árið. Verkefnin eru næg framundan, brátt hefst formlegur undirbúningur sveitarstjórnarkosninganna hér. Það fer allt á fullt að loknum sameiningarkosningum að fara í þau mál. Verkefnið sem er framundan er stofnun kjördæmisfélags ungliða Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þau verða stofnuð á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Mývatnssveit á morgun. Höfum við formenn ungliðafélaganna í kjördæminu ákveðið að stefna að stofnun þessa félags - með því fáum við öflugan og góðan vettvang til samstarfs á vegum kjördæmastarfsins í aðdraganda tveggja kosninga, bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Hlakka ég til samstarfsins við ungliða um allt kjördæmið og góðs samstarfs í þeim verkefnum sem mestu skipta hér.

Dagskrá kjördæmisþings Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi - 24. september 2005

Úrslit þýsku kosninganna séð í skondnu ljósi

Þjóðverjar gengu að kjörborðinu á sunnudag. Niðurstaðan varð pattstaða þar sem ekkert augljóst stjórnarmynstur blasir við og báðir leiðtogar stóru flokkanna, Merkel og Schröder, gerðu tilkall til kanslarastólsins. Pólitísk kreppa er í Þýskalandi eftir kosningarnar. Skopmyndateiknarar Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því.

Saga dagsins
1241 Snorri Sturluson var veginn í Reykholti í Borgarfirði, 63 ára gamall. Snorri var þá goðorðs- og lögsögumaður og var valdamikill á Sturlungaöld. Hann varð einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar.
1943 Alþingi var afhent áskorun frá 270 manns um að slíta ekki konungssambandi við Danmörku að óbreyttum aðstæðum (stríðinu). Ekki var orðið við áskorunum og lýðveldið Ísland stofnað ári síðar.
1952 Leikarinn Charles Chaplin snýr aftur til Bretlands, eftir tveggja áratuga dvöl í Bandaríkjunum.
1973 Juan Peron snýr aftur til Argentínu eftir 20 ára útlegð, varð á ný forseti landsins. Peron lést tæpu ári síðar og tók ekkja hans, Isabel Peron, við embætti hans, henni var steypt af stóli 1976.
1994 Minnismerki var afhjúpað formlega á Öxnadalsheiði í tilefni þess að Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra, vígði síðasta malbikaða hlutann á þjóðveginum á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Snjallyrðið
Um undrageim í himinveldi háu
nú hverfur sól og kveður jarðar glaum.
Á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali
og drauma vekur purpurans í blæ
og norðurljósið hylur helga sali,
þar hnígur sólin aldrei niður í sæ.

Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja
og hreimur sætur fyllir bogagöng
en langt í fjarska foldar þrumur drynja
með fimbulbassa undir helgum söng.
Og gullinn strengur gígju veldur hljóði
og glitrar títt um eilíft sumarkvöld,
þar roðnar aldrei sverð af banablóði,
þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Gígjan)

Fallegt ljóð - tært og sætt í gegn.