Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 mars 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Í kjölfar blaðamannafundar forsetans á Bessastöðum þar sem hann tjáði sig um embættið og valdasvið forseta, hafa lagaspekingar enn einu sinni birst á sjónarsviðinu og umræðan hafin um hver séu raunveruleg völd forseta eða hvort hann sé valdalaus. Hefur Sigurður Líndal prófessor, tekið undir ummæli forsetans á blaðamannafundinum að forsetaembættið sé ekki valdalaust og hann hafi mikil áhrif með 26. grein stjórnarskrárinnar. Hefur Þór Vilhjálmsson fyrrum forseti Hæstaréttar, mótmælt þessu og sagt það ekki fara saman við þingræðishefðina að forseti noti 26. greinina til að skjóta málum til þjóðarinnar sem hafa verið samþykkt á þingi og hefur bent á að enginn forseti hefur viljað fara þessa leið í 60 ára sögu lýðveldis. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fjallar um þetta í nýjasta pistli sínum. Þar segir hann: "Segist hann (Ólafur) hafa velt fyrir sér tveimur málum í ljósi þessa stjórnarskrárákvæðis og var annað þeirra lögheimild um Kárahnjúkavirkjun, en lögin voru samþykkt með aðeins 9 mótatkvæðum á Alþingi. Það hefði verið skýr atlaga að þingræðinu, ef forseti hefði neitað að rita undir þau lög – eins og raunar öll viðleitni af hans hálfu til að hindra framkvæmd á vilja Alþingis. Það er aðeins til að kynnast því, hve menn geta einangrast í fílabeinsturni við akademískar útlistanir og æfingar, að hlusta á rök þeirra, sem telja forseta Íslands heimilt að brjóta gegn þingræðinu og leitast við í nafni slíkra kenninga að draga embættið inn á grátt átakasvæði við þá, sem hafa skýrar valdheimildir samkvæmt stjórnarskránni." Tek ég undir þessi orð og tel reyndar kominn tíma til að stokka upp stjórnarskrárgreinar tengdar forsetaembættinu og skýra hvert umboð hans er.

Mótmæli vegna morðsins á YassinAhmed Yassin stofnandi og andlegur leiðtogi Hamas-samtakanna, týndi lífi í flugskeytaárás ísraelskra herþyrlna í morgun. Þá hafa önnur herská samtök Palestínumanna, Al-Aqsa píslarvottarnir, lýst yfir allsherjar stríði á hendur Ísrael. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, mun sjálfur hafa skipulagt árásina á Yassin. Ísraelar búast við hefnd, og lokuðu landamærastöðvum Ísraels við Gazaströnd, og hernáms- og heimastjórnarsvæðin vestan Jórdanar, í kjölfarið. Yassin var nýkominn út úr mosku í hjólastól sínum eftir morgunbænir þegar Ísraelar létu til skarar skríða. Þeir skutu þremur flugskeytum. Auk Yassins létust tveir lífverðir hans, og að minnsta kosti fimm vegfarendur. Ísraelsher hefur staðfest að hafa drepið Yassin. Hann var 65 ára, borinn og barnfæddur í Palestínu árið 1938. Hann stofnaði Hamas 1987, í fyrri uppreisn, eða íntífödu, Palestínumanna gegn Ísraelum. Hamas þýðir eldmóður. Samtökin fremja hryðjuverk, myrða óbreytta borgara í Ísrael, og halda uppi vopnaðri andspyrnu gegn Ísraelsher. Morðið á honum gerir illt ástand enn verra og mun leiða til öldu árása milli þjóðarbrota. Það er greinilegt að staða mála á þessum slóðum minnir á suðupott.

SkólagjöldMörghundruð stúdentar við Háskóla Íslands, söfnuðust saman fyrir utan aðalbyggingu Háskólans í hádeginu í dag, við upphaf Háskólafundar og mótmæltu hugmyndum um upptöku skólagjalda við Háskóla Íslands, en á fundi sínum í dag átti Háskólafundur að taka afstöðu til þess hvort óska ætti eftir því við menntamálaráðherra að hún beitti sér fyrir því að veita Háskóla Íslands heimild til að innheimta skólagjöld. Jarþrúður Ásmundsdóttir formaður Stúdentaráðs, segir í viðtali við mbl.is að sennilega hafi verið milli 500 og 600 stúdentar þar. Hafði fundurinn þau áhrif að Háskólafundur frestaði því að taka ákvörðun um málið. Sagði Páll Skúlason háskólarektor, að væntanlega yrði ákvörðun um málið tekin á Háskólafundi í byrjun maí. Telur hann mikilvægt að skoða þetta betur. Að mínu mati er eðlilegt að hver og einn borgi sitt nám og standi á bakvið sjálfan sig með því að bera þann kostnað sem því fylgir. Undarlegt er að fólk vilji koma þeim kostnaði yfir á aðra. Sé ég t.d. ekkert að því að hafa hófleg skólagjöld allavega og reyndar mikilvægt að taka umræðuna um þetta. Fagna ég því að stuðningsmenn skólagjalda hafi stofnað félag um þetta mál og ennfremur opnað vef félagsins.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um yfirlýsingar forseta Íslands á blaðamannafundi í vikunni þar sem hann lýsti yfir framboði sínu í komandi forsetakosningum og jafnframt það nýja form sem birtist landsmönnum í vikunni er forsetinn var gestur dægurmálaspjallþátta og þurfti að svara í yfirheyrslum þar fyrir verk sín í embætti og bregða sér í hlutverk hins harðskeytta stjórnmálamanns sem hann eitt sinn var. Það er engin hræsni þó sagt sé hreint út að ímynd forsetaembættisins hafi í raun sífellt farið niður á við hin seinustu ár og embættið orðið að hversdagslegu bitbeini. Kostnaður við forsetaembættið fer sífellt hækkandi og ekki bætir úr skák að forsetinn hefur gert embættið að hálfgerðum hégómleika þar sem hann er eins og haninn á haugnum ásamt sínum nánustu. Sá kóngabragur sem einkennt hefur embættið seinustu árin, hefur að mínu mati farið langt yfir öll mörk og í raun fengið fólk til að efast um að hér sá á ferð þjóðkjörinn fulltrúi. Ennfremur fjalla ég um þáttaskil í spænskum stjórnmálum og nýtt form á fundum bæjarstjórnar Akureyrar.

Jón Elvar GuðmundssonSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag birtist góður pistill eftir Jón Elvar og fjallar um skattamál. Orðrétt segir: " stuttu máli ganga lögin út á það að almenningur getur beðið ríkisskattstjóra um bindandi álit. Í því felst að fyrir ríkisskattstjóra er lögð spurning um það hvernig tilteknar fyrirhugaðar ráðstafanir verða skattlagðar. Gefi ríkisskattstjóri upp álit sitt á málinu eru skattyfirvöld bundin við þá niðurstöðu svo lengi sem atvik eru eins og lýst var í beiðni og lög sem snerta málefnið breytast ekki. Þetta fyrirkomulag getur komið í veg fyrir vandamál sem skapast af óskýrum reglum. Með eðlilegu samspili skattyfirvalda og almennings er hægt að ákvarða skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra athafna. Það er mikilvægt svo skattaðili geti ákveðið hvort fyrirhugaðar athafnir hans komi til með að borga sig eða ekki. Þetta lofsverða framtak löggjafans hefur hvorki fengið nægilega umfjöllun né verið haldið nægilega á lofti. Hins vegar er það svo að þetta nýmæli í lögum gerir allmiklar kröfur til skattyfirvalda þar sem viðbrögð þeirra ráða miklu um hvernig framkvæmdin verður." Ennfremur er fjallað á frelsinu um fund um utanríkismál í Valhöll á fimmtudag, þar sem gestur okkar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Jafnframt verður sýnd myndin War Room er fjallar um kosningabaráttu Bill Clinton gegn George Bush eldri, árið 1992. Á sus.is er ítarleg umfjöllun um helstu þingmálin.

Road to PerditionHelgin
Helgin var létt og góð. Á laugardag var bara haft það rólegt og unnið að því að skrifa pistil og svona dunderí. Seinnipartinn vorum við boðin í mat til vinafólks og horft þar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Var hið besta kvöld. Í þætti Gísla var Eurovisionlagið 2004 frumflutt, lagið Heaven. Syngur Jónsi í hljómsveitinni Í svörtum fötum, það. Rólegt lag, ekta ballaða. Jónsi hefur að mínu mati aldrei sungið betur, kraftmikill söngur hjá honum. Vonandi að því gangi vel. Horfðum síðar um kvöldið á kvikmyndina Road to Perdition. Mögnuð glæpamynd í úrvalsflokki, sem ég hef skrifað gagnrýni um. Eftir það var farið út á lífið og litið á Vélsmiðjuna. Þar hitti ég margt af góðu fólki, hitti t.d. þar Siv Friðleifsdóttur ráðherra, sem þar var með vinafólki sínu og hafði verið á badmintonmóti í Eyjafirðinum um helgina. Ræddi aðeins við hana um nokkur mál. Þakkaði ég henni þar m.a. fyrir góð orð hennar í gestabókinni í haust. Í gær var afmæli í fjölskyldunni og skemmtilegt spjall þar, enda fólkið mitt út um allt í pólitíkinni og engin einstefna þar. Farið yfir helstu málin. Seinnipartinn fórum við út að borða á Greifanum, ég og vinur minn og á eftir í bíó. Um kvöldið horfði ég á upptöku af Silfri Egils þar sem Björn og Össur tókust á um helstu málin. Björn stóð sig vel þarna og hefur sjaldan verið betri og tók Össur alveg í gegn.

Dagurinn í dag
* 1924 Ríkisstjórn Jóns Magnússonar tók við völdum - var þriðja og seinasta stjórn hans
* 1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt - var breytt í virðisaukaskatt árið 1990
* 1965 Fyrsta háloftamyndin af Íslandi tekin úr veðurhnettinum Tiros IX í 728 km hæð
* 1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, sökk í sæ - kemur nú aðeins úr sjó á fjöru
* 1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína

Snjallyrði dagsins
A man of honor always pays his debts... and keeps his word
John Rooney í Road to Perdition