Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 mars 2004

Hryðjuverk á SpániHeitast í umræðunni
Þúsundir syrgjenda voru viðstaddir athöfn í Madrid í dag, til minningar um þá tæplega 200 sem týndu lífi í hryðjuverkaárásunum í borginni, 11. mars sl. Athöfninni var sjónvarpað beint og hún sýnd á risaskjám víða í höfuðborginni en alls sóttu fulltrúar meira en 50 ríkja athöfnina. Juan Carlos Spánarkonungur, fór fyrir tæplega 2.000 syrgjendum að Almudena dómkirkjunni. Leyniskyttur höfðu komið sér fyrir á nálægum húsþökum en öryggisgæsla hafði verið stóraukin, m.a. á báðum flugvöllum Madridar þar sem þjóðarleiðtogar komu til landsins, sem og á helstu leiðum til og frá borginni. Þúsundir söfnuðust saman á götum úti í annars hljóðri borg og horfðu á athöfnina á risaskjá á einu stærsta torgi borgarinnar, Puerta del Sol. Athöfnina sóttu forsætisráðherrar 14 ríkja og áttu þeir flestir fundi í dag með Jose Maria Aznar fráfarandi forsætisráðherra Spánar, og Jose Luis Rodriguez Zapatero verðandi forsætisráðherra. Þetta er í fyrsta sinn frá því lýðræði var endurreist eftir dauða Francisco Franco fyrir tæpum þrem áratugum, sem minningarathöfn á vegum spænska ríkisins, og ekki ætluð meðlimum konungsfjölskyldunnar, fer fram. Hefur verið gagnrýnt að minningarathöfnin fari fram í kaþólskri kirkju þar sem fórnarlömbin hafi ekki öll aðhyllst sömu trú. Spænskt samfélag er enn sem lamað eftir hryðjuverkin, hef ég fylgst með stöðu mála þar í gegnum frænku mína sem býr í Madrid. Mikil sorg er þar og reyndar enn þjóðarsorg og ljóst að það mun taka langan tíma fyrir Spánverja að yfirstíga þetta mikla áfall.

LögreglumálDV heldur í dag áfram umfjöllun sinni um líkfundarmálið í Neskaupstað og birtir lögregluskýrslur tveggja sakborninga sem tengdir hafa verið málinu. Í gær var birt eins og ég hef áður fjallað um skýrsla þess þriðja. Sem fyrr er málið rakið þarna í algjörum smáatriðum og trúnaðargögn birtast í dagblöðum með þessum hætti. Er með hreinum ólíkindum hverslags upplýsingastreymi er til fjölmiðla vegna þessa máls. Það hefur aldrei gerst fyrr að lögregluskýrslur birtist orðrétt í íslenskum fjölmiðlum og þarf vart að taka fram að það er ólöglegt. Hefur ríkissaksóknari hafið rannsókna á tildrögum þess að blaðið fékk þessi gögn í sínar hendur. Eitt er að mínu mati að segja sjálfsagðar fréttir af málinu eins og gert hefur verið og annað að birta trúnaðargögn lögreglu við rannsókn málsins. Er þetta birt eingöngu til að svala sárum þorsta þeirra forvitnustu í samfélaginu og engum öðrum. Á þessu stigi þjónar það ekki tilgangi lögreglu að birta slík vinnugögn málsins og því berast böndin að verjendum eða sakborningum sjálfum. Ritstjórn blaðsins hefur reynt að afsaka gjörðir sínar með því að málið komi landsmönnum svo mikið við. Er það algjör fjarstæða, allar útlínur málsins liggja fyrir og leyfa á lögreglu að leysa afgang þess í friði. Vitað er að ekki var um morð að ræða og ljóst hverjir komu líkinu fyrir og hvernig maðurinn dó. Það sem eftir stendur er nóg að upplýsa er heildarmyndin verður skýr. Það eina sem tendrar DV áfram er æsifréttamennska. Einfalt mál.

