Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 desember 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um væntanlegar breytingar á Ríkisútvarpinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur lagt fram á þingi nýtt frumvarp til breytinga á útvarpslögum sem gerir ráð fyrir því að RÚV verði gert að hlutafélagi en ekki sameignarfélagi eins og stefndi áður í, en ESA gerði út af við með penum en glæsilegum hætti. Mikilvægasta skrefið á þessari vegferð er hiklaust það að hið gamalkunna miðstýringarskrímsli stofnunarinnar sem gengur almennt undir nafninu útvarpsráð mun brátt heyra sögunni til. Rekstrarstjórn kemur til sögunnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Ríkisútvarpið verður loksins eins og hvert annað fyrirtæki. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Nú verða menn að fara að reka RÚV sem hvert annað fyrirtæki en ekki stofnun, sem er kyrfilega njörvuð á jötuna.

- í öðru lagi fjalla ég um umræðuna um meinta endurkomu Jónanna á hið pólitíska svið. Talað hefur verið undir rós víða um það að undanförnu að hinir gömlu kratahöfðingjar Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, sem hafa sest í helgan stein, komi aftur í innsta hring stjórnmála og fari í framboð fyrir Samfylkinguna árið 2007. Tel ég þetta mjög til marks um tilvistarkreppu hægrikrata í flokknum - sem von er enda njóta þeir mjög fárra sæludaga undir pólitískri forystu Ingibjargar Sólrúnar. Er reyndar skondið að fylgjast með pólitískri eymd innan Samfylkingarinnar, sem sést einna best með þessu hjali um endurkomu þeirra félaga - þeir eigi að koma á hið pólitíska svið af vettvangi eftirlaunanna og verði í fylkingarbrjósti flokksins við alþingiskosningarnar 2007. Þeir eigi að verða fylgihlutir hinnar klaufalegu Ingibjargar Sólrúnar sem virðist á góðri leið með að koma flokknum niður í lægstu mörk.

- í þriðja lagi fjalla ég um bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins, sem fjallar um stjórnarmyndanir í forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns. Mæli ég mjög með bókinni - enda eru þar athyglisverðar lýsingar úr dagbókum og minnisblöðum Kristjáns sem varpa skemmtilegu ljósi á stjórnmálin, sérstaklega á árunum 1978-1980 þegar að ókyrrð var á hinu pólitíska sviði og mikið stjórnleysi í raun.


Bókmenntaverðlaun - jólabækurnar

Bækur

Tilkynnt var í Kastljósinu þann 1. desember sl. hvaða 10 bækur væru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þau verða afhent á Bessastöðum í janúarmánuði og eru veitt sem fyrr í tveim flokkum, í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis annarsvegar og fagurbókmennta hinsvegar. Eftirtaldar bækur hlutu tilnefningu:

Í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis
Ég elska þig stormur - eftir Guðjón Friðriksson
Fuglar í náttúru Íslands - eftir Guðmund Pál Ólafsson
Íslensk tunga - eftir Guðrúnu Kvaran, Höskuld Þráinsson og Kristján Árnason
Jarðhitabók - eftir Guðmund Pálmason
Kjarval - verk eftir fjölda höfunda

Í flokki fagurbókmennta (skáldsagna)
Hrafninn - eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Rokland - eftir Hallgrím Helgason
Sólskinshestur - eftir Steinunni Sigurðardóttur
Sumarljós og svo kemur nóttin - eftir Jón Kalman Stefánsson
Tími nornarinnar - eftir Árna Þórarinsson


Allt eru þetta áhugaverðar bækur og margar þeirra eru það spennandi að þær eru vænlegar til að lesa um jólin og að fá í jólapakkann. Fyrirfram átti maður von á að sjá sumar aðrar tilnefndar en aðrar koma ekki á óvart inn í þennan hóp. Það er alveg ljóst að keppnin er opin og margir eiga möguleika á þessu. Það verður allavega fróðlegt að sjá hverjir vinna verðlaunin í næsta mánuði. Það er jafnan mikið að gera hjá mér í desember, miklar annir og nóg um að vera, og það er því tilhlökkunarefni að geta um jólin sest niður og lesið góðar bækur og haft það gott. Margar bækur koma til greina sem lesefni yfir jólin.

Bækur sem ég hef áhuga á (nokkrar nefndar)
Laxness - eftir Hannes Hólmstein Gissurarson
Vetrarborgir - eftir Arnald Indriðason
Ég elska þig stormur - eftir Guðjón Friðriksson
Höfuðlausn - eftir Ólaf Gunnarsson
Völundarhús valdsins - eftir Guðna Th. Jóhannesson
Thorsararnir - eftir Guðmund Magnússon
Sólskinshestur - eftir Steinunni Sigurðardóttur
Flugdrekahlauparinn - eftir Khaled Hosseini
Eldhuginn - eftir Ragnar Arnalds
Pétur poppari - eftir Kristján Hreinsson
Játningar Láru miðils - eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson
Sumarljós og svo kemur nóttin - eftir Jón Kalman Stefánsson
Tími nornarinnar - eftir Árna Þórarinsson
Veronika ákveður að deyja - eftir Paulo Coelho
Zorro - eftir Isabel Allende
Kvöldganga með fuglum - eftir Matthías Johannessen
Í fylgd með fullorðnum - eftir Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur
Gæfuspor (gildin í lífinu) - eftir Gunnar Hersvein
Við enda hringsins - eftir Tom Egeland


Saga dagsins
1941 Þýskaland og Ítalía lýsa yfir stríði á hendur Bandaríkjunum - samstundis lýstu bandarísk stjórnvöld yfir stríði á hendur löndunum. Þátttaka Bandaríkjanna í seinna stríðinu var því hafin.
1975 Breski dráttarbáturinn Lloydsman sigldi tvívegis á varðskipið Þór í mynni Seyðisfjarðar, innan við tvær sjómílur frá landi. Þetta voru alvarlegustu átökin í landhelgisdeilunni. Kærðu Íslendingar Breta fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og stjórnmálasambandi landanna var slitið í ársbyrjun 1976.
1981 Hnefaleikakappinn Muhammad Ali keppti í síðasta skipti - veiktist af Parkinson sjúkdómi 1988.
1993 Happdrættisvélar Happdrættis Háskóla Íslands, sem kallaðar voru Gullnáman, voru gangsettar.
1994 Boris Yeltsin forseti Rússlands, fyrirskipar rússneska hernum að ráðast með valdi inn í Téténíu.

Snjallyrðið
You've got to know your limitations. I don't know what your limitations are. I found out what mine were when I was twelve. I found out that there weren't too many limitations, if I did it my way.
Johnny Cash söngvari (1932-2003)