
Tilkynnt var í dag að bandaríska leyniþjónustan CIA, myndi hafa yfirumsjón með því að yfirheyra Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks. Skv. fréttum CNN mun Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafa tilkynnt að George J. Tenet forstjóri CIA, hefði fallist á að sjá um hver spyr Saddam spurninga, hvar og hvenær það verði. Fram kom í máli Rumsfelds að það hefði verið einföld og skjót ákvörðun að fela CIA málið. Hún hefði einungis tekið 3 mínútur og þar af hefðu 2 þeirra fyrstu farið í að drekka kaffi. Varnarmálaráðherrann útilokar ekki að bandarísku leyniþjónustunni verði falið að hafa Saddam í haldi. Hann vísaði á blaðamannafundi í dag alfarið á bug að Saddam hafi fengið ómannúðlega meðferð frá handtökunni um helgina. Hún hafi verið sanngjörn og mannúðleg. Hann viðurkenndi að það samræmdist ekki Genfarsáttmálanum að sýna myndir af stríðsföngum, en mikilvægt hefði verið að sýna Írökum og umheiminum öllum að forsetinn hefði náðst. Í dag tilkynnti Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, að Svíar væru tilbúnir til að vista forsetann fyrrverandi, fyrir og eftir dóminn. Almennt er talið að réttað verði yfir Saddam í Írak og hann geymdur þar. Ekki er útilokað að hann verði dæmdur til dauða eins og ég sagði í gær, en margir þjóðarleiðtogar og framkvæmdastjóri SÞ hafa hvatt til að svo verði ekki.



Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Ragnar um hvort ekki sé tími til kominn að einkaaðilar taki við rekstri bókasafna og spyr af hverju sveitarfélög sjái um þennan rekstur. Orðrétt segir hann: "Hvers vegna er það í verkahring hins opinbera að leigja áhugasömum lesendum bækur – er það of flókið verkefni fyrir einkaaðila? Er einkaaðilum bara treystandi til að leigja myndbandsspólur? Auðvitað er enginn eðlismunur á bókum og myndbandsspólum, eða annars konar afþreyingu og menningu. Við höfum hins vegar alist upp við það að einkaaðilar reka myndbandaleigur víðs vegar um landið en það hefur verið hlutverk sveitarfélaganna að reka bókasöfn. Bókasafnsrekstur er ekkert frábrugðinn öðrum rekstri og því hlýtur að vera kominn tími til þess að íhuga þann kost að hleypa einkaðilum að. Hugmyndin hefur raunar nú þegar verið reifuð í borgarstjórn, en í umræðum um menningarmál í fjárhagsáætlun borgarinnar í desember í fyrra ræddi Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um hugsanlegan einkarekstur bókasafna. Taldi hún rétt að skoða hvort nýir tímar kölluðu hugsanlega á nýja möguleika í rekstri bókasafna." Athyglisverð grein og margir góðir punktar og rétt að velta þessu meira fyrir sér. Ég tek undir með greinahöfundi og borgarfulltrúanum að kanna eigi vel þennan kost.

Í gestapistli á vefsíðunni fjallar Hjörtur J. Guðmundsson sagnfræðinemi, um evrópumál. Orðrétt segir hann: "Maður hefur nefnilega ósjaldan heyrt talsmenn (Evrópu)sambandsins skírskota til einhvers sem þeir kalla “a good European” (góður Evrópubúi). Á þetta er ævinlega minnzt þegar t.a.m. er rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa farið öðruvísi en Evrópusambandið hefur viljað. Við slík tækifæri eru íbúar viðkomandi ríkja ekki “góðir Evrópubúar” sem segja já og amen við öllu sem ákveðið er í Brussel, gagnrýnislaust. Ekki verður betur séð en að talsmenn Evrópusambandsins hér á landi trúi í blindni á hið yfirþjóðlega vald, Evrópusambandið. Þeir sjá ennfremur fyrir sér framtíðarríkið ESB-Ísland og lofa okkur Íslendingum gulli og grænum skógum ef við göngum í sambandið og afsölum okkur sjálfstæði okkar. Þeir gefa heldur ekkert fyrir augljósan lýðræðisskort innan Evrópusambandsins og gríðarlega miðstýringu. Línan frá Brussel er ávallt rétt í þeirra augum og að því er virðist algerlega yfir gagnrýni hafin. Brussel veit einfaldlega miklu betur hvað okkur er fyrir beztu en við sjálf að þeirra mati – alveg eins og Moskva áður í augum margra kommúnista." Góður pistill hjá Hirti.

Horfði um daginn á eina gamla góða klassík. Marathon Man, kvikmynd leikstjórans John Schlesinger. Þessi einn af skemmtilegustu þrillerum áttunda áratugarins segir frá því hvernig ungur háskólanemi flækist inn í leynilegar aðgerðir er varða demantaflutninga og gamlan nasistaforingja í S-Ameríku, sem kemur úr felum þegar sending fer úrskeiðis. Námsmaðurinn flækist í málið vegna bróður síns og þegar hann veit orðið of mikið um starfsemi vondu kallana er hætt við að þeir reyni að þagga niður í hopum. Ofbeldisfullur og ljótur eltingarleikur á köflum en einkar spennandi, hraður og grípandi er á líður. Leikurinn er hreint stórgóður og þar standa fremstir þeir Dustin Hoffman, Roy Scheider og Sir Laurence Olivier sem fer á kostum í hlutverki nasistaforingjans Szell. Mögnuð mynd.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á leitarvefinn Google. Lít ég ávallt á hann ef mig vantar að komast á vefi eða leita að einhverju á netinu. Alltaf góður vefur.
Snjallyrði dagsins
Of mikið af því góða getur verið dásamlegt.
Mae West
<< Heim