Ingibjörg Sólrún GísladóttirÍ gær skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, grein í Morgunblaðið og fjallaði þar um úrslit spönsku þingkosninganna í kjölfar hryðjuverkanna, 11. mars sl. Er með hreinum ólíkindum hvernig varaþingmaðurinn tekur lykkju á leið sína til að beina frá þeirri staðreynd að hryðjuverkamenn réðu úrslitum kosninganna. Það sem setti kosningabaráttuna af sporinu og þjóðina almennt voru hryðjuverkin. Það var það eina sem breyttist frá seinustu skoðanakönnunum og til úrslita kosninganna. Það er reyndar sífellt að verða greinilegra að formaður og varaformaður Samfylkingarinnar eru gersamlega ósammála í umræðunni um varnarmál landsins. Össur vill halda í varnarsamstarf við Bandaríkin sem von er en Ingibjörg hefur ljáð máls á varnarsamstarfi við ESB. Sú vitleysa hennar var reyndar skotin á kaf nýlega af embættismanni hjá ESB. Síðan hefur varaþingmaðurinn ekkert tjáð sig frekar um málið.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í pistli mínum á frelsinu í dag fjalla ég um spjallvefina á Netinu. Fjalla ég þar einkum um nafnleyndina sem þar er stór þáttur af þessum vefum og einkum það að hún er oftast nær misnotuð í þeim tilgangi að vega að nafngreindu fólki í samfélaginu. Hef ég fylgst með spjallvefum í tæp fimm ár og því bæði verið virkur áhorfandi og beinn þátttakandi þar að. Hef ég á þessum tíma kynnst bæði góðu fólki sem vill tjá sig málefnalega hvort sem er undir nafnleynd eða undir nafni og hinsvegar öðru fólki sem misnotar nafnleyndina með allómerkilegum hætti. Hef ég óskað eftir málefnalegum umræðum og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi slíks að fólk gangi alltof langt í skítkastinu undir nafnleynd. Nafnleyndin er misnotuð á nokkuð áberandi hátt og sumir geta ekki rætt málefnalega á þeim forsendum að vera nafnlausir. Svo einfalt er það. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu. Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt. Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.

Jerry MaguireKvikmyndir
Tekið var því rólega í gærkvöldi og horft á góða mynd að loknum dægurmálaþáttunum. Litum við á gamanmyndina Jerry Maguire. Stórfengleg mynd frá leikstjóranum Cameron Crowe. Maguire starfar hjá stóru umboðsfyrirtæki og er sérfræðingur í öllu sem lýtur að því að búa til stjörnur úr efnilegum íþróttamönnum. Á nokkrum árum hefur hann náð miklum og góðum árangri í starfi sínu, enda hefur hann notað öll þau brögð sem menn þurfa að kunna ef þeir vilja ná langt í bransanum - þar á meðal þau sem geta vart kallast annað en óheiðarleg. Dag einn gerist eitthvað í kollinum á Jerry Maguire. Skyndilega fær hann svo heiftarlegt samviskubit yfir sýndarmennskunni og peningagræðginni sem einkennir starf hans að hann finnur sig tilneyddann til að skrifa skýrslu um málið þar sem hann leggur m.a. til að fyrirtæki hans skipti um stefnu í þessum málum. Skýrslan vekur óneitanlega mikla athygli hjá stjórnendum fyrirtækisins og öðrum starfsmönnum, en því miður ekki til góðs fyrir Jerry. Hann er rekinn, sumum samstarfsmönnum hans og keppinautum innan fyrirtækisins til nokkurrar ánægju þar sem þeir fá þá í sinn hlut umboð fyrir alla íþróttakappanna sem hann hafði á sínum snærum. Alla nema einn! Sá heitir Rod Tidwell og er hann annars flokks ruðningskappi sem hefur tröllatrú á að hann eigi skilið að verða stjarna á stjörnulaunum, en er að renna út á tíma. Góð og eftirminnileg kvikmynd í alla staði. Var tilnefnd til 5 óskarsverðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1996 og fyrir leik Tom Cruise í hlutverki aðalsöguhetjunnar. Cuba Gooding, Jr. hlaut óskarinn fyrir stórleik í hlutverki íþróttakappans Rod Tidwell. Ennfremur er óskarsverðlaunaleikkonan Renée Zellweger stórfengleg sem Dorothy Boyd.

Dagurinn í dag
* 1931 Fluglínutæki voru notuð í fyrsta sinn við björgunarstörf hér á landi
* 1948 Sir Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hamlet
* 1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið í notkun
* 1987 Albert Guðmundsson sagði af sér ráðherraembætti vegna ásakana um skattamisferli
* 2002 Halle Berry hlaut aðalleikkonuóskarinn fyrir Monster's Ball, fyrst þeldökkra leikkvenna

Snjallyrði dagsins
No one should think themselves wiser than me!
Viktoría Englandsdrottning í Mrs. Brown