Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 október 2005

Borgar Þór Einarsson formaður SUS

Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna var haldið í Stykkishólmi um helgina. Þar var stefna SUS til næstu tveggja ára mótuð og kjörin ný stjórn ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Góð stemmning var meðal ungra sjálfstæðismanna þessa hausthelgi í Stykkishólmi - mikið skemmt sér að venju og gleðin allsráðandi bæði kvöldin. Þingið hófst með venjubundnum hætti á föstudeginum með föstum liðum. Um kvöldið var fyrirspurnartími ráðherra Sjálfstæðisflokksins á dagskrá. Ráðherrar flokksins fengu margar athyglisverðar fyrirspurnir og var umræðan lífleg og hressileg. Stóð hún langt fram eftir kvöldi. Mikið var rætt um málefni Öryggisráðsumsóknar Íslands. SUS hefur ályktað oft gegn henni og skoðun okkar ungliðanna alveg skýr hvað hana varðar. Var utanríkisráðherra spurður um málið og hann fór yfir það með sínum hætti. Ennfremur var rætt um hvort leggja ætti niður allar stofnanir umhverfisráðuneytisins og margt fleira. Kári Allansson, félagi minn í Verði, átti að mínu mati spurningu kvöldsins - um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætti að slíta stjórnarsamstarfinu, dömpa Framsókn og leita í aðrar áttir fyrir sér. Vakti það lífleg viðbrögð ráðherranna sem voru ekki á því að það væri skynsamleg hugmynd hjá Kára. Að loknum fyrirspurnartímanum var móttaka í boði Sifjar, félags ungra sjálfstæðismanna í Stykkishólmi. Skemmtu sér allir vel fram á nótt - var um margt spjallað.

Á laugardeginum var málefnastarf og lagabreytingar og ályktanir teknar fyrir. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og ball á Hótel Stykkishólmi, þar sem þingið fór nær allt fram. Var mikil gleði á laugardagskvöldinu, venju samkvæmt. Á sunnudeginum var komið að stjórnarkjöri og kosningu á formanni og varaformanni SUS. Varð vel ljóst fyrir þingið að kosið yrði víða um sæti í stjórn og varastjórn. Svo fór að kjósa þurfti í öllum kjördæmum, enda mikill fjöldi framboða. Borgar Þór Einarsson var kjörinn formaður SUS, í formannskjörinu sem fram fór eftir hádegið. Hlaut hann rúm 70% atkvæða. Borgar Þór hefur alist upp við pólitískt starf og verið áberandi á þeim vettvangi. Hann er sonur Ingu Jónu Þórðardóttur, sem hefur lengi verið virkur þátttakandi í pólitísku starfi. Leiddi hún um tíma borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Borgar Þór var einn stofnenda vefritsins Deiglunnar og tekið virkan þátt í skrifum á þeim vef og verið öflugur í stjórnmálaumræðu. Hann var aðstoðarmaður Tómasar Inga Olrich í menntamálaráðuneytinu árið 2003 og leiddi kosningastarf Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum árið 2003. Í því kjördæmi náði flokkurinn góðri kosningu og vann pólitískan varnarsigur að margra mati. Í aðdraganda þingsins lýsti fjöldi aðildarfélaga SUS yfir stuðningi við Borgar og lýsti áhuga á að hann leiddi starf sambandsins.

Eitt þessara ungliðafélaga var Vörður á Akureyri, það félag sem ég er formaður í. Persónulega kynntist ég Borgari Þór vel í kosningabaráttunni fyrir tveim árum og þekki til verka hans og því sem hann gerði í þeirri kosningabaráttu. Taldi stjórn félagsins rétt að lýsa yfir stuðningi við hann og lýsti yfir áhuga sínum á samstarfi við hann. Óska ég Borgari Þór innilega til hamingju með sigurinn í formannskjörinu. Líst mér vel á að hann leiði SUS á næstu tveim árum og verði forystumaður okkar ungliðanna. Er hárrétt að hann fái tækifæri til að leiða sambandið. Allavega er umboð hans sterkt og hann nær góðri kosningu fundarins. Er það án nokkurs vafa gott veganesti í væntanleg verkefni. Er ég sammála Borgari Þór í því að mikilvægt sé að nota næstu tvö ár vel og leggja mikla áherslu á að virkja ungt fólk til virkrar þátttöku í stjórnmálum og efla starfið einkum úti á landi. Næg verkefni eru framundan. Þar sem ég er þekktur fyrir því að vinna af krafti í þessum flokki hlakkar mér til samstarfsins við Borgar Þór og nýja stjórn. Nú eru það verkin sem verða að tala. Það eru tvær kosningar framundan á þessu starfstímabili og við verðum að nota tímann næstu 24 mánuðina vel til að efla grunninn okkar í flokknum. Lykilatriði er að vinna að því að styrkja landsbyggðarstarfið. Þar eru sóknarfærin til að vinna af sem mestum krafti að mínu mati.

