Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 desember 2003

Saddam HusseinHeitast í umræðunni
Um allan heim hefur handtöku Saddams Husseins fyrrum einræðisherra Íraks, verið fagnað. Þau þáttaskil sem orðið hafa í Írak eru mjög táknræn. Flestum ætti nú að vera ljóst að skuggi Saddams er ekki lengur yfir landinu. Meiri óvissa er þó um örlög hans, hvort hann verði dæmdur til dauða í réttarhöldum fyrir glæpi sína eða hljóti mildari refsingu. Á blaðamannafundi í dag lagði George W. Bush forseti Bandaríkjanna, áherslu á að haldin yrðu réttarhöld yfir honum í Írak sem stæðust alþjóðlegar skuldbindingar. Þau munu samkvæmt ummælum hans vera haldin í samvinnu við Íraka. Sagði forsetinn mikilvægt að þjóðir heimsins tækju nú höndum saman til að byggja upp landið eftir ógnarstjórn Husseins. Abdel Aziz al-Hakim forseti framkvæmdaráðs Íraks, sagði í dag að Saddam Hussein gæti átt dauðadóm yfir höfði sér ef réttað yrði yfir honum fyrir íröskum dómstólum. Fram hefur komið að bráðbirgðastjórn Íraks vilji að Saddam verði dreginn fyrir sérstakan dómstól, sem settur var á fót í síðustu viku og er ætlað að rétta yfir fyrrverandi embættismönnum Íraka. Mun dómstóllinn uppfylla alþjóðleg skilyrði og orðrétt sagði Hakim: "Þar verða ráðgjafar, heimsþekktir einstaklingar sem geta verið viðstaddir, réttarhöldin verða fyrir opnum tjöldum og réttindi sakborninga til varnar verða virt,". Í dag hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum um leynistað Saddams sem hann var að lokum handsamaður á, og birtar af því mjög athyglisverðar lýsingar.

AlþingiFundum Alþingis var frestað í dag til 28. janúar 2004, með því hófst jólaleyfi þingmanna. Áður en forsætisráðherra las upp forsetabréf um frestun þingfunda voru ýmis hitamál seinustu vikna samþykkt af þingmönnum. Eftirlaunafrumvarp þingmanna, ráðherra, forseta og hæstaréttardómara var samþykkt með 30 atkvæðum, stjórnarliða og flutningsmanns frumvarpsins úr Samfylkingunni. Breytingatillaga Þuríðar Backman, var felld en síðan greidd atkvæði um frumvarpið í heild sinni. Atkvæði gegn frumvarpinu greiddu 7 þingmenn Samfylkingarinnar, allir fjórir þingmenn Frjálslynda flokksins, og þrír þingmenn Vinstri grænna. Hjá sátu hinsvegar 10 þingmenn Samfylkingarinnar og Þuríður Backman. Einn stjórnarandstæðingur greiddi semsagt atkvæði með frumvarpinu sem nú er orðið að lögum, Guðmundur Árni Stefánsson. Frumvarp um línuívilnun var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 22 en 3 greiddu ekki atkvæði. Með því lauk sögu þessara deilumála og þingmenn geta farið að huga að jólaundirbúningi. Enn er hart tekist á innan Samfylkingarinnar um eftirlaunafrumvarpið, logar þar í illdeilum verkalýðsarmur flokksins, eftir að einn þingmanna flokksins kaus eftir sannfæringu sinni. Samfylkingin boðar væntanlega til flokksstjórnarfundar í janúar að ósk verkalýðsforkólfa í flokknum sem vilja ræða málið þar. Hefur Halldór Björnsson sagt sig úr flokknum en hinir forkólfarnir hótað því.

KeikoHáhyrningurinn Keikó, sem þekktur var fyrir leik sinn í kvikmyndunum Free Willy, lést sl. föstudag, 27 ára að aldri. Almennt er talið að hámarksaldur háhyrninga sé 35 ár. Hann var fangaður við Íslandsstrendur árið 1979 og síðar sendur til Bandaríkjanna og hlotnaðist þar frægð í fyrrnefndum myndum. Var hann lengi vel vistaður á safni þar og mislíkaði mörgum að hann væri geymdur sem safngripur. Hann var fluttur til Íslands í september 1998, til að hann gæti aðlagast fyrri aðstæðum og hægt væri að sleppa honum. Árið 2002 var hann frelsaður, hélt hann til Noregs og dvaldist þar seinasta æviár sitt. Þessi einn frægasti háhyrningur sögunnar veiktist snögglega undir lok seinustu viku og lést eins og fyrr segir á föstudag. Var hann grafinn í gær í kyrrþey við strendur í firðinum þar sem hann lést.

