Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 apríl 2003

Þankar á Íslendingi - skemmtilegar pælingar
Í gamla Íslendingi, blaði sjálfstæðismanna á Akureyri sem kom út á árum áður var lengi dálkurinn Þankar sem margir skrifuðu í undir nafnleynd. Hann hefur nú verið endurvakinn á netútgáfu Íslendings. Fyrsti pistillinn birtist í gær og er svohljóðandi:

"Það er langt síðan ég hef sent Íslendingi línu, - ekki síðan vinur minn Jakob Ó. Pétursson hætti sem ritstjóri. En ástæðan fyrir því að ég sting niður penna núna er, að ég hitti gamlan vin minn og nafna niður í Hagkaupum. Honum var mikið niðri fyrir. "Ætlarðu að láta kjósa yfir okkur verðbólgustjórn?" spurði hann og bætti við: "Við þurfum á öllu að halda nema vinstri stjórn núna." Síðan rifjaði hann upp, að þegar hann fékk vörusendingu, teppastranga, í byrjun vikunnar, var búið að hækka verðið á föstudegi. Hann mátti ekki til þess hugsa að fá þetta ástand yfir sig á nýjan leik. En það er einmitt þetta sem fólk er að tala um og fólk óttast. Og ekki að ástæðulausu. Skoðanakannanir hafa verið mjög misvísandi og engan veginn tryggt, að ríkisstjórnin haldi velli. Að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fái meirihluta á Alþingi. En Davíð Oddsson hefur lýst því yfir, að Sjálfstæðisflokkurinn fari ekki í þriggja flokka stjórn. Sporin hræða. Samfylkingin er mikill samtíningur flokksbrota, reikul í ráði auðvitað, en umfram allt vinstri sinnuð. Eða eins og Össur Skarphéðinsson sagði um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: "Ég vísaði þá til ummæla sem hún hafði sjálf viðhaft opinberlega, þar sem hún sagði það skýrt, að hún sæktist ekki eftir því að verða forsætisráðherra í þessum kosningum en tók það hins vegar fram að hún vildi verða forsætisráðherra í vinstri stjórn einhvern tíma í framtíðinni." Þetta var í sjónvarpsþætti 30. desember, þar sem Össur sá ástæðu til að árétta, að ekki kæmi til greina að Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningunum nú í vor. Hann skyldi verða það sjálfur og það stóð í viku. Það kemur ekki á óvart, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli sjá vinstri stjórn fyrir sér. Hún hefur alltaf verið vinstri sinnuð og Einar Karl Haraldsson, einn helsti ráðgjafi Samfylkingarinnar, er gamall ritstjóri Þjóðviljans eins og Össur Skarphéðinsson. Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhann Ársælsson koma öll úr Alþýðubandalaginu, en á hinn bóginn fer lítið fyrir krötunum í forystusveit Samfylkingarinnar."

Siggi Kári leiðréttir fyrrverandi borgarstjóra
Í gær leiðrétti Sigurður Kári Kristjánsson frambjóðandi flokksins í RVK-norður, málflutning fyrrverandi borgarstjóri vegna OECD-skýrslunnar á heimasíðu flokksins. Orðrétt segir hann:

"Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talsmaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin geti ekki sótt röksemdir fyrir skattastefnu sinni í nýútgefna skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þar sé mælt með því að lækka jaðarskatta en ekki almenna skatta og undir það taki Samfylkingin." Með þessum orðum hófst frétt í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi og ekki verður hjá því komist að leiðrétta þann misskilning sem þarna kemur fram. Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, er skýrum orðum mælt með „frekari lækkun skatthlutfalla", bæði til að auka framboð vinnuafls og draga úr útgjöldum ríkisins. Það sem þarna er um að ræða er vitaskuld lækkun almenna skatthlutfallsins sem einstaklingar greiða, en það er einmitt sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn setti fram á landsfundi sínum. Að halda því fram að svo sé ekki stafar annað hvort af vísvitandi rangfærslum eða misskilningi á hugtakanotkun. Ekki ætla ég að halda því fram að Ingibjörg Sólrún vilji vísvitandi fara rangt með svo hér hlýtur að vera um misskilning að ræða. Misskilningurinn getur stafað af því að menn skilji ekki fyllilega hvað átt er við með orðunum skatthlutfalli og jaðarskatti, en staðreyndin er sú að í þessu tilviki er um sama hlut að ræða. Jaðarskattur er sá skattur sem menn greiða af síðustu krónunni sem þeir afla, sem er einmitt skatthlutfallið, 38,5% í ár. Það sem OECD mælir með er að lækka þetta skatthlutfall, þ.e.a.s. almenna skattinn. Því má svo bæta við að þeir sem vilja lækka skatta þurfa ekki að sækja röksemdir í skýrslu OECD og hafa ekki byggt tillögur sínar um skattalækkun á því sem þar kemur fram þó vissulega styðji skýrslan þessar tillögur. Rökin með skattalækkunum eru ekki síst þau almennu sjónarmið að hið opinbera eigi að halda sköttum sem lægstum og leyfa þeim sem skapa verðmætin að halda sem stærstum hluta verðmætanna í eigin vasa. Um þetta er grundvallarágreiningur í stjórnmálum, en stefna Sjálfstæðisflokksins er og hefur verið að innheimta sem lægsta skatta þó stefna sumra annarra sé önnur, bæði í orði og verki."