Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 desember 2003

Jól 2003Jólaundirbúningur
Í dag hef ég verið á fullu við að klára jólaundirbúninginn. Veðrið hér norðan heiða hefur verið gott síðasta sólarhringinn, hlýnaði verulega eftir smá kuldahroll. Sýnist á veðurspánum þó að það kólni á morgun, aðfangadag og því verði hvít jól allavega hér eða um mestallt land. Þetta ræðst allt. Fór í dag í búðir við að klára að kaupa það sem eftir er. Að mestu var ég þó búinn að því sem gera þurfti fyrir jólin í byrjun mánaðarins. Jólaundirbúningurinn hefst venju samkvæmt hjá okkur mánuði fyrir jól með laufabrauðsgerð. Um mánaðarmótin er húsið alveg skreytt og skrifað á jólakort. Að því loknu keyptar gjafir. Í gær var farið að kaupa jólamat og klára tvær gjafir sem ég vildi bæta við. Var gríðarlegur fjöldi að versla í gær og nóg um að vera. Hitti maður mikinn fjölda fólks sem maður þekkir og átti gott spjall. Fórum við nokkur á Greifann og fengum okkur að borða um kvöldið þegar allt var búið. Þetta var annasamur en góður dagur. Jólalegt er orðið hér í bænum og mikil jólastemmning. Næsta blogg verður mánudaginn 29. desember, eftir jóladagana. Ég vona að þið eigið öll góða og gleðilega jólahátíð.

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Alltaf er jafnmikill kraftur á frelsinu, þar verður ekki farið í jólafrí, heldur skrifað af krafti alla jóladagana. Verð ég með pistil þar á öðrum degi jóla og fjalla um mál sem verður mikið í fréttum um áramótin. Í dag birtist hinsvegar á frelsinu, um sjávarútvegsmál, nánar tiltekið breytingar á fiskveiðistjórnun sem samþykkt voru nýlega. Orðrétt segir Snorri: "Með lögunum er áskilið að áður en aflaheimildum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skuli draga frá heildarafla áætlaðan afla sem ?ráðstafað" er til línuívilnunar. Með öðrum orðum gerir frumvarpið ráð fyrir því að tekið sé frá handhöfum aflahlutdeilda og fært til þeirra sem uppfylla sérstök skilyrði. Þetta er ekki ósvipað því að gefa út leyfi til leigubílaaksturs án endurgjalds fyrir ljóshært fólk á meðan aðrir þurfa að greiða fyrir slíkt leyfi. Lagabreytingin er þannig ósanngjörn. Þá stuðlar aukin sérgæska stjórnmálamanna að því að stoðir kerfisins verða veikari. Með hverju tonni sem stjórnmálamenn taka af handhöfum aflahlutdeilda verður staða þeirra ótryggari, skipulagning erfiðari og hvatinn til að standa sig minni. Þá er ljóst að gerðar breytingar munu leiða til þess að fiskurinn verður veiddur af aðilum sem ekki reka jafn hagkvæma útgerð og þeir sem fóru með aflaheimildirnar áður." Sammála Snorra félaga mínum, í þessu máli sem flestum öðrum.

Miracle on 34th StreetJólamyndir
Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök. Bendi ennfremur á stuttan pistil minn um jólamyndirnar sem birtist í gær á kvikmyndir.com. Vonandi eigið þið góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum, nóg af úrvalsefni er í boði hjá sjónvarpsstöðvunum og kvikmyndahúsunum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á vef Þjóðkirkjunnar. Ég hyggst venju samkvæmt fara í jólamessu og vona að fleiri geri það. Það er nauðsynlegt að fara í messu á hátíð ljóss og friðar.

Snjallyrði dagsins
Hátíð fer að höndum ein
hana vér allir prýðum
lýðurinn tendri ljósin hrein
líður að tíðum
líður að helgum tíðum
Gerast mun nú brautin bein
bjart í geiminum víðum
ljómandi kerti á lágri grein
líður að tíðum
líður að helgum tíðum
Jóhannes úr Kötlum (jólasálmurinn Hátíð fer að höndum ein)