Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 október 2005

36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins

Davíð Oddsson

36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður settur í Laugardalshöll í dag. Að þessu sinni ber landsfundurinn yfirskriftina: Hátt ber að stefna. Þáttaskil verða í flokknum á þessum landsfundi. Davíð Oddsson sem verið hefur formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991, gefur ekki kost á sér til endurkjörs á landsfundinum. Hann hefur nú látið af ráðherraembætti og þingmennsku og tekur við embætti seðlabankastjóra í næstu viku. Davíð var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár, 1982-1991. Hann var forsætisráðherra Íslands, lengur en nokkur annar, samfleytt í 13 ár, á tímabilinu 1991-2004 og utanríkisráðherra 2004-2005. Flokkurinn stendur á krossgötum við lok formannsferil Davíðs Oddssonar. Það verður nýrrar forystu flokksins að leiða hann inn í nýja tíma í íslenskum stjórnmálum. Það er svo sannarlega hægt að setja markið hátt og stefna hátt í komandi verkefnum.

Framundan eru skemmtilegir málefnafundir, kjördæmafundir, landsfundarhófið og allt þetta hefðbundna. Það er ljóst af dagskrá fundarins að nóg verður um að vera. Að sjálfsögðu held ég á landsfund og á þar góða stund með mætum félögum um allt land. Framundan er skemmtilegur landsfundur og verður gaman að hitta pólitíska samherja af öllu landinu í Höllinni. Á meðan ég verð fyrir sunnan verður þessi vefur lítið uppfærður. Mun fjalla ítarlega um landsfundinn hér eftir helgina, og það sem eftir hann stendur, er ný forysta hefur tekið við Sjálfstæðisflokknum.

Margaret Thatcher áttræð

Margaret Thatcher

Í dag er Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, áttræð. Hún hafði á valdaferli sínum mikil áhrif á stjórnmálasögu Bretlands og sat lengur en nokkur stjórnmálamaður á forsætisráðherrastóli í Bretlandi á 20. öld. Hún er einn af kraftmestu leiðtogum hægrimanna á sama tímabili. Í tilefni dagsins er vel við hæfi að fjalla um ævi og stjórnmálaferil Margaret Thatcher, eins litríkasta leiðtoga í sögu breska Íhaldsflokksins.

Margaret Hilda Roberts fæddist 13. október 1925 í bænum Grantham, sem er í austurhluta Englands. Nám sitt hóf Margaret í sýsluskólanum í Grantham, að því loknu hélt hún í háskólanám í Oxford. Þar nam hún efnafræði. Margaret varð snemma áhugasöm um pólitík og pólitíska starfsemi. Hún varð áberandi sem ein af forystufólki íhaldsmanna í skólanum og tók virkan þátt í stjórnmálaumræðum í Oxford. Varð hún kjörin formaður í félagi ungs hægrifólks í skólanum og varð í kjölfar þess áberandi í ungliðastarfi flokksins. Það varð snemma ljóst að hún myndi ekki beina sjónum sínum að efnafræði að námi loknu. Stjórnmálaferill hennar hófst formlega árið 1951 er hún varð frambjóðandi Íhaldsflokksins í Dartford. Hún náði ekki kjöri, en jók fylgi flokksins þar umtalsvert. Hún gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1955, enda hafði hún þá komið sér upp heimili og eignast börn. Margaret giftist í desembermánuði árið 1951, Denis Thatcher. Saman eignuðust þau tvíbura í ágúst 1953, Mark og Carol Thatcher. Denis stóð við hlið Margaret allan hennar stjórnmálaferil og varð hennar helsti stuðningsmaður og trúnaðarvinur í gegnum þykkt og þunnt. Margaret sagði síðar í ævisögu sinni að án Denis hefði hún aldrei náð þeim árangri sem henni hlotnaðist í stjórnmálum.