Ég er fæddur og uppalinn úti á landi - þar vinn ég í flokknum. Starfsvæði mitt er Norðausturkjördæmi. Nú er komið að okkur hér og öðrum úti á landi að taka málin í sínar hendur og vinna að því að treysta böndin sem þurfa að vera í lagi til að landsbyggðargrunnurinn í SUS og flokknum séu tryggur og öflugur. Lykilmarkmið mitt á þessum tíma er að byggja upp starfið þar. Þetta höfum við haft í huga í þessu kjördæmi. Á kjördæmisþingi fyrir rúmri viku var tilkynnt um stofnun kjördæmafélags ungliða hér í kjördæminu. Þar tók til starfa svonefnd starfsstjórn til að vinna að því að mynda grunninn: vinna að formlegum stofnfundi okkar þar sem grunnurinn er lagður. Leggjum við Borgar Þór mikla áherslu á það að stofna grunnfélög í ungliðastarfinu á landsbyggðinni í kjördæmunum þar. Munum við leggja aukna áherslu á að stofna slík félög sem halda munu utan um grunnstarfið í hverju kjördæmi og halda utan um þá þræði sem máli skipta. Þarna eru stærstu og öflugustu verkefnin. Það þarf að tryggja kraftmikinn samstarfsvettvang landsbyggðarfélaganna og vinna að markvissri uppbyggingu félaganna og tryggja líflegt starf þar og endurnýjun í mannskap. Öflugra innra starf - markviss framtíð flokksstarfs: þetta er slagorðið næstu tvö árin í starfinu. Einfalt mál.

Stefán Friðrik Stefánsson

Eins og fyrr segir varð líflegt stjórnarkjör í Sambandi ungra sjálfstæðismanna á 38. þingi sambandsins í Stykkishólmi. Var gengið til stjórnarkjörsins að loknu formanns- og varaformannskjöri. Tók það nokkurn tíma og enn lengri tíma tók svo auðvitað talningin, enda flókið kerfi þegar svo viðamikil kosning er og margir í kjöri í öllum kjördæmum. Var tilkynnt um úrslitin á sjöunda tímanum um kvöldið. Var Helga Kristín Auðunsdóttir laganemi, kjörin varaformaður. Hlaut hún um 70% atkvæða. Úrslit í stjórnarkjörinu voru svo kynnt á eftir úrslitum í varaformannskjöri. Þótti mér mjög vænt um það traust sem mér var sýnt. Hlaut ég flest atkvæði í stjórnarkjörinu í Norðausturkjördæmi. Þar gáfu fjórir kost á sér í þrenn sæti sem heyrir undir kjördæmið. Auk mín náðu kjöri góðvinir mínir úr flokksstarfinu í kjördæminu: þeir Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs í S-Múlasýslu, og Sigurgeir Valsson varaformaður Varðar, 2004-2005. Hlutum við allir mjög afgerandi kosningu og traust umboð til þeirra verka sem um ræðir hér að framan. Það er margfalt betra og sterkara að fá umboð til stjórnarsetu í gegnum kosningu allra fundarmanna, heldur en væri sjálfkjörið í stjórnarsæti okkar. Þykir mér mjög vænt um það að hafa fengið svo öflugan stuðning. Lagði ég verk mín og flokksstarf í dóm þeirra sem þarna kusu. Niðurstaðan er mér mikið gleðiefni.

