Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 janúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra, að baráttunni um frelsið væri ekki lokið og lyki aldrei, þótt hún hefði breyst breyst í áranna rás. Sagði Davíð að vandinn við að varðveita frelsið og efla það væri nú flóknari en nokkru sinni fyrr því nú væri ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga, sem sameini þjóðina til átaka, heldur snéri baráttan inn á við. Sagði Davíð í ávarpinu að frelsið væri gagnlítið ef það væri aðeins fárra en ekki fjöldans. Ennfremur kom fram í máli hans að fyrir tæpri öld hefði íslenska þjóðin hefði fengið fyrsta stóra skammtinn af frelsinu: heimastjórnina, en eftir mánuð verður liðin öld frá þeim merka atburði. Orðrétt sagði Davíð: "Við gleðjumst saman yfir því, að skuldir ríkisins fara nú ört minnkandi og þar með vaxtabyrði þess. Þess vegna getum við sameiginlega varið meira fé til eftirsóknarverðra hluta, svo sem menntunar og heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að hækka skatta. Því hefur reyndar verið lofað að þetta kjörtímabil verði eitt mesta skattalækkunartímabilið. Við það verður auðvitað staðið. Það þýðir ekki að dregið verði úr þeirri þjónustu sem við erum sammála um að veita. Það þýðir hins vegar að stærri hluti þess hagvaxtar, sem fyrirsjáanlegur er, á að renna beint til fólksins í landinu án millilendingar í ríkissjóði. Því er með öðrum orðum trúað að fólk fari ekki endilega verr með fjármuni sína en þeir forystumenn sem það kýs á fjögurra ára fresti til að sinna löggjafarstörfum fyrir sína hönd. Í mínum huga er enginn vafi á að það traust er á gildum rökum reist." Var ánægjulegt að fá að heyra þessi orð hans um skattalækkanir. Að lokum minntist Davíð á að þetta væri í síðasta skipti sem hann ávarpaði þjóðina á gamlárskvöldi. Hefur hann þrettán ár í röð ávarpað þjóðina og setið lengur en nokkur annar á stóli forsætisráðherra.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti ÍslandsÍ nýársávarpi sínu sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, að smáríki réðu ríflega fjórðungi atkvæðamagns á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og þar og innan annarra alþjóðastofnana gætu þau orðið áhrifaafl. Ísland hefði kjörstöðu til að verða að liði. Orðrétt sagði hann: "Ísland getur orðið miðstöð fyrir samræður og samskipti smærri ríkja og það getur tengt okkur traustum vináttuböndum við fjölda þjóða í öllum álfum; opnað leiðir fyrir nýja kynslóð til þátttöku í alþjóðastarfi víða um heim, til viðskipta, rannsókna og fræðistarfa." Fátt nýtt kom fram í ávarpi forsetans, var það óttalega sviplaust. Hans sísta ávarp í þau átta skipti sem hann hefur ávarpað þjóðina á nýársdegi. Hann tilkynnti ekki þar hvort hann myndi gefa kost á sér til endurkjörs í embætti forseta Íslands. Öðru kjörtímabili hans lýkur 31. júlí nk. Má eflaust túlka þetta þannig að hann fari fram þriðja sinni. Undarlegt finnst mér að forseti tilkynni ekki fyrr hver hugur hans er til setu á forsetastóli. Fyrri forsetar höfðu þann vana á að tilkynna það fyrir áramót á kosningaári. En þetta er væntanlega einhver enn einn nýr siður sitjandi forseta.

FálkaorðanFálkaorðan var veitt í enn eitt skiptið af forseta Íslands á nýársdag. Að þessu sinni fengu orðuna: Bryndís Tómasdóttir, Elín Sigurlaug Sigurðardóttir, Ellert Eiríksson, Erna Hauksdóttir, Finnbogi Eyjólfsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Gunnar Dal, Hörður Áskelsson, Margrét Gísladóttir, Ólafur Stefánsson, Ragnheiður Sigurðardóttir, Sigurður Guðmundsson, Tryggvi Gíslason og Þorsteinn Ingi Sigfússon. Hef ég lengi verið mjög andvígur veitingu fálkaorðunnar með þeim hætti sem verið hefur. Tjáði ég þá skoðun í greinum í blöð og á framboðsfundum fyrir forsetakosningarnar 1996, en þá var ég að vinna fyrir eitt forsetaframboðið. Leist mér vel á skoðanir Péturs Kr. Hafstein þá og varð þarmeð enn sáttari með að kjósa hann í þeim kosningum. Tel ég rétt að taka til endurskoðunar veitingu orðunnar og afhenda hana sjaldnar. Mér hefur alltaf fundist óeðlilegt að embættismenn geti fengið orðuna fyrir það eitt að mæta í vinnuna. Þetta verður að stokka upp, hef alveg sömu skoðanir á þessu og 1996 þegar ég skrifaði um þetta fyrir kosningarnar það ár.

FrelsisstyttanSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli á frelsinu í dag fjalla Kristinn og Snorri um áramótin og hvernig frelsið þróaðist á árinu. Orðrétt segja þeir: "Í upphafi ársins 2004 er vert að huga að þeim verkefnum sem eru framundan. Rétt er að auka frelsi einstaklinganna til orðs og æðis. Tekjuskatta á einstaklinga er brýnt að lækka og er ánægjulegt að heyra að breytingar á þá átt séu væntanlegar næstu misserin. Líf hátekjuskattsins var engu að síður framlengt. Var það miður enda leggst sá skattur á dugmikið fólk sem þarf á tekjunum að halda og veldur óhagræði við framkvæmd skattheimtu. Þá er rétt að huga að afnámi sjómannaafsláttarins. Fari það fram samhliða almennum skattalækkunum er líklegt að aðgerðin heppnist án þess að nokkur þurfi að vera ósáttur með sitt. Eignaskattar er rétt að afnema sem og erfðafjárskatt. Er ánægjulegt að sjá að vilji er fyrir því að lækka erfðafjárskatt. Stimpilgjöld þarf einnig að afnema sem og lækka virðisaukaskatt." Að lokum segja þeir: "Vonandi verður árið 2004 til þess að auka frelsi einstaklinganna. Svo sem upptalningin hér að ofan ber með sér eru verkefnin ærin. Einnig er framundan merkisafmæli eins af stærri áföngum sjálfstæðisbaráttu Íslendinga; 100 ára afmæli heimastjórnar. Þjóðfrelsis barátta Íslendinga var ekki síður barátta fyrir einstaklingsfrelsi. Fer vel á því að huga sérstaklega að frelsi einstaklingsins á þessum merkisafmæli." Góð grein hjá þeim, margt athyglisvert sem þarna kemur fram. Hvet alla til að lesa pistil þeirra.

ÁramótÁramótaþættir
Venju samkvæmt var horft á áramótaþættina af miklum áhuga. Í hádeginu á gamlársdag var áramótaþáttur Silfurs Egils. Þar komu margir góðir gestir og fóru yfir helstu atburði ársins. Horfði ég klukkan eitt á fréttir Sjónvarpsins en þar var ítarleg umfjöllun um ráðherraskiptin og gott viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þar sem hún fór yfir hvað hún teldi mikilvægast að gera á ráðherrastóli á næstu mánuðum. Um tvöleytið fór ég að horfa á Kryddsíld Stöðvar 2. Þar voru leiðtogar flokkanna gestir venju samkvæmt. Spjallið þar var mjög líflegt og skemmtilegt. Farið var yfir helstu fréttir ársins á innlendum vettvangi og eins og nærri má geta var mest rætt um kosningabaráttuna og úrslit kosninganna 10. maí sl. Klukkan þrjú skipti ég yfir á Aksjón og horfði á áramótaþátt stöðvarinnar, Gaffalbita. Þar tóku Hilda Jana, Óskar Þór og Þráinn á móti góðum gestum. Í lokin var rætt við bæjarstjóra og Óskar Pétursson, það var einkar skemmtilegt spjall, þar sem rætt var um pólitík og tónlist. Um kvöldið var horft á ávarp forsætisráðherra og annálana. Áramótaskaupið var mjög gott, margir góðir punktar. Þó ekki eins gott og seinustu tvö ár þó. Atriðið um litlu stúlkuna með yfirlýsingarnar stóð uppúr. Á nýársdag var horft á ávarp forsetans, gamlar og góðar kvikmyndir. Um kvöldið horfðum ég og fleiri á Opinberun Hannesar. Skemmtilegur húmor og góð mynd.

Kvikmyndir ársins 2003Kvikmyndir ársins 2003
Á gamlársdag birtust á kvikmyndir.com listar yfir bestu kvikmyndir ársins af þeim sem skrifa á vefinn. Voru það ég, Guðjón Helgason, Jón Hákon Halldórsson, Hjörleifur Pálsson, Hallur Örn Jónsson og Sigurður Guðmundsson sem komum með álit okkar á hvaða myndir hefðu skarað fram úr á árinu. Á mínum topp 10 lista sem ég setti saman annan dag jóla voru eðalmyndir: The Lord of the Rings: Return of the King, Kill Bill: Vol. 1, The Pianist, Mystic River, Pirates of the Caribbean, Love Actually, Matrix Revolutions, The Hulk, X Men 2 og Chicago. Næstar komu: Adaptation, The Hours, Phone Booth, Matchstick Men, Identity, Dogville, Master and Commander: The Far Side of the World, About Schmidt, Catch Me If You Can og Sweet Sixteen. Hóf ég skrif á kvikmyndir.com á árinu. Mun ég auka þau skrif enn meira, mun skrifa bæði á næstunni um Golden Globe verðlaunin og Óskarsverðlaunin, helstu kvikmyndaverðlaun samtímans. Áfram munu birtast á vefnum ítarlegar leikstjóragreinar, er ég að vinna núna að tveim greinum sem birtast í þessum mánuði. Það er gott að vera hluti af góðum hópi á vefnum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á Vef-Þjóðviljann. Þar eru skemmtileg skrif og á gamlársdag birtist þar skemmtilegt áramótauppgjör. Magnaður vefur.

Snjallyrði dagsins
Frelsið hefur reynst íslensku þjóðinni sá styrkur og aflgjafi, sem hún getur síst án verið. Vitneskja um þessa staðreynd á ekki að vera okkur fjarlægur fróðleikur, heldur verður hún að vera leiðavísir, sem við megum aldrei gleyma á allri okkar lífssögu.
Dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (1908-1970)