Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 desember 2003

Tom RidgeHeitast í umræðunni - pistill Björns
Ráðuneyti heimavarna í Bandaríkjunum jók í dag viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu í "hátt" vegna aukinnar hættu á árás af hálfu hryðjuverkasamtakanna al Qaeda, sem réðust á New York og Washington með hryðjuverkum 11. september 2001. Tom Ridge ráðherra heimavarna í Bandaríkjunum, sagði í dag á blaðamannafundi að trúverðugar upplýsingar hefðu borist um að árás væri áformuð yfir jólahátíðarnar. Kom fram að hann teldi að hættan á hryðjuverkum hefði sennilega ekki verið meiri frá því hryðjuverkaárásirnar voru gerðar 2001. Eftir þær var komið á fót nýju fimm lita kerfi fyrir viðbúnað við hugsanlegum árásum. Viðbúnaðarstigið hefur verið gult frá því í maí en áður var það appelsínugult eða "hátt". Rauður litur er hinsvegar neyðarástand. Tónninn í Ridge var greinilega sá að þetta væri ekki bara hefðbundin áhætta, hér væri um rauverulega hættu á ferðum og nauðsynlegt að fara að öllu með gát. Hann hvatti Bandaríkjamenn til að láta þessar fregnir ekki hafa áhrif á sig, heldur halda sínu striki og halda jólin eins og þeir venjulega gerðu.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli sínum í dag fjallar Björn um nýtt Qi Gong myndband Gunnars Eyjólfssonar leikara, eftirleik eftirlaunamálsins, ásakanir um meiðyrði í kærumáli Jóns Ólafssonar gegn forsætisráðherra og óheillaverk R-listans við Aðalstræti. Orðrétt segir Björn um eftirleik eftirlaunamálsins: "Vandinn við Silfur Egils er hið sama og áður, þótt hann sé á nýrri stöð, að erfitt er að fá þar tækifæri til að ljúka máli sínu og koma því á framfæri, sem maður vill í sæmilegum friði. Egill lætur orðið um of vera hjá þeim frekasta og þá verða aðrir að setja sig í sama gír, sem endar oft með því, að hver talar upp í annan. Margrét Frímannsdóttir hrifsar gjarnan til sín orðið og bar þátturinn á köflum nokkurn skaða af því, að ekki var unnt að greina, hvað við vorum að segja! Ögmundur Jónasson var mun rólegri viðmælandi en Margrét. Skoðanir hans eru á hinn bóginn svo víðsfjarri mínum í mörgu tilliti, að það skapast kannski aldrei viðræðuþráður, sem gaman er að rekja."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um eignarhald á fjölmiðlum í kjölfar þess að menntamálaráðherra ákvað að skipa nefnd til að fjalla um hvort setja þurfi lög um það. Mikilvægt er að fjölmiðlar séu í dreifðri eignaraðild. Ég tel persónulega rétt að setja hámark í eign á fjölmiðlamarkaði. Það er öllum hollt að vera settar leikreglur. Það frjálsræði sem komið hefur verið á má ekki misnota. Ég tel að með lagasetningu um hámarkseignaraðild á fjölmiðlum sé tryggt að samkeppni verði fest í sessi á markaðnum. Samkeppni er ávallt af hinu góða, ekki fákeppni. Ennfremur fjalla ég um málfrelsi forsætisráðherra, í kjölfar þess að hann var kærður fyrir ummæli um Jón Ólafsson fyrrum athafnamann á Íslandi. Að lokum fjalla ég um jólahátíðina sem framundan er og sendi jólakveðju til lesenda vefsins.

SUSJólateiti SUS
Fór síðdegis í gær suður á jólateiti SUS. Í flugvélinni á leiðinni sat ég við hlið Tómasar Inga Olrich menntamálaráðherra, sem var á leið suður eftir að hafa undirritað ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra, endurnýjaðan samstarfssamning ríkis og Akureyrarbæjar í menningarmálum fyrir árin 2004–2006. Fórum við yfir ýmis mál á leiðinni. Er suður var komið hitti ég nokkra vini og ræddum saman mörg mál. Jólateitið hófst kl. 20:00. Aðalgestur þar var Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Var góður matur og fín stemmning allt kvöldið og gott spjallið. Yfir borðhaldinu var lesið úr tveim nýjum bókum. Jakob F. Ásgeirsson las úr bók sinni um Valtý Stefánsson ritstjóra, og Eggert Páll Ólason úr bókinni Kæfusögur. Geir flutti góða ræðu og fór yfir ýmis mál. Eftir gott borðhald á Apótekinu var haldið út á lífið og skemmt sér vel. Þetta var virkilega gott kvöld.

Vefur dagsins
Í dag eru þrír dagar til jóla og jólastemmningin að ná hámarki, nú þegar styttist í hátíð ljóss og friðar. Í dag bendi ég á hinn góða jólavef, jol.is. Góður og efnisríkur vefur.

Snjallyrði dagsins
Af reynslunni lærði ég, að enginn lærir neitt af reynslunni.
George Bernard Shaw