Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 mars 2004

LögreglumálHeitast í umræðunni
Dagblaðið DV birtir í dag játningu eins sakborninga í líkfundarmálinu á Neskaupstað í heild sinni upp úr lögregluskýrslum. Þar kemur fram að sakborningurinn hafi viljað koma Vaidas Jucevicius undir læknishendur en annar sakborninga sem einnig situr í varðhaldi, hafi verið því mótfallinn og samstarfsmenn hans í Litháens sem sáu um að smygla eiturlyfjunum til Íslands. Segir sakborningurinn í lögregluskýrslunni að rússnesk/litháisk mafía sem starfi hér á landi hafi staðið að fíkniefnaflutningnum. Fram kemur í blaðinu í dag að hægt hefði verið að bjargar Vaidas ef hann hefði komist undir læknishendur. Er lýst í smáatriðum í blaðinu því sem sakborningurinn veit um ástand mannsins og meðferðina á honum seinustu dagana sem hann lifði. Vakti birting þessara gagna í blaðinu mikla athygli, enda undarlegt að birta slík gögn á því stigi sem málið er á. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sagði í viðtölum í dag að birting DV á skýrslunni og játningunni væri aðför að réttarkerfinu og grafalvarlegt mál. Kom fram í máli hans að hann harmi að blaðamennska á Íslandi sé komin á þetta stig. Fram kom hjá Boga Nilssyni ríkissaksóknara, að embættismönnum og verjendum sé óheimilt að afhenda fjölmiðlum gögn af þessu tagi. Ljóst sé að um þagnarskyldu- og trúnaðarbrot sé að ræða. Öðru máli kunni að gegna um sakborninginn sjálfan hafi hann gefið fjölmiðli upplýsingarnar. Hefur hann fyrirskipað rannsókn á málinu. Finnst mér þetta mál allt með ólíkindum og lýsa vel slöppu siðferði DV og þeirra sem þar eru í forsvari. Þetta er blaðamennska á mjög lágu plani.

Anna Lindh (1957-2003)Mijailo Mijailovic var dæmdur í lífstíðarfangelsi í dag fyrir morðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar. Hann réðst að henni með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi 10. september 2003. Hún lést af sárum sínum um nóttina. Mijailovic vildi lengi vel ekki viðurkenna að hafa myrt ráðherrann, en gekkst við ábyrgð sinni skömmu fyrir árslok, að því er flestir töldu til að fá mildari dóm. Í niðurstöðu dómara segir að morðið hafi verið skipulagður verknaður, skv. myndum teknum í öryggismyndavélum sjáist að sakborningurinn hafi elt ráðherrann í tæplega korter um verslunarmiðstöðina, áður en hann réðist að henni. Ennfremur hafi hann stungið hana með báðum höndum og verknaðurinn því ætlunarverk en ekki óviljaverk. Dómari sagði að Mijailovic hafi ekki átt sér neinar málsbætur og því ekkert sem gæti dregið úr refsingu hans. Mijailovic játaði verknaðinn í janúar en sagði þá ekki hafa verið um morð að yfirlögðu ráði að ræða; hann hafi hlýtt "innri röddum" í höfði sér og þær hafi leitt sig út í verknaðinn. Niðurstaða geðlækna var að Mijailovic hafi verið með óskerta greind er hann framdi ódæðið og því sakhæfur. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að hann væri tiltölulega heill á geðsmunum. Gott er að niðurstaða sé komin í þetta mál.

Íslenski fáninnGuðmundur Hallvarðsson alþingismaður, hefur flutt þingsályktunartillögu þess efnis á þingi að þjóðfána Íslands verði komið fyrir í þingsalnum. Segir Guðmundur í viðtali við Morgunblaðið í dag að tillaga hans njóti stuðnings þingmanna í öllum flokkum nema VG. Vonast hann til að málið nái í gegn á vorþinginu. Oft hefur Guðmundur barist fyrir þessu máli og reynt að koma því í gegn en ekki tekist. Er ég sammála Guðmundi í þessu máli og undrast reyndar að andstaða sé við það að fánanum sé komið fyrir í þingsalnum. Finnst það sjálfsagt mál að hann sé þar. Alþingi er löggjafarsamkunda landsmanna og okkar æðsta stofnun og því meira en sjálfsagt að þjóðfáninn fái þar heiðurssess.