Hef ég unnið af talsverðum krafti að flokksstarfinu hér á mínu svæði í nokkurn tíma. Hef ég lengi verið flokksbundinn og stutt Sjálfstæðisflokkinn. Hef ég tekið að mér mörg verkefni í nafni flokksins. Miklum frítíma hef ég varið í það sem gera þarf í nafni flokksins. Segja má að pólitískt starf og áhugi á félagsstörfum í nafni Sjálfstæðisflokksins hafi verið líf mitt og yndi undanfarin ár. Allir þeir sem þekkja mig og það sem ég hef gert í pólitísku starfi geta vonandi tekið undir það. Hef ég setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna í tvö ár og unnið í þeim verkefnum sem mestu skipta fyrir sambandið. Eins og vel hefur komið fram tel ég mikilvægt að við vinnum saman í ungliðahreyfingunni að mikilvægum verkefnum sem framundan eru og séum samhent í að efla grunn starfsins. Mat ég mjög mikils það traust í minn garð sem fólst í þessum úrslitum og þakka umboðið sem ég og við þremenningar fengum. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að þrátt fyrir þau átök sem verið hafa innan SUS og sérstaklega Heimdallar að undanförnu að fá þann stuðning sem fram kom í úrslitunum. Mun ég vinna af krafti næstu tvö árin í nafni þess umboðs sem ég fékk í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Vinnan sem er framundan verður mikil en ánægjuleg.

Miklar breytingar urðu í SUS á þessu þingi. Segja má að algjör þáttaskil hafi orðið í kjölfar stjórnarkjörsins. Sú merkilega staða er nú komin upp að ég er aðeins einn eftir í stjórn SUS af þeim sem sátu í stjórn undir forsæti Hafsteins Þórs Haukssonar. Er ég því orðinn starfsaldursforseti stjórnarmanna í aðalstjórn SUS. Það verður merkileg tilfinning að halda í starfið þar með algjörlega nýjum hópi innanborðs. Hef ég unnið í þessu starfi af miklum krafti og áhuga. Hlakkar mér mjög til samstarfsins við þá sem kjörnir voru á þingi SUS til setu í stjórninni. Umboð þeirra er sterkt og ég tel að við ættum að geta unnið vel saman og af krafti, ef við förum í þau verkefni sem framundan eru af þeim krafti sem nauðsynlegt er. Er allavega ljóst að við sem hlutum kjör í aðalstjórn fyrir Norðausturkjördæmi munum vinna samhent og af krafti í nafni þessa kjördæmis að því að vinna þau verk sem mikilvæg eru. Með okkur munu vera í þeim verkum varastjórnarmenn í kjördæminu. Hlutu varaformenn stærstu ungliðafélaganna í kjördæminu: þau Jóna Jónsdóttir varaformaður Varðar, og Þórður Vilberg Guðmundsson varaformaður Hávarrs, öflugt umboð í kosningu sem þau voru í ásamt tveim öðrum. Erum við staðráðin í því að vinna vel saman og vera samhent í verkefnum í SUS.

Eins og fyrr segir markar 38. þing Sambands ungra sjálfstæðismanna þáttaskil í sögu SUS. Nýtt fólk er komið til leiks og aðeins ég eftir af þeim sem setið hafa í stjórn sambandsins. Vil ég við þessi þáttaskil þakka þeim sem ég hef unnið með seinustu tvö árin í stjórn SUS fyrir ágætt samstarf á tímabilinu við þau verkefni sem þá var unnið að. Sérstaklega vil ég þakka fyrrum formanni og varaformönnum, Hafsteini Þór Haukssyni, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Friðjóni R. Friðjónssyni fyrir samveru í verkefnum á þessum tíma. Svo vil ég ennfremur minnast á að Jens Garðar Helgason vék úr stjórn á þessu þingi, en hann hafði setið samfellt í stjórn og varastjórn í 12 ár, lengst af fyrir Austurlandskjördæmi en síðar fyrir Norðausturkjördæmi. Hann hefur bæði verið formaður í Verði og Hávarri og þekktur fyrir störf sín að ungliðamálunum. Vil ég þakka honum samstarf í flokksstarfinu við þau þáttaskil að hann hættir í stjórn. Nú skilja leiðir með mér og þeim sem unnu með mér í stjórn SUS starfstímabilið 2003-2005. Ný verkefni taka við undir nýrri forystu og stjórn í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Í nýrri stjórn blasa við breytt sjónarmið og nýjar áherslur. Það verður ánægjulegt að vinna í starfinu næstu árin við breyttar forsendur. Það verður áhugavert samstarf - næg tækifæri eru framundan í starfinu að mínu mati - og eflaust annarra stjórnarmanna.

