Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 mars 2004

Þjóðarsorg á SpániHeitast í umræðunni
Enn er alveg óljóst hvort það eru basknesku hryðjuverkasamtökin ETA eða íslamskir hryðjuverkamenn í al Qaeda sem standa á bak við hryðjuverkin á Spáni í gær. Tæplega 200 manns eru látnir eftir sprengjuárásir á þremur lestarstöðvum í Madrid en særðir eru vel á fimmta hundrað. Bakpokasprengjur og koparhvellhettur sem tendraðar voru með boðum úr farsíma bera ekki merki um handbragð ETA að sögn útvarpsstöðvar á Spáni. Hvellhettur í sprengjum sem lögregla fann og aftengdi voru úr kopar en ETA notar venjulega álhvellhettur. Líklegra er nú talið að al Qaeda hafi verið að verki en ETA, en rannsókn á tildrögum hryðjuverkanna er hafin. Tvær milljónir manna gengu um götur Madrid, höfuðborgar Spánar í dag, og mótmæltu með því hryðjuverkunum. Tugir þúsunda mótmæltu einnig í öðrum borgum á Spáni, en um er að ræða ein fjölmennustu mótmæli í sögu Spánar. José Maria Aznar forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll, hvatti landsmenn til þess að streyma út á göturnar og taka þátt í að mótmæla hryðjuverkunum. Aznar, hét því í dag að finna þá sem ábyrgir væru fyrir þessu voðaverki. Spánverjar söfnuðust saman utan dyra á hádegi í dag, eða klukkan ellefu í morgun að íslenskum tíma, og viðhöfðu stundarþögn. Stjórnvöld höfðu hvatt fólk til að viðhafa mínútuþögn en margir íbúar höfuðborgarinnar stóðu kyrrir og þögulir í tíu mínútur í svölu votviðrinu. Að þagnarstundinni lokinni klöppuðu margir en það er spænsk hefð er fólk er hvatt hinsta sinni.

Roh Moo-hyunÞingið í S-Kóreu hefur samþykkt að stefna forseta landsins, Roh Moo-hyun, til embættismissis fyrir brot á kosningalögunum. Forsætisráðherrann tekur við völdum á meðan stjórnarskrárdómstóll S-Kóreu fjallar um brot forsetans. Alls 193 af 273 þingmönnum S-Kóreska þingsins samþykktu að ákæra Roh forseta til embættismissis. Tveir voru á móti tillögunni. Aðrir stuðningsmenn forsetans greiddu ekki atkvæði en efndu þess í stað til upphlaups í þingsalnum. Þeim tókst í gær að fresta því að tillaga stjórnarandstöðunnar um ákæru yrði tekin fyrir en þegar þingið kom saman að nýju um eittleytið í nótt urðu þeir að láta í minni pokann. Málið fer nú á borð stjórnarskrárdómstóls S-Kóreu. Umfjöllun stjórnarskrárdómstólsins getur tekið allt að 6 mánuði og á meðan er forsetinn algjörlega valdalaus. Goh Kun forsætisráðherra tekur að sér að verða þjóðarleiðtogi og þjóðhöfðingi landsins í millítiðinni. Forsetinn segist telja að hann þurfi engar áhyggjur að hafa af stöðu mála og telur að stjórnarskrárdómstóllinn muni dæma sér í hag. Sex dómarar af níu þurfa að samþykkja brottrekstur.

Baldvin Þorsteinsson EA-10Tugir manna hafa unnið að undirbúningi björgunaraðgerða á strandstað Baldvins Þorsteinssonar EA-10, í Skálarfjöru fram af Meðallandi. Stefnt er að því að ná skipinu út á flóði í fyrramálið. Norski dráttarbáturinn kom að strandstað í dag og seinustu daga hafa verið þar björgunarsveitir úr V-Skaftafellssýslu, menn frá skipafélaginu og frá Gæslunni. Áætlað er að koma línu úr norska dráttarbátnum í stafn Baldvins og þaðan verði hún dregin með jarðýtum á landi milli skipanna. Í dag varð ljóst að TF LÍF, er biluð og getur því ekki aðstoðað á strandstað. Þyrla Varnarliðsins var því kölluð til en á leið sinni þangað lýsti flugstjórinn yfir neyðarástandi vegna vélarbilunar og var önnur þyrla Varnarliðsins send í hennar stað. Hún komst heilu og höldnu á leiðarenda. Vonandi er að vel gangi á morgun og um helgina á strandstað og skipið komist heilu og höldnu í burt af strandstað.