Árið 1959 var Margaret Thatcher kjörin á breska þingið fyrir Finchley hérað. Var hún kjörinn fulltrúi þess allan starfstíma sinn á þingi. Í þeim kosningum hélt Íhaldsflokkurinn þingmeirihluta sínum og Harold Macmillan forsætisráðherra, sat áfram á valdastóli. Margaret varð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í október 1964. Í næstu þingkosningum ári síðar, féll ríkisstjórn íhaldsmanna. Leiðtogaskipti urðu innan flokksins á því kjörtímabili, við forystunni tók Edward Heath. Margaret varð einn helsti forystumaður flokksins í heilbrigðis- og menntamálum og öflugur talsmaður í skuggaráðuneyti flokksins allt til ársins 1970. Það ár vann Íhaldsflokkurinn góðan sigur í þingkosningum og Edward Heath varð forsætisráðherra. Margaret tók sæti sem menntamálaráðherra í þeirri stjórn. Leiddi hún í sinni ráðherratíð mikla uppstokkun í menntamálum og stóð fyrir miklum sparnaðaraðgerðum í menntakerfinu því samhliða, enda voru útgjöld til málaflokksins að sliga ríkissjóð. Varð hún á þessum árum einn af helstu forystumönnum flokksins. Flokkurinn beið ósigur í þingkosningunum 1974 og Verkamannaflokkurinn undir forystu Harold Wilson tók við stjórnarforystunni. Staða Heath veiktist mjög í kjölfar tapsins í kosningunum og óánægja með störf hans jókst.

Í leiðtogakjöri í Íhaldsflokknum í febrúar 1975 var Heath ýtt til hliðar og Margaret kjörin leiðtogi flokksins. Varð hún fyrsta konan til að leiða breskan stjórnmálaflokk og var kjör hennar því mjög sögulegt. Varð hún öflugur forystumaður stjórnarandstöðunnar á þeim fjórum árum sem hún leiddi minnihluta þingsins. Byggði hún flokkinn með miklum forystuhæfileikum, járnaga og krafti. Réðist hún oft harkalega í fyrirspurnartíma í þinginu að Harold Wilson og eftirmanni hans á forsætisráðherrastóli, James Callaghan, sem tók við embætti árið 1976. Staða ríkisstjórnarinnar veiktist mjög er leið að lokum kjörtímabilsins. Þingmeirihlutinn féll í vantraustskosningu í febrúar 1979 og neyddist Callaghan því að boða til kosninga. Oft á árinu 1978 munaði litlu að stjórnin félli, enda meirihluti hennar undir lokin einungis örfá sæti og varð Callaghan að fórna miklu til að halda völdum margoft. Í kosningabaráttunni kom skýrt fram að meginmarkmið hennar ef flokkurinn ynni sigur yrði að stokka upp efnhagsmálin og taka til hendinni. Þingkosningar fóru fram 3. maí 1979. Íhaldsflokkurinn vann afgerandi sigur og hlaut 43 sæta meirihluta á breska þinginu. Kjör Margaret Thatcher í embætti forsætisráðherra landsins markaði mikil þáttaskil. Það varð strax ljóst þann 4. maí 1979 er hún tók við embætti og hlaut formlegt stjórnarmyndunarumboð frá Elísabetu II.

Er hún kom að embættisbústaðnum Downingstræti 10 var henni fagnað af stuðningsmönnum sínum. Þar flutti hún kraftmikla ræðu og vitnaði þar í St. Francis af Asisi með glæsilegum hætti. Orðrétt sagði hún: "Where there is discord, may we bring harmony. Where there is error, may we bring truth. Where there is doubt, may we bring faith. And where there is despair, may we bring hope". Hófst hún handa af krafti ásamt stjórn sinni, strax eftir embættistökuna. Á fyrsta kjörtímabilinu fengust þegar fram gríðarlegar breytingar á flestum sviðum. Umskipti urðu, staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Hún tók á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Er ráðist var að henni vegna verka sinna og hún varð umdeild vegna framgöngu sinnar, spurði hún hvort þeir ætluðu að víkja af leið framfara. Hún myndi hvergi hvika. Fleyg urðu ummæli hennar á flokksþingi Íhaldsflokksins 1980 er á móti blés hjá henni í baráttu sinni fyrir breytingum: "You turn if you want to. The lady's not for turning!" Ekki var hvikað. Járnfrúin, eins og hún var kölluð vegna staðfestu sinnar, fékk sínu framgengt.

