Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 desember 2003

George W. Bush forseti BandaríkjannaHeitast í umræðunni
Moammar Gaddafi leiðtogi Líbýu, staðfesti í gær loks að land hans hafi reynt að þróa gereyðingarvopn. Jafnframt tilkynnti hann að Líbýa ætli að hætta öllum slíkum áætlunum án tafar. Það var Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sem upplýsti þetta í gærkvöldi. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöld að Líbýa muni heimila vopnaeftirlitsmönnum að skoða öll vopnabúr í landinu. Kom fram í máli forsetans að þetta væri mjög þýðingarmikið skref í þá átt að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna og berjast jafnframt gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Sagði hann að Líbýa væri með þessu á leið inn í samfélag annarra þjóða. Taldi forsetinn það vera nauðsynlegt að aðrir þjóðarleiðtogar fylgdu fordæmi Gaddafis. Er almennt talið að þessi ummæli hans hafi verið óbein viðvörun til leiðtoga Írans og Norður-Kóreu. Kom fram á blaðamannafundum leiðtoganna að Bretland og Bandaríkin hefðu átt í viðræðum við stjórnvöld í Líbýu í 9 mánuði. Sagði breski forsætisráðherrann að Líbýumenn hefðu haft samband við Breta í mars, skömmu eftir að deilan um Lockerbie-sprenginguna var leyst, og vildi kanna hvort hægt væri að leysa deiluna um gereyðingarvopn með sama hætti.

Egill HelgasonÍ vikunni skrifaði Egill Helgason athyglisverðan pistil um borgarmál. Þar fer hann yfir rýra afrekaskrá meirihluta R-listans sem brátt hefur setið að völdum í áratug. Fer hann hörðum orðum metnaðarleysið hjá borginni í skjóli valdsmanna R-listans. Orðrétt segir hann: "R-listinn hefur frá upphafi skrýtt sig með merki regnbogans; ég hef skilið það svo að þetta ætti að tákna fjölhyggju andstætt gamla klíkuskapnum íhaldsins. Plúralismi var reyndar aldrei sterkasta hlið borgarstjórans fyrrverandi. Með árunum áttar maður sig verr á því hvaðan R-listinn sækir grundvöll sinn; þetta er eins og uppvakningur sem var gefið líf tilraunaglasi og er farinn að hafa sjálfstæða tilveru, óháð skapara sínum. Það eru til dæmis aldrei haldnir landsfundir R-listans og það eru engir almennir flokksmenn til að spyrja ráða. Eina virknin er þegar rokið er upp til handa og fóta á fjögurra ára fresti og hrópað að nú megi alls ekki hleypa íhaldinu að. Þá er allt í lagi að kalla á fótgönguliðið." Merkileg umfjöllun um R-listann og valdatíð hans.

Helgi RafnIdol - stjörnuleit
Gaman var sem fyrr að horfa á Idol - stjörnuleit í gærkvöldi. Um var að ræða þriðja þátt úrslitanna í Smáralind, þann seinasta fyrir jól. 6 þátttakendur voru eftir, en síðast var Rannveig send heim eftir kosningu. Þema kvöldsins var Stuðmenn og þeirra magnaða tónlist hljómaði. Gestadómari kvöldsins var Stuðmaðurinn Egill Ólafsson. Tóku keppendurnir 6 ódauðleg lög Stuðmanna. Helgi Rafn var með Bíólagið, Ardís með Strax í dag, Karl með Slá í gegn, Anna Katrín með Ofboðslega frægur, Jón með Fljúgðu og Tinna Marína með Betri tíð. Allt flott lög. Strákarnir stóðu sig ekki nógu vel, sérstaklega voru Helgi og Jón afar slappir. Stelpurnar hinsvegar glönsuðu. Anna Katrín og Ardís stóðu algjörlega uppúr þessum hóp þetta kvöldið. Þegar kom að því að tilkynna þrjá neðstu kom í ljós að það voru strákarnir sem lentu í því núna, þeir Kalli, Jón og Helgi Rafn. Kom það í hlut Helga Rafns að halda heim. Fannst mér það rétt val hjá þjóðinni, enda hann ekki alveg að gera þetta nógu vel. Hægt er að líta á frammistöður þeirra og dæma af því. Framundan eru spennandi 5 manna úrslit föstudaginn 2. janúar 2004, og þá mun aftur fækka um einn í hópnum.

The PianistKvikmyndir
Horfði í gærkvöld enn eitt skiptið á hina stórfenglegu kvikmynd Romans Polanski, The Pianist. Hér segir frá ótrúlegu lífshlaupi pólska píanóleikarans Wladyslaw Szpilman (Adrien Brody) og hvernig honum, með dyggri aðstoð pólsku andspyrnuhreyfingarinnar og ennfremur tilviljun og hreinni heppni tókst að leynast fyrir nasistunum meginhluta stríðsins 1939-1945. Myndin fjallar um hernám Póllands 1939 og hvernig nasistar fóru með Pólverja í stríðinu, niðurlægðu þá og sviptu þá öllum mannréttindum, fluttu í útrýmingarbúðirnar þar sem þeim var þrælað eins og skepnum og að lokum murkað úr þeim líftórunni. Átakanlegt er að horfa á mikilfengleika þessa verks og hversu vel þetta er fært í kvikmyndabúning. Roman Polanski hefur aldrei farið troðnar slóðir í kvikmyndagerð á sínum ferli og þótt mistækur, átt bæði ógleymanleg meistaraverk og miðlungsmyndir. Hér er hann hinsvegar kominn með mynd ferils síns, hefur augljóslega lagt allt sitt í verkið og uppsker ríkulega eftir því. Hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir sitt magnaða verk. Öll umgjörð myndarinnar er stórfengleg; tónlist, handrit, framleiðsla og klipping - allt í fyrsta flokks klassa. Einstök mynd, sem lætur engan ósnortinn.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á hinn magnaða kvikmyndavef, filmsite.org. Þar eru upplýsingar um allt sem tengist kvikmyndum; listar yfir eftirminnilegustu kvikmyndaatriði sögunnar, bestu leikframmistöðurnar og listar yfir bestu kvikmyndir 20. aldarinnar svo nokkur dæmi séu nefnd. Fróðleiksnáma fyrir kvikmyndaáhugamenn.

Snjallyrði dagsins
Fasten your seat belts, it's going to be a bumpy night.
Margo Channing í All About Eve (1950)