Harriet Miers og George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í Hvíta húsinu í gær að hann hefði skipað Harriet Miers sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor sem setið hefur í réttinum allt frá árinu 1981. Tilkynnti hún um afsögn sína hinn 1. júlí sl. og hafði síðan verið uppi mikill orðrómur um hver yrði tilnefndur í hennar stað. Upphaflega var John G. Roberts skipaður í stað Söndru. Við andlát William Rehnquist forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, fyrir rúmum mánuði var Roberts þess í stað skipaður til forsetastarfa í stað Rehnquist. Tók hann formlega við því embætti á fimmtudag eftir að öldungadeild bandaríska þingsins hafði staðfest skipan hans með afgerandi hætti. Valið á Miers kom mörgum á óvart, enda hafði hún leitt vinnuferlið við leitt að nýju dómaraefni en Bush valdi hana að lokum. Er það ekki ósvipað og árið 2000 þegar að Bush valdi Dick Cheney sem varaforsetaefni sitt, en Cheney hafði stýrt nefnd sem skipuð var til að velja varaforsetaefnið. Þótti allan tímann mjög líklegt að Bush myndi nota tækifærið og velja konu í dómarasæti, nú þegar þau þáttaskil verða að hin litríka Sandra hættir og aðeins ein önnur kona er eftir í réttinum. Lengst af var þó talið líklegast að dómararnir Priscilla Owen, Edith Jones og Edith Clement yrðu fyrir valinu. Valið á Miers kom þægilega á óvart að mati sérfræðinga vestanhafs.

Harriet Ellan Miers er fædd í Dallas í Texas, hinn 10. ágúst 1945. Hin sextuga Miers hefur ekki starfað sem dómari áður. Hún er hinsvegar þekkt fyrir lagaleg störf sín umfram allt. Hún hefur verið náin samstarfskona Bush forseta, til fjölda ára og notið mikils trausts innan Bush-fjölskyldunnar. Miers hefur fylgt forsetanum mjög lengi. Hún var aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins frá valdatöku Bush í janúar 2001 þar til í upphafi þessa árs þegar hún var valin yfirlögfræðingur Hvíta hússins í stað Alberto Gonzales er hann varð dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Miers hafði áður starfað sem lögfræðingur í þrjá áratugi og notið virðingar fyrir verk sín þar. Var hún fyrsta konan sem leiddi samtök lögfræðinga í Texas-fylki og var áberandi í forystu lögfræðinga í fylkinu til fjölda ára og sat t.d. í borgarstjórn í Dallas fyrir repúblikana. Fer hún í hóp fjölda hæstaréttardómara sem hafa ekki starfað áður við dómarastörf. Til dæmis var Rehnquist (forseti réttarins 1986-2005) ekki dómari áður en hann var skipaður til dómarastarfa árið 1972. Alls hafa um 40 dómarar við hæstarétt Bandaríkjanna ekki verið dómarar áður en þeir tóku þar sæti. Miers hefur t.d. aldrei flutt mál fyrir réttinum. Íhaldssamir repúblikanar hafa gagnrýnt valið og óttast að Miers sé ekki eins íhaldssöm og þeir hefðu kosið.

Miðjumenn lýstu hinsvegar að mestu yfir fögnuði yfir skipan Miers, enda blasir við að hún er mun óumdeildari en margir sem nefndir höfðu verið sem líkleg dómaraefni. Er því líklegt að forsetanum takist að sníða hjá mestu átökunum sem fyrirséð höfðu verið við dómaravalið að þessu sinni. Sandra hafði t.d. oddaatkvæðið milli ólíkra stefna innan réttarins, milli íhaldsmannanna og liberal-istanna. Er Miers skipuð sem eftirmaður hennar, hins klassíska swing vote í réttinum. Hvaða áhrif fylgi því verður nú að ráðast. Greinilegt er að Miers er nær óskrifað blað í lykilmálum og hentar forsetanum vel að leysa vandann við valið með þessum hætti. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með staðfestingarferlinu fyrir dómsmálanefnd Bandaríkjaþings vegna skipunar Miers. Við blasir að innan skamms verði önnur breyting á réttinum. Það er ekki ósennilegt að aldursforseti réttarins, John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Hann hefur verið dómari frá 1975 (í forsetatíð Fords). Í gær kom rétturinn saman eftir dómhlé. Var Roberts þar sestur í forsetastólinn - hann er tekinn við forystunni í réttinum. Söguleg þáttaskil hafa því orðið þar. Verður merkilegt að sjá hvaða breytingar fylgji með komu Miers í réttinn og hvernig henni muni ganga í staðfestingarferlinu.

