Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 desember 2005

Prófkjör í febrúar - ákvörðun um þátttöku

Sjálfstæðisflokkurinn

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri ákvað á fundi sínum að kvöldi 7. desember að efna til prófkjörs vegna vals á framboðslista flokksins við komandi sveitarstjórnarkosningar þann 27. maí 2006. Hefur verið ákveðið að halda prófkjörið þann 11. febrúar nk. Á fundinum var kjörnefnd undir forystu Önnu Þóru Baldursdóttur falið að ákveða nánari tilhögun prófkjörsins í samræmi við gildandi prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins. Þessi fundur var mjög góður - tillaga kjörnefndar var samþykkt einróma og engin önnur tillaga var borin upp til atkvæða. Var mikil samstaða um það að fara prófkjörsleiðina að þessu sinni en framboðslisti flokksins hér á Akureyri hefur verið valinn með uppstillingu í tveim seinustu kosningum, árin 1998 og 2002.

Þann 17. nóvember sl. tilkynnti ég um afsögn mína úr kjörnefnd og jafnframt gerði ég opinbert að ég hefði áhuga á að gefa kost á mér í komandi sveitarstjórnarkosningum, óháð því hvort að um prófkjör eða uppstillingu væri að ræða. Fimm dögum síðar samþykkti kjörnefnd tillögu sína um prófkjör og sendi þá ákvörðun til stjórnar fulltrúaráðs, sem boðaði til fyrrnefndar fundar fulltrúaráðsins á stjórnarfundi þann 28. nóvember. Fagna ég því mjög að ákvörðun um framboðsaðferð liggi fyrir og nú sé hægt að halda í þá vinnu sem mikilvægt er að halda í á þessum tímapunkti - tryggja sterkan og öflugan framboðslista flokksins í komandi kosningum.

Ég tilkynni hér með um framboð mitt í prófkjörinu 11. febrúar nk. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í þriðja sæti framboðslistans - í seinustu kosningum sat Þórarinn B. Jónsson bæjarfulltrúi, í því sæti. Hann hefur nú ákveðið að gefa kost á sér til setu í fimmta sæti framboðslistans. Ávarpaði hann fyrrnefndan fund og tilkynnti um fyrirætlanir sínar. Orðrómur hafði verið uppi um að hann myndi draga sig í hlé eins og Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar. Svo verður ekki - Þórarinn B. gefur kost á sér í prófkjörinu - sækist eftir fimmta sætinu og tekur því ákvörðun sem kemur sumum á óvart. Þórarinn B. hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 1994 og er þekktur fyrir góð verk í bæjarmálum. Með þessu losnar þriðja sætið og því ekki óeðlilegt að sækjast eftir því.

Framundan eru spennandi vikur og mánuðir - ég gef kost á mér til verka í forystusveit flokksins hér. Svo er það flokksmanna að vega og meta frambjóðendur. Ég tel rétt að gefa fólki kost á því að velja ungt fólk til forystu og tilkynni því um áhuga minn til að taka þátt í forystustörfum hér. Engum þarf að dyljast áhugi minn á stjórnmálaþátttöku og því hið eina rétta að gefa kost á sér og taka þátt af þeim krafti sem mikilvægur er í slíku starfi. Margir hafa væntanlega áhuga á þátttöku í prófkjörinu og hið eina rétta að allir sem slíkan áhuga hafi gefi kost á sér.

Saga dagsins
1843 Bókin A Christmas Carol eftir Charles Dickens kom út í fyrsta skipti - ein þekktasta jólasagan.
1982 Lee J. Strasberg lést, áttræður að aldri. Strasberg var fremsti leiklistarkennari Bandaríkjanna á 20. öld og kenndi mörgum af helstu leikurum landsins á öldinni, t.d. Marlon Brando, Robert DeNiro, Geraldine Page, Paul Newman, Al Pacino, Marilyn Monroe, Jane Fonda, James Dean, Dustin Hoffman og Jack Nicholson. Aðeins sjö sinnum lék hann sjálfur hlutverk í kvikmynd. Þeirra þekktast er án vafa hlutverk mafíuhöfðingjans aldna í New York, Hyman Roth, í myndinni The Godfather Part II árið 1974.
1989 Fyrsti þátturinn í teiknimyndaflokknum Simpson-fjölskyldan var sýndur í bandarísku sjónvarpi. Þátturinn gengur enn, nú 15 árum síðar, og er orðinn einn lífseigasti framhaldsþáttur Bandaríkjanna.
1998 Umdeilt frumvarp Ingibjargar Pálmadóttur um gagnagrunn á heilbrigðissviði var samþykkt á Alþingi með 37 atkvæðum gegn 20. Stjórnarandstæðingar sökuðu stjórnina um gerræði í málinu.
2003 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á þriðja og seinasta hluta Hringadróttinssögu eftir J. R. R. Tolkien, frumsýnd í London - hlaut 11 óskarsverðlaun 2004.

Snjallyrðið
Ég man þau jólin, mild og góð
er mjallhvít jörð í ljóma stóð.
Stöfum stjörnum bláum,
frá himni háum
í fjarska kirkjuklukknahljóm.
Ég man þau jól, hinn milda frið
á mínum jólakortum bið
að ævinlega eignist þið
heiða daga, helgan jólafrið.
Stefán Jónsson alþingismaður og skáld (1923-1990) (Hvít jól)