Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 desember 2002

Undarleg umhyggjusemi Samfylkingarkvenna
Í pistli á heimasíðu Stefnis fjalla ég um greinaskrif forystukvenna í Samfylkingunni í Moggann seinasta föstudag þar sem þær lýsa áhyggjum sínum af stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum og sögðu að störf þeirra væru einskis metin og troðið væri á konum innan flokksins í kjölfar prófkjörsins í Reykjavík. Er með hreinum ólíkindum að lesa þennan þvætting sem konurnar bjóða lesendum Morgunblaðsins og áhugamönnum um pólitík upp á. Konurnar í Samfylkingunni nota prófkjörsúrslitin í borginni þar sem þessir ungu og hressu framtíðarmenn innan flokksins náðu góðum árangri á kostnað kvenþingmanna sem olíu á eld sinn gegn Sjálfstæðisflokknum. Að baki þessum skrifum er engin umhyggja fólgin fyrir konum, hvorki þingkonunum sem fóru í prófkjörið né þeim Guðrúnu Ingu og Soffíu Kristínu sem fóru í slaginn sem fulltrúar ungra kvenna í flokknum. Ónei, þarna býr að baki ásetningur þeirra að valda ónæði og koma af stað deilum um niðurstöðu prófkjörsins og koma umræðum af stað um eftirmála prófkjörsins. Því fer víðsfjarri að konum hafi verið hafnað í Sjálfstæðisflokknum, hvað svo sem þessar konur reyna að blaðra þar um. Umhyggjusemi þeirra er byggð á því að reyna að valda sem mestri úlfúð og koma af stað sem mestum leiðindum, tilgangurinn er sá og enginn annar. Þetta hlýtur allt viti borið fólk að sjá.

Frábær jólavefur Júlla Júll
Fyrir þrem árum opnaði Júlíus Júlíusson þúsundþjalasmiður á Dalvík heimasíðu á Netinu um jól, jólahefðir og allt sem yfir höfuð tengist jólunum. Jólavefur Júlla hefur vakið verðskuldaða lukku og er bæði vinsæll og vel gerður í alla staði. Það komast allir í jólaskap við að fara á vefinn hans Júlla. Hann hefur seinustu árin opnað margar vefsíður um Dalvík og áhugamál sín og er driffjöðurin í að kynna staðinn og auka hróður hans um allt land, gott dæmi er snilldarhugmynd hans um fiskidaginn mikla sem vakti mikla lukku og athygli. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir þetta frábæra framtak sem jólasíðan er. Hvet alla til að líta á þennan magnaða vef.