Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 desember 2003

Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, skipaði í dag nefnd samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar á fundi í morgun, sem á að fjalla um hvort þörf sé á lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum. Í henni eiga sæti Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Heiðar Frímannsson, deildarforseti Kennaradeildar Háskólans á Akureyri, Pétur Gunnarsson blaðamaður, og Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík. Nefndin á að skila greinargerð og tillögum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur verðandi menntamálaráðherra, fyrir 1. mars nk. Verði niðurstaðan sú að lagasetning sé æskileg verður nefndinni falið að semja frumvarp um málið sem lagt yrði fram einhverntímann á árinu 2004. Mikil umræða hefur átt sér stað um eignarhald á fjölmiðlum, einkum eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson einn aðaleigenda í Frétt ehf sem gefur út Fréttablaðið og DV, keypti meirihluta í Norðurljósum af Jóni Ólafssyni. Sagði forsætisráðherra í dag rétt að huga að því að kanna hvort setja eigi reglur um eignarhald fjölmiðla. Verður athyglisvert að fylgjast með því hvað nefnd menntamálaráðherra kemur til með að segja um þetta mál.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraHart var í gær tekist á í borgarstjórn við seinni umræðu um fjárhagsáætlun borgarinnar. Sóttu sjálfstæðismenn kröftuglega að meirihlutanum. Lögðu borgarfulltrúar flokksins til á fundinum að strax á árinu 2004 skuli hafin heildarendurskoðun á fjármálum borgarinnar, með það að markmiði að sporna gegn langvarandi útgjaldaþenslu og skuldasöfnun. Er um að ræða svipaða tillögu og lögð var fram við starfslok fráfarandi borgarstjóra í upphafi árs. Þá leggja sjálfstæðismenn til að holræsagjald verði lækkað um 25% árið 2004 eða um 237,5 milljónir og að gjaldið verði síðan afnumið í áföngum á næstu þremur árum. Flutti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og borgarfulltrúi, ítarlega ræðu um borgarmál á þessum fundi. Þar sagði hann m.a. "Enn ber allt að sama brunni. Hér er um vonda meðferð á opinberu fé og lélega stjórnsýslu að ræða, þar sem eitt er sagt í dag og annað á morgun og ráðskast með fjármuni Reykvíkinga eftir því sem vindurinn blæs hverju sinni."

Orlando Bloom og Viggo Mortensen í LOTR: ROTKSíðasti hluti trílógíunnar um Hringadróttinssögu, The Return of the King, hefur slegið aðsóknarmet í 13 löndum frá því að kvikmyndin var tekin til sýninga í vikunni. Fram hefur komið í fréttum að tekjur í kringum myndina voru um 4 milljarðar króna strax á fyrsta sýningardegi víðs vegar um heiminn. Kvikmyndin hefur slegið aðsóknarmet í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Tekjur í Bandaríkjunum voru um 2,4 milljarðar króna á frumsýningardegi. Kemur myndin sterk til leiks og ánægjulegt að aðdáendur kvikmynda um allan heim hafa tekið henni vel. Er um að ræða bestu mynd trílógíunnar og verður enginn svikinn af því að fara í bíó á hana. Reyndar tel ég að menn sjái eftir því alla tíð ef þeir sjá hana ekki í bíói. Þetta er stórfenglegt meistaraverk.

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu athyglisverður pistill Hjölla um málefni reykingamanna eða umræðu um frelsi þeirra. Orðrétt segir hann: "Vissulega er ákveðin hætta sem fylgir því að reykja, bæði fyrir reykingamennina sjálfa og einnig nærstadda. En er réttlætanlegt að banna reykingar af þeim sökum? Staðreyndin er sú að það eru óteljandi hlutir í samfélaginu sem skapa hættu. Er t.d. réttlætanlegt að banna bíla, þar sem ákveðin hætta er á því að fólk slasist eða látist, hvort sem það er undir stýri sjálft eða bara nærstatt þegar slys á sér stað? Er ekki alveg eins réttlætanlegt að banna mönnum að sækja sjóinn, eða ferðast með flugvélum?" Að lokum segir hann: "Staðreyndin er sú að ef allt væri bannað sem getur valdið fólki skaða, færi fólk varla út fyrir hússins dyr. Þeir sem kalla sem hæst eftir boðum og bönnum gleyma hins vegar alltaf að taka með í reikninginn þann gríðarlega skaða sem sífelld skerðing á einstaklingsfrelsinu veldur fólki." Ennfremur er á frelsinu athyglisverð umfjöllun um viðtal við forsætisráðherra í tímaritinu Vísbendingu.

HeatKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn og aftur á hina mögnuðu kvikmynd Michael Mann, Heat. Án nokkurs vafa ein af allra bestu spennumyndum tíunda áratugarins þar sem óskarsverðlaunaleikararnir Al Pacino og Robert De Niro mætast og sýna magnaðan úrvalsleik. Ef einhver mynd verðskuldar lýsingarorðið frábær, þá er það þessi mynd. Hér segir af Neil McCauley (De Niro) en hann er eitursnjall atvinnuglæpamaður. Hann hefur ásamt mönnum sínum, Chris, Michael og Nate lagt á ráðin með nokkur afar kunnáttusamleg og hátæknileg rán víðsvegar um gervalla Los Angeles. Snilli þessara rána felst ekki síst í því að McCauley og menn hans skilja ekki eftir sig nein spor sem geta komið upp um þá og því síður sannað eitt né neitt. Vincent Hanna (Pacino) er rannsóknarlögreglumaður í rán- og morðdeild í L. A. Einkalíf hans er rjúkandi rúst enda kemst ekkert annað að í huga hans en starfið. En hann er ekki síður snjall en McCauley og með hjálp sinna manna og uppljóstrara í borginni tekst honum smám saman að þrengja netið í kringum glæpamennina. Áður en langt um líður verður ljóst að leiðir þessara ólíku manna eiga eftir að liggja saman svo um munar og þá verður ekki aftur snúið... Til uppgjörs hlýtur að koma, uppgjörs sem fáir munu lifa af. Skylduáhorf fyrir alla sem unna góðum spennumyndum og eru aðdáendur meistaranna tveggja!

Hjartagull með 200.000 naglbítumTónlist - bækur
Keypti um daginn nýjustu plötu strákanna í 200.000 naglbítum, Hjartagull. Á þessari plötu er að finna ný lög þeirra. Er þetta virkilega góð plata. Uppúr standa Hjartagull, Láttu mig vera og Sól gleypir sær. Mögnuð plata frá hinum norðlensku naglbítum sem verða alltaf betri og betri. Er að lesa þessa dagana Röddina eftir Arnald Indriðason, góð spennusaga eins og hinar fyrri bækur hans. Grafarþögn og Mýrin eru magnaðar bækur og Röddin ekki síðri. Er enginn vafi að Arnaldur er orðinn einn fremsti spennusagnahöfundur landsins. Sögurnar um Erlend lögreglumann eru einstakar perlur.

Vefur dagsins
Á hverjum degi er litið á Textavarpið, það er orðið órjúfanlegur hluti af deginum að fara þangað og líta á fréttir og fleira spennandi. Bendi í dag á Textavarpið á Netinu

Snjallyrði dagsins
Ég vildi ekki heyra hvað fólk segir um mig á bak. Ég yrði svo mikill á lofti.
Oscar Wilde