Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 febrúar 2006

Sunnudagspistillinn

Stefán Friðrik StefánssonÍ sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 11. febrúar sl. og eftirmála þess. Eins og vel hefur komið fram var hlutur ungliða ekki góður í prófkjörinu og hef ég verið mikið í fjölmiðlaumræðunni vegna þess. Var ég gestur á Morgunvaktinni í vikunni og fór yfir stöðu mála og geri það ennfremur hér í pistlinum. Ennfremur fjalla ég um umræðu seinustu daga í Fréttablaðinu sem birt hefur gögn sem þeir hafa undir höndum og kölluð eru vinnugögn stuðningsmanna Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra. Brá mér mjög að heyra af þessum gögnum og sjá eðli þeirra. Annaðhvort er um að ræða stóralvarlegt mál fyrir flokkinn til að vinna úr hér eða alvarlegt skemmdarverk til að skaða okkur. Hvort tveggja er skelfilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Var hringt í mig vegna þessara gagna á föstudag þar sem ég var staddur á sveitarstjórnarráðstefnu Sjálfstæðisflokksins og ég beðinn að kommenta á þessi gögn. Auðvitað neita ég að trúa því að svona hafi verið unnið. Ef svo hefur verið gert er það svo alvarlegt mál að ekki verður úr unnið.

- í öðru lagi fjalla ég um sveitarstjórnarráðstefnu Sjálfstæðisflokksins sem haldin var í Valhöll á föstudag. Var það öflug og góð ráðstefna og flokksmenn samhentir í þeim verkefnum sem framundan eru næstu 100 dagana - stefna fram til sigurs undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Almennt var kraftur einkunnarorð fundarins. Sjálfstæðismenn eru í meirihluta í miklum meirihluta sveitarfélaga landsins og mikill hugur í okkar fólki með að halda þeim góða sess sem við höfum í sveitarstjórnum landsins. Mæting var alveg frábær - fór fram úr björtustu vonum og tóku hátt á annað hundrað manns þátt í fundinum. Málefnavinnan gekk mjög vel. Sveitarstjórnarráðstefna flokksins var öflug og sameinaði okkur öll í því verkefni sem hæst ber nú. Verkefnið nú er einfalt og menn einbeita sér að því sem máli skiptir - fram til sigurs í vor!

- í þriðja lagi fjalla ég um úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þar sigraði Dagur B. Eggertsson báða borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og felldi kvenkyns borgarstjóra af stalli sínum. Stærstu tíðindi þessa prófkjörs eru að mínu mati tvenn: höfnun á borgarfulltrúum Samfylkingarinnar innan R-listans og R-listamunstrinu á framboði Samfylkingarinnar. Stefán Jón og Steinunn Valdís hafa verið borgarfulltrúar Samfylkingarinnar seinustu árin en þeim var báðum hafnað sem leiðtogaefnum með mjög afgerandi hætti. Bæði brostu í gegnum tárin við úrslitin. Reyndar hefði allsstaðar verið talið stórtíðindi allsstaðar nema í Samfylkingunni að kvenkyns borgarstjóra væri hafnað með þessum hætti.


stebbifr@simnet.is