Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 janúar 2004

BrimHeitast í umræðunni
Fram kom í fréttum í dag að stefnt er að sölu á sjávarútvegsfyrirtækjum Brims innan næstu tveggja vikna. Í viðtali við RÚV í dag sagði Magnús Gunnarsson stjórnarformaður Eimskips, að myndi ekki nást saman um sölu á þeim fyrirtækjum sem mynda Brim yrðu þau rekin áfram óbreytt. Brim mynda þrjú stór sjávarútvegsfyrirtæki: Útgerðarfélag Akureyringa, Haraldur Böðvarsson á Akranesi og Skagstreningur á Skagaströnd. Tilkynnt var í dag að viðræður um kaup Granda í samvinnu við stjórnendur HB á eigum Brims í Haraldi Böðvarssyni væru hafnar. Í dag hófust einnig formlegar viðræður um kaup KEA og fjárfestingarfélagsins Afls á ÚA. Afl er að mestu í eigu Þorsteins Vilhelmssonar, fyrrum útgerðarstjóra Samherja, en hann var einn aðaleigenda þess í tæpa tvo áratugi. Framundan eru viðræður við heimamenn á Skagaströnd um hugsanleg kaup þeirra á Skagstrendingi. Sagði Magnús í fréttum að 15-20 aðilar hafi óskað eftir viðræðum vegna kaupa á sjávarútvegsfyrirtækjunum. Enginn hafi sýnt áhuga á að eignast Brim í heilu lagi hinsvegar. Ég fagna því að skýrari mynd sé komin á þessi mál og vona að ÚA verði eftir þetta í eigu heimamanna.

Jaap de Hoop Scheffer framkvæmdastjóri NATÓJaap de Hoop Scheffer, fyrrum utanríkisráðherra Hollands, tók í dag við embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins af George Robertson lávarði sem gegnt hefur embættinu undanfarin fimm ár. Stjórnmálaskýrendur segja almennt að NATO standi á tímamótum og að nýr framkvæmdastjóri verði í störfum sínum að beita allri sinni diplómatísku þekkingu og hæfileikum til að endurvekja trú á bandalagið og jafna með því deilur aðildarríkja sem upp hafa komið vegna Íraksstríðsins og áforma um nýjan Evrópuher. Scheffer sem er reyndur stjórnmálamaður fékk góðan stuðning allra aðildarríkja til að taka við embættinu í nóvember og verður athyglisvert að fylgjast með störfum hans þar, og hvort honum tekst að vera jafn farsæll í embætti og forverar hans, Javier Solana og Robertson lávarður.

Sigríður Anna Þórðardóttir alþingismaðurMargrét Þórhildur Danadrottning hefur sæmt Sigríði Önnu Þórðardóttur alþingismann, riddarakrossi Dannebrogsorðunnar fyrir störf hennar við að efla dönskukennsku í íslenskum skólum. Sigríður Anna var kennari við Grunnskóla Eyrarsveitar í Grundarfirði 1975-1990 og Gagnfræðaskólann í Mosfellsbæ 1990-1991. Hún hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanes- og Suðvesturkjördæmi frá 1991. Hún var formaður menntamálanefndar Alþingis í 11 ár, 1991-2002, formaður utanríkismálanefndar 2002-2003 og er nú formaður umhverfisnefndar þingsins. Hún tekur við embætti umhverfisráðherra 15. september nk. er forsætisráðherraskipti verða í ríkisstjórn. Hún sat í stjórn Endurbótasjóðs menningarstofnana 1994-2002, var formaður stefnumótunarnefndar um endurskoðun aðalnámskráa 1996-1997 og var forseti Norðurlandaráðs 2000-2001. Orðuveitingin fer fram í danska sendiráðinu á morgun.