Sólveig Pétursdóttir forseti Alþingis

Sólveig Pétursdóttir fyrrum dómsmálaráðherra, var kjörin forseti Alþingis á þingsetningarfundi á laugardag. Sólveig hefur lengi starfað að stjórnmálum og verið áberandi á þeim vettvangi. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík kjörtímabilið 1986-1990. Hún tók sæti á Alþingi snemma árs 1991 í kjölfar þess að Birgir Ísleifur Gunnarsson var skipaður seðlabankastjóri. Hún var svo formlega kjörin á þing í kosningunum 1991 og hefur setið þar síðan. Hún var formaður allsherjarnefndar Alþingis 1991-1999 og varð dómsmálaráðherra að loknum alþingiskosningunum 1999. Varð Sólveig þriðja sjálfstæðiskonan sem varð ráðherra. Hún sat á stóli dómsmálaráðherra til vorsins 2003. Þá varð hún þriðji varaforseti Alþingis og ákveðið að hún tæki við forsetaembættinu nú á haustinu 2005. Vil ég nota tækifærið og óska Sólveigu Pétursdóttur forseta Alþingis, góðs í störfum sínum. Jafnframt vil ég lýsa yfir furðu minni á ómerkilegri framgöngu varaformanns Frjálslynda flokksins og annarra þingmanna flokksins í garð Sólveigar Pétursdóttur. Sérstaklega er ómerkilegt hvernig viðkomandi þingmenn draga málefni eiginmanns Sólveigar inn í pólitísk störf hennar.

Ketilhúsið

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði hefur haldið átta kynningarfundi í sveitarfélögunum upp á síðkastið og verður sá síðasti í Ketilhúsinu á Akureyri, klukkan 20.30 í kvöld. Áður hafa verið haldnir fundir á Dalvík, í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit, á Grenivík, Siglufirði, Ólafsfirði, í Hörgárbyggð, Arnarneshreppi og á Svalbarðsströnd. Fundirnir hafa verið mjög vel sóttir. Í gær var Árni Magnússon félagsmálaráðherra, gestur á fundinum á Dalvík. Vakti mikla athygli þau ummæli hans í ræðunni sem hann flutti að ef ekki tækist að sameina sveitarfélög með frjálsum kosningum væri eðlilegt næsta skref að huga að lagasetningu til að sameina sveitarfélög. Eru þetta harkaleg ummæli og finnst mér merkilegt að hann tali með þessum valdboðshætti við kjósendur á kynningarfundum. En það er ljóst að Árni telur kosningarnar um helgina þær síðustu þar sem reynt verði að sameina sveitarfélög með frjálsum kosningum. Er það mat hans að lágmarksfjöldi í sveitarfélagi ætti að vera a.m.k. 1.000 íbúar. En já það er fundur í kvöld - ég ætla mér á hann og mun skrifa um hann á morgun.

Saga dagsins
1908 Þórhallur Bjarnarson var vígður biskup yfir Íslandi - hann sat á þeim stól til dauðadags, 1916.
1925 Lesbók Morgunblaðsins kom út í fyrsta skipti - hefur verið hluti af Mogganum alla tíð síðan.
1957 Fyrsta geimfari sögunnar Sputnik, var skotið út í geiminn - um borð var hundurinn Laika.
1970 Söngkonan Janis Joplin lést í Los Angeles, 27 ára gömul. Varð heimsfræg vegna sérstakrar raddsetningar sinnar og markaði mikil þáttaskil í tónlistarsögu 20. aldarinnar með söngstíl sínum.
1984 Verkfall BSRB hófst - það hafði mikil áhrif, t.d. lá skólahald niðri, strætisvagnar gengu ekki, útsendingar ríkisfjölmiðlanna lágu niðri, svo fátt eitt sé nefnt. Verkfallið stóð allt til 30. október.

Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal skáld og prófessor (1886-1974) (Ást)

Undurfagurt ljóð um sanna ást - sem er mikils virði. Það var fært í ódauðlegan og fallegan búning við lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar árið 2003 í flutningi söngkonunnar Ragnheiðar Gröndal.