Drífa Hjartardóttir alþingismaðurGestapistillinn
Drífa Hjartardóttir alþingismaður og formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, skrifar gestapistil að þessu sinni á heimasíðu mína. Í pistlinum fjallar Drífa um sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum hérlendis og ennfremur um þau málefni sem flokkurinn hefur unnið að seinasta áratuginn og hvað blasir við á komandi árum á þessu kjörtímabili. Orðrétt segir Drífa: "Um daginn vorum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem sæti eigum í Norðurlandaráði, á fundi með hægri flokkunum í Norðurlandaráði. Á þessum fundum ræddum við um stjórnmálin og bárum saman bækur okkar. Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi er stærsti hægri flokkurinn á Norðurlöndum og sá eini sem hefur verið samfellt í forystu í ríkisstjórn eins lengi og okkar flokkur. Slíkt er einsdæmi. En það er ekki ástæðulaust hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið mikil kjölfesta í landsmálum, má þar m.a. þakka styrkri forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi verið sterkt og þróttmikið þjóðfélagsafl á Íslandi. Þessa sterku stöðu má að sjálfsögðu rekja til stefnu hans og hugsjóna og þess fólks sem hefur tekið þátt í störfum hans fyrr og síðar." Ég þakka Drífu fyrir góðan pistil um traustan flokk.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í dag eru tveir góðir pistlar á frelsinu. Í þeim fyrri fjallar Atli Rafn um hringleikahús stjórnarandstöðunnar. Orðrétt segir hann: "Gagnrýni einstakra þingmanna úr stjórnarandstöðunni á boðaða stækkun hefur vakið nokkra athygli. Reyndar hefur hún á stórum köflum verið sorglega ómálefnaleg og jafnvel orðið nokkrum þeirra til minnkunnar, s.s. Helga Hjörvari. Hins vegar var merkilegt að hluti gagnrýni stjórnarandstöðunnar beindist að þeim aukna kostnaðar sem stækkuninni óhjákvæmilega fylgir. Þar kveður við alveg nýjan tón þar sem stjórnarandstaðan hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir að halda aftur af sér við að auka útgjöld ríkisins á kostnað skattgreiðenda. Ef til vill eru skilaboð Heimdallar og annarra ungra sjálfstæðismanna sem ítrekað hafa gagnrýnt útgjaldaþennslu ríkisins að komast til skila." Að auki skrifar Bjarki góðan pistil um skipulagsmál í borginni. Fer hann þar vel yfir stöðu mála og ráðleysi R-listans í skipulagsmálum. Pistilinn endar Bjarki svo: "Margir hafa haldið því fram að metnaður nokkurra borgarfulltrúa R-listans fyrir hábrú sé til kominn vegna þess að R-listinn vilji reisa sér veglegt minnismerki frá valdatíð sinni í Reykjavík. Hvort það sé tilkomið af eðlilegum ótta R-listamanna við að tapa borginni í næstu kosningum eða einfaldlega þörf þeirra fyrir að skilja eftir sig minnismerki skal ósagt látið."

Dagurinn í dag
* 1916 Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stofnað - fyrsti formaðurinn var Jón Baldvinsson
* 1921 Eldingu laust niður í vitann á Stórhöfða í Vestmannaeyjum
* 1965 Fyrsta íslenska bítlaplatan kom út - á henni voru lögin: Bláu augun þín og Fyrsti kossinn
* 2001 Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru friðlýstar formlega - fyrst náttúruminja í sjó
* 2003 Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, myrtur í Belgrad

Snjallyrði dagsins
You don't think about getting old when you're young...you shouldn't.
Alvin Straight í The Straight Story