Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 mars 2004

Baldvin Þorsteinsson EA-10Heitast í umræðunni
16 manna áhöfn fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10, var bjargað eftir að skipið strandaði í Meðallandsfjöru suður af Kirkjubæjarklaustri um kl. 5 í morgun. Björgunarsveitir voru kallaðar til í nótt og bæði Landhelgisgæsla og varnarliðið sendu þyrlur á staðinn. Tilkynning barst frá skipinu rúmlega þrjú í nótt um að hann hefði flækt nótina í skrúfuna. Baldvin rak upp í fjöru eftir misheppnaða björgunartilraun skipverja á Bjarna Ólafssyni og strandaði um kl. 5 skammt austur af Skarðsfjöruvita í Meðallandsfjöru, suður af Kirkjubæjarklaustri. Ströndin þarna er sendin og aðgrunnt þannið að óhægt var um vik fyrir skip að athafna sig. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, kom á staðinn rúmlega 6 og bjargaði öllum 16 skipverjunum á tæpri klukkustund. Baldvin Þorsteinsson sem er 1500 tonn hét áður Guðbjörg frá Ísafirði og hefur verið í eigu Samherja á Akureyri. Um 1800 lesta loðnufarmur er um borð í Baldvini. Sýndar voru einstakar myndir af björgun skipverjanna á Baldvini í kvöld í fréttatíma Sjónvarpsins. Ljóst verður að erfitt verður að bjarga skipinu af strandstað. Vegna slæms veðurs hefur verið hætt við tilraunir til að reyna að losa skipið af strandstað. Ekki viðrar vel til þess reyndar næstu daga, enda gert ráð fyrir sunnanáttum. Vantar efni í taug, sem tengja þarf á milli Baldvins og skipa sem koma til með að reyna að draga hann af strandstað. Hugsanlega verður að panta vír erlendis frá og þá gætu liðið nokkrir dagar þar til reynt verður að draga skipið. Um er að ræða mikið áfall fyrir Samherja og Akureyri í heild. Vonandi tekst að ná skipinu heilu af strandstað.

Dagatal Heimdallar til menntamálaráðherraHeimdallur afhenti í dag Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, tillögur félagsins í menntamálum. Þær voru unnar af opnum menntamálahópi Heimdallar og afhentar í formi dagatals út árið 2004. Um dagatalið segir svo á frelsi.is: "Dagatalið hefst á marsmánuði með umræðu um skólagjöld sem nær fram í apríl á dagatalinu. Í maí, júní og júlí er fjallað um faglegt frelsi. Ágúst og september eru undirlagðir í styttingu náms til stúdentsprófs. Fjárhagslegt frelsi er tekið fyrir í október og verknám í nóvember. Dagatalinu lýkur svo með gátlista í desember." Margt fróðlegt kemur fram í þessum tillögum og gott dæmi er t.d.: "Skólagjöld auka kostnaðarvitund stúdenta. Um leið og stúdentar gera sér grein fyrir og taka þátt í þeim kostnaði sem liggur að baki menntun sinni, má ætla að námið verði hnitmiðaðra og tíma sé ekki sóað til einskis. Skólagjöld veita stúdentum stóraukið tækifæri til að gera auknar kröfur til þjónustu. Skólagjöld eru líkleg til þess að draga úr sóun á almannafé. Nemendur munu í auknu mæli vanda betur val á námi sínu og leggja sig meira fram í náminu. Í dag er stór hluti nema sem skráir sig til náms óákveðinn og oft er það svo að skráningar úr námskeiðum eru yfir 50% og þá jafnvel í 400 manna námskeiðum. Ljóst má vera það óhagræði sem felst í því að skipuleggja námið alltaf út frá röngum upplýsingum um fjölda nemenda." Gott framtak hjá menntamálahópi Heimdallar.

SUSStjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti á síðasta fundi sínum svohljóðandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar því framtaki Samgönguráðherra að flytja skipaskoðun til einkarekinna skoðunarstofa frá og með 1. mars. Þar með er fyrsta skref einkavæðingar á nýju kjörtímabili tekið. Ljóst er að eftirlit með skipum er betur farið í höndum einkarekinna fyrirtækja en í höndum hins opinbera, má til samanburðar nefna að fáum kemur til hugar í dag að hið opinbera sjái um bifreiðaskoðun. Það fyrirkomulag sem áður tíðkaðist var tímafrekt og kostnaðarsamt og er það trú SUS að hið nýja fyrirkomulag muni reynast þeim sem þurf að nýta sér þjónustu skoðunarstofa hagkvæmt. Einkafyrirtæki eru líklegri en opinberar stofnanir til að leita hagkvæmustu leiða til að veita þá þjónustu sem óskað er eftir hverju sinni. SUS hvetur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar til að halda áfram á þeirri braut að færa fleiri verkefni stór sem smá, frá hinu opinbera til einkafyrirtækja.

