Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 mars 2004

Nýtt fyrirkomulag bæjarstjórnarfunda kynntHeitast í umræðunni
Í gær var haldinn blaðamannafundur í Ráðhúsi Akureyrarbæjar þar sem Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar og Jakob Björnsson formaður bæjarráðs, kynntu nýtt verklag við bæjarstjórnarfundi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Þessar breytingar fela einkum í sér að nefndir og embættismenn fá aukna heimild til að taka fullnaðarákvarðanir í ýmsum málum án staðfestingar bæjarstjórnar. Um málið segir svo á vef bæjarins: "Forsaga málsins er sú að árið 2003 var gerð breyting á 44. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem miðaði að því að taka af vafa um heimildir sveitarstjórnar til að framselja vald sitt til nefnda og annarra aðila innan stjórnsýslunnar. Bæjarstjórn Akureyrar hefur fylgt þessum breytingum eftir með því að breyta bæjarmálasamþykkt sinni í grundvallaratriðum í þessa veru. Markmiðið með breytingunum er að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni, efla stefnumarkandi hlutverk bæjarstjórnar, gera fundi bæjarstjórnar skipulegri og umræður markvissari og færa starfshætti bæjarstjórnar og stjórnkerfis í átt til hins rafræna veruleika sem einkennir nútíma stjórnsýslu og samskipti. Afgreiðsluferill erinda til bæjarfélagsins verður einfaldari og afgreiðslutíminn styttri og þannig ætti þjónustan við íbúana að verða ennþá betri." Þessar breytingar eru mjög til hins góða og verður eflaust skemmtilegra að fylgjast með bæjarstjórnarfundum hér eftir.

BessastaðirÍ kjölfar ummæla forseta Íslands, er hann tilkynnti framboð í komandi forsetakosningum, á mánudag, hefur vaknað umræða um valdastöðu og hlutverk forseta Íslands á 21. öld. Var það vissulega þarft að fá umræðu um þau mál. Flestir sjá reyndar að embætti forsetans er tiltölulega valdalaust. Er almennt talin táknræn tignarstaða, en ekkert meira. Athyglisvert er að forseti segi að nauðsynlegt sé að hann verði virkari í umræðu um málefni samtímans. Mér fannst hann nú svosem ekkert óvirkur í þeirri umræðu. Hann hefur verið ófeiminn að tjá sig um helstu málin. Ekki varð ég var við hik á forsetanum í umræðu um heimastjórnarafmælið. Þar skaut hann í allar áttir og var með öllu ófeiminn. Forseti hefur í gegnum 8 ára forsetaferil sinn verið í þeirri stöðu að hafa skoðanir og koma þeim að. Framkoma forseta seinustu vikur hefur enn frekar styrkt þá afstöðu mína að leggja eigi embættið niður og stokka upp stjórnskipunina. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að tími sé kominn til breytinga. Raunverulegar embættisskyldur forsetans eru einkum formlegs eðlis og í raun gætu þau verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Embætti forseta Íslands er með öllu ónauðsynlegt í lýðræðisríki og ekki síður gríðarlega kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur. Nú þegar styttist í forsetakosningar blasir við að staða núverandi forseta verður kosningamál í forsetakosningum. Hvet ég sem flesta til að taka upp gagnrýna umræðu um verk hans í þeirri kosningabaráttu. Slíkt er þarfaverk.

