Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 apríl 2006

Alfreð gerir upp endalok R-listans sáluga

Alfreð Þorsteinsson

Það leikur enginn vafi á því að Alfreð Þorsteinsson er einn af umdeildustu stjórnmálamönnum seinustu áratuga hérlendis. Deilt hefur verið um verk hans í pólitík og hann hefur algjörlega án þess að hika varið verk sín af krafti og beitt til þess öllum brögðum. Alfreð hefur verið áberandi til fjölda ára í forystu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þó lengi hafi verið deilt um verk hans í stjórnmálum leikur enginn vafi á því að mest hefur verið deilt um verk hans innan flokksins í R-listanum, sameiginlegu framboði félagshyggjuflokkanna í Reykjavík seinustu 12 árin. Alfreð var einn af lykilmönnunum innan R-listans allan valdatíma hans og var valdamikill í nefndum og ráðum á þeim tíma. Hæst náðu völd hans og áhrif seinustu fjögur árin af valdatímanum en þá var hann leiðtogi flokksins í borginni og fór óhikað sínar leiðir, andstæðingum sem stuðningsmönnum R-listans oft til armæðu.

En nú er komið að leiðarlokum á pólitískum ferli Alfreðs. Eftir 35 daga lýkur ferli hans sem forystumanns flokksins í borgarstjórn og hann lætur af öllum pólitískum störfum fyrir Reykjavíkurborg. Hann er enda ekki í framboði í vor og víkur af hinu pólitíska sviði. Í dag fer hann yfir þennan feril í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson í Fréttablaðinu. Það er að mörgu leyti mjög athyglisvert að lesa það viðtal og fara yfir það sem þar kemur fram. Nú er ferlinum lýkur er hann forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og leiðir flokk sinn. Hann hefur auk þess gegnt stjórnarformennsku veitufyrirtækis borgarinnar, Orkuveitu Reykjavíkur, allan valdatíma R-listans. Mjög hefur verið deilt um verk hans innan Orkuveitunnar þessi tólf ár og meginþungi átakanna um Alfreð og verk hans í borgarmálum hafa enda snúist hvort hann hafi unnið til góðs eða ills innan Orkuveitunnar.

Að mínu mati hefur verið með ólíkindum að fylgjast með óráðsíunni innan Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig henni hefur verið stjórnað undanfarinn áratug af Alfreð, af hálfu allra flokkanna sem myndað hafa R-listann. Nægir þar að nefna ákvörðun OR um að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn, undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og fyrirtækjarekstur á sviði gagnamiðlunar sem vakið hefur mikla athygli fyrir sukk og óráðsíu. Ekki er hægt að sjá að verk af þessu tagi tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því auðvitað mjög undarlegt að borgarbúum hafi verið gert að taka þátt í honum. Alfreð hefur vegna þessa verið af mörgum talinn einn spilltasti stjórnmálamaður landsins og hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug.

Síðastliðið sumar leið R-listinn formlega undir lok en hann stjórnar eins og vofa í Reykjavík til loka kjörtímabilsins. Sem betur er styttist í að valdatíma R-listans ljúki og eru 35 dagar þar til að breytingar verða á stjórn borgarinnar. Í þessu viðtali kemur mjög vel fram sú skoðun Alfreðs að upphaf endaloka R-listans hafi verið sú ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sameiginlegs borgarstjóraefnis flokkanna, að gefa kost á sér í þingframboð fyrir einn flokkinn. Þá hafi hún misst stuðning Framsóknarflokksins til verka. Flestir vita hvernig þeim hráskinnaleik lauk öllum en Ingibjörg Sólrún sagði af sér embætti borgarstjóra í kastljósi fjölmiðlanna og fór í þingframboð. Hún situr enn sem fulltrúi flokkanna allra í borgarstjórn en er orðin formaður eins þeirra. Alfreð fer vel völdum orðum um viðskilnað ISG við R-listann og telur að glappaskot hennar hafi leitt til þess að R-listinn veðraðist upp mjög hratt.

Allt frá því að Ingibjörg Sólrún var sett af sem borgarstjóri um jólin 2002 hefur Alfreð Þorsteinsson verið valdamesti maðurinn í borgarkerfinu og eflaust hefur hann verið lykilmaður þar mun lengur en svo. Frá þeim tíma hafa verið skýr átök þar um leiðir í verkum og forystuna en þó bundist böndum um að klára kjörtímabilið, þó oft hafi það orðið þeim brösugt með ISG áfram sem borgarfulltrúa og hornkellingu innan meirihlutans. Alfreð kemur með það athyglisverða innlegg að í raun hafi meirihlutaviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verið við það að hefjast er Ingibjörg Sólrún sagði loksins af sér. Eina ástæða þess að hún sagði af sér var enda til að vernda R-listann. Síðan hefur hann hvorki verið fugl né fiskur og sprakk svo endanlega í fyrra þegar að tekist var á um stólaskiptingar milli flokka en ekki áhersluatriði um borgarmálin sem slík. Athyglisverð endalok á pólitísku hagsmunabandalagi.

Alfreð Þorsteinsson staðfestir í þessu viðtali allt tal andstæðinga R-listans sáluga um að í raun hafi samstarfinu verið lokið í árslok 2002 þegar að ISG hrökklaðist frá völdum í borginni. Síðan var þetta sem stjórnlaust rekald sem stjórnaðist af hagsmunum flokkanna og bitlingum umfram pólitískar hugsjónir og ástríðu á Reykjavíkurborg sem slíkri. Alfreð fer yfir þessi mál í viðtalinu og greinileg undirliggjandi biturð liggur í orðunum um viðskilnað R-listans sem hefur nú sagt sitt síðasta og heldur með Alfreð Þorsteinssyni inn í pólitískar sögubókur Reykjavíkurborgar með kosningunum eftir 35 daga. Það verða ánægjuleg þáttaskil sem þá verða.