Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 janúar 2004

SjálfstæðisflokkurinnHeitast í umræðunni
Í dag voru birtar tölur í nýrri skoðanakönnun Gallups. Úrtakið í könnuninni var 4.000 manns og því um að ræða stærstu könnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna frá því fyrir seinustu alþingiskosningar, 10. maí 2003. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn í könnuninni mældist 39%, sem er mjög svipað og kjörfylgi flokksins 1999. Framsóknarflokkurinn hlýtur 16%, fylgi Samfylkingarinnar mælist 28% svipað kjörfylginu 1999, flokkurinn nær ekki að halda 30% markinu sem stefnt var að eftir að turninn þeirra sveigðist skömmu eftir innkomu Ingibjargar Sólrúnar í varaþingmannsframboð. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er um 14% og fylgi Frjálslynda flokksins mælist tæp 7%. Könnunin var gerð dagana 26. nóvember til 30. desember 2003. Samkvæmt þessari könnun hefur fylgi ríkisstjórnarinnar dalað að undanförnu og er nú 53%. Er ekki óeðlilegt að fylgi stjórnarinnar minnki eitthvað, enda blasir við að Framsóknarflokkurinn taki á árinu við forystu í henni. Má búast við sveiflum á fylgi stjórnarinnar vegna þess. Mikið ánægjuefni er að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé á uppleið.

ESBFram kemur í fréttum í dag að ef ríki Evrópusambandsins samþykki ekki ný stjórnarskrárdrög fyrir sambandið muni einhver ríkja þess taka hana í notkun, með því yrðu í raun til tvennskonar Evrópusamband. Það myndi þróast með mismunandi hraða og með þessu verða til þrennar útgáfur af ESB, enda eru að bætast við lönd þar inn. Þetta er mat Romano Prodi forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þessi orð lét hann falla í Dublin í dag á blaðamannafundi með Bertie Ahern forsætisráðherra Írlands, sem nú er í forsæti ESB. Tóku þeir við stjórn framkvæmdastjórnar ESB um áramótin af Ítölum. Á fundinum lögðu þeir mikla áherslu á nýju stjórnarskrána. Augljóst þykir að ónefndu löndin sem Prodi talar um séu Þýskaland og Frakkland. Leiðtogar þessara landa hafa gefið til kynna að þau muni ásamt Benelux löndum hefja mun nánari samvinnu á grundvelli nýrrar stjórnarskráar ef hún verður ekki samþykkt fljótlega. Þar með yrði til tvennskonar Evrópusamband sem þróaðist með mismunandi hraða. Jafnvel mætti segja að ESB yrði þrennskonar vegna þess að nýju ríkin sem ganga inn í það í vor fá ekki sömu kjör og ríkin sem fyrir eru. Enn meira áberandi verður að Ísland á ekkert erindi þarna inn í þetta gin nokkurra landa og ráðsmennsku þeirra yfir öðrum.

Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaðurÁ nýársdag tók Arnbjörg Sveinsdóttir við þingmennsku á ný. Hún tók sæti Tómasar Inga Olrich sem lét af embætti menntamálaráðherra á gamlársdag og vék ennfremur af þingi. Arnbjörg er vanur stjórnmálamaður og enginn nýgræðingur á þingi, enda sat hún sem alþingismaður Austurlandskjördæmis 1995-2003. Hún var allan þann tíma í fjárlaganefnd þingsins og ennfremur formaður félagsmálanefndar 1999-2003 og sat t.d. í menntamálanefnd, samgöngunefnd og kjörbréfanefnd. Það er mjög gott fyrir flokkinn að fá hana á ný í þingflokkinn. Það var mikill skaði að missa hana af þingi í seinustu kosningum og visst áfall fyrir okkur sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi. En nú er horft fram á veginn og við þegar byrjuð að undirbúa næstu kosningar, þar sem flokkurinn mun sækja fram og leitast við að hljóta forystu í kjördæminu.

frelsi.isSvona er frelsið í dag
Í dag birtist pistill Bjarka um reykingar á frelsinu. Orðrétt segir hann: "Forsjárhyggja stjórnvalda er því miður á mörgum sviðum, en birtist hvað best þegar kemur að tóbaki og áfengi. Allt of lengi hafa stjórnvöld staðið beggja vegna borðsins í þessum málum með rekstri ÁTVR. Það væri eðlilegasta að ríkið hætti afskiptum sínum af sölu tóbaks og áfengis. Banni við auglýsingum væri aflétt og þeim sem reka verslanir, veitingahús og skemmtistaði verði í sjálfsvald sett hvort þeir leyfi reykingar á sínu stöðum eða ekki. Lögmál framboðs og eftirspurnar eiga að ráða för á þessum markaði eins og öðrum. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að banna reykingar á skemmtistöðum, enda er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann sækir slíka staði. Eðlilegra væri að hvetja þá sem reka slíka staði til að banna reykingar á sínum stöðum, enda er örugglega markaður fyrir reyklausan skemmtistað þegar 76% landsmanna reykja ekki." Í gær birtist á frelsinu svör frá Árna Magnússyni félagsmálaráðherra, við spurningum sem beint var til hans. Einnig er birt athyglisverð grein Erlings Þórs Tryggvasonar og svar ritstjóra vefsins.

Pétur BlöndalDægurmálaspjallið
Í gærkvöldi voru gestir Sigmundar Davíðs í Kastljósinu, Pétur Blöndal alþingismaður og Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi alþingismaður. Umræðuefnið var málefni sparisjóðanna, í kjölfar þess að tilkynnt var um kaup KB banka á SPRON. Svanfríður hefur mótmælt harðlega að fjallað verði um sölumálið og mál Sparisjóðsins í efnahags- og viðskiptanefnd undir forsæti Péturs sem er formaður nefndarinnar. Vill hún að hann víki sæti vegna tengsla sinna við málefni SPRON seinustu tvö ár. Hafa þau skipst á skotum á hvort annað í blaðaskrifum. Þau tókust hraustlega á í þættinum og rifust heldur betur. Greinilegt er að þau ná ekki saman um þetta mál. Pétur ætlar ekki að víkja sæti og málið verður rætt undir hans stjórn í nefndinni. Í þættinum var ennfremur dregið í Gettu betur í fyrstu umferð hvaða skólar mætast. Er augljóslega framundan hörð keppni næstu vikur og spennandi spurningakeppni. Hefur MR unnið keppnina nú seinustu 10 ár, og vonandi að eitthvert annað lið taki þetta í ár.

ManhattanBókalestur - kvikmyndir
Hef nú lokið við að lesa þrjár ævisögur um jólin og framundan að lesa bókina um Jón Sigurðsson. Fékk tvær bækur af Halldóri í jólagjöf og skipti annarri þeirra milli jóla og nýárs og fékk mér í staðinn seinni bók Guðjóns Friðrikssonar um Jón forseta. Hlakka til að lesa hana, fyrri bókin var alveg mögnuð. Horfði seinnipart kvölds á meistaraverk Woody Allen, Manhattan. Manhattan er mjög eftirminnileg súrsæt rómantísk kómedía sem sýnir New York í svarthvítum tón, undir hljómar skemmtileg tónlist Gershwin bræðra. Í myndinni sem hlaut fjölda óskarstilnefninga og sló í gegn, fara þrjár leikkonur eftirminnilega á kostum auk Allens sjálfs, þær Meryl Streep, Diane Keaton og Mariel Hemingway. Telst Manhattan til bestu mynda leikstjórans, alveg hiklaust. Hvað er betra á fögru kvöldi en slíkt meistaraverk?

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á góðan vef félaga míns, Friðbjörns Orra. Þar tjáir hann skoðanir sínar. Alltaf gaman að lesa skrif Orra.

Snjallyrði dagsins
Ríkidæmi er betra en fátækt, a.m.k. frá efnahagslegu sjónarmiði.
Woody Allen kvikmyndaleikstjóri.