Þáttaskil höfðu orðið í breskum stjórnmálaheimi og ekkert varð samt aftur. Hún vann stórsigur í þingkosningunum 1983 og jók þingmeirihluta sinn og vann þriðja kosningasigurinn 1987 og þann táknrænasta í sínum huga, enda var með því sýnt fram á að forgangsverkefni hennar nutu stuðnings almennings. Farið var á rétta braut og landsmenn fylgdu stefnunni sem mótuð var. Í kjölfar þriðja kosningasigursins tók hún á sig óvinsæl málefni, kom á frægum og óvinsælum nefskatti sem leiddi til þess að persónulegt fylgi hennar minnkaði verulega. Thatcher, sem fram að því hafði verið óumdeild að mestu innan flokksins, fékk á sig mótspyrnu frá andstæðum öflum sem setið höfðu á sér lengi vel. Árið 1990 sagði Geoffrey Howe, einn nánasti samverkamaður forsætisráðherrans af sér ráðherradómi, vegna óánægju með framgöngu hennar í Evrópumálunum. Afsögn hans leiddi af sér keðjuverkandi þróun. Michael Heseltine, sem tekið hafði sæti í fyrsta ráðuneyti hennar og sagt af sér vegna Westland-hneykslisins 1986, skoraði hana á hólm í leiðtogakjör í nóvembermánuði 1990. Thatcher fór í varnarstöðu gegn áskorun Heseltine. Kosið var 20. nóvember 1990.

Á þeim tímapunkti sat hún fund RÖSE í París og átti von á að nauðsynlegur meirihluti atkvæða væri tryggur og vel það. Ekkert væri að óttast með stöðu mála. Kom í ljós að svo var ekki, henni vantaði örfá atkvæði til að hljóta gildan meirihluta til að forðast aðra umferð. Heseltine varð sterkari en nokkurn hafði órað fyrir. Sú sterka staða sem Thatcher hafði búið yfir í breskri pólitík allan níunda áratuginn var á bak og burt. Er hún kom til London degi síðar, var séð hvert stefndi. Nánustu samverkamenn hennar hvöttu hana flestir í einkasamtölum við hana, að kvöldi 21. nóvember 1990, til að víkja af forsætisráðherrastóli. Þeir töldu ógerlegt að vinna kosningasigur undir hennar forystu árið 1992. Hún hafði ekki lengur stuðning síns innsta hrings, sem nauðsynlegur var til að halda áfram í aðra umferð. Bitur ákvörðun var því óumflýjanleg. Hún tilkynnti um afsögn sína á ríkisstjórnarfundi að morgni föstudagsins 22. nóvember og hélt að honum loknum til drottningar þar sem hún baðst formlega lausnar frá forsætisráðherraembættinu. Jafnframt tilkynnti Thatcher að hún myndi því ekki verða í kjöri við aðra umferð leiðtogakjörsins.

Ekki var liðinn nema tæpur klukkutími frá formlegri afsögn Thatcher þegar að þeir Douglas Hurd utanríkisráðherra, og John Major fjármálaráðherra, höfðu tilkynnt um framboð sín til leiðtogastöðunnar, auk Heseltine. Kosið var á milli þeirra 27. nóvember og hlaut Major þar gildan meirihluta og var réttkjörinn leiðtogi flokksins. Sólarhring síðar lauk forsætisráðherraferli Margaret Thatcher eftir ellefu og hálft ár. Er hún yfirgaf forsætisráðherrabústaðinn hinsta sinni sagði hún: "We're leaving Downing Street for the last time after eleven-and-a-half wonderful years and we're happy to leave the UK in a very much better state than when we came here! Now it's time for a new chapter to open and I wish John Major all the luck in the world." Hún var bitur er hún yfirgaf embættið, enda hafði hún stefnt að því að leiða flokkinn í þingkosningum. Hafði hún beitt sér mjög fyrir kjöri Major, eftir að ljóst varð að hún yrði að víkja af valdastóli. Lagði hún mikla áherslu á að fram kæmi frambjóðandi til leiðtogastöðunnar sem gæti komið í veg fyrir sigur Michael Heseltine. Það tókst, en mörgum að óvörum gerði John Major hann síðar að aðstoðarforsætisráðherra og hann varð einn nánasti samstarfsmaður Major meðan hann sat á valdastóli.

