Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júlí 2006

Kostulegar mótsagnir Samfylkingarinnar

ISG ásamt fleirum við álversskiltið

Í dag fjallar Vef-Þjóðviljinn með glans um Samfylkinguna, einn skrautlegasta flokk í Íslandssögunni í frábærum pistli. Einkum er þar vikið að því blaðri að Samfylkingin hafi átt þátt í EES-samningnum. Eins og vel hefur verið bent á gat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ekki stutt EES á þingi og þingflokksformaður Margrét Frímannsdóttir var á móti samningnum eins og allir aðrir kommar á þingi á þeim tíma. Kjaftæðið um stuðning Samfylkingarinnar við EES er því bara kjaftablaður. Einnig er vikið að stóriðjumálunum.

Samfylkingin sem þekktust er allra flokka hérlendis fyrir að skipta um skoðanir í takt við vindáttir stjórnmálanna, brást ekki þeirri grundvallarreglu í því máli frekar en öðrum. Lengst framanaf var flokkurinn algjörlega á móti virkjun og álveri á Austurlandi. Kaflaskil urðu á árinu 2002 þegar skoðanakannanir hófu að sýna að meirihluti landsmanna studdi virkjunina og álversframkvæmdirnar. Í kosningu um virkjunina á þingi í apríl 2002 studdu flestir þingmenn Samfylkingarinnar málið. Skömmu síðar snerist forysta flokksins algjörlega til stuðnings við helstu þætti málsins.

Dyggustu málsvarar þess allan tímann voru þó forystumenn Samfylkingarinnar í gamla Austurlandskjördæmi, og var afstaða þeirra lengi vel algjörlega andsnúin því sem Samfylkingin á landsvísu hafði um málið að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sem borgarstjóri tjáð mikla andstöðu sína og R-listans við virkjun og álver á Austurlandi. Í kjölfar þess að hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í ársbyrjun 2003 snerist hún til fylgilags við málið, allt að því með óbragð í munni, enda hafði hún sem stuðningskona Kvennalistans verið andsnúin öllum meginhugmyndum um stóriðju.

Í alþingiskosningunum 2003 tjáði Samfylkingin einarðlega stuðning við álverið, einkum í Norðausturkjördæmi, þar sem helstu málsvarar framboðsins voru eitt sinn hluti af óánægjuhópnum sem börðust fyrir málinu frá upphafi, t.d. Einar Már Sigurðarson alþingismaður frá Neskaupstað. Frægt varð þegar Samfylkingarforystan var á kosningaferðalagi á Austurlandi og hélt eins og ekkert væri sjálfsagðara að skilti við væntanlegt framkvæmdasvæði og lét mynda sig við það og notuðu í kosningabaráttunni.

ISG

Það var óneitanlega ankanalegt að sjá helsta málsvara gegn stóriðju til fjölda ára, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrum borgarfulltrúa og þingmann Kvennalistans, sem aldrei studdi hugmyndir um stóriðju meðan flokkurinn var til, gera sig að málsvara stóriðju á Austurlandi sem hún neyddist til að lýsa yfir stuðningi við til að friða öfl innan Samfylkingarinnar á landsbyggðinni. Enginn vafi er á því að stuðningur Samfylkingarinnar var alla tíð tengdur vinsældapólitík, ekkert annað lá þar að baki. Andstaða við málið lengst framanaf hjá forystunni og snögg umskipti vegna stuðnings landsmanna við málið blasa við öllum þegar fjallað verður um allt málið af sagnfræðingum framtíðarinnar.

Ólíkt Samfylkingunni var Vinstrihreyfingin - grænt framboð heiðarleg í málinu allt frá upphafi og afstaða þeirra öllum ljós frá því fyrst var farið að tala um álver á Austurlandi seinnihluta tíunda áratugarins. Flokkurinn var frá upphafi andsnúinn öllum hugmyndum um álver í Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka og flokkurinn í Norðausturkjördæmi hugsaði frekar um öll umhverfissjónarmið málsins, frekar en hagsmuni almennings, fólksins á Austfjörðum sem barðist fyrir málinu. Það var til marks um alla stjórnmálabaráttu VG sem hugsar frekar um gæsirnar til fjalla en fólkið í byggð.

En já, ég gat ekki annað en rifjað upp sagnfræðina í þessu máli og rétt eins og í EES-málinu er hún ekki forystukólfum Samfylkingarinnar í hag. Reyndar er skondið að heyra Samfylkinguna býsna sér yfir einhverri breyttri stóriðjustefnu Framsóknarflokksins og ráðast að Jóni Sigurðssyni, væntanlegum formanni Framsóknarflokksins, með offorsi hafandi verið með formann Samfylkingarinnar styðjandi Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn. Mótsagnir Samfylkingarinnar eru alltaf skemmtilegar - ekki satt lesandi góður?