Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 desember 2002

Góður pistill um hálfkaraða fjárhagsáætlun - ítarleg ræða
Í ítarlegum pistli á heimasíðu sinni tjáir Björn Bjarnason leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sig um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003, umræðu um það þegar borgarstjóri gaf í skyn á borgarstjórnarfundi að ekki væri útilokað að hún yrði í framboði við komandi þingkosningar (sem reyndist grín af hálfu hennar!) og svokallaðan bannlista ISG. Sérstaklega athyglisvert er að lesa fyrsta hluta pistilsins sem fjallar um fjárhagsáætlunina sem lögð var fram í pörtum en ekki sem heilstætt plagg við fyrstu umræðu venju samkvæmt. Eins og Björn bendir á vantar samstæðureikning borgarinnar, sem sýnir stöðu fyrirtækja í meirihlutaeign hennar eins og Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu allir sem einn yfir mikilli vantrú sinni á fjárhagsáætlun R-listans í ljósi þess að heildarmyndin er ekki til staðar, þetta er hálfkarað plagg sumsé. Ég tel einnig persónulega mjög einkennilegt að heyra þá röksemd ítrekað kynnta af borgarstjóra og meðreiðarsveinum að fyrst ríkið hafi nú selt bankana þá sé fullkomlega eðlilegt að ríkið noti þá peninga til að kaupa hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Ég bendi á ítarlega ræðu Björns við fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Rekstrarkostnaður forsetaembættins eykst gríðarlega
Fram kom í fréttum í dag að almennur rekstrarkostnaður forsetaembættisins hefði hækkað verulega frá árinu 1996 (er núverandi forseti tók við embætti) til ársins 2001. Fram kemur í DV í dag að miðað við fast verðlag 2001 og neysluverðsvísitölu, þá nemi aukningin í heild um 20%, en 44% miðað við verðlag hvers árs. Yfirstjórnin sjálf tekur þó til sín mun meiri aukningu, eða 40% miðað við fast verðlag 2001, en ríflega 68% miðað við verðlag hvers árs. Ekki hækka þó allir liðir við almennan rekstur embættisins og má geta þess að í fyrra lækkaði kostnaður vegna opinberra heimsókna t.d. um helming, eða úr 31,6 milljónum árið 2000 í 15,7 milljónir króna árið 2001. Ég hef aldrei farið leynt með skoðanir mínar á þessu embætti og tjáði þær t.d. í tveim pistlum sem birst hafa á þessu ári. Fyrri pistillinn birtist 1. ágúst 2002 á Innherjavef visir.is, en þann dag hafði núverandi forseti setið samfellt í sex ár á forsetastóli. Sá síðari birtist 14. október 2002 á heimasíðu Heimdallar. Minni á þessa pistla mína nú, þegar við blasir hvernig þróunin er á þessu embætti í forsetatíð núverandi forseta Íslands. Þessi þróun er mjög athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt.