Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 apríl 2006

All the President´s Men

Dustin Hoffman og Robert Redford í All the President´s Men

Á laugardag keypti ég 30 ára afmælisútgáfu kvikmyndarinnar All the President´s Men, en þar er myndin í enn betri myndgæðum en áður og með ýmsu fylgiefni. Horfði ég á safnið í kvöld. Er það mjög vandað (tveir diskar) og áhugavert að kynna sér viðbótina, t.d. ítarlega frásögn Robert Redford um myndina og söguna meðan að hún rúllar. Eins og flestir vita er í þessari mynd rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974.

Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.

Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins.

Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: Bernstein og Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post. Í myndinni er Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði verið deilt um hver heimildarmaðurinn var og reynt að upplýsa hver hann væri.

Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.

Að mínu mati er þetta besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína.

Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Hvet fólk til að kaupa nýju útgáfuna, en þar er að finna nýjan heimildarþátt um Deep Throat (Mark Felt). Þessi mynd er pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá láti mig bara vita.