Ingólfur Snorri KristjánssonSvona er frelsið í dag
Mikið er af góðu efni á frelsinu í dag. Tvennt stendur uppúr: góð grein og viðtal við þingmann. Ingólfur Snorri skrifar góða grein um viðskiptamál. Hann fjallar um hvort skipta eigi upp bönkunum, aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. Hann minnist á að þeir sem komið hafi fram með þessa tillögu hafi sagt að ef svo yrði væru komin skýrari skil í bankaþjónustu og minni líkur á hagsmunarárekstrum. Ingó telur að rökin fyrir skýrari skilum séu að óæskilegt upplýsingastreymi gæti orðið á milli deilda viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarbankahlutans hinsvegar. Orðrétt segir hann: "Erfitt er að sjá hver ávinningurinn yrði ef íslenskum bönkum yrði skipt upp, hvort heldur sé litið til viðskiptavina eða hluthafa. Eftir skiptinguna yrðu bankarnir smærri í sniðum og verr í stakk búnir til að þjónusta stærstu íslensku fyrirtækin. Lánshæfismat bankana myndi að öllum líkindum lækka sökum smæðar sem myndi leiða til verri lánskjara og hærri vaxta til viðskiptavina. Traust er einn mikilvægasti eiginleiki góðra banka, þetta vita bankamenn jafn vel og viðskiptavinir. Það er hagur banka að fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi fari vel saman, ríkið þarf ekki að skipa bönkunum fyrir með enn einu regluverkinu! Við eigum að treysta á frjálsan markað en ekki fáum misvitrum stjórnmálamönnum. Bendi ennfremur á gott netviðtal við Pétur Blöndal alþingismann, þar sem margt athyglisvert kemur fram.

Stjórnendur KastljóssDægurmálaspjallið
Enn var fjallað um eftirlaunafrumvarpið í Silfri Egils í gær. Tókust þar á þau Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Margrét Frímannsdóttir alþingismaður. Þau rifust um málið fram og til baka og langt frá því að vera sammála. Náði Björn oft að hitta beint í mark og æsa Margréti með umræðunni um rifrildi innan Samfylkingarinnar og leiðindi þar innanborðs sem flestum eru sýnilegar. Í Kastljósinu klukkutíma síðar var Björn mættur og var gestur Kristjáns Kristjánssonar ásamt Ögmundi Jónassyni alþingismanni. Ræddu þeir fyrrnefnt frumvarp og ennfremur handtöku Saddams Husseins fyrrum forseta Íraks. Var Björn eins og flestir ánægðir með handtöku Husseins en greina mátti vonbrigði á Ögmundi. Er reyndar greinilegt að mestu kanahatararnir hérlendis og andstæðingar Bush eru grautfúlir með hin táknrænu endalok Íraksstríðsins. Framundan er nú uppbygging í landinu án þess að skuggi forsetans fyrrverandi sé yfir.

Master and CommanderSjónvarpsgláp - bíóferð
Eftir kvöldfréttir leit ég á sjónvarpið, var mjög góð dagskrá í því þetta kvöldið. Kl. átta var athyglisverður þáttur Hannesar Hólmsteins um Halldór Kiljan Laxness. Þar fór Hannes yfir ævi skáldsins og var þetta í senn fróðlegur og góður þáttur sem ég þarf að líta á aftur við tækifæri. Fyrsta bók hans um ævi Laxness kom út um jólin og lýsir árunum 1902-1932. Ætla ég að lesa hana um jólin, hinar tvær koma út fyrir næstu tvenn jól. Eftir þáttinn leit ég á Viltu vinna milljón, þar sem fjórir keppendur enduðu með 50.000 kall, rýr uppskera það. Rétt rúmlega 10 fórum við pabbi í bíó. Litum við á spennumyndina Master and Commander með Russell Crowe og Paul Bettany. Góð mynd og spennandi sem við feðgar höfðum gaman af. Er heim var komið leit ég á upptöku á tveim þáttum fyrr um kvöldið. Annarsvegar Sjálfstætt fólk með Jóni Ársæli þar sem gesturinn var Hannes Hólmsteinn og þáttur Sigmundar Ernis, en þar ræddi hann við Ómar Ragnarsson. Athyglisvert spjall þeirra. Að lokum leit ég á MSN og rabbaði um pólitík við fólk þar.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef þýska hægriflokksins Christlich Demokratische Union Deutschlands. Á vefnum er farið yfir stefnu flokksins, sögu og ennfremur greinar eftir leiðtoga flokksins Angelu Merkel. Mæli með vef CDU í dag.

Snjallyrði dagsins
Blindur er bóklaus maður.
Máltæki