Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 júní 2006

SUS-dagur í Reykjanesbæ

Reykjanesbær

Á morgun verður SUS-dagur haldinn í Reykjanesbæ. Þar munu stjórn og trúnaðarmenn SUS um allt land hittast og eiga saman góða stund. Stjórn Heimis, f.u.s. í Reykjanesbæ, hefur skipulagt góða og vandaða dagskrá sem verður gaman að njóta. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, mun taka á móti hópnum við komuna til bæjarins. Mun Árni kynna okkur góða stöðu mála í bænum og þau umfangsmiklu verkefni sem í gangi eru nú í sveitarfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur í Reykjanesbæ þann 27. maí sl. og hlaut sjö bæjarfulltrúa kjörna af ellefu og tæp 60% atkvæða. Flokkurinn hefur verið í forystu Keflavíkur og Njarðvíkur og síðar Reykjanesbæjar allt frá árinu 1990 og verið í hreinum meirihluta þar frá árinu 2002. Óhætt er að segja að forysta Árna og flokksins hafi verið farsæl og segja úrslit kosninganna nú í vor allt sem segja þarf um stöðu flokksins í sveitarfélaginu.

Á SUS-deginum verður haldið á varnarsvæðið og kynnt sér stöðu mála þar, en eins og allir vita mun varnarliðið halda af landi brott fyrir lok septembermánaðar. Síðdegis verður fundað og farið yfir stjórnmálaástandið í kjölfar góðrar útkomu Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í vor og breytinga innan ríkisstjórnar, en nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins að nýju tekið við forsæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Verður ánægjulegt að hitta góða félaga í Reykjanesbæ nú um helgina - sérstaklega ánægjulegt er að hittast í Suðurkjördæmi. Flokkurinn vann glæsilega kosningasigra um allt kjördæmið og þar stendur vissulega upp úr fyrrnefndur kosningasigur í Reykjanesbæ.


Að lokum vil ég hér í dag óska Línu systur til hamingju með afmælið nú í dag. Hún er 37 ára í dag. Innilega til hamingju með daginn Lína mín. :)