Síðar átti eftir að kastast mjög í kekki með honum og Thatcher og þau urðu t.d. mjög ósammála um stefnu í mikilvægum málaflokkum. Thatcher gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1992 og lét af þingmennsku í kjölfar þeirra. Vann flokkurinn þar nauman sigur og Major sat áfram sem forsætisráðherra, allt til ársins 1997 er Verkamannaflokkurinn batt enda á 18 ára valdaferil flokksins. Tók Thatcher sæti í lávarðadeildinni sumarið 1992 og hlaut með því hefðartitilinn Lafði Margaret Thatcher barónessa. Hún hélt áfram ferðalögum um allan heim í kjölfar þess að hún lét af forsætisráðherraembættinu og hélt erindi á ráðstefnum víðsvegar. Árið 2002, í kjölfar heilablóðfalls, neyddist hún til að hætta að halda ræður og erindi opinberlega. Eiginmaður hennar, Denis, lést árið 2003. Dró hún sig að mestu í hlé í kjölfar þess. Hún flutti þó minningarræðu við útför Ronald Reagan, vins síns og samstarfsfélaga til fjölda ára, er hann lést í júní 2004. Hún skrifaði æviminningar sínar á tíunda áratugnum: The Downing Street Years og The Path to Power: frábærar bækur sem ég mæli mjög með.

Margaret Thatcher er einstakur stjórnmálamaður og fyrirmynd okkar allra sem teljum okkur eiga hugsjónalegt heimili á hægrivæng stjórnmálanna. Hún var forsætisráðherra Bretlands í rúman áratug og vann sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún breytti breskum stjórnmálum án nokkurs vafa. Hún breytti bæði Íhaldsflokknum og megingrunni hans og ekki síður Verkamannaflokknum. Má nú varla á milli sjá hvor flokkurinn fylgir meira grunnstefnu hennar og áherslum á löngum valdaferli. Að mínu mati leikur enginn vafi á því að Thatcher er einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld, markaði mikinn sess í sögu aldarinnar. Kraftmikil verk hennar og hugsjónaleg forysta verður ávallt í minnum höfð.

Saga dagsins
1792 Framkvæmdir hófust á forsetasetri við Pennsylvania Avenue í Washington - nefnt Hvíta húsið.
1986 Leiðtogafundi Reagans og Gorbatsjovs lauk með litlum sýnilegum árangri. Almennt litið svo á nú að leiðtogafundurinn hérlendis hafi verið eitt þýðingarmesta skrefið að endalokum kalda stríðsins.
1987 Kýr synti yfir Önundarfjörð, frá Flateyri að Kirkjubóli í Valþjófsdal. Leiða átti hana til slátrunar en hún reif sig lausa, lagði á flótta og lagði til sunds. Kýrin hét Harpa, en eftir þetta kölluð Sæunn.
1995 Margrét Frímannsdóttir sigraði Steingrím J. Sigfússon mjög naumlega í formannskjöri í Alþýðubandalaginu. Margrét hlaut 53,5% atkvæða. Flokkurinn varð hluti af Samfylkingunni 2000.
2001 Aðalfundur Læknafélags Íslands staðfesti yfirlýsingu félagsins, Íslenskrar erfðagreiningar og Landlæknisembættisins um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði - endalok langra deilna um hann.

Snjallyrðið
Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)

Eyjafjörðurinn er fallegur - bæði á fögrum sumardegi sem köldu vetrarkvöldi. Þetta ljóð meistara Davíðs lýsir vel ást þeirra sem unna af öllu hjarta hinum fagra firði á Norðurlandi - sem er okkur svo kær.