Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 júlí 2006

Sögulegur fundur - vindhanasnúningur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í forsæti ríkisstjórnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, stýrði í morgun ríkisstjórnarfundi, fyrst kvenna í stjórnmálasögu landsins. Þorgerður stóð sig vel í dag og var eins og sannur öflugur stjórnmálaleiðtogi í tali og töktum að loknum ríkisstjórnarfundinum. Finnst Þorgerður Katrín hafa styrkst seinustu vikurnar í stjórnmálum. Það er öllum sjálfstæðismönnum gleðiefni að sjálfstæðiskona stýri fyrst kvenna ríkisstjórnarfundi.

Á fundinum í morgun var rætt um það að hægja á framkvæmdum við væntanlegt tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík eða fresta þeim eilítið til að slá á þenslu í efnahagslífinu. Er þetta mikil skynsemisákvörðun. Hafa stjórnvöld ákveðið að hægja ferðina í nokkrum málum, aðallega eru þau á landsbyggðinni. Með þessu ætti að vera vel ljóst að litið er ennfremur til þess að slá á hlutina á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og við er að búast notfærir minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur sér þetta mál til að slá sér upp í fjölmiðlum í hágúrkunni sem er svo áberandi í pólitíkinni núna. Sá viðtal við Dag B. Eggertsson þar sem hann gefur lítið fyrir þessa tillögu og segir greinilegt að allt sé sett undir fyrir stóriðjumálin. Það er skondið að heyra tal Samfylkingarinnar um stóriðjuna og má oft sjá glitta í andstöðukantinn í tali Samfylkingarforkólfa á tyllistundum um þau mál.

Ingibjörg Sólrún minnti mann á Ragnar Reykás í talinu um stóriðju í Pressuviðtalinu á NFS um helgina, talandi aðra stundina með krafti gegn stóriðju og svo allt í einu umpólast þegar talinu var víkið að Húsavík. Svo má ekki gleyma því að fleiri Samfylkingarþingmenn studdu álver og virkjun á Austurlandi en Framsóknarþingmenn. Tvískinningurinn er því alltaf fyndinn.

Enda ekki furða að formaður Samfylkingarinnar yrði undarleg þegar að henni var bent á það af Helga frænda mínum að bæði var hún stuðningsmaður virkjunar og álvers á Austurlandi í borgarstjórn og þingmenn flokksins svo á þingi. Fræg mynd af henni við Alcoa-skiltið í Reyðarfirði í aðdraganda kosninganna segir meira en mörg orð. Þetta er skondið. Bendi á fyrri skrif mín um mótsagnir Samfylkingarinnar.