Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 mars 2004

John KerryHeitast í umræðunni
John Kerry öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, verður forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Þetta varð endanlega ljóst í nótt eftir að hann vann sigur í 9 af 10 ríkjum í forkosningum gærdagsins, á svonefndum Super Tuesday. John Edwards tókst ekki að vinna sigur í neinu af fylkjunum 10 og búist er við því að hann dragi framboð sitt til baka á blaðamannafundi seinna í dag. Bush forseti hringdi í Kerry í nótt og óskaði honum til hamingju. Framundan er harður kosningaslagur þeirra á milli. Kerry hefur nú unnið forkosningar í 27 ríkjum af 30. Í gær sigraði hann í Californiu, New York, Ohio, Massachusetts, Georgiu, Connecticut, Minnesota, Maryland og Rhode Island. Í Vermont hlaut Howard Dean flest atkvæði, þótt hann sé hættur við framboð sitt. Dean ríkisstjóri í Vermont í 11 ár, og sigur hans þar því engin stórtíðindi. Næsta verkefni Kerrys verður að velja sér varaforsetaefni í kosningunum. Margir demókratar telja Edwards kjörinn meðframbjóðanda hans. Eða eins og CNN segir: "Kannanir sýni að það falli kjósendum vel í geð, enda séu þeir að ýmsu leyti heppilegar andstæður. Annar Norðurríkjamaður, nokkuð hátíðlegur, farinn að reskjast og með reynslu af utanríkis- og hermálum. Hinn Suðurríkjamaður, alþýðlegur og fjörugur, nokkuð unglegur, sérfróður um efnahags- og félagsmál." Eini gallinn ku víst að þeim er ekki vel til vina og því ekki ólíklegt að Kerry hugleiði t.d. að fá Dick Gephardt þingmann frá Missouri og fyrrum forsetaframbjóðanda, Mary Landrieu öldungadeildarþingmann Louisiana og Robert Rubin sem var fjármálaráðherra í Clinton stjórninni, sem varaforsetaefni.

AlþingiTekist var á í gær á þingi um ákvörðun dómsmálaráðherra, um að efla sérsveit lögreglunnar og færa hana undir verksvið ríkislögreglustjóra. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs um störf þingsins í upphafi þingfundar og tengdi fjárhagsvanda dómara við fjármagn sem nú er veitt til að efla sérsveit lögreglunnar. Talaði hann um "gamalt gæluverkefni og bernskudraum dómsmálaráðherra um her í landinu". Þá sagði Helgi að ríkisstjórnin virtist alltaf eiga peninga í sérsveitir og sendiráð en síður í sjúkrahús og samfélagsþjónustu. Helgi spurði hvort ríkisstjórnin væri samstíga í að veita fé til þessara mála. Dómsmálaráðherra vildi ekki taka efnislega umræðu um málið þar eð Ögmundur Jónasson hefði óskað eftir utandagskrárumræðu um lögregluna sem fram fer á fimmtudag. Undarlegt er að fylgjast með þingmönnum Samfylkingarinnar þessa dagana. Þeir virðast reyna að toppa hvern annan með æsifyrirsagnastíl í ræðum á þingi og slá met í gífuryrðum. Stendur þar fyrrnefndur þingmaður nokkuð framarlega. Frægt varð er hann var víttur af starfsaldursforseta, í jómfrúrræðu sinni, á þingsetningardegi í fyrrasumar. Slíkt er einsdæmi. Helgi hefur í ræðum á þingi og í borgarstjórn ekki náð að vinna sig uppúr Morfís stíl sínum, sem getur stundum verið þónokkuð grófur.

Sigurður Ingi JónssonSigurður Ingi Jónsson, sem verið hefur fulltrúi Frjálslynda flokksins í útvarpsráði og leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum 2003, hefur sagt sig úr útvarpsráði og úr Frjálslynda flokknum. Ástæður úrsagnar sinnar úr flokknum hefur hann sagt vera þá að hann geti ekki unnið fyrir eða með þeim mönnum sem nú séu í yfirstjórn flokksins. Sérstaklega segir hann þetta eiga við varaformann flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson. Nefnir hann þar orðbragð hans og svæsnar árásir hans í ræðu og riti á bæði menn og stofnanir. Að hans mati hafi mælirinn verið fullur þegar hann, á spjallvef, hafi sakað hæstarétt um að vera handbendi sjávarútvegsráðuneytisins. Telur hann kosningu varaformannsins sem þingflokksformanns Frjálslynda flokksins, vera viðurkenningu á því að flokkurinn sætti sig við framferði hans. Þessu vill Sigurður Ingi Jónsson ekki una og hefur því sagt sig úr flokknum. Hann er maður að meiri á eftir.