Baldvin Þorsteinsson EA-10 Norska dráttarbátnum Normand Mariner tókst eftir miðnættið í nótt að draga Baldvin Þorsteinsson EA-10, á flot af strandsstað í Skálarfjöru á Meðallandssandi. Á sunnudagskvöld mistókst að draga skipið af strandstað en þá gáfu festingar fyrir dráttartaugar sig eftir að skipið hafði verið dregið 2-3 skipslengdir frá ströndinni. Skipið snerist og beindi stefninu í land og varð því að byrja á því að snúa skipinu í gærkvöld áður en það var dregið á flot. Beitt var 170-180 tonna átaki, litlu meira en í fyrrakvöld. Baldvin verður nú dreginn til Noregs. Mikil gleði var á strandstað sem von var eftir að ætlunarverkinu hafði verið náð. Tappa var skotið úr einni kampavínsflösku og innihaldinu puðrað yfir vel gallaðan mannskapinn. Ekki dropi var drukkinn. Mikil gleði er hér í Eyjafirði með farsæla lausn málsins. Í dag sendi Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, bréf til Samherjafrænda, kveðju frá bæjarbúum. Ástæða er til að taka undir góðar kveðjur bæjarstjóra og senda bestu kveðjur til Samherja.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag er birt á frelsinu svar ritstjórnar vefsins við skrifum Andrésar Jónssonar formanns UJ, á vefnum pólitík.is. Í pistli ritstjórnar segir svo: "Andrés nokkur Jónsson skrifaði lítt áhugaverða grein á politík.is vefsíðu manna sem kenna sig við jafnaðarmennsku. Greinin einkennist af hefðubundnum útúrsnúningum og slagorðaglamri vinstrimanna. Vitnar Andrés í hinn alræmda sögufalsara og sósíalista Michael Moore til að freista þess að ljá orðum sínum vigt. Fjöldi vitleysa hjá Andrési er slíkur að það slagar í smárit að leiðrétta þær allar, látum þó pistil nægja." Er að þessu loknu farið yfir staðreyndavillur í ótrúlegri grein Andrésar þar sem hann snýr gjörsamlega út úr málflutningi í pistli Atla Rafns á vefnum um daginn. Í lok greinar ritstjórnarinnar segir svo: "Rétt er að ljúka þessari yfirferð yfir rökleysur Andrésar áður en greinin breytist í smárit. Hér hefur verið tæpt á örfáum af þeim rökleysum og staðhæfingarvillum sem fram komu í grein Andrésar. Þeir sem hafa áhuga á öðrum villum Andréar geta kynnt sér grein hans." Ennfremur birtist ályktun stjórnar Heimdallar um birtingu álagningarskráa. Tek ég heilshugar undir hana, og hef reyndar skrifað um þetta mál á vefsíðu minni. Bendi á pistil minn um þetta þann 3. ágúst 2003.

BæjarmálBæjarmál - bókalestur
Eftir kvöldfréttirnar og dægurmálaþætti horfði ég á fréttir á Aksjón og bæjarstjórnarfund sem var fyrr um daginn. Hann var sögulegur mjög, enda sá fyrsti eftir nýju verklagi í samræmi við breytta bæjarmálasamþykkt. Markmiðið er margþætt, einkum að auka hagræði og skilvirkni og hraða málsmeðferð í stjórnsýslunni. Fyrsti fundurinn var um þriggja klukkustunda langur og víða farið yfir. Ítarleg umræða var um málefni leikskólans Klappa og leikskóla við Helgamagrastræti og ákvörðun meirihlutans tengd þeim. Ekki síður varð ítarleg umræða um skipulagsmál vegna Sjallareitsins. Venju samkvæmt keppa bæjarfulltrúar, Oktavía Jóhannesdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir, í því að koma með sem flesta útúrsnúninga og rakaleysur. Oddur Helgi Halldórsson sakaði meirihlutann um valdníðslu í málum Klappa. Með hreinum ólíkindum var að heyra hann flytja ræðu sína. Bæjarstjórnarfundurinn er eftir þessar breytingar mun sjónvarpsvænni og almenningur mun betur sjá og heyra hvaða mál eru í umræðunni hverju sinni. Þessi breyting er mjög til hins góða. Eftir fundinn fór ég í að lesa bókina góðu um Repúblikanaflokkinn sem fyrr er getið hér. Virkilega góð bók.

Dagurinn í dag
* 1917 Tíminn, blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - hætti að koma út 1996
* 1953 Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni High Noon
* 1987 Prestskosningar voru afnumdar með nýjum lögum um veitingu prestakalla
* 1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis - tíu árum eftir það fyrsta á heimsvísu
* 2001 Kosið um framtíð flugvallar í Vatnsmýri - naumur sigur flugvallarandstæðinga

Snjallyrði dagsins
I'll be all around in the dark - I'll be everywhere. Wherever you can look - wherever there's a fight, so hungry people can eat, I'll be there. Wherever there's a cop beatin' up a guy, I'll be there. I'll be there in the way guys yell when they're mad. I'll be there in the way kids laugh when they're hungry and they know supper's ready, and when people are eatin' the stuff they raise and livin' in the houses they built - I'll be there, too.
Tom Joad í The Grapes of Wrath