Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 janúar 2004

BaugurHeitast í umræðunni - pistill Björns
Í hálfan annan áratug hefur umræðuþátturinn Kryddsíld á Stöð 2 verið vettvangur líflegrar umræðu um liðið ár, á gamlársdegi. Á því varð engin breyting nú. Gestir þáttarins eru venju samkvæmt leiðtogar stjórnmálaflokkanna. Hef ég horft á þessa þætti allt frá því að Elín Hirst fréttastjóri Ríkissjónvarpsins, byrjaði með hann á Stöð 2 1989. Ávallt er þar áhugaverð og skemmtileg stjórnmálaumræða, enda formenn flokkanna að ræða hitamálin. Í lok þáttarins að þessu sinni var Davíð spurður um fjölmiðla og álit hans á þeim. Fram kom í svari hans að hann taldi Baug sem á ráðandi hlut í Norðurljósum, DV og Fréttablaðinu, ekki geta farið sómasamlega með vald sitt í gegnum fjölmiðla á þeirra vegum. Sagði Davíð að hann hefði orðið vitni að því að á hverjum degi hefðu stjórnendur Baugs misnotað fjölmiðla sína, einkum Fréttablaðið. Hann taldi ekki eðlilegt hvernig eigendur blaðsins fjarstýrðu þeim. Vöktu ummæli Davíðs fram reiði og óánægju starfsmanna blaðanna og töldu þeir vegið að starfsheiðri sínum. Mættu fréttastjórar DV og Fréttablaðsins að kvöldi föstudags í viðtal í Íslandi í dag á Stöð 2 og vísuðu ummælum Davíðs á bug. Vart er svosem við öðru að búast. Ekki er líklegt að fréttastjórar þessara blaða taki undir ummæli forsætisráðherrans. Það vekur athygli að Stöð 2 fái til sín tvo fréttastjóra sem auðvitað verja heiður sinn og blaðsins fram í rauðan dauðann, en ekki leitast við að fá fram á móti þeim rödd sem er þeim ósammála. Það vekur athygli að miðlar Norðurljósa séu notaðir í svo barnalega umræðu, og vekur fleiri spurningar en umfjöllunin svaraði. Heyrst hefur á forystumönnum Baugs að þeir ætli að lögsækja forsætisráðherra fyrir að tjá skoðanir sínar og ganga þarmeð að málfrelsinu. Það er alveg greinilegt að þessi ummæli forsætisráðherrans og skoðanir hans stuða Baugsmenn, enda sjá þeir eflaust að margt er til í þessum orðum. Sannleiksgildi þeirra blasir við öllum sem fylgjast með.

Björn Bjarnason ráðherraÁ nýársdag birti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni, skemmtilegan lista yfir minnisstæðustu stjórnmálaviðburði ársins 2003. "Besta leikfléttan að mati Björns var þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sömdu áfram um stjórnarsamstarf. Versti afleikurinn var þegar stjórnarandstaðan hlóp frá samkomulagi um eftirlaunamál forseta Íslands, ráðherra og þingmanna. Sigurvegar ársins að hans mati er Davíð Oddsson sem myndaði ríkisstjórn í fjórða sinn á 12 árum. Taparinn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem kvaddi árið í Fréttablaðinu 31. desember: "Nei, ég geri ekki ráð fyrir að sakna stjórnmálanna á Íslandi," sagði Ingibjörg Sólrún hlæjandi...“. Áhrifamesta atvikið var þegar Davíð Oddsson tók inneign sína úr Kaupþingi/Búnaðarbanka og vanmetnasta ákvörðunin er bæjarstjórn Garðabæjar samdi um einkarekinn grunnskóla án kröfu um skólagjöld." Í pistli helgarinnar fjallar Björn um bækur sem hann hefur lesið yfir jólin og ráðherraskiptin á gamlársdag.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2004 fjalla ég um umræðu um eignarhald á fjölmiðlum í kjölfar áramótagreinar forsætisráðherra í Morgunblaðinu á gamlársdag og áramótaávarps hans, þar kom skýrt fram að hann vill setja reglur um eignarhald fjölmiðlafyrirtækja og telur frelsið sem sett var á misnotað. Minni ég í því samhengi á þá skoðun mína að nauðsynlegt sé að taka á eignaraðild á fjölmiðlamarkaði og setja reglur um þessi mál. Sú skoðun hefur áður komið fram á vefnum. Rétt er þó að taka fram að beðið er eftir mati nefndar menntamálaráðherra en hún mun skila af sér 1. mars nk. Í okkar veruleika blasir við að sami maður eigi ráðandi hluti í fjölmiðlasamsteypu sem inniheldur tvö dagblöð, fimm sjónvarpsstöðvar og fjórar útvarpsstöðvar. Þar eru reknar þrjár fréttastofur. Ég tel persónulega rétt að setja hámark í eign á fjölmiðlamarkaði. Það er öllum hollt að vera settar leikreglur. Ennfremur fjalla ég um titring sem orðið hefur hjá Baugi eftir að forsætisráðherra tjáði sig um Baugsblöðin í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag.

Tinna MarínaIdol - stjörnuleit
Gaman var sem fyrr að horfa á Idol - stjörnuleit á föstudag. Um var að ræða fjórða þátt úrslitanna í Smáralind, þann fyrsta á árinu 2004. 5 þátttakendur voru eftir, en síðast var Helgi Rafn sendur heim eftir kosningu. Þema kvöldsins var kvikmynda- og söngleikjatónlist. Gestadómari kvöldsins var leik- og söngkonan Þórunn Lárusdóttir, sem leikið hefur í fjölda söngleikja. Tóku keppendurnir 5 ódauðleg lög. Ardís var með Footloose, Karl með Greased Lightning, Anna Katrín með Can You Feel The Love Tonight, Jón með Sounds of Silence og Tinna Marína með Against All Odds. Allt flott lög. Strákarnir stóðu sig mjög vel, stelpurnar voru ekki eins góðar og venjulega. Anna, Tinna og Ardís voru ekki alveg upp á sitt besta. Bæði var að þær völdu röng lög og ennfremur réðu ekki við tóntegundina. Strákarnir glönsuðu í gegn. Kalli stóð algjörlega uppúr þetta kvöldið, fór hreinlega á kostum. Stelpurnar urðu neðstar í kosningunni. Kom það í hlut Tinnu Marínu að halda heim. Fannst mér það rétt val hjá þjóðinni, enda hún ekki að standa sig vel þetta kvöldið, valdi vitlaust lag sem passaði henni alls ekki. Hægt er að líta á frammistöður þeirra og dæma af því. Framundan eru spennandi 4 manna úrslit föstudaginn 9. janúar 2004, og þá mun aftur fækka um einn í hópnum. Úrslit verða svo að kvöldi 16. janúar.

Vefur dagsins
Að þessu sinni bendi ég á vef Idol - stjörnuleitar, á Stöð 2. Óhætt er að fullyrða að þessir söngvaþættir sem byggðir eru upp eftir breskri og bandarískri fyrirmynd hafi slegið í gegn hérlendis og komið af stað ótrúlegu æði. Sér ekki fyrir endann á því. Vefur þáttarins er mjög góður.

Snjallyrði dagsins
Hver er sinnar gæfu smiður.
Appius Claudius Ceacus