Þorbjörg Helga VigfúsdóttirSvona er frelsið í dag
Þrjár góðar greinar eru á frelsinu í dag. Í þeim fyrsta fjallar Tobba um bandarísku forsetakosningarnar. Orðrétt segir: "En hver er John Kerry? Er bandaríska þjóðin búin að kynnast Kerry nægilega vel til að hann sé raunverulegur kostur gegn Bush sem hefur auglýsingaherferð sína á morgun, fimmtudag? John F. Kerry lítur út eins og forseti, ber sig eins og forseti og ber upphafsstafi forseta. Hann er af ríkum ættum líkt og núverandi forseti og hefur starfað sem réttarlögmaður og þingmaður. Kerry er hermaður og kaus meðal annar með innrásinni inn í Írak í þinginu. Hann hefur mjög langa reynslu á þingi en hefur ekki verið talinn hugmyndaríkur eða aðhaldssamur í útgjaldaaukningu ríkiskerfisins. Kerry hefur sterkar og ákveðnar skoðanir þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og gagnrýnir harkalega að 44 milljónir Bandaríkjamanna skuli ekki hafa tryggingar. Hann er á móti dauðarefsingum og styður að fylkin skuli ákveða sjálf hvort samkynhneigðir geti giftst." Góð grein, mæli með henni við áhugafólk um bandaríska pólitík. Atli Rafn fjallar í sínum pistli um freistingar stjórnmálamanna og segir: "Alþingismenn mæla gjarnan fyrir og samþykkja lög sem eru íþyngjandi fyrir fólkið í landinu og skattgreiðendur. Undirrótin er gjarnan hagsmunagæsla fyrir ákveðinn þrýstihóp sem hefur óhjákvæmilega í för með sér að einum þjóðfélagshópi er gert hærra undir höfði en öðrum. Slíkt er freistandi fyrir þingmenn sem vilja þóknast sem flestum áður en kemur að næstu kosningum. Oftar en ekki er í þessum tilfellum betra heima setið en af stað farið þar sem ákjósanlegast er að stjórnmálamenn hafi sem minnst afskipti af fólki. Ef til vill er besta ráðið gagnvart afskiptasömum þingmönnum einfaldlega að gefa þeim ennþá meira frí en þeir fá núþegar." Að auki birtist góð moggagrein Ragnars.

All About EveKvikmyndir - sjónvarpsgláp
Eftir að hafa horft á kvöldfréttirnar var litið á Kastljósið. Þar var landbúnaðarráðherra aðalgestur og venju samkvæmt vall vitleysan upp úr honum um landbúnaðarkerfið. Alveg með ólíkindum að hlusta á þennan mann. Horfði á fréttir á Aksjón og svo bæjarstjórnarfund, þar sem nokkur athyglisverð mál voru til umræðu. Eftir það horfði ég á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd All About Eve. Fjallar um Margo Channing virta leikkonu á Broadway. Einn daginn birtist Eve Harrington í búningsherberginu hennar og vill fá að tala við Margo, enda hefur hún fylgst með henni á öllum sýningum hennar. Eve og Margo kemur vel saman og ákveður Margo að bjóða Eve vinnu sem aðstoðarkona sín. Fljótlega fer Margo að gruna að Eve hafi ekki ráðið sig til að verða aðstoðarkona hennar heldur hafi aðrar hugmyndir um starf sitt, þ.e. að koma sjálfri sér á framfæri og koma sér á kaf í leiklistina. Óskarsverðlaunaleikkonan Bette Davis blómstrar í hlutverki hinnar ráðríku og einstöku leikkonu Margo Channing og vinnur þar einn af sínum allra stærstu leiksigrum á hvíta tjaldinu. Ekki er Anne Baxter mikið síðri í hlutverki hinnar framagjörnu Eve Harrington, sem ætlar sér greinilega að yfirtaka líf Margo og allt sem því fylgir. George Sanders hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í hlutverki Addison DeWitt, hins undirförula leikhúsgagnrýnanda. Án nokkurs vafa besta mynd meistarans Joseph L. Mankiewicz, en hann hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína. Hann stjórnar hinum einstaka hópi leikara sem fara hér á kostum á einstaklega góðan og eftirminnilegan hátt, og fyrir hið einstaka handrit sem margir hafa lofað gegnum tíðina, enda er það eitt af allra bestu kvikmyndahandritum sögunnar, sökum hinna hnyttnu og eftirminnilegu samtala sem þar fyrir koma. Hér er því á ferðinni einstök gullaldarklassík sem er ávallt viðeigandi. Passaði vel í lokin á góðum þriðjudegi.

Dagurinn í dag
* 1200 Bein Jóns Ögmundssonar biskups, voru tekin upp - Jónsmessa haldin í tilefni þess
* 1943 Greer Garson hlaut óskarinn - hélt lengstu þakkarræðu í Óskarssögunni, 7 mínútna langa
* 1991 Lögreglumenn í Los Angeles réðust á Rodney King - leiddi til mikilla óeirða í L.A.
* 1997 Björk Guðmundsdóttir tók við tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs í Osló
* 2003 Davíð Oddsson sagði í viðtali hjá RÚV að sér hefðu verið boðnar mútur af Baugi

Snjallyrði dagsins
Today, I consider myself the luckiest man on the face of the earth.
Lou Fehrig í The Pride of the Yankees