Annáll HeimssýnarAnnáll Heimssýnar
Skömmu eftir áramótin birtist á vef Heimssýnar mjög góður áramótapistill þar sem ritstjórn vefsins fer yfir það sem þótti markverðast í Evrópumálunum á árinu 2003. Orðrétt í pistlinum segir: "Ef Ísland gengi í Evrópusambandið nú, miðað við núverandi stuðningskerfi ríkisins við landbúnaðinn, myndi það m.a. leiða til mikils samdráttar og tekjumissis fyrir greinina og afurðastöðvar. Það er því ljóst að staða íslensks landbúnaðar yrði verri innan Evrópusambandsins en utan þess. Flest bendir ennfremur til þess að Íslendingar haldi meira sjálfræði til mótunar eigin landbúnaðarstefnu utan sambandsins en innan þess. Þetta er meðal þess sem fram kom í skýrslu sem unnin var af nefnd á vegum utanríkisráðneytisins og birt var þann 9. desember sl." og ennfremur "Miklir efnahagserfiðleikar settu mark sitt á Evrópusambandið á árinu. Hagfræðileg kreppa skall á í nokkrum aðildarríkjum sambandsins vegna samdráttar í landsframleiðslu. Verðbólga jókst mjög í aðildarríkjum Evrópusambandsins á árinu og var að meðaltali tvöfalt meiri en á Íslandi á sama tíma. Vó hækkun matvælaverðs í aðildarríkjunum þungt í aukningu verðbólgunnar. Hagvöxtur var sáralítill og nánast enginn á evrusvæðinu. Atvinnuleysi jókst ennfremur verulega í aðildarríkjum Evrópusambandsins á árinu og fór stöðugt í aukana. Var atvinnuleysi margfalt meira að meðaltali í Evrópusambandinu en á Íslandi á árinu." Góður annáll.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraDægurmálaspjallið
Í Silfri Egils á laugardag var athyglisvert spjall um áramótaræður forseta og forsætisráðherra. Fóru Guðlaugur Þór, Helgi Hjörvar og Björn Ingi Hrafnsson yfir ræðurnar og sögðu sitt mat á þeim og því sem helst er í umræðunni þessa dagana, t.d. um fjölmiðla og gagnrýni forsætisráðherra á Baugsblöðin. Eins og venjulega fór Helgi offari í spekúlasjónunum og sjálfur sér líkur. Gulli Þór stóð sig vel við að tjá sínar skoðanir og ennfremur Björn Ingi sem virðist vera orðinn fastagestur hjá Agli. Bættist síðar Reynir Traustason í spjallið og ræddi fjölmiðlamálin. Á sunnudagskvöldinu ræddi Svanhildur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Fóru þær yfir þau verkefni sem bíða Þorgerðar sem hefur nú tekið við embætti. Hæst í spjallinu bar umræða um RÚV, skólamál og tónlistarhús. Fróðlegt og gott spjall, hefði þó viljað að Þorgerður kæmi ákveðnar fram með breytingahugmyndir um RÚV.

Rear WindowKvikmyndir
Horfði í gær enn eitt skiptið á hina mögnuðu kvikmynd meistara Alfred Hitchcock, Rear Window. Í henni segir frá ljósmyndaranum L.B. Jeffries sem fótbrotnar í vinnuslysi og neyðist til að vera heima. Hans tómstundaiðja verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast með mannlífinu hjá nágrönnunum og uppgötvar sér brátt til skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hulið spor sín svo vel að líkið mun ekki finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að verknaðurinn hafi nokkru sinni átt sér stað? Sú eina sem virðist trúa honum er kærastan hans Lisa, en hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að því að hann hefur verið staðinn að verki. James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum sínum í hlutverki ljósmyndarans, hann er á skjánum allan tímann. Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki hinnar trygglyndu unnustu hans. Ennfremur á Thelma Ritter stórleik sem sjúkranuddarinn Stella. Einstök mynd, ávallt góð og stenst tímans tönn með miklum sóma.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á stórgóðan bloggvef vinar míns, Ásgeirs Jóhannessonar. Þar skrifar hann um áhugamál sín, einkum pólitík og bókmenntir. Skemmtilegar pælingar hjá kappanum.

Snjallyrði dagsins
Rasismi, líkt og önnur heildarhyggja, snýst um að fá meira en þú átt skilið.
Ayn Rand