Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 maí 2006

Pólitískt kjaftshögg fyrir Tony Blair

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, varð fyrir gríðarlegu pólitísku áfalli, sennilega því mesta á 25 ára stjórnmálaferli sínum, í gær þegar að ljóst var að Verkamannaflokkurinn hefði beðið afhroð í sveitarstjórnarkosningum í landinu. Missti flokkurinn rúmlega 250 sveitarstjórnarfulltrúa á landsvísu og er orðinn smáflokkur á sveitarstjórnarstiginu. Það er af sem áður var segja eflaust sumir. Lengi vel framan af níu ára valdaferli flokksins í forystu ríkisstjórnar Bretlands drottnaði hann yfir sveitarstjórnarstiginu. Flokkurinn missti nokkuð fylgi í seinustu sveitarstjórnarkosningum vorið 2004 en afhroðið nú er heilu verra en það sem þá blasti við. Eins og við má búast eru þetta aftur á móti bestu kosningar Íhaldsflokksins í Bretlandi frá árinu 1992 og er flokkurinn mjög að styrkjast undir forystu David Cameron og bætir við sig rúmlega 250 sveitarstjórnarfulltrúum og er nú orðið langstærsta aflið í sveitarstjórnarmálum landsins.

Þessi kosningaúrslit eru án nokkurs vafa sem blaut vatnstuska framan í Blair og Verkamannaflokkinn. Það leikur enginn vafi á því að þáttaskil eru að verða í breskum stjórnmálum. Valdaferill Tony Blair mun bráðlega líða undir lok og ný ásýnd koma á Verkamannaflokkinn. Það sjá allir að Blair er orðinn akkilesarhæll flokksins en er ekki lengur segull flokksins á kjósendur. Gullaldarskeið forsætisráðherrans hefur án nokkurs vafa lokið með þessum úrslitum. Þessi mikli ósigur Blairs kemur nákvæmlega ári eftir þriðja sigur hans og flokksins í þingkosningum - sigur sem markaði súrsæt þáttaskil fyrir hann, hann varð fyrsti leiðtogi flokksins til að leiða hann til þriggja sigra í þingkosningum en hinsvegar rýrnaði meirihluti stjórnarinnar svo að órólega deildin innan hans var með oddastöðu í mikilvægum málum. Síðan hefur Blair verið allt að því í gíslingu þessara afla innan Verkamannaflokksins - það blasir alveg við.

Má búast við að umræðan magnist nú enn frekar um það nú hvort Blair muni sitja til loka kjörtímabilsins. Margoft hefur forsætisráðherrann staðfest að þetta væri hans síðasta kjörtímabil og hann myndi hætta innan þess tímaramma. Hefur verið tekist á um það seinustu mánuði hvenær að Blair muni hætta og þrýst á tímasetningu frá honum. Munu raddir þess efnis að hann verði að taka af skarið aukast til muna nú. Enginn vafi leikur á því að stjörnuljómi hans er farinn og segullinn á almenning er annar maður, fjármálaráðherrann Gordon Brown. Segja má að um lengri skeið sé Brown orðinn forsætisráðherraefni kratanna, en Blair sitji eftir til hliðar sem leiðtoginn sem sé að fara að hætta eða sé þarna en sé þarna meira punt og skraut.

Við blasir nú að til að halda velli eitthvað lengur verði Blair að stokka með róttækum hætti upp stjórn sína. Það verður tilkynnt um þá uppstokkun strax í dag. Er ekki ósennilegt að Blair muni reyna að klippa á vandræðatalið se verið hefur á fullu seinustu vikurnar. Enginn vafi leikur á að lykilástæða taps Verkamannaflokksins í þessum kosningum eru ýmis hneykslismál sem ráðherrar flokksins hafa flækst í - nægir þar svo sannarlega að nefna John Prescott og Charles Clarke. Má búast við að hitnað hafi verulega undir þeim báðum nú. Blair ætlar sér ekki að stranda í sumarveðrum stjórnmálanna í Bretlandi en að óbreyttu eru afgerandi líkur á að svo fari. Honum verður kennt um afhroð flokksins nú og stefnir í raun allt í það að þingmenn flokksins telji hann orðinn til trafala frekar en hitt og honum verði einfaldlega því skóflað í burtu vilji hann ekki fara sjálfviljugur.

Enginn vafi er á því að Tony Blair hefur stefnt að því að slá met hinnar kraftmiklu járnfrúar, Margaret Thatcher, sem sat lengur á forsætisráðherraferli en aðrir í seinni tíma stjórnmálasögu. Ef hann situr til loka kjörtímabilsins án þess að boða til kosninga áður hefur hann setið samfellt í tólf ár og hefur þá náð að skáka frú Thatcher. Blair er ekki gamall maður - hann verður 53 ára á morgun - en hann er þó orðinn mjög pólitískt mæddur. Pólitískt afhroð Verkamannaflokksins nú mun flýta verulega fyrir endalokum valdaferils Tony Blair. Afgerandi líkur eru á því að hann verði alfarinn úr Downingstræti 10 fyrir upphaf laufvindanna í haust.

Umfjöllun SKY um kosningarnar í Bretlandi