Ásta MöllerSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu virkilega góður pistill Ástu Möller um heilbrigðismál. Orðrétt segir þar: "Hver hefur ekki staðið ráðalaus frammi fyrir líkamlegum einkennum eða sjúkleika hjá sjálfum sér eða einhverjum nákomnum og ekki vitað hvert ætti að snúa sér. Sumir hringja í ættingja eða vini úr heilbrigðisstéttum til að leita ráða. Aðrir hringja á bráðavakt Landspítala háskólasjúkrahúss, á Læknavaktina eða heilsugæslustöð til að fá viðtal hjá lækni. Erindið getur verið þess eðlis að jafnvel nægir einfalt svar eða fullvissa um að viðkomandi hefur brugðist rétt við. Stundum þarf hins vegar að bregðast skjótt við ef einkennin eru alvarleg. Í fæstum tilvikum er hins vegar augljóst hvert viðkomandi á að leita með erindi sitt. Um nokkurt skeið hef ég í ræðu og riti bent á kosti símatorgs um heilbrigðisþjónustu, heilsulínu, þar sem almenningur getur leitað ráða og upplýsinga um aðkallandi vanda og fær leiðbeiningar um hvert það á að leita innan kerfisins. Slík símaþjónusta hefur verið rekin í Bretlandi á vegum opinberra aðila frá árinu 1998 og tekur nú til alls landsins. Í Bretlandi, Svíþjóð og Kanada, þar sem slík símaráðgjöf er viðurkenndur hluti af heilbrigðisþjónustu, hafa rannsóknir bent til þess að í 40-50% tilvika geti fólk fengið úrlausn með símtali við heilbrigðisstarfsmann og þurfi ekki að leita lengra." Virkilega áhugaverð grein þar sem farið er yfir þetta mál mjög vel og sem fyrr er gaman að lesa skrif Ástu, sem þessa dagana situr á þingi í fjarveru Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

The Bone CollectorKvikmyndir - bókalestur
Í Kastljósinu í gærkvöldi mætti Árni Johnsen fyrrum alþingismaður, og ræddi um seinustu mánuði í lífi sínu og grein hans í Mogganum í dag. Áhugavert og gott viðtal. Eftir dægurmálaþættina horfðum við á kvikmyndina The Bone Collector. Fjallar um glæpasérfræðinginn Lyncoln Rhyme sem liggur nú algjörlega lamaður og hjálparvana eftir slys sem hann lenti í við rannsókn síðasta máls síns hjá lögreglunni. Hann er við það að gefast upp á lífinu sjálfu og hefur fengið loforð vinar síns, sem er læknir, um að hann hjálpi honum yfir móðuna miklu eftir örfáa daga. Á sama tíma rekst lögreglukonan Amelia Donaghy á illa farið lík manns inni í lestargöngum og uppgötvar á ummerkjunum, bæði á líkinu sjálfu og í kringum það, að hér er ekkert venjulegt mannslát á ferðinni. Svo fer að henni er skipað að fara til Lyncolns og sýna honum hvað hún fann í þeirri von að hann geti gefið lögreglunni einhverjar vísbendingar. Lyncoln fær fljótlega brennandi áhuga á málinu, tekur það að sér og krefst þess að hér eftir verði Amelia augu hans og eyru við rannsókn málsins og í stöðugu símasambandi við hann á meðan þau komast til botns í því. Í fyrstu er Ameliu ekkert sérlega vel við að taka þetta að sér, en verður auðvitað að gera það sem henni er sagt að gera. Þar með er hafin ein óvenjulegasta rannsókn sem sögur fara af á morðmáli sem á engan sinn líka! Þau Denzel Washington og Angelina Jolie fara hér bæði á kostum og skapa eftirminnilega karaktera eins og þau eru þekkt fyrir. Virkilega góð spennumynd. Eftir að hafa séð hana og tíufréttir fór ég að lesa í bókinni Complete Book of U.S. Presidents. Virkilega skemmtileg lesning.

Dagurinn í dag
* 1663 Ragnheiður biskupsdóttir lést - um hana var ortur sálmurinn Allt eins og blómstrið eina
* 1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - mikil framför fyrir sundfólk
* 1950 Olivia De Havilland hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Heiress
* 1998 Kvikmyndin Titanic, hlaut 11 óskarsverðlaun - vinsælasta mynd 20. aldarinnar
* 2003 Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Chicago

Snjallyrði dagsins
Start the car I know a whoopie spot... where the gin is cold and the pianos hot. It's just a noisy hall, where there's a nightly brawl... And all that Jazz.
Velma Kelly í Chicago