Elín GränzSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli á frelsinu í dag fjallar Elín um framfarir í löggæslumálum, í kjölfar þess að dómsmálaráðherra styrkti sérsveit lögreglunnar. Orðrétt segir hún: "Það væri til bóta fyrir málefnalega umræðu í landinu ef að vinstri menn svifu til jarðar eins og eitt augnablik og áttuðu sig á bláköldum raunveruleikanum. Á íslandi eru glæpir, á Íslandi eru harðir undirheimar, ofbeldi og haldlagning á eiturlyfjum hefur aukist. Það er ekki endalaust hægt að horfa í hina áttina og láta sem landinn sé staddur í fallegri teiknimynd þar sem öll dýrin í skóginum eru vinir. Í síðustu viku kynnti Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, breytingar á skipulagi um sérsveit lögreglunnar sem er ætlað efla löggæsluna í landinu svo og öryggi borgaranna. Vinstri vængurinn var nú ekki lengi að taka við sér og að sjálfsögðu búin að finna þessu fína framtaki allt til foráttu. Rökin eru reyndar ekki sterkari en svo að þau tala mest megnis um að þetta sé skyndiákvörðun, þetta sé eyðsla, draumur Björns um her og leyniþjónustu. Sem sagt átta sig ekki á staðreyndum málsins sem meðal annars eru aukning á harðari glæpum hérlendis og aukin hætta af glæpastarfsemi og hryðjuverkum erlendis frá. Ekki eru ráð nema í tíma séu tekin og endurspeglar þessi aðgerð Björns, áhuga hans og reynslu af varnarmálum." Fróðleg og góð grein hjá Elínu, sem gaman var að lesa.

Good Will HuntingBókalestur - kvikmyndir
Fór seinnipartinn á Amtsbókasafnið og fékk nokkrar bækur þar að láni. Safnið er glæsilegt að loknum byggingarframkvæmdum og aðstaða allt önnur og betri. Við sem notum safnið mikið erum ánægð með útkomuna. Hitti góðan vin á safninu og við settumst niður þarna og ræddum ýmis mál. Gott spjall og víða farið yfir. Ætla að lesa á næstu dögum Statecraft: Strategies for a Changing World, eftir Margaret Thatcher, og ennfremur ævisögu John Major. Um kvöldið horfðum við á kvikmyndina Good Will Hunting. Hugljúf, raunsæ og vel gerð mynd þar sem sögð er sagan af hinum óútreiknanlega Will Hunting. Segja má að í honum blundi algjörar andstæður. Annarsvegar er hann heillandi persóna, gæddur snilligáfu, en hins vegar er hann upp á kant við allt og alla. Hann vinnur venjulega verkamannavinnu á milli þess sem hann slæst á kránni og lendir í útistöðum við lögregluna og einu kynnin sem hann hefur haft af framhaldsskólagöngu eru þau að hann hefur skúrað gólfin í háskóla heimabæjar síns. Þrátt fyrir það er hann ótrúlega vel að sér í sögu og getur einnig á augabragði leyst stærðfræðiþrautir sem vefjast jafnvel fyrir hámenntuðum prófessorum. En svo lendir þessi undarlegi ungi maður í enn einum slagsmálunum og nú er fyrirsjáanlegt að hann kemst ekki hjá fangelsisdómi. Eina vonin fyrir hann er að sálfræðingurinn Sean Maguire, sem dáist af óvenjulegum hæfileikum hans, geti komið honum til bjargar og hjálpað honum að komast á beinu brautina. En mun það takast? Robin Williams hlaut óskarinn sem besti leikari í aukahlutverki 1997 fyrir góða túlkun sína á hinum úrræðagóða sálfræðingi. Matt Damon og Minnie Driver eiga einnig stórleik. Damon og Ben Affleck hlutu óskarinn fyrir besta frumsamda handrit ársins, þeir sömdu það vegna þess að þeim bauðst ekkert ákjósanlegt handrit og fengu enga stóra sénsa í bransanum. Virkilega góð mynd sem á alltaf vel við.

Dagurinn í dag
* 1685 Góuþrælsveðrið - í þessu veðri fórust 132 menn á sjó og 6 urðu úti
* 1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói
* 1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi lést, 92 ára að aldri
* 1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu
* 1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk - öllum 10 skipverjum bjargað af þyrlusveit TF-Líf

Snjallyrði dagsins
Oh, that's silly. No woman could ever run for President. She'd have to admit she's over 35.
Mary Matthews í State of the Union