Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 apríl 2003

Geir flottur hjá Gísla Marteini - undarleg umræða á visir.is
Virkilega gaman var að horfa á spjallþátt Gísla Marteins í gærkvöldi. Gestir hans í gærkvöldi voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Guðjón Pedersen leikhússtjóri LR og Jóhanna Vigdís Arnardóttir leik- og söngkona. Skemmtilegt var spjallið milli Gísla og Guðjóns þegar talið barst að leikstörfum hans og einkum er rætt var um leikhópinn Svart og sykurlaust, sérstaklega var áhugavert að sjá glefsur úr verkum hópsins þar sem t.d. Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður, birtist í bíkíní og mjög léttklædd í nokkrum atriðum (löngu áður en hún varð forpokuð forsjárhyggjujúnka hjá VG). Guðjón flutti þekkt lag úr söngleiknum Cabaret í lok viðtalsins og hreinlega brilleraði. Hansa var frábær að venju og sagði skemmtilegar sögur af sér og spaugið var ekki langt undan enda hún þekkt fyrir létta lund sína. Söng hún gamla góða Edith Piaf-lagið La Vie en Rose eins og henni einni er lagið, syngur frönskuna alveg óaðfinnanlega. Seinasti gesturinn (aðalgesturinn) var Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ræddi hann kosningabaráttuna framundan og sagðist hafa sannkallað gaman af ferðum um landið í aðdraganda kosninga og nefndi sérstaklega ferð með Halldóri Blöndal forseta Alþingis og þáverandi samgönguráðherra, til Grímseyjar fyrir seinustu kosningar, vorið 1999. Sagði hann t.d. frá góðri vísu sem varð til í ferðinni, en Geir slengdi fram fyrriparti sem Halldór botnaði meistaralega. Í lokin tóku Hansa og Geir saman lagið sívinsæla Something stupid sem feðginin Frank og Nancy Sinatra sungu á sjöunda áratug síðustu aldar og Nicole Kidman og Robbie Williams endurgerðu á ný í fyrra. Vel sungið hjá Hönsu og Geir sem nú er farinn á fullt í kosningabaráttuna.

Í dag er undarleg umræða á stjórnmálaspjallvef visir.is um þátt Gísla Marteins í gær. Þar er undrast mjög að Geir hafi mætt í þáttinn og að hann eigi harma að hefna gegn Gísla og fleirum, þ.á.m. er ég nafngreindur. Ástæðan á að vera aðdragandi borgarstjórnarkosninganna í fyrra þar sem sagt er að vissir aðilar hafi grafið undan Ingu Jónu Þórðardóttur eiginkonu Geirs, og hafi það leitt til þess að hún hafi þurft að víkja sem leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Sagt er að ég, Hannes Hólmsteinn, fólk í Heimdalli (væntanlega átt við stjórnina) og Gísli Marteinn hafi stungið Ingu Jónu banasári í borgarmálum. Væntanlega er þarna vísað til umræðunnar sem varð til þess að Björn Bjarnason varð borgarstjóraefni sjálfstæðismanna í borginni og leiðtogi flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Er með ólíkindum að lesa þessa þvælu sem borin er á borð þarna af óvildarfólki Sjálfstæðisflokksins og sett fram gegn okkur sem erum í flokknum og höfum tjáð okkur honum til stuðnings. Vil ég benda þeim sem skrifa slíka þvælu á að Ingu Jónu Þórðardóttur var ekki ýtt til hliðar úr leiðtogastólnum, hún tók sjálf ákvörðun um að hætta og sækjast ekki eftir honum. Hún ákvað að taka áttunda sætið á lista flokksins í fyrra og standa og falla með því. Það sæti vannst ekki og því hætti hún í borgarmálunum. Hún tók þátt í kosningabaráttu í fyrra sem frambjóðandi og nýtur góðrar stöðu innan flokksins. Það er fjarstæða að nokkur hafi unnið gegn persónu hennar markvisst. Margir flokksmenn vildu að Björn Bjarnason leiddi lista flokksins í fyrra, ég var vissulega þar á meðal en ég hef aldrei unnið gegn Ingu Jónu og eða ber kala til persónu hennar. Hún hefur alla tíð verið sannkölluð kjarnakona og unnið flokknum mikið gagn og hefði átt skilið að fá kjör í borgarstjórn í fyrra en það voru kjósendur sem tóku þá ákvörðun að vilja ekki krafta hennar í borgarstjórn, ekki sjálfstæðismenn. Geir H. Haarde hefur alla tíð verið farsæll stjórnmálamaður og ber ég mikið traust til hans og kaus hann t.a.m. í varaformannskjöri á landsfundi flokksins á dögunum. Þau hjón bæði eru gott og heiðarlegt fólk sem hafa unnið vel fyrir sinn flokk og kjósendur almennt. Ég vísa þeim óhróðri sem borinn var fram á spjallvef visir.is, algjörlega á bug.