Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 febrúar 2004

ÓskarinnHeitast í umræðunni
Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles í nótt í 76. skipti. Almennt er talið að The Lord of the Rings: The Return of the King muni sópa að sér verðlaunum. Hún er tilnefnd til alls 11 verðlauna. Bandarískur almenningur er þeirrar skoðunar, að hún eigi skilið að hljóta Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmynd ársins. Í könnun sjónvarpsstöðvarinnar ABC sögðu 42% að hún ætti að vinna. 16% þátttakenda nefndu Seabiscuit, 11% nefndu Mystic River, í kjölfarið komu Lost in Translation og Master and Commander. ABC hefur gert kannanir á borð við þessa undanfarin 8 ár en þá hefur engin mynd fengið afgerandi stuðning, heldur margar verið með svipað fylgi. Ég ákvað venju samkvæmt að spá fyrir um úrslitin. Þetta hef ég gert seinustu 10 árin og oft haft rétt fyrir mér, t.d. hef ég í 9 skipti spáð rétt um hvaða mynd hljóti óskarinn sem besta mynd ársins og aðeins einu sinni haft rangt fyrir mér, 1999 spáði ég að Saving Private Ryan myndi vinna, en hún tapaði fyrir hinni ofmetnu Shakespeare in Love. Þessu sinni spái ég að Hringadróttinssaga vinni fyrir bestu kvikmynd ársins og að leikverðlaunin fari til Sean Penn, Charlize Theron, Tim Robbins og Renée Zellweger. Ég tel ennfremur að Hringadróttinssaga verði sigurvegari kvöldsins með 7-9 verðlaun, hið minnsta. Í óskarsspá minni spái ég henni 9 styttum. Hugsanlega gæti hún náð að slá met myndarinnar Gigi frá 1958 sem vann 9 verðlaun og tilnefnd til 9. Allavega er enginn vafi er á að hún á eftir að sópa til sín óskurum. Framundan er spennandi kvöld. Venju samkvæmt verður vakað fram eftir nóttu og horft á verðlaunaafhendinguna.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ gær birtist grein eftir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, í Morgunblaðinu. Í greininni leit hann til forsetaembættisins í ljósi umræðna um hið milliliðalausa lýðræði og spurninguna um það, hvort forsetinn geti skotið málum til þjóðarinnar. Í pistlinum segir: "Veik stoð embættis forseta Íslands eru þau fátæklegu rök, sem gjarnan eru notuð til að mæla því bót. Það er embættinu ekki styrkur, að gripið sé til þess að skýra inntak þess á allt annan veg en stenst nákvæma athugun. Í því skyni er það kallað "öryggisventill", af því að forsetinn geti upp á sitt eindæmi sett Alþingi stólinn fyrir dyrnar og skotið lögum undir atkvæði þjóðarinnar. Embætti forseta Íslands verður 60 ára 17. júní 1944 og á þessum 60 árum hefur aldrei reynt á þetta synjunarvald og allt, sem sagt er um, að kannski hafi staðið til að beita því, eru órökstuddar vangaveltur eða getsakir. Séu menn þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að hafa þann öryggisventil vegna samþykkta Alþingis, að skjóta megi ákvörðunum þess til þjóðaratkvæðagreiðslu, ættu þeir að hefjast handa við að lögfesta ákvæði um hann á skýran og ótvíræðan hátt. Óljós öryggisventill er verri en enginn, en með stjórnarskrá og lögum er unnt að ákveða, að við vissar aðstæður sé skylt að bera löggjafarmálefni undir atkvæði þjóðarinnar." Í helgarpistlinum fjallar Björn hinsvegar um sigur Vöku í háskólakosningunum, sigur frjálshyggjunnar, ESB og varnarmál.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ráðherrahrókeringar sem verða í ríkisstjórninni í september, þá blasir við að forsætisráðherraskipti verða og uppstokkun í ráðherraliði beggja flokka og tilfærslur á ráðherrum samhliða því. Fer ég yfir stöðu mála nú þegar umræða um hrókeringarnar eru komnar í hámæli. Óháð því hvað Davíð Oddsson ákveður að gera í haust er hann lætur af embætti forsætisráðherra er alveg ljóst að vandinn í þessari uppstokkun er ekki okkar megin í Sjálfstæðisflokknum, heldur í Framsóknarflokknum þar sem verður raunverulegur slagur milli fólks. Hann er reyndar þegar hafinn af miklum látum með yfirlýsingum í vikunni í kjölfar fréttaskýringarþáttarins Í brennidepli, þar sem farið var yfir ráðherrakapal flokkanna. Ennfremur fjalla ég í sunnudagspistlinum um sterka stöðu frjálshyggjunnar í íslensku samfélagi seinustu árin og minnist á merkisafmæli ritsins "Uppreisn frjálshyggjunnar". Að lokum fjalla ég um opnun nýs vefs SUS sem opnaði á föstudag.

GoodfellasKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Martin Scorsese, Goodfellas. Það var árið 1990 sem Scorsese gerði þessa eftirminnilegustu og stórbrotnustu kvikmynd sína. Goodfellas er mögnuð mafíumynd sem er byggð á sannri sögu írsks-ítalsks bófa sem frá bernsku á sér þann draum heitastan að verða gangster. Og fyrr en varir er hann kominn í réttan félagsskap víðsjárverðra glæpamanna. Þar hefst þriggja áratuga tímabil auðgunarglæpa, manndrápa, peningaflóðs og ekki síst glæsilegs Hollywoodlífsstíls, sem endar að lokum með því að allir eru á varðbergi og hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Meistari Scorsese segir söguna af einstökum mikilleik og ekki síst gráglettni, sóðaskapur innihaldsins kemur aðeins fram í örfáum sprungum sem bresta í rómantíska drauminn. Og ekki má gleyma sannkölluðum stórleik þeirra snillinga sem hér eru saman komnir og fara hreint á kostum, nægir þar að nefna þá Robert De Niro (sem vann hér með Scorsese í sjötta skiptið), Ray Liotta, Paul Sorvino og Joe Pesci sem hlaut óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Scorsese hlaut tilnefningu fyrir leikstjórn sína og myndin var einnig tilnefnd sem besta mynd ársins 1990. Eðalmynd, sem verður enn betri með hverju árinu. Snilld!

Dagurinn í dag
* 1884 Fjallkonan, blað Valdimars Ásmundssonar, kom út í fyrsta skipti
* 1940 Kvikmyndin Gone with the Wind hlýtur átta óskarsverðlaun - ein besta mynd aldarinnar
* 1968 Flóð í Ölfusá með jakaburði - einhver mestu flóð á Íslandi á 20. öld
* 1984 Pierre Trudeau tilkynnir afsögn sína sem forsætisráðherra Kanada, eftir 16 ára valdaferil
* 1992 Haldið upp á það að íbúar Reykjavíkur voru orðnir fleiri en 100.000 manns

Snjallyrði dagsins
Whenever I despair, I remember that the way of truth and love has always won. There may be tyrants and murderers, and for a time, they may seem invincible, but in the end, they always fail. Think of it: always.
Mahatma Gandhi í Gandhi