Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 desember 2005

Frelsisdeildin

Frelsisstyttan

Frelsisdeild hefur aftur hafið göngu sína á vef SUS, nú undir stjórn mín og Kára Allanssonar. Í tilefni þess settumst við félagar og góðvinir niður saman og rituðum grein saman á vef SUS um upphaf deildarinnar. Birti ég hérmeð þann pistil hér á bloggvefnum:


Í gær hófst Frelsisdeildin að nýju á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna. Deildin hafði áður verið hér á vefnum og tók ný ritstjórn strax í upphafi þá ákvörðun að henni skyldi haldið áfram með svipuðum hætti og verið hafði. Tekin var sú ákvörðun að við, Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri, og Kári Allansson, myndum taka við stjórn hennar. Fyrsta umferð hefur nú farið fram þar sem tekin voru fyrir málefni þingsins frá upphafi þinghalds til miðs nóvembermánaðar. Birgir Ármannsson leiðir deildina eftir fyrstu umferðina. Fyrir jól verður önnur umferð þar sem málefni þingsins til loka þinghalds fyrir jólin verður fært inn.

Að mati okkar sem sitjum í ritstjórn vefs SUS er mikilvægt að hafa Frelsisdeildina. Með því förum við yfir málefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, leggjum mat okkar á málefni þingsins og dæmum hvort og þá hvernig þingmenn séu að standa sig. Það er nauðsynlegt að við leggjum okkar mat á það hvort þingmenn séu að vinna að framgangi frelsismála eða vinni að því að halda á lofti baráttumálum Sambands ungra sjálfstæðismanna. Frelsisdeildin er án nokkurs vafa öflugasta merkið af okkar hálfu til að færa þingmönnum þá kveðju að við fylgjumst með verkum þeirra og dæmum þau í þessari góðu deild.

Deildinni hefur tekist að vekja athygli og þingmenn hafa unnið af krafti við að vinna að þeim málum sem mestu skipti af enn meiri krafti eftir tilkomu hennar. Það er við hæfi að hrósa þeim þingmönnum sem vel gera og verðlauna þá með þeim hætti sem gert hefur verið. Það er líka við hæfi að ungliðar flokksins fylgist með þeim verkum sem þingmenn flokksins gera á vettvangi sjálfs þingsins. Það er altént hægt að fullyrða að hér á vef SUS sé öflug umræða um málefni þingsins. Utan Frelsisdeildarinnar er hér Þingvörðurinn þar sem farið er yfir þingvikur og störf og málefni þingsins með mjög góðum hætti. Þar er bæði farið yfir það sem vel er gert og almennt ekki vel gert - hæfileg blanda það.

Á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna á að finna góða umfjöllun um þingmál. Í pistlum er fjallað ennfremur um hitamál samtímans sem oft eru til umræðu á vettvangi þingsins. Með þessu er hægt að finna góða umfjöllun um hitamálin, bæði hér heima og erlendis. Hér í vetur hafa verið öflug greinaskrif og því viðeigandi að hafa þessa umfjöllun með, sem er fólgin í Þingverðinum og í Frelsisdeildinni. Það er allavega ákvörðun ritstjórnar að þessi deild eigi að starfa áfram og grunngildi hennar séu í fullu gildi áfram. Það er enda eðlilegt að SUS fylgist með þingstörfum og fjalli um þau af einbeittum krafti og af sönnum áhuga.

Það er svo vonandi að þingmenn flokksins fylgist með stöðunni í deildinni eftir því sem fram líður næstu vikurnar og finni sig knúna til að leggja fram fleiri þingmál og berjist af krafti fyrir skoðunum sínum á vettvangi þingsins. Margir eru sammála um það að þinghaldið hafi verið dauft nú fram að jólum. Það verður að taka undir það. Vissulega er einn þáttur þess hversu dauf stjórnarandstaðan hefur verið. Þegar við fórum yfir þingmál fyrstu vikna þinghaldsins fundum við, okkur til gleði og ánægju, mörg mál sem eru til frelsisáttar og til samræmis við stefnumál okkar í SUS. Það er ánægjuefni. En betur má ef duga skal og vonandi munu þingmenn fylgjast með deildinni og koma með komment til okkar næstu vikurnar.

Frelsisdeildin er allavega hafin að nýju. Allar góðar ábendingar og athugasemdir um deildina og störf þingsins, svo og auðvitað skoðanir annarra á þingmálum eru vel þegnar. Allir áhugamenn um málin eru hvattir til að hafa samband vilji þeir fara yfir þingmálin og stöðu deildarinnar. Að lokum vonum við auðvitað að með deildinni verði þingmenn betur meðvitaðir um það að við munum fylgjast með því hverjir vinna af krafti við að leggja fram öflug og góð þingmál sem vinna að því að tryggja að stefnumál SUS eigi sér málsvara inni í sölum Alþingis.

Stefán Friðrik Stefánsson - Kári Allansson


Saga dagsins
1939 Kvikmyndin Gone with the Wind frumsýnd í Atlanta í Georgíu-fylki. Hún varð ein af vinsælustu kvikmyndum 20. aldarinnar og hlaut 10 óskarsverðlaun árið 1940, t.d. sem besta kvikmynd ársins.
1953 Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega í notkun, þar voru í upphafi rúm fyrir 120 sjúklinga - fyrsti yfirlæknir var Guðmundur Karl Pétursson en nú er Þorvaldur Ingvarsson yfirlæknir.
1966 Walt Disney deyr, 65 ára að aldri, úr krabbameini. Disney náði heimsfrægð er hann skapaði margar af helstu teiknimyndapersónum sögunnar og hóf framleiðslu teiknimynda fyrir börn á fjórða áratugnum. Hlaut 26 óskarsverðlaun á ferli sínum og var tilnefndur 64 sinnum, oftar en allir aðrir.
1993 John Major forsætisráðherra Bretlands, og Albert Reynolds forsætisráðherra Írlands, kynntu á blaðamannafundi í London að samkomulag hefði náðst um að hefja friðarviðræður á Norður Írlandi.
2000 Samkeppnisráð tilkynnti í skýrslu að fyrirhugaður samruni Landsbankans og Búnaðarbankans myndi leiða til of mikillar samþjöppunar og markaðsráðandi stöðu. Hætt var við samruna bankanna.

Snjallyrðið
Jólin, jólin alls staðar
með jólagleði og gjafirnar.
Börnin stóreyg standa hjá
og stara jólaljósin á.

Jólaklukka boðskap ber
um bjarta framtíð handa þér
og brátt á himni hækkar sól,
við höldum heilög jól.
Jóhanna G. Erlingsson kennari (1935) (Jólin allsstaðar)