Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 desember 2002

Eftirmálar prófkjörs - lokuð prófkjör
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins, í dag til að ræða eftirmála prófkjörs flokksins í Norðvesturkjördæmi og annmarka á kosningunni og framkvæmd þeirra. Vilhjálmur Egilsson alþingismaður, sem lenti í fimmta sæti prófkjörsins vildi að það yrði ógilt og miðstjórn úrskurðaði á þann hátt og tæki undir sjónarmið sín, vegna utankjörfundarkosningar á Akranesi og Grundarfirði. Niðurstaða miðstjórnar var sú að hún gæti ekki gripið inn í samhljóða og ágreiningslausar ákvarðanir kjörnefndar og stjórnar kjördæmisráðs Norðvesturkjördæmis og fulltrúaráða sjálfstæðisfélaganna í Húnavatnssýslu, í Skagafirði og á Akranesi vegna prófkjörsins 9. nóvember sl. Miðstjórnin segir að enginn vafi leiki á að verulegur misbrestur hafi verið á framkvæmd utankjörfundarkosningarinnar. Þó hafi ekki verið sannað á óyggjandi hátt að framkvæmdinni hafi verið beint gegn einum frambjóðenda fremur en öðrum, né fullyrt hvaða áhrif misbresturinn hafði á niðurstöðuna. Miðstjórnin taldi sér því ekki vera fært að taka fram fyrir hendurnar á kjördæmisráði flokksins í kjördæminu. Miðstjórnin tók í framhaldinu ákvarðanir sem miða að því að tryggja að slík mál komi ekki upp aftur. Miðstjórnin ákvað því að breyta prófkjörsreglum flokksins þannig að einungis félagsbundnir sjálfstæðismenn og þeir sem gerast félagar í síðasta lagi samhliða prófkjöri geti tekið þátt í prófkjöri. Þá mun kaflinn um utankjörfundarkosningu í prófkjörsreglum flokksins verða endurskoðaður til að tryggja mun betur en nú er að ekki sé unnt að mistúlka eða misskilja reglurnar um utankjörfundarkosningu. Jafnframt verði hverjum frambjóðanda veittur sjálfstæður kæruréttur til miðstjórnar vegna framkvæmdar prófkjörs. Ég er sammála ákvörðunum miðstjórnarinnar - mér þykir eðlilegast að flokksbundnir stuðningsmenn flokks, sama hvaða nafni hann nefnist velji sína frambjóðendur. Allt annað finnst mér orka tvímælis. Einnig þarf að tryggja að fyrir liggi skýrar reglur um prófkjör innan flokksins, það er mjög mikilvægt.

Kosning um fréttastjóra í útvarpsráði
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með farsanum varðandi ráðningu fréttastjóra Sjónvarpsins. Nokkur tími er nú liðinn síðan staðan var auglýst og tilkynnt var hverjir hefðu sótt um starfið. Ljóst var nokkuð lengi að vissir flokkshestar í útvarpsráði ætluðu með öllum brögðum að reyna að koma í veg fyrir að hæfasti umsækjandinn fengi starfið. Það leikur enginn vafi á því að Elín Hirst er hæfust þeirra sem um starfið sóttu og ætti að öllu eðlilegu að fara eftir því en ekki flokkslitum. En svo einfalt virðist það ekki ætla að verða, enda blasir við að fulltrúar þriggja flokka í útvarpsráði hafi myndað bandalag til að styðja annan umsækjanda, og til að koma í veg fyrir að Elín verði ráðin. Þegar ljóst var hvert stefndi hætti Páll Benediktsson við að sækjast eftir starfinu, en hann þótti vinstriflokkunum ákjósanlegur til að koma í veg fyrir að Elín fengi starfið. Hefur verið með ólíkindum að fylgjast með þessum vinnubrögðum. Í dag var svo loks komið að því að kjósa í útvarpsráði um stöðuna og hlaut Sigríður Árnadóttir varafréttastjóri Útvarpsins fjögur atkvæði, en Elín þrjú atkvæði. Með þessu lítur pólitískt skipað útvarpsráð framhjá stjórnunarreynslu Elínar Hirst og fréttamannsstörfum hennar. Hún hefur verið stjórnandi á þrem fréttastofum og nýtur stuðnings fráfarandi fréttastjóra og ýmissa yfirmanna hjá stofnuninni. Þessi kosning staðfestir enn einu sinni að tími útvarpsráðs er liðinn og nauðsynlegt að stokka þessa stofnun alla upp. Í svona starf á að ráða útfrá hæfileikum umsækjenda en ekki flokkslitum. Sá hæfasti á að njóta sannmælis. Það er alveg greinilegt að hæfileikar og fyrri reynsla í þessum bransa séu látin lönd og leið við ráðningu í slík embætti sem hér um ræðir. Það er Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri sem ræður fréttastjórann, væntanlega strax á morgun. Ég ætla að vona að hann velji hæfasta umsækjandann, þann sem meirihluti útvarpsráðs